Sýnir færslur með efnisorðinu Skálholt. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Skálholt. Sýna allar færslur

07 nóvember, 2022

Herra Jón og synir hans höggnir

Mögulegur aftökustaður í skjóli frá kirkjunni.
Á þessum degi, árið 1550, fyrir 472 árum, voru Jón Arason, Hólabiskup og synir hans tveir, þeir Ari og Björn, hálshöggnir í Skálholti. Ég læt aðdragandann að þessum atburði liggja milli hluta hér.

Þar sem ég fæddist og bjó lengst af í nágrenni við Skálholtsstað hefur ekki farið hjá því að sagan um þessa aftöku hafi snert við mér. Sem barn hélt ég að minnisvarðinn um feðgana, sem þarna er að finna,  væri beinlínis höggstokkurinn sjálfur og velti fyrir mér hvernig framkvæmdin hafi mögulega verið á þessum steinstöpli. Svo lærði ég að þarna væri bara um minnisvarða að ræða og ekki lægi nákvæmlega fyrir hvar höggstokkurinn var. Þetta dró mjög úr vægi minnisvarðans í huga mér. Var þá kannski ekki víst, að þeir hafa yfirleitt verið teknir af lífi þarna í grennd við minnisvarðann? Kannski bara allt annarsstaðar?



Svo fór ég í göngu á Skálholtsstað fyrir ekki svo löngu síðan, þar sem Bjarni Harðarson var leiðsögumaður. Hjá honum kom maður ekki að tómum kofanum frekar en fyrri daginn. Hann gat nánast bent á staðinn þar sem feðgarnir voru líflátnir. Norðan undir lambhúsum (allavega útihúsum), sem eitt sinn stóðu rétt hjá þar sem minnisvarðanum var valinn staður (sjá mynd). Sá staður mun, að sögn Bjarna, hafa verið valinn, því ekki þótti við hæfi að til þessa illa athæfist sæist frá kirkjunni.  Þetta er eins góð skýring og hver önnur, en stangast á við það sem Gunnar Gunnarsson segir hér fyrir neðan, en af því má skilja, að höggstokkurinn hafi verið fluttur til milli hæða, eftir fyrri aftökurnar tvær. Ef honum var komið fyrir á hæðum, bendir það ekki til þess að menn hafi verið feimnir við að athæfið sæist frá kirkjunni.  Um þetta veit ég auðvitað hreint ekkert og læt öðrum um að velta því fyrir sér. Saga Gunnars er auðvitað ekki endilega sagnfræðilega kórrétt frekar en Brennu-Njálssaga, ef út í það væri farið. Það sama má auðvitað segja um pælingar Bjarna. 

Hvað sem þessu öllu líður, þá læt ég hér fylgja tvær frásagnir af dauða Jóns Arasonar, biskups og sona hans, Ara og Björns. Sú fyrri er bútar úr síðustu blaðsíðum bókar Gunnars Gunnarssonar, en þá síðari er að finna á https://ferlir.is .

Gunnar Gunnarsson: JÓN ARASON


Dapur og drungalegur rann yfir Ísland 7. dagur nóvembermánaðar árið 1550. – dagur óafmáanlegrar svívirðu, dagur ævarandi sóma.

Af þeim feðgum er að segja, að síra Björn hafði legið í hitakófi mestan hluta nætur, Ari sofið og ekki vitað af sér, biskup vakað og beðið, en dottað stundum í hendur sér. Hrökk hann þá jafnan upp með kuldahrolli, stóð á fætur og gekku gólf stundarkorn. Lagðist síðan aftur á bæn.

Það aðeins mótaði fyrir gluggarúðunum, þegar kirkjuhurðinni var hrundið upp og flokkur varðmanna gekk innar eftir gólfinu. Herra Jón áttaði sig ekki á því alveg samstundis, að einnig synir hans væru þar komnir. Þegar hann loks koma auga á þá, brosti hann, rétti bundnar hendur sinar að leiðtoga varðliðsins og sagði: „Leystu mig kunningi!“
Varðmaðurinn skar á böndin. Síðan tók herra Jón hnífinn úr höndum hans og spretti böndum sona sinna. Létu varðmennirnir það við gangast.

„Ari Jónsson!“, var kallað framan úr hálfrökkrinu.
Ari rétti úr sér, hikaði andartak, hneigði sig djúpt fyrir föður sínum. sem sat undir síra Birni, gekk hvatlega fram kirkjugólfið og út, og leit ekki um öxl. – dauf dagskíma gægðist fram milli hrannaðra skýja.

Höggstokknum hafði verið komið fyrir á hæð einni utan túns.

Síðan kraup Ari á kné, lagði höfuðið á stokkinn, teygði fram hálsinn, svo að vel sá til sina og liða – enda fór höfuð hans af í fyrsta höggi og valt niður í krapablána.

„Björn Jónsson!“, var kallað frammi við dyrnar.
Síra Björn heyrði kallið og rankaði við sér, reis á fætur, strauk svitann af enni sér, - en reikaði á fótum og var nærri dottinn. Faðir hans greip utan um hann og studdi hann fram kirkjugólfið. Prestur bað föður sinn ekki óttast um sig. Var hann hugrakkur þá stundina. En svo var honum mikið niðri fyrir, að hann gleymdi að kveðja föður sinn.

Það setti að honum sáran grát: „Börnin mín!“, kveinaði hann: - „Æ, börnin mín ung og smá!“ ...

Á túninu utarlega féll prestur í ómegin. Rankaði hann þó aftur við sér, þegar að höggstokknum kom, - vitkaðist það mikið, að hann skildi hvað um var að vera. Kraup hann niður, viljugur, lagði höfuðið á stokkinn, en gat ekki legið alveg kyrr vegna köldufloganna.

Fyrsta höggið geigaði og varð að svöðusári. Prestur tók til hnakkans, reyndi að brjótast á fætur, en var keyrður niður. Blóðið fossaði um hann allan og skvettist langar leiðir, en honum var haldið föstum – eftir því sem til vannst – af hjálparsveinum böðulsins.
Enn minntist hinn veiki og hálfhöggni maður á ómagahópinn sinn heima og bað sér vægðar. En nú reið á hann högg af höggi, og skildi fjórða höggið loksins höfuð frá bol. –

„Jón Arason!“....

Biskup sagði til sín, en baðst undan handahlekkjum.

Fékk hann að ganga laus og liðugur til aftökustaðarins.

Höggstokkurinn hafði verið fluttur á þriðju hæðina. Streymdi þangað slíkur mannfjöldi, að Dönum og dindlum þeirra þótti nóg um.

Tvö skref frá höggstokknum gekk Daði bóndi fram og ávarpaði hann virðulega. Kvaðst hann hafa fengið því framgengt við fógeeta, að lífi biskups skyldi þyrmt, ef hann ynni að því eið, að hefna aldrei eða láta hefna neins þess er hér hafði gerzt. .

Herra Jón leit á bónda fullur iðrunar: „Sýnist þér ekki, að synir mínir hafi fylgt mér það langt, Daði sæll, að hæfilegast sé, að ég fylgi þeim síðasta spölinn?“ spurði hann.

[Biskup] gekk að höggstokknum. En svo var hann stirður orðinn, að þeir urðu að ljá honum hönd, á meðan hann var að komast á knén. Og svo var hann knýttur í herðum, að þó hann reyndi á ýmsa vegu að teygja hálsinn til höggs, tókst það ekki sem bezt.
Loksins sýndist þó böðlinum sakamaðurinn liggja sæmilega við höggi. Lét hann þá öxina ríða. Varð af því sár öðrum megin á hálsinu. Manngreyið var ekki almennilega búinn að ná sér  eftir óhappið með síra Björn. Má vera, að það hafi ráðið nokkru um, hve skeifhöggur  hann nú reyndist.

Hjó hann nú sem óðast. Mátti þó enn, eftir fjórða höggið greina rödd bandingjans, er bað fyrir sér hóflega:
„In manus tuas domine .....“
Sjö höggva þurfti við, áður gráhært höfuðið losnaði frá bolnum og hraut niður í krapið.

(Rit Gunnars Gunnarssonar VII: Jón Arason - Útgáfufélagið Landnáma Reykjavík 1948,-bls 418-427)


Ferlir.is

Menn voru þegar settir til að gera aftökustað austan við túnið í Skálholti, og var þangað fluttur gamall vindustokkur frá kirkjunni og höggvið í hann hökuskarð, svo að nota mætti sem höggstokk. Böðull hafði þegar verið fenginn frá Bessastöðum til þess að vinna á þeim feðgum.
Þegar morgnaði, voru fangarnir búnir til aftökunnar. Ari var fyrst leiddur á höggstokkinn, og fylgdi honum prestur sá, sem vakað hafði hjá honum um nóttina. Vildi Ari ekki, að bundið væri fyrir augu sér. Hann gaf böðlinum gjöf til þess, að hann ynni verk sitt hreinlega eins og alsiða er erlendis. Síðan hjó böðullinn hann og fórst allvel. Þessu næst var höggstokkurinn færður og sér Björn leiddur til höggs. Böðlinum fataðist fyrsta höggið. Hljóp Daði í Snóksdal þá til og skipaði böðlinum að fullkomna verk sitt. Murkaði böðull loks af honum höfuðið í fjórða höggi.
Síðastur var Jón biskup höggvinn, og fylgdi séra Hængur Höskuldsson á Stóru-Völlum á Landi honum til aftökunnar. Hafði biskup kross í hendi. Við höggstokkinn kraup hann sjálfur á kné og signdi sig. Þegar biskup var lagstur á höggstokkinn, reiddi böðullinn öxi sína til höggs. En höggið geigaði hjá honum sem fyrr, og við þriðja högg mælti biskup: “In manus tuas, domine, commendo spiritum meum” – herra, í þínar hendur fel ég anda minn. Það heyrðu menn hann mæla síðast orða, en í sjöunda höggi tók loks af höfuðið.
(https://ferlir.is/aftaka-jons-biskups-arasonar-og-atburdir-a-sudurnesjum-2/)



30 maí, 2022

Fyrsta garðyrkjustöðin í Laugarási og heimsókn 82 árum síðar.

