05 febrúar, 2021

Skálholt: Spánska veikin

Skúli Árnason og Sigurður Skúlason

Skúli Árnason var héraðslæknir í Grímsneshéraði frá því það var stofnað árið 1900 og til  ársloka 1921. 
Ég er að braska við að taka saman sögu hans í uppsveitunum, sem hluta af sögu læknishéraðsins. 
Eins og hver maður getur ímyndað sér, vonandi, var starf  héraðslæknis á svæðinu hreint ekkert áhlaupaverk og raunar merkilegt að Skúli skyldi hafa enst jafn lengi og raun bar vitni.

Haustið 1918 gengu tvenns konar hörmungar yfir þjóðina, Kötlugosið sem hófst 12. október og Spánska veikin er talin hafa borist til landsins þann 19. október.  

Í bókinni “Faðir minn, læknirinn”, sem var gefin út 1974, skrifaði sonur Skúla, Sigurður, um föður sinn. Sigurður var fæddur 1903 og því 15 ára haustið 1918. Meðal þess sem Sigurður lýsir í greininni er hvernig Kötlugosið og Spánska veikin komu við Skálhyltinga og ekki síst föður hans, Skúla lækni. Mér finnst við hæfi að setja þessa frásögn hér, í tilefni reynslu okkar undafarið ár og sem við erum enn að kljást við. 



Frásögn Sigurðar:

Haustið 1918 gekk í garð. Það var óvenju milt, og menn áttu sér einskis ills von. Við Skálhyltingar vorum að vinna að jarðabótum í veðurblíðunni.

Dag einn birtist ferlegur skýstrókur í suðaustri. Fyrst héldum við að þetta væri óveðursský, en brátt sáu allir, að svo var eigi. Um kvöldið, þegar dimma tók, fóru að sjást eldglæringar í skýstróknum. Þóttust menn þá sjá, að hér væri um eldgos að ræða. Það var sunnar en Hekla, sem blasir við úr austri frá Skálholti. Faðir minn sagði, að nú myndi Katla vera farin að gjósa. það reyndist rétt. Snjór hafði fallið á jörð hjá okkur, skömmu áður en gosið hófst. Hann varð svartur af öskufalli daginn eftir. Ekkert tjón varð af gosinu hjá okkur, en óviðkunnanlegt myrkur fylgdi öskufallinu. Það reyndist einskonar fyrirboði annars verra. Á næsta leiti var mögnuð farsótt, sem barst frá útlöndum til Reykkjavíkur og þaðan austur um sveitir. Hún hlaut nafnið Spánska veikin og reyndist brátt svo mannskæð, að minnti á drepsóttir fyrri alda.

Auðvitað barst veikin brátt til okkar, enda læknissetur berskjaldað fyrir þvílíkum plágum