Í Hveratúni með Lemmingunum: f.v Jette, Lissie og Allan.
Í lok janúar, árið 1938 kom Gullfoss til Reykjavíkur og meðal farþega var 25 ára gamall, danskur garðyrkjumaður. Heima í Danmörku beið 17 ára unnustan þess að ná 18 ára aldri, svo hún gæti fylgt honum. Það liggur ekkert fyrir um hversvegna þessi ungi maður ákvað að fara til Íslands einn síns liðs, en helst virðist eins og hann hafi komist í kynni við Ólaf Gunnlaugsson, garðyrkjubónda á Laugabóli í Mosfellssveit, þegar Ólafur sótti stóra garðyrkjusýningu sem var haldin í Kaupmannahöfn haustið 1937.  Það sem helst styður þetta er, að í maí 1938 var ungi maðurinn talinn sem starfsmaður á garðyrkjustöð Ólafs að Laugabóli. 
Einhverntíma, árið 1939, þó ekki síðar en í lok júlí, kom unnustan síðan til Íslands, þá á 19da ári. Fljótlega eftir að hún var komin fluttu þau út á land, þar sem pilturinn hafði fengið starf sem garðyrkjumaður á nýstofnaðri garðyrkjustöð í Reykjalundi í Grímsnesi. Þann 30 desember, gengu þau í hjónaband í Mosfellskirkju og 4 mánuðum síðar, eða í apríl 1940 fæddist fyrsta barn þeirra, dóttir. 
Það átti ekki fyrir þeim að liggja að una lengi í vinnumennsku og þau ákváðu að byggja upp eigin garðyrkjustöð, en einmitt um þetta leyti var oddvitanefndin sem stýrði Laugarásjörðinni farin að huga að því að kynna möguleika á að leigja jarðnæði og hita í Laugarási. Það varð úr að þessi nýbökuðu dönsku hjón ákváðu að freista gæfunnar. Líkur benda til að þau hafi komið í Laugarás vorið 1940, en þar voru þau skráð í sóknarmannatali í árslok, ásamt dótturinni, sem var sögð óskírð.
Garðyrkjubóndinn var Børge Johannes Magnus Lemming, fæddur 30. ágúst, 1913 í Árósum og kona hans var Ketty Hilma Lemming fædd 29. október, 1920 í Árósum. Børge var því 26 ára og Ketty 19 ára, þegar þau komu í Laugarás.  


Það er saga að segja frá því hvernig ég fór síðan að því að finna afkomendur þessara fyrstu garðyrkjubænda í Laugarási, en frá því greini ég á vefnum Laugaras.is . Mér finnst erfitt að átta mig á því, hvernig þau fóru að því með nýfætt barn, að lifa af fyrsta veturinn í Laugarási, en þau hljóta að hafa haft  einhverja aðstoð, til dæmis má reikna með því, að þau hafi fengið inni í Reykjalundi eitthvað áfram og ekki finnst mér ólíklegt, að læknishjónin í Laugarási, Ólafur og Sigurlaug, hafi verið þeim innan handar. Um þetta er þó engar upplýsingar að hafa.
Lóðin sem þau fengu í Laugarási, er sú sama sem Hveratún stendur á nú. Þau byggðu sér gróðurhús, sem var um 100 ferm. og bjuggu fyrstu árin í þeim enda þess, sem snéri að hveralæknum. Í sóknarmannatali frá því í árslok 1943 segir, að fjölskyldan búi í gróðurhúsi. 
Í Laugarási eignuðust  Ketty og Børge fjögur börn og árið 1944 munu þau hafa flutt í húsið sem þau byggðu og sem síðan hýsti Hveratúnsfjölskylduna til ársins 1961. Það má ljóst vera að líf þessarar hjóna og barna þeirra í Laugarási var enginn dans á rósum, end fór svo, árið 1945, að þessi tilraun þeirra til að koma undir sig fótunum á Íslandi gekk ekki upp og þau hurfu á braut og sigldu til Danmerkur með börnin fimm, árið 1946. Börnin voru þau Kirsten Agnea Ketty (21. apríl, 1940), Elisabet Ketty Lemming (27. júní, 1941), Søren Peter Børge Lemming (3. mars 1943), Hans Peder Børge Lemming (5. mars, 1944) og Inge Birte Lemming (24. mars, 1945).

Það var árið 2017 sem ég fann ekkju S
ørens, Lissie og son hennar Allan. Lissie sagði mér sð hana hafi lengi langað að koma til Íslands til að skoða söguslóðir tengdaforeldranna og ég hvatti hana auðvitað til þess og bauðst til að vera henni innan handar. Eftir það heyrði ég ekki meira frá þessu fólki fyrr en um miðjan mars, að ég fékk skilaboð frá Allan, þar sem hann greindi frá því að þau kæmu til landsins í lok maí og kvaðst vona að þau gætu átt aðstoð mína vísa, sem var auðvitað sjálfsagt.
Í Hveratúni: Sonarsonur bóndans 1942
og bóndinn árið 2022. Með þeim er 
dóttursonur Hveratúnsbóndans
Kolbeinn Búri.

Svo skipulögðum við þetta allt saman og síðastliðinn laugardag hittumst við og lögðum leið okkar í Laugarás, Skálholt, Mosfell og Reykjalund. Danirnir sem þarna voru auk Lissie og Allans, eiginkona Allans, Nicola og dóttir Lissie, Jette og eiginmaður hennar,
Søren.
Þetta var hinn ánægjulegasti dagur, en með í för voru einnig þau Sigrún systir mín og Ari, sem bæði eru vel heima í danskri tungu, en þau bjuggu í nokkur ár í Árósum. Húsbændur í Hveratúni, þau Magnús og Sigurlaug tóku svo á móti hópnum og afkomendurnir fengu tilfinningu fyrir því hvernig aðstæður voru á staðnum, árið 1940. Sören Lemming var skírður í Skálholti og því var það eðlilegur viðkomustaður og sömuleiðis Mosfellskirkja, þar sem Ketty og Børge gengu í hjónaband 30. desember 1939.

Í Mosfellskirkju, f.v. Allan, Nicola, Jette, Lissie og Sören.
Kirkjan mun vera nánast óbreytt frá því Börge og Ketty giftust árið 1939.



22 apríl, 2021

Eyðistaður, umlukinn miðaldamyrkri.

Skálholt 1948 (mynd Guðfinna Hannesdóttir)

"Það er eins og miðaldamyrkrið umlyki Skálholtsstað. Skálholt er að verða eyðistaður þar sem nokkrir trúaðir menn biðja til guðs."
Svo kemst Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra og alþingismaður, að orði í Dagskránni þann 14. apríl, 2021. Þarna er Guðni að fjalla um myndarlega uppbygginguna í Haukadal og telur að rétt væri að Skálholti verði komið í umsjá Haukdælinga, öfugt við það sem áður var.

Það er fjarri mér að fara að fjargviðrast yfir þessum orðum stjórnmálamannsins, enda eru stór orð sú leið sem þeir hafa til að ná athygli og eru vanir því að á orðum þeirra sé ekki tekið sérlega mikið mark oft á tíðum.  Skoðun Guðna er vel þess virði að velta fyrir sér. 

Hefur ekki tekist að endurreisa Skálholt til þess vegs og virðingar sem staðurinn á skilið, svona í ljósi sögu þessa mikla staðar sem miðstöðvar trúar og valds um aldir? Sé það niðurstaðan að Skálholt sé "að verða eyðistaður, umlukinn miðaldamyrkri" hlýtur að þurfa að velta fyrir sér mögulegum ástæðum þess og komast að niðurstöðu um hvort það er kannski sá stallur sem Skálholt á að vera á.

Niðurlægingartími (þarf ekki endilega að lesa)

Eigendurnir
En fyrst aðeins um sögu Skálholt frá því jörðin komst í eigu Hannesar Finnssonar biskups árið 1785, þar til ríkið eignaðist jörðina árið 1935.
Þegar Hannes biskup lést árið 1796 tók ekkja hans, Valgerður Jónsdóttir (1771-1856), sem var 32 árum yngri en Hannes, jörðina í arf. Eftir lát hennar árið 1856 gekk jörðin til dóttur hennar og Hannesar, Þórunnar (1794-1886). Við lát hennar varð jörðin eign sona hennar Árna (1828-1907)  og Steingríms (1831-1913) Thorsteinssona. Árni var landfógeti og Steingrímur eitt þjóðskálda okkar.  Ég er reyndar ekki orðinn alveg viss um að Steingrímur hafi erft jörðina ásamt bróður sínum, en það mun koma í ljós. Hvað um það.

Eftir að Árni lést sat ekkja hans Sophie Christine Hannesdóttir Thorsteinsson (1839-1914) í óskiptu búi til dauðadags. 
Erfingjarnir voru þá afkomendur þeirra Árna landfógeta og Sophie, en þeir voru:
Hannes Thorsteinsson (1863-1931), Árni Thorsteinsson (1870-1962), tónskáld, Þórunn Ziemsen Thorsteinsson (1866-1943)  og börn Sigríðar Thorsteinsson (1872-1905) Árni Pálsson (1897-1970) og Kristín Pálsdóttir (1898-1940).

Þegar ríkið keypti jörðina voru eigendur hennar svo þessir:
1/3 hluti: Þórunn Árnadóttir Siemsen Thorsteinsson (1866-1943) dóttir Árna landfógeta.
1/3 hluti: Árni Thorsteinson (1870-1962) tónskáld, sonur Árna landfógeta.
1/6 hluti: Árni Pálsson (1897-1970), sonur Sigríðar Árnadóttur Thorsteinson.
1/6 hluti: Kristín Pálsdóttir (1898-1940), dóttir Sigríðar Árnadóttur Thorsteinson.


Valgerður biskupsekkja bjó í Skálholti til 1816, en eftir það bjuggu þar leiguliðar á tveim hálflendum, sem voru kallaðar vesturbær og austurbær. Ekki hefur mér tekist að finna út, endanlega hvor bærinn var hvað, en það skiptir nú ekki öllu máli í þessu samhengi. Hinsvegar tel ég að tíminn frá því biskupsstóllinn var fluttur "í bæinn" 1786, og þar til ný dómkirkja var vígð 1963, hafi verið mesti niðurlægingartími í sögu Skálholts. Kirkjan sinnti staðnum ekki og þar var ekki einusinni prestssetur. Á þessum tíma þjónuðu prestar á Ólafsvöllum eða Torfastöðum þessum  mikla stað. Hvernig mátti þetta vera? 

Ábúendurnir
Ég þykist vera búinn  að taka saman lista yfir leiguliðana í Skálholti á þessum tíma. Þarna var bæði fólk sem rak myndarbú og fólk sem miður gekk í baslinu. Þessi listi lítur svona út:  

Vesturbær

1816-1833 Jón Jónsson og Rannveig Jónsdóttir
1833-1860 Eiríkur Jónsson og Guðrún Bjarnadóttir
1860-1874 Erlendur Eyjólfsson og Margrét Ingimundardóttir
1874-1880 Þórður Halldórsson og Margrét Ingimundardóttir
1880-1883 Ingimundur Erlendsson og Guðfinna Erlendsdóttir
1883-1900 Grímur Eiríksson og Guðrún Eyjólfsdóttir
1900-1911 Skúli Árnason og Sigríður Sigurðardóttir
1911-1927 Skúli Árnason og Steinunn Sigurðardóttir (bústýra)
1927-1939 Jörundur Brynjólfsson og Þjóðbjörg Þórðardóttir (Skálholt verður eitt býli)

Austurbær

1816-1834 Jón Jónsson og Halla Magnúsdóttir
1834-1862 Ólafur Helgason og Ingiríður Einarsdóttir
1862-1870 Ingiríður Einarsdóttir og Helgi Ólafsson(sonur hennar)
1870-1877 Helgi Ólafsson og Valgerður Eyjólfsdóttir
1877-1897 Einar Kjartansson og Helga Hjörleifsdóttir
1897-1901 Guðmundur Erlendsson og Þórunn Stefánsdóttir
1901-1911 Jón Bergsson og Hallbera Jónsdóttir
1911-1916 Marel Halldórsson og Valgerður Vigfúsdóttir
1916-1919 Jón Gunnlaugsson og Jórunn Halldórsdóttir
1919-1922 Jón Gunnlaugsson
1922-1939 Jörundur Brynjólfsson og Þjóðbjörg Þórðardóttir
1939-1948 Jörundur Brynjólfsson og Guðrún Helga Dalmannsdóttir
1948-1950 Eyþór Einarsson og Guðfinna Dagmar Hannesdóttir (bústýra)
1950-1993 Björn Guðmundur Erlendsson og Ingunn María Eiríksdóttir




Nú má ég.

Á vígsludegi hinnar glæsilegu dómkirkju, þann 21. júlí, 1963, afhenti kirkjumálaráðherra, dr. Bjarni Benediktsson, þjóðkirkjunni Skálholt til varðveislu og eflingar kristninni í landinu. 
Við getum staldrað við og velt fyrir okkur hvort það hafi verið rétt. 
Hvernig átti þessi staður að verða til eflingar kristninni í landinu? 
Hvernig hefur til tekist? 
Hefur kirkjunni tekist að efla kristnina í landinu, með húsinu og jörðinni sem henni voru færð í hendur á vígsludeginum? 
Er hægt að halda því fram að kirkjan hafi staðið sig í stykkinu, sem eigandi og ábyrgðaraðili staðarins? 
Það er ekki nóg að byggja hús. Fleira verður að koma til.

Þar sem ég er ekki stjórnmálamaður, treysti ég mér ekki til að slá hér um mig með stóryrðum um málefni Skálholtsstaðar, en mér finnst að framundan megi greina bjartari tíma á staðnum. 

Þrennskonar Skálholt.


Kirkjustaðurinn
Það fer ekki á milli mála, að í Skálholti er ein þriggja dómkirkna á Íslandi. Hin íslenska þjóðkirkja á að tryggja það að frá staðnum berist boðskapurinn sem hún stendur fyrir. Henni ber, í samræmi við hlutverk sitt, að efla staðinn sem kirkjustað, ekki bara gagnvart þeim fáu sálum sem í nágrenninu búa, heldur meðal þjóðarinnar allrar. Ekki lítil ábyrgð það. 
Skálholtshátíð er haldin á hverju sumri en ég fæ ekki séð að þar fyrir utan sé mikið um stórar kirkjulegar athafnir í Skálholtsdómkirkju. Ekki fæ ég heldur séð að söfnuðurinn sem kirkjuna sækir heim á öðrum dögum ársins sé ýkja stór. Það er aðallega vegna sérstakra viðburða að fólk fyllir stundum kirkjuna. Fólk safnast þar inn til að kveðja ástvini, vini eða sveitunga. Fólk sækir tónleika talsvert og fólk leggur leið sína í kirkjuna til að njóta menningar og þess andblæs sögunnar sem þar er að finna.

Sögustaðurinn
Það er okkur flestum ljóst, að Skálholt er einn merkasti sögustaður landsins. Ég ætla ekki að fjölyrða um allar þær ástæður sem má telja fram þeirri fullyrðingu til staðfestingar. Biskupssetur um aldir, vettvangur stórra atburða og skólasetur.


Menningarstaðurinn
Dómkirkjan sjálf er listaverk sem Hörður Bjarnason skapaði og altarismynd Nínu Tryggvadóttur og gluggar Gerðar Helgadóttur eru einstök trúarleg verk. Gjafir frændþjóða okkur  setja svip á bygginguna að innan og utan. Uppi í turni er mikið bókasafn sem bíður þess að komast í aðgengilegra húsnæði. Tónlistin fær að blómstra.

Get ég?

Hér er ég sennilega kominn að viðkvæmasta hlutanum í þessum pistli fyrsta sumardegi þessa árs. Er þjóðkirkjan, í þeirri stöðu sem hún er í samfélaginu, fær um að bera ábyrgð á Skálholtsstað og sýna honum þá virðingu sem honum ber? Aðrir eru sjálfsagt betur færir til að svara þeirri spurningu, en fyrir mig get ég sagt, að það stjórnkerfi sem staðurinn hefur búið við frá því þjóðkirkjan fékk hann í hendur, hefur ekki virkað honum í hag. Þar kemur tvennt til:
- Það hefur ekki ríkt einhugur um hvert á að stefna með staðinn. 
Það eru þeir sem vilja að hann þjóni fyrst og fremst hagsunum kirkjunnar, eða trúarinnar. 
Það eru þeir sem vilja líta á hann fyrst og fremst sem sögustað og efla hann á þeim grunni.
Það eru þeir sem sjá hann aðallega fyrir sem stað þar sem menning og listir fá að blómstra. 


Það má segja, eins og þetta hefur blasað við mér, í það minnsta, að milli þessara mismunandi áhersluþátta hafi verið, eða séu, átök sem hafa leitt til þess að fátt hefur þokast í átt til viðhalds á staðnum eða eflingar hans. Þá má jafnvel ganga svo langt að hann hafi stöðugt verið að missa þann sess sem honum var ætlaður með byggingu dómkirkjunnar.
- Þjóðkirkjan er ekki sú stofnun lengur sem hún eitt sinn var og iðkun kristinnar trúar er á undanhaldi, með þeim afleiðingum að fólk er síður tilbúið að láta fé af hendi rakna til viðhalds og uppbyggingar á stöðum eins og Skálholti, þar sem þjóðkirkjan er við stjórnvölinn.

Megum við núna?

Nú hafa verið gerðar þær breytingar á því kerfi sem vonandi tekst að verða til þess að halda áfram verkinu sem upp var lagt með gjöfinni 1963. 

Ég vona, að nú sé búið að gera þær breytingar á stjórnun mála í Skálholti, að það takist að vinna sig í áttina að þeim einhug um framtíð staðarins, sem verður að nást. Hann er alveg nógu stór til að rúma áherslur á þá þrjá þætti sem ég nefni hér fyrir ofan.

Ljósblettir


Kristján Björnsson, vígslubiskup fjallaði um málefni Skálholts í Litla Bergþór í desember síðastliðnum. hann nefnir þar ýmislegt sem gert hefur verið nú siðustu ár, það sem unnið að núna og það sem framundan er. 
Það helsta sem lokið er má segja að séu þau stóru verkefni sem voru endurgerð listglugga Gerðar Helgadóttur og altarismyndar Nínu Tryggvadóttur. Þá er búið a hreinsa upp minjasvæðið og lagfæra undirganginn sem liggur úr kirkjunni út í minjasæðið
Nú er unnið að því að móta Þorláksleið, sem mun liggja frá Þorlákssæti og allt að Þorlákshver, sem er tæplega 5 km spotti, þar sem sagan drýpur af hverju strái.

Framundan eru miklar framkvæmdir við kirkjuhúsið. Þakið verður endurgert, svo og gluggar í turnhúsi, húsið málað að utan og innan, kirkjutröppurnar fá yfirhalningu og fyrirhugað er að endurhanna alla lýsingu í kirkjunni.
Væntanleg er ný klukka í stað þeirra sem féll og brotnaði.
Biskupshúsið, sem nú kallast Gestastofa eða Gestahús hefur verið endurhannað til að mæta nýju hlutverki, sem móttökustaður fyrir ferðamenn, bókasafn og prentsögusetur.
Fyrir utan Þorláksleið, er framundan mikil skógrækt í samvinnu Skógræktarfélags Íslands og Kolviðar, svo hefur verið settur kraftur í að selja veiði í Brúará og Hvítá.
Þeta er svona listi yfir hitt og þetta sem segja má um stöðu staðarins núna. Vísast mætti nefna ýmislegt fleira.
---------------------
Ég hef að undanförnu verið að öðlast meiri trú á að það takist að gera Skálholt að þeim stað í hugum fólks að það afgreiði hann ekki sem eyðistað í miðaldamyrkri, þar sem nokkrir trúaðir menn biðja til Guðs. Hann á meira skilið.

Gleðilegt sumar og þakkir mínar til ykkar, sem hafið látið það eftir ykkur að renna yfir pistla mína á þessum vettvangi.



05 febrúar, 2021

Skálholt: Spánska veikin

Skúli Árnason og Sigurður Skúlason

Skúli Árnason var héraðslæknir í Grímsneshéraði frá því það var stofnað árið 1900 og til  ársloka 1921. 
Ég er að braska við að taka saman sögu hans í uppsveitunum, sem hluta af sögu læknishéraðsins. 
Eins og hver maður getur ímyndað sér, vonandi, var starf  héraðslæknis á svæðinu hreint ekkert áhlaupaverk og raunar merkilegt að Skúli skyldi hafa enst jafn lengi og raun bar vitni.

Haustið 1918 gengu tvenns konar hörmungar yfir þjóðina, Kötlugosið sem hófst 12. október og Spánska veikin er talin hafa borist til landsins þann 19. október.  

Í bókinni “Faðir minn, læknirinn”, sem var gefin út 1974, skrifaði sonur Skúla, Sigurður, um föður sinn. Sigurður var fæddur 1903 og því 15 ára haustið 1918. Meðal þess sem Sigurður lýsir í greininni er hvernig Kötlugosið og Spánska veikin komu við Skálhyltinga og ekki síst föður hans, Skúla lækni. Mér finnst við hæfi að setja þessa frásögn hér, í tilefni reynslu okkar undafarið ár og sem við erum enn að kljást við. 



Frásögn Sigurðar:

Haustið 1918 gekk í garð. Það var óvenju milt, og menn áttu sér einskis ills von. Við Skálhyltingar vorum að vinna að jarðabótum í veðurblíðunni.

Dag einn birtist ferlegur skýstrókur í suðaustri. Fyrst héldum við að þetta væri óveðursský, en brátt sáu allir, að svo var eigi. Um kvöldið, þegar dimma tók, fóru að sjást eldglæringar í skýstróknum. Þóttust menn þá sjá, að hér væri um eldgos að ræða. Það var sunnar en Hekla, sem blasir við úr austri frá Skálholti. Faðir minn sagði, að nú myndi Katla vera farin að gjósa. það reyndist rétt. Snjór hafði fallið á jörð hjá okkur, skömmu áður en gosið hófst. Hann varð svartur af öskufalli daginn eftir. Ekkert tjón varð af gosinu hjá okkur, en óviðkunnanlegt myrkur fylgdi öskufallinu. Það reyndist einskonar fyrirboði annars verra. Á næsta leiti var mögnuð farsótt, sem barst frá útlöndum til Reykkjavíkur og þaðan austur um sveitir. Hún hlaut nafnið Spánska veikin og reyndist brátt svo mannskæð, að minnti á drepsóttir fyrri alda.

Auðvitað barst veikin brátt til okkar, enda læknissetur berskjaldað fyrir þvílíkum plágum. Systir mín veiktist fyrst, en varð ekki þungt haldin og komst á fætur eftir tæpa viku. Næst veiktist ég og varð ekki veikari en svo, að ég gat lesið Íslendingasögurnar mér til skemmtunar í bólinu. Uppgötvaði ég þá, hvílík heilsubót þær eru í vægum veikindum. Egilssögu las ég tvisvar og suma kafla úr henni margoft. Hafði ég orð á því við föður minn, að sagan hlyti að vera eftir Snorra Sturluson, því að þannig hefði enginn skrifað nema sá, sem skrifaði söguna af för Þórs til Útgarða-Loka. Faðir minn varð fár við og bað mig að reyna ekki að gizka á, hverjir væru höfundar Íslendingasagna. Þar hefðu verið að verki andleg stórmenni, sem hefðu verið gædd aðalsmerki sannra manna: að vera ekki að trana sér fram, heldur láta verk sín tala. Mér urðu orð hans ógleymanleg og því er þetta atvik tilfært hér, að það lýsir Skúla lækni vel.

Ég reis brátt albata úr rekkju og var um leið hrifinn úr töfraveröld fornbókmenntanna, en við blasti nöturleg alvara lífsins. Skúli læknir hafði verið í sífelldum sjúkravitjunum síðustu sólarhringana vegna sóttarinnar. Hann var sýnilega að verða örmagna af þreytu og veiktist nú hastarlega af pestinni, sem magnazt hafði, eftir því sem á leið. Hann varð brátt sárþjáður og sagði, að annað lungað í sér myndi hafa rifnað, svo að blætt hefði. Þetta reyndist rétt til getið, eins og síðar verður vikið að. Átti hann nú mjög örðugt um andardrátt. hann bað mig að afgreiða öll lyf fyrir sig, og gerði ég það. Reyndist mér það stautsamt. Menn frá sýktum heimilum stóðu nálega í biðröð hjá okkur á hverjum degi. Fyrst þurfti ég að fá hjá þeim sjúkdómslýsingar, fara síðan að sóttarsæng læknisins og spyrja hann, hvað gera skyldi, en afgreiða því næst meðulin eftir bestu getu. Að vísu voru sjúkdómslýsingarnar nokkuð samhljóða, en fleiri þörfnuðust þó lækninga en þeir, sem sýkzt höfðu af Spönsku veikinni. Gamalt fólk virtist einna ónæmast fyrir þessari farsótt. Elzta fólkið í Skálholti veiktizt a.m.k. ekki.

Dag einn kom til okkar roskin kona og kvartaði um langvinna magaveiki. Þann dag var Skúli læknir svo veikur, að við hugðum honum vart líf. Ég tók því það ráð að blanda lyf handa konunni af eigin rammleik, en auðvitað sem líkast því er ég hafði séð lækninn setja saman við svipuðum kvilla. Með það fór konan. Þegar við hittumst ári seinna, sagði hún mér, klökk af hrifningu, að lyfið hefði læknað sig af aldarfjórðungs innanslæmsku! Að svo mæltu þrýsti blessuð gamla konan kossi á kinn mér og innsiglaði með því þakklæti sitt. Þetta hefði ef til vill getað orðið örlagakoss, því að á þeirri stundu lá við, að mér fyndist ég ætti að reyna að verða læknir. Ég var þá nýorðinn gagnfræðingur og þóttist því heldur en ekki karl í krapinu. En faðir minn tók þá af skarið og sagði með miklum alvöruþunga: “Ef þí vilt verða dreplúinn og heilsulaus á 15 árum, skaltu lesa læknisfræði og verða héraðslæknir úti á landi.” - Málið var útrætt, og dyrnar að læknavísindunum lokuðust mér fyrir fullt og allt, sem einu gilti.

Spánska veikin magnaðist jafnt og þétt og varð að skæðri drepsótt. Í Reykjavík skapaðist hálfgert neyðarástnd, og voru lík þar stundum greftruð í fjöldagröfum.

Þegar við vorum að komast í öngþveiti, barst okkur kærkomin hjálp. Læknastúdent úr Háskóla Íslands var sendur austur að Skálholti okkur til bjargar. Hann hét Kjartan Ólafsson. Stóðst það á endum, að nauðsynlegustu lyf okkar voru á þrotum, er hann kom með nýjar birgðir. Skömmu síðar fór föður mínum að batna og var þá sem fargi létti af öllum.

Faðir minn varð ekki heill heilsu fyrr en sumarið eftir Spönsku veikina. Var hann m.a. ákaflega mæðinn og kenndi oft verkjar fyrir brjósti. Samt sinnti hann læknisstörfum, eins og ekkert hefði í skorizt. Dag einn á slætti var verið að reiða heima hey af Skálholtstúni. Var það bundið í bagga, eins og þá tíðkaðist. Skúli var nærstaddur, er baggi hrökk upp af klakki. Gleymdi hann þá, að hann þoldi ekki snögg viðbrögð, þreif baggann og snaraði honum til klakks. Við þessa áreynslu fékk hann ákafa hóstakviðu, og gengu upp úr honum dökkar blóðlifrar. Eftir það létti honum mjög. Kvaðst hann nú loksins hafa fengið fullan bata, en þetta blóð hefði setið þarna síðan í veikinni síðastliðinn vetur. Upp frá þessu var hann heilsugóður.


Ég hélt nú, að það yrði ekkert stórmál að taka saman sögu læknishéraðs í uppsveitum Árnessýslu, en það hefur reynst vera heldur meira verk en ág hugði. Það hlýtur að vera út af COVID.

13 maí, 2020

Bjart framundan i Skálholti

Það er fagnaðarefni, að það blasa nú við tímamót í Skálholti, með miklu átaki til að efla staðinn á mörgum sviðum. Það er auðvitað ekki mitt að segja frá því, nákvæmlega, hvað stendur fyrir dyrum á þessum mesta kirkju-, menningar- og sögustað landsins, en hugmyndirnar sem hafa verið á borðinu, eru nú að raungerast þannig, að þegar 60 ára verða liðin frá vígslu dómkirkjunnar, sumarið 2023, verður Skálholt komið í þann búning að við getum, kinnroðalaust, fjallað um og litið til með stolti.
Það liggur sem sagt fyrir, að framkvæmdir í Skálholti hafa verið fjármagnaðar og engin ástæða til annars en trúa því, að þar verði tekið til hendinni  svo um munar, frá og með þessu sumri.

Ég hef, í mínum pistlum hér, tæpt á ýmsu því sem mér hefur þótt mega fara betur á staðnum og ég sé ekki betur en öll þau mál verði tekin fyrir og talsvert umfram það.

-------

Alloft hefur Skálholt komið við sögu í skrifum mínum hér, gegnum árin og má hverjum þeim sem lesið hefur, vera ljóst að viðhorf mín til staðarins eru af ýmsum toga af ýmsum ástæðum. Tenging mín við þennan mikla stað í sögu þjóðarinnar, þrátt fyrir að ég hafi búið í tveggja kílómetra fjarlægð frá honum lungann úr ævinni, hefur verið frekar brösótt, oft á tíðum, mögulega aðallega vegna þess að hann er þjóðareign og lýtur eða hefur lotið valdi sem situr á Reykjavíkursvæðinu, eða "fyrir sunnan", eins og sagt er.  

Við, íbúar í neðsta hluta Biskupstungna, tilheyrum Skálholtssókn. Skálholtskirkja telst því vera sóknarkirkja okkar. Ég held ég megi segja að við höfum ekki náð að líta á eða hugsa um dómkirkjuna í Skálholti sem slíka, í raun.  Ætli megi ekki segja að kjallarinn í biskupshúsinu, þar sem messur fóru fram áður en dómkirkjan reis, hafi verið meiri sóknarkirkja í hugum íbúanna.

Ég held og vona, að nú sé að verða umtalsverð breyting á málefnum sem tengjast Skálholti og sannarlega vona ég að það leiði til þess, að staðurinn öðlist þann sess í hugum fólks í Skálholtholtssókn að það telji, umfram aðra íbúa landsins, hann vera sinn stað, . 

Ég get ekki látið hjá líða, að benda ykkur, sem kunnið að hafa áhuga á því sem fram fer í Skálholti og taka þátt í að fjalla um staðinn og stuðla að uppbyggingu hans, að ganga í Skálholtsfélagið hið nýja, sem er vettvangur fyrir fólk sem áhuga hefur á Skálholti og vill efla staðinn, ekki bara sem þjóðareign, heldur ekki síður sem mikilvægan þátt í lífi okkar sem búum í nágrenninu. Ég veit að það er mikill vilji til þess hjá þeim sem nú eru við stjórnvölinn á staðnum, að tengja hann í ríkari mæli byggðinni í næsta nágrenni.

Svæðið neðst í Biskupstungum finnst mér hafa alla burði til að eflast enn frekar með því að það verði skipulagt sem ein heild, enda er Langasund ekki lengur sú landfæðilega hindrun sem hún var, til dæmis þegar Ólafur Einarsson, héraðslæknir kom með fjölskyldu sína í Laugarás árið 1932:
Fjölskyldan kom með bíl að Skálholti, en þá var ekki kominn akfær vegur í Laugarás, aðeins slóði eða kerruvegur til flutninga. Mýrin milli Skálholts og Laugaráss (Langasund) var erfið yfirferðar og Einar minnist þess að hafa verið þar eitt sinn á ferð á hesti, þegar hann stóð allt í einu í fæturna beggja vegna hestsins, sem þá hafði sokkið að kvið.
Dóttir Jörundar Brynjólfssonar fylgdi hópnum yfir mýrina í áttina að Auðsholtshamri og síðan um slóða eftir Laugarásholtinu, að læknisbústaðnum.
Úr viðtali sem ég átti við börn Ólafs Einarsson og Sigurlaugar Einarsdóttur, 
sem mun birtast á vefnum laugaras.is og í Litla Bergþór innan skamms. 


36. Langasund (48) er langt og sunnan til allbreitt mýrarsund. Í því miðju er leirkelda mikil, sem mér er ekki kunnugt um, að heiti sérstöku nafni fyrr en suður við Söðlahól (sjá nr. 38). Þar er hún orðin æði vatnsmikil og nefnist þá Pollrás (49) (nr. 39). Vatnið úr þessari löngu keldu, sem skilur lönd Skálholts að vestan og jarðanna Höfða og Laugaráss að austan, fellur frá brúnni sunnan við Söð[ul]hól eftir skurði, sem grafinn var snemma á þessari öld út í Undapoll; skilur þessi skurður [að] lönd Skálholts og Laugaráss. 
 Sigurður Skúlason
Nokkur örnefni í Skálholtslandi
Inn til fjalla. Rit Fél. Biskupstungnamanna í Reykjavík. II 1953



06 nóvember, 2019

Skálholt: Hvað með klukkuna?

Svona hefst umfjöllun í mogganum 23. júlí, um atvik það sem varð við upphaf hátíðarmessu á Skálholtshátíð 2002:
KIRKJUKLUKKA í Skálholtskirkju féll niður og brotnaði við upphaf hátíðarmessu í lok Skálholtshátíðar um miðjan síðasta sunnudag. Þrír boltar sem héldu klukkunni uppi gáfu sig og heyrðist mikill dynkur þegar klukkan, sem mun vera um 400 kg að þyngd, féll niður á gólf. Hátt á þriðja hundrað kirkjugesta var í kirkjunni og mun þeim hafa brugðið við dynkinn.
 Ég var þarna staddur, maður með hlutverk. Þegar verið var að hringja síðustu hringinguna, kvað skyndilega við mikill dynkur og maður gat alveg eins átt von á að það sem honum olli, kæmi hreinlega niður í gegnum loft kirkjunnar, en svo varð auðvitað ekki. Messan hófst og henni lauk.

Þarna hafði þessi klukka fallið eftir að boltar sem héldu henni höfðu gefið sig. Guttormur Bjarnason, meðhjálpari við messuna, að mig minnir, sagði í samtali við blaðamanninn:  "þegar hafi verið haft samband við fyrirtæki sem taka að sér að gera við slíkar klukkur og að ljóst er að gert verði við klukkuna.
Síðan eru liðin 17 ár og enn liggur klukkan þarna uppi í turni og bíður þess sem verða vill.

Nú er það svo að þessi klukka verður ekki flutt bara si svona niður úr turninum eins og hver maður getur ímyndað sér. Eina færa leiðin virðist vera, að fjarlægja hana með því að gera op á turninn og hífa hana niður með einhverju öflugu tæki. Síðan þarf að gera við hana, nú eða útvega nýja og hífa hana síðan inn í gegnum gatið áður en því verður lokað.  Ég skil vel að þetta hafi vafist fyrir fólki, enda staðnum  þröngur stakkur skorinn fjárhagslega
.
Auðvitað er hægt að ákveða bara að láta klukkuna liggja þarna áfram um ókomin ár, en í ljósi þess að þarna er um að ræða dómkirkjuna í Skálholti, finnst mér það ekki ásættanleg niðurstaða. Næst þegar ráðist verður í viðhalda á kirkjunni, sem kallar á aðkomu stórra krana, eins og t.d. þegar farið verður í að gera við þakið (svo tenórar Skálholtskórsins þurfi ekki að syngja undir regnhlíf í rigningartíð), ætti að leysa klukkumálið.  Um þetta þarf væntanlega að gera verkáætlun af einhverju tagi.

Þakið, eins veglegt og það nú er eða var, er farið að láta mjög á sjá og ég veit að fyrirhugað er, innan tiltölulega skamms tíma, að koma því í stand. Þá er upplagt að slá þar tvær flugur í einu höggi - jafnvel fleiri, enda löngu orðin þörf á að uppfæra og endurnýja þann búnað sem í klukkusalnum er.



Svo þarf að mála kirkjuna að utan og innan, síðan þarf að laga tröppurnar, og þá þarf að  ........

21 júlí, 2019

Ég, pákuleikarinn

19. aldar páka (ketiltromma) Þvermál 65 cms og hæð 68 cm.
Mér kom eftirfarandi í hug í gær þar sem ég ásamt félögum mínum í Skálholtskórnum tókum þátt í að flytja kantötur eftir Bach, m.a. BWV 169, á tónleikum í Skálholtsdómkirkju. 

The thing Jesus really would've liked would be the guy that plays the kettle drums in the orchestra. I've watched that guy since I was about eight years old. My brother Allie and I, if we were with our parents and all, we used to move our seats and go way down so we could watch him. He's the best drummer I ever saw. He only gets a chance to bang them a couple of times during a whole piece, but he never looks bored when he isn't doing it. Then when he does bang them, he does it so nice and sweet, with this nervous expression on his face. 
(J.D. Salinger: The Catcher in the Rye) 
Holden Caulfield, sem er aðalpersónan og sögumaður í skáldsögunni, er hér að lýsa því hvað honum finnst um pákuleikarann í hljómsveit sem hann hefur oft hlustað á áður.  Hann segir efnislega: Jesús hefði sannarlega kunnað við náungann sem lék á pákurnar. Hann er besti trommuleikari sem ég hef nokkurntíma séð. Hann fær bara að slá í trommurnar nokkrum sinnum allt verkið, en honum virðist aldrei leiðast þegar hann er ekki að slá. Þegar hann fær að slá þá gerir hann það svo einstaklega vel og blítt, og virðist vera dálítið taugaóstyrkur þegar hann gerir það.

Það var einhvern veginn svona sem mér fannst þetta vera í gær, þar sem þáttur minn og hinna "pákuleikaranna" var ekki stór, en samt leiddist okkur ekkert og þegar kom að okkur, fluttum við það sem okkur hafði verið úthlutað, svo einstaklega vel. Mögulega hefði mátt greina örlítinn taugaóstyrk í andlitsdráttum okkar. Holden Caulfield hefði líkað vel við okkur held ég.

Það sem við gerðum á þessum tónleikum var að flytja þrennt eftir  J.S.Bach og allt mjög stutt: Slá þú hjartans hörpu strengi, Ó höfuð dreyra drifið og síðan síðasta hlutann af kantötunni sem kallast BWV169, sem tók um mínútu í flutningi. Samtals mun flutningur þessara pákuleikara hafa tekið um 5 mínútur af þessum klukkutíma tónleikum.
Vissulega var hlutverk okkar ekki stórt, en ef litið er til þess, að á hverju ári sendum við her manns utan til að vera fulltrúar okkar í Evrópusöngvakeppninni með sitt þriggja mínútna lag, þá ætti nú ekki að vera stóra málið að skjótast í Skálholt með fimm mínútna framlag. Unndirbúningurinn fyrir þessar fimm mínútur telst auðvitað í tugum klukkustunda, svo þegar upp er staðið ..... já.

Tilvitnunin á myndinni hægra megin á engan veginn að vísa til framgöngu þeirra sem fluttu hinar 55 mínúturnar af umræddum tónleikum. Öll voru þau aðdáunarverð: það rauk úr fingrum organistans Jóns Bjarnasonar og Hildigunnur Einarsdóttir, mezzosópran geislaði í gegnum sinn þátt. Það sama má segja um aðra hljóðfæraleikara. 


Svo heldur þetta áfram í dag og auðvitað allt Guði til dýrðar. 😅

14 júní, 2019

Skálholt: Prestur og söfnuður óánægðir hvor við annan


Af vefnum skalholt.is
Fyrir nokkru barst mér í hendur bók nokkur, sem inniheldur að mestu leyti reikningshald fyrir Skálholtskirkju frá 1913 til 1988.  Auk reikninganna eru skráðar nokkrar vísitasíur prófasta í Árnesprófstsdæmi, ein kirkjuskoðun og einn safnaðarfundur. Þessa texta birti ég hér fyrir neðan.

Ég hef nú, eftir að hafa borið það undir vígslubiskup og formann sóknarnefndar, skilað þessari bók á Héraðsskjalasafn Árnessýslu, því auðvitað eiga svona gögn þar heima.  Ég leyfi mér að ítreka við ykkur öll sem þetta sjáið, að athuga hvort heima hjá ykkur leynist mögulega gögn sem eiga að rata til varðveislu á héraðsskjalasafninu.
 Ekki meira um það, en hér eru umræddir textar:

 Vísitasía 1913

EFTIRRIT
Vísitasíugjörð í Skálholti 28. júlí, 1913.

Árið 1913, 28. júlí, vísiteraði prófasturinn í Árnessprófastsdæmi, séra Valdimar Briem, kirkjuna í Skálholti. Af viðkomandi mönnum var auk prófastsins enginn viðstaddur, nema umboðsmaður kirkjunnar, Skúli læknir Árnason í Skálholti. Sóknarpresturinn, séra Brynjólfur Jónsson á Ólafsvöllum, var fjarverandi, svo og allir sóknarnefndarmennirnir: Þorfinnur Þórarinsson á Spóastöðum, Bergur Jónsson á Helgastöðum og Jón Wíum á Iðu. Hafa þeir sjálfsagt ekki verið viðlátnir, enda ef til vill haft lítið að athuga eða haft litla von um árangur.
Um kirkjuna er það að segja, að síðan hún var síðast vísiteruð, af Þórhalli biskupi Bjarnarsyni, 4. sept. 1910 hefir hún fengið talsverða og alldýra aðgerð, sem fólgin hefir verið í þessu: Skekkjan, sem orðin var á kirkjunni, hefir verið löguð svo sem smiðurinn, er stóð fyrir aðgerðinni, hefir treyst sér til án þess að rífa húsið algerlega, en hvergi nærri hefir það tekist til hlítar. Kirkjan hefir verið járnklædd á norðurhlið og vesturgafli, svo að hún er nú öll járnvarin. Gólfið í kirkjunni hefir verið endurbætt á þá leið, að nýir hlerar hafa verið settir yfir legsteinana, sem eru undir ganginum í framkirkjunni. En kórgólfið, sem er talsvert gallað, er enn óendurbætt. Nýir gluggar hafa verið settir í kirkjuna. Ennfremur hefir verið þiljað fyrir geymsluloftið í kirkjunni. Svo hefir og öll kirkjan verið máluð að utan og innan, - að utan brúnleit á þaki, en gráleit á veggjum; að innan ljósblá hið efra með hvítum listum, en ljósgrá hið neðra. Á altari og predikunarstól hefir liturinn verið skírður upp. Kirkjan, sem að utan er fremur óásjáleg að allri gerð yfirleitt, ekki síst turninn, sem mjög er til óprýði, lítur nú að innan miklu betur út en áður. Sömuleiðis hefir tekist að þétta hana nokkuð svo að hún er nú ekki eins gisin sem fyr, og væri settur hæfilegur ofn í hana verður ekki annað sagt en að hún sé sæmilega vistleg til notkunar á öllum árstímum.
En hinsvegar virðist kirkjan hvergi nærri samboðin þeim stað, sem hún stendur á.
Eiganda kirkjunnar er þó ekki sök á því gefandi, að því leyti, að eigi er til þess að ætlast að hann á sinn kostnað eingöngu, reisi þar "monumentala" kirkju. En hinsvegar  dylst það víst fæstum, er athuga það rækilega, að miklu heppilegra hefði verið að endurbyggja svo stórgallað hús en láta káka við aðgerð á því, sem er lítt framkvæmanleg til nokkurrar hlítar. En við það, sem komið er, verður nú sjálfsagt að sitja fyrst um sinn.
Sem stendur er kirkjan mjög lítið notuð til messugjörða. En þegar farið verður að nota hana betur þykir nauðsynlegt að setja ofn í hana. - Kirkjan er í góðri hirðu ásamt áhöldum hennar, sem öll eru hin sömu og áður.
Kirkjugarðurinn er yfirleitt í sæmilegu standi, og ný grind úr timbri hefir verið sett á sáluhlið.
Úr Fálkanum, 3. árg. 1930

Til yfirheyrslu í kristindómi komu 2 nýlega fermd ungmenni (frá Auðsholti). Eitt vantaði (frá Iðu).
Um kirkjulegt ástand í söfnuðinum og samband prests og safnaðar, er líkt að segja og áður. En annars var lítið tilrætt um það að þessu sinni, þar sem flesta viðkomendur vantaði. Söfnuðurinn er hvattur til að sækja kirkjuna betur en nú er gjört, þá er færð og veður og aðrar ástæður leyfa.
Sjóðsbók fyrir kirkju og sókn var löggilt, en gjörðabók vantar og þarf að útvega hana sem fyrst. Sé þessi vísitasíugerð innfærð í hana.
Valdimar Briem, Skúli Árnason
Rétt eftirrit eftir vísitasíunni staðfestir
Valdimar Briem.

Vísitasía 1918

Árið 1918, 4. nóv., vísiteraði prófasturinn í Árnesprófastsdæmi, Kjartan Helgason, kirkjuna í Skálholti. Viðstaddir voru sóknarpresturinn, séra Brynjólfur Jónsson, umboðsmaður kirkjueiganda Skúli Árnason og formaður sóknarnefndar Bergur Jónsson.
Engin börn komu til yfirheyrslu.
Kirkjan er í góðu standi og vel hirt, svo og áhöld hennar.
Meiri hluti kirkjugarðsins er nýhlaðinn upp og prýðilega gerður (úr torfi og grjóti) en það sem eftir er á að leggjast næsta sumar..
Söfnuðurinn er, að kalla, hættur að sækja kirkju og presturinn að slá slöku við komur sínar, svo að á þessu ári hefur presturinn ekki messað nema einu sinni eða tvisvar. Prestur og söfnuður eru óánægðir hvor við annan að þessu leyti. Kirkjulífið er í ólagi.
Kjartan Helgason, Br. Jónsson, Skúli Árnason, Bergur Jónsson.

Vísitasía 1922

Árið 1922, 15. júní vísiteraði próf., séra Kjartan Helgason kirkjuna í Skálholti. Viðstaddir voru sóknarpresturinn, séra Brynjólfur Jónsson, kirkjuhaldarinn, Skúli læknir Árnason og formaður sóknarnefndar, Víglundur Helgason. 
Eitt barn kom til yfirheyrslu í kristnum fræðum og bóklestri og reyndist mjög vel.
Kirkjan er í sómasamlegu ástandi og vel hirt og sömuleiðis áhöld hennar.
Meirihluti kirkjugarðsins er í ágætu standi, en austur og suðausturhliðin er orðin fornfáleg.
Um kirkjulegt ástand í söfnuðinum er sama að segja og áður, enda er presturinn farinn að lasnast og als ekki fær um að koma til kirkju á vetrardag nema í bezta veðri.
Kjartan Helgason, Br. Jónsson, Skúli Árnason, Víglundur Helgason

Kirkjuskoðun 1924

Árið 1924, 10. júní skoðaði prófasturinn, séra Kjartan Helgason í Hruna kirkjuna í Skálholti. Viðstaddir voru kirkjuhaldarinn, Skúli Árnason læknir og formaður sóknarnefndar Jón Wium á Iðu.
Börn komu engin til yfirheyrslu.
Kirkjan er gömul timburkirkja, en nokkurn veginn stæðileg og í góðri hirðu, öll járnklædd að utan og máluð að utan og innan.
Áhöld hennar eru öll hin sömu og verið hafa, en nýlega hefur kirkjueigandinn, bankastjóri Hannes Thorsteinsson sent kirkjunni sálmasöngsbók Sigfúsar Einarssonar, í góðu bandi og þakkar sóknarnefndin fyrir þá gjöf.
Kirkjan á ekki ofn; hljóðfæri er fengið að láni við kirkjulegar athafnir.
Grafreiturinn er óvenjulega stór í hlutfalli við sóknina. Meiri hluti kirkjugarðsins er nýlega hlaðinn úr torfi og grjóti og í ágætu standi og trégrind í hliðinu hefur nýlega verið endurbætt. Austurhlið garðsins og nokkuð af suðurhliðinni er úr tómu grjóti, en af sér gengin og ekki gripheld, þarf sem fyrst, helst á næsta hausti að hressa við þann kafla girðingarinnar.
Sóknarpresturinn, Séra Brynjólfur Jónsson er orðinn aldraður maður og lasburða. Kemur hann sjaldan til kirkju og kirkjan illa sótt.
Kjartan Helgason, Skúli Árnason, Jón H. Wium.

Safnaðarfundur 1925

Hinn 6. sept, 1925 var haldinn safnaðarfundur í Skálholti. Fundinum stýrði séra Eiríkur Stefánsson á Torfastöðum að afstaðinni guðsþjónustu. Þar var kosin sóknarnefnd og hlutu þeir kosningu: Skúli Árnason í Skálholti, Víglundur Helgason í Höfða og Jón H. Wium á Iðu.
Skúli Árnason
Víglundur Helgason
Jón H. Wium.
Eiríkur Þ. Stefánsson.
--------------------

Um séra Brynjólf Jónsson (1850-1925) prest á Ólafsvöllum, sem þjónaði Skálholti á þeim tíma sem hér um ræðir.


Síðasti prestur í Reynisþingum var sr. Brynjólfur Jónsson, síðast á Ólafsvöllum og löngum kenndur við þann stað. Hann var sonur Jóns háyfirdómara Péturssonar, tvíburabróðir við sr. Pétur Kálfafellsstað.
Sr. Brynjólfur vígðist til Meðallandsþinga vorið 1875. Ekki var hann þar nema árið. Næsta vor fékk hann Reynisþing og settist að á Heiði. Þar var hann í 6 ár unz hann fluttist austur að Hofi í Álftafirði, síðan var hann einn vetur á Bergsstöðum í Húnaþingi. Þá fékk hann Ólafsvelli þar sem hann var prestur til dauðadags.
Vorið 1925 fór sr. Brynjólfur til Reykjavíkur á prestastefnu svo sem venja hans mun hafa verið. Hann ofkældist á leiðinni, lagðist veikur þegar suður kom og andaðist á heimili Helgu dóttiur sinnar 2. júlí.
Skeiðamenn komu suður til að bera hann til grafar, en yfir moldum hans töluðu þeir sr. Magnús Helgason og Friðrik Hallgrímsson.
Sr. Brynjólfur mun hafa orðið næsta minnistæður öllum þeim, sem höfðu af honum einhver kynni. Frægastur var hann fyrir stálminni og hinn þaulfróðasti í mörgum efnum. Hann kunni embættismannaskrár Norðurlandaríkjanna utan bókar, enda hafði hann Hof- og Statskalender Dana í höndum sér á deyjandi degi. (Vörður 18. júlí '25).
(úr: Kirkjur og prestar í Reynisþingum, eftir séra Gísla Brynjólfsson, Mbl. 9. janúar 1966)
--------------------

Feitletranir og skyggingar á texta eru mínar 




27 febrúar, 2019

Trú, völd og hagsmunir á biskupsstóli

Séð frá minnisvarða um Jón Arason.
Nei, það er nú ekki þannig, að ég ætli mér að gera einhverja lærða úttekt á þeirri samþættingu trúar, valda og hagsmuna af ýmsu tagi sem birtist þegar maður rennir í huganum yfir málefni Skálholtsstaðar. Ég er nú bara einn nágranni, sem hef stærstan hluta ævinnar átt heima í túngarði biskupsstólsins, rétt handan Keldunnar.
Ég hef afrekað það að:
- að vera kirkjuvörður þá er Sveinbjörn Finnson var staðarráðsmaður og fulltrúi þeirra "fyrir sunnan".
- að kenna við Lýðháskólann þegar sr. Heimir Steinsson var og hét.
- að hafa setið í sóknarnefnd og náð því, meira að segja, að verða sóknarnefndarformaður í nokkur ár.
- að þenja tenórröddina svo áratugum skiptir í Skálholtskórnum, bæði þeim eldgamla, gamla og nýja.
- nú síðast, að vera valinn til að setjast í varastjórn Skálholtsfélagsins hins nýja.

Þakskífur

Altarisverk Nínu Tryggvadóttur
Líf mitt allt og lítið brot sögu Skálholts í gegnum aldirnar, hafa átt samleið, svo um munar (fyrir mig, en ekki Skálholt).

Lái það mér hver sem vill, en þessi samleið hefur afskaplega oft gert mig afhuga Skálholtsstað og því starfi sem þar hefur verið unnið, en á sama tíma, hvort sem ég hef haft um það eitthvert ákörðunarvald eða ekki, þá hef ég ávallt haft og hef enn sterkar taugar til þessa staðar, vísast sterkari en margur sá sem um staðinn vélar eða hefur vélað.

Skálholt var endurreist eftir langan tíma niðurlægingar. Dómkirkjan reis og skólahús var byggt. Það var byggt yfir sóknarprestinn, organistann/kantorinn og rektorinn. Hvernig gátu þessar byggingar annað en upphafið Skálholt til fyrri stórfengleika?
Þarna voru allir möguleikar.
Það hefur hinsvegar ekki enn tekist að nýta þá svo sem vonir stóðu til.

Sannarlega lifir Skálholt á fornri frægð, og er þekkt um heiminn sem einn þeirra staða sem ferðamenn þurfa að heimsækja. Þekkt um hinn kristna heim. Þekktur sögustaður. Þekktur menningarstaður.

Það hafa margir lagt hönd á plóg í Skálholti, af alúð og heilum hug. Þar hefur margt ágætt verk verið unnið. Ég verð að viðurkenna að mér er það vart skiljanlegt hve mörgu góðu hefur verið komið þar til leiðar, þrátt fyrir það umhverfi sem staðnum er búið.

Skálholtshátíð 2018
Ekki treysti ég mér til að telja fram alla þá aðila, stofnanir, ráð, nefndir, félög, einstaklinga, fyrirtæki,   -  sem hafa með málefni Skálholts að gera, eða telja sig vita hvað staðnum er fyrir bestu. Þarna er um að ræða afskaplega ósamstæðan hóp, sem sjaldnast getur orðið einhuga um skipan mála í Skálholti í nútíð eða framtíð.
Allir þessir aðilar vilja vel, hver á sinn hátt og þar má segja að hnífurinn standi í vorri kú.
Það er tekist á um flest sem hugsast getur í tengslum við staðinn. Það takast á hagsmunir af ýmsu tagi, hagsmunir sem tengjast fjármagni, skipulagi, trú, nágrenni, lífsskoðun, ferðaþjónustu, landbúnaði, .....  Ég sé ekki tilgang með að reyna að telja saman alla þá hagsmuni sem hægja á málum sem tengjast Skálholti, en þessi staður er þess eðlis að það er mjög auðvelt að vera ósammála um hann og þegar þannig er háttað, er enginn hörgull á ósamrýmanlegum skoðunum.

Sú skoðun er talsvert algeng í mínu umhverfi að það hljóti að hvíla einhver álög á "Skálholtstorfunni", þar sé aldrei friður. Ég hef heyrt fólk halda þeirri skoðun fram að þetta eigi uppruna sinn í þeirri stund þegar Jón Arason og synir hans voru hálshöggnir árið 1550.  Til þessa vil ég ekki taka afsöðu svo sem, en verði ekki málefnum Skálholts skipað með skilvirkari hætti, munu þessi átök (jæja, mismunandi skoðanir eða sýn) halda áfram.
Það er nú mín auðmjúka skoðun, að ákvörðunarvald um málefni staðarins þarf að vera hjá einum aðila, sem "að bestu manna yfirsýn" leggur þær línur sem feta skal. Þessi aðili þarf að vera í afar góðum tengslum við staðinn, þekkja sögu hans og mikilvægi fyrir þjóðina og nágrennið mjög vel.

Biskupshúsið / Gestastofa
Það er vel þekkt máltæki sem segir, að því verr gefist heimskra manna ráð sem fleiri koma saman. Ekki tek ég nú svo stórt upp í mig að vilja halda þessu fram þegar málefni Skálholtsstaðar eru annars vegar, fjarri því, en hinsvegar tel ég að málefnum staðarins sé ekki vel komið með svo marga álitsgjafa og/eða ákvörðunaraðila sem raun ber vitni.

Svo er það þetta með Biskupshúsið eða Gestastofuna, sem nú stendur þarna á hlaðinu og bíður framtíðarhlutverks síns.
Í hvers/hverra höndum er að ákveða hvert það verður?  Hvað dvelur?




13 ágúst, 2018

Þorlákshver, Litli hver og búnaðarskóli

Þorlákshver eða Litli hver?
Þegar oft þarf að ganga sér til heilsubótar þarf stundum að huga að því að skipta um gönguumhverfi.  Það gerðum við fD og ákváðum að leggja leið okkar eftir slóðanum sem liggur frá Skálholtsbúðum niður að Þorlákshver. Frá þeim stað sem bílnum var lagt og niður að Brúará eru tæpir 2 km.
Ég hef ekki komið þarna niðureftir í áratugi.
Í kjölfarið fór ég að velta ýmsu fyrir mér um þennan hver, Þorlákshver, en komst að því, í fljótu bragði að það eru ekkert umtaslverðar heilmildir um sögu hans í efstu lögum þeirra heimilda sem ég hafði aðgang að.

Í árbók hins íslenzka fornleifafélags 1927, þar sem fjallað er um ýmis örnefni í Skálholti (mjög áhugavert) segir þetta um Þorlákshver:
Þorlákshver er eitt þeirra örnefna, sem kennt er við Þorlák biskup hinn helga Þórhallason.

Svo fór ég að leita meira og það leiddi mig að ýmsu öðru og þar bar eftirfarnadi hæst:
Í Þjóðviljanum 1944 skrifar Björn Sígfússon:
SKÁLHOLT Náttúruskilvrði og kröfur til nýs skóla
Nytjun jarðyls á skilyrðislaust að vera ein meginkrafan, sem gera skal til bændaskóla í nýjum stíl, og hana á hann að hafa umfram hina skólana. Þegar borun eftir jarðhita kemst til framkvæmda um allt land, verður sá orkugjafi meiri þáttur í búnaðarframleiðslu og öllu lífi sveitanna en menn hefur grunað. Garðyrkjuskóli er bundinn á þröngu sviði við jarðylsnotkun til ræktunar og fullnægir ekki bændaefnum, enda ætlaður öðrum. Gufusuða og þrýstingsnotkun er t. d. mikilsvert framtíðarmál. Slíkt má prófa og kenna í bændaskóla, auk hitaræktar, þótt hann fáist ekki við mikla garðyrkju. Hinn ókomni landbúnaður er, eins og menn ættu að vita, ein af iðjurekstrargreinunum, og bændaskóli þarf a. n. l. að fullnægja iðnskólahlutverki. Þess vegna er nauðsyn, að bændaskólinn nýi hafi allmikinn jarðhita sjálfur, og jafnmikil nauðsyn, að í kring séu hitalindir beizlaðar á margvíslegan og stórfelldan hátt, án þess að skólinn sjálfur þurfi að eiga í þeim fyrirtækjum nema óbeinan þátt og leiðbeiningastarf.Hvanneyri og Hólar standa alllangt frá öllum jarðhita. Þessu skilyrði fullnægir Skálholt betur en. aðrir staðir á Suðurlandi. Þorlákshver, sem heilagur Þorlákur stundaði forð um, er með heitustu uppsprettum og svo vatnsmikill og vatns tær, að hitun mikilla húsa, smáíðja og ræktun við hann eru auðveldari og vænlegri til hagn aðar en gerist á góðum jarðhitastöðum.
Ég hafði vissulega heyrt af hugmyndum um að reisa bændaskóla í Skálholti, en aldrei hvarflaði að mér að þær væru komnar svo langt sem raun ber vitni. Í Tímanum frá júlí, 1948 birstist eftirfarandi grein á forsíðu:

Búnaðarskólinn í Skálholti

Þetta gulbrúna svæði er líklega það svæði sem skólanum var hugsaður staður.
Líkur til, að byrjað verði á byggingu búnaðarskólans í Skálholti
Bygginganefndin hefir staðfest uppdrátt húsameistara ríkisins af aðalskólabyggingunni
Byggínganefnd hins fyrlrhugaða búnaðarskóla að Skálholti hefir staðfest uppdrátt, sem húsameistari ríkisins , hefir gért að mannvirkjum þar á staðnum. Er gert ráð fyrir, að skólahúsið muni kosta um hálfa fjórðu milljón króna með núverandi verðlagi og kaupgjaldi. Fjárfestingarleyfi er ekki enn fengið, en reynt veíður að fá það, svo að byrjunarframkvœmdir geti hafist þegar í haust.
Draumur, er senn rætist.
Það hefir lengi verið draumur Sunnlendinga, að hinn sögufrægi staður, Skálholt, yrði á ný veglegt menningarsetur. Nú virðist það nálgast, að sá draumur rætist.

Fyrir tveimur árum var skipuö nefnd manna til þess að undirbúa byggingu búnaðarskóla á Suðurlandi. Eiga sæti í nefndinni Steingrímur Steinþórsson búnaðarmálastjóri, sem er formaður hennar, Sigurður Ágústsson bóndi í Birtingaholti og Guðmundur Erlendsson bóndi að Núpi. En framkvæmdastjóri hennar er Hjalti Gestsson búfjárræktarráðunautur Búnaðarsambands Suðurlands.

Veglegt og fullkomið skólahús.
Nefndin ákvað, að skólinn skyldi reistur að Skálholti, og hefir húsameistari ríkisins unnið aö uppdráttum að skólabyggingunum nú að undanförnu. Nú er þessi uppdráttur fullgerður, og hefir bygginganefndin staðfest hann. Verður skólahúsið veglegt mjög, og er gert ráð fyrir. að það kosti um hálfa fjórðumilljón, miðað við núverandi verðlag og kaupgjald. Verður byggingin hin fullkomnasta að öllu leyti. og mun bygginganefnd in vera hin ánægðasta með allt fyrirkomulag. — Byggingin er miðuð við fimmtíu nemendur.

Fagur staður og búsældarlegur.
Skólasetrinu er ætlaður staður á ásnum vestan við biskupssetrið gamla, mitt á milli þess og Þorlákshvers, en í hann verður sótt heitt vatn til þess að hita upp bygginguna. Er þar fagurt útsýni, og aðstaða til búskapar mun betri en heima á gamla bæjarstæðinu, sem er austast í landareign Skálholtsstaðar.

Von til, að framkvæmdir hefjist í haust.
Á undanförnum árum hefir í fjárlögum verið veitt allmikið fé til hins fyrirhugaða búnaðarskóla. Hefir nokkuð af því verið varið til þess að gera veg af þjóðveginum heim á staðinn, þar sem skólasetrið á að rísa upp. Einnig hefir verið mælt fyrir vatnsleiðslum, bæði hvað snertir heitt og kalt vatn. Verður leiðslan úr Þorlákshver heim á skólasetrið um einn kílómetri á lengd.

Bjarni Ásgeirsson landbúnaðarráðherra tjáði Tímanum i gær, að hann gerði sér vonir um, að unnt yrði að hefja frekari undirbúning að skólabyggingunni nú í sumar eða haust. Að vísu er ekki enn fengið fjárfestingarleyfi, svo að unnt sé að byrja á byggingarframkvæmdum þegar í stað, en unnið er að því að fá það. Hitt er vitanlega óvíst á þessu stigi málsins, hversu langt áleiðis verður hægt að þoka byggingunni á þessu ári.

Sunnlenzkir bændur bíða með óþreyju.
Sunnlenzkir bændur bíða með óþreyju, að skóli þeirra risi upp. Steingrímur Steinþórsson skýrði blaðinu frá því í gær, að bygginganefndinni hefðu borizt fjölmargar áskoranir frá bændum og bændasonum á Suðurlandi, þar sem heitið væri á hana að gera sitt til þess að byriað yrði sem allra fyrst á byggingunni. Hefir hún líka lagt sig í líma um það, að svo mætti verða.
Öll vitum við, að af þessari miklu byggingu og tilheyrandi framkvæmdum öðrum varð ekki. Hvernig þessu var sópað út af borðinu veit ég ekki nákvæmlega, en reikna með að svona starfsemi á hinum helga stað hafi ekki endilega fallið í kramið allstaðar, þó svo bændaskóli væri kominn á Hólum, án þess að það virtist hafa verulega skaðleg áhrif á þann stað. Ætla má, og mér sýnist á skrifum Sigurbjörns Einarssonar, þá dósents frá 1948, en hann má segja hafi farið fyrir þeim sem stóðu að endurreisn Skálholts, að ekki væri sæmandi að byggja búnaðarskóla í Skálholti meðan ekki væri þar vegleg kirkja.

Hver bullar úti í Brúará

Þorlákshver og Litli hver

Þarna niðri við Brúará er dæluhús, sem tekur vatn úr harla ómerkilegum hver, sem ég trúi nú varla að sé Þorlákshver. Getur verið að hverinn sá kallist Litli hver, sbr. myndin sem fylgir hér hægra megin, og að Þorlákshver sjálfur sé nú í Brúará skammt frá landi? Það bullaði heil ósköp eins og sjá má á annarri meðfylgjandi mynda.




Þessi skrif skulu ekki teljast einhver fræðileg úttekt hjá mér, heldur bara afleiðing þarfar minnar til að vita aðeins meira í dag en í gær.


Nokkrar myndir




                                                                                                             

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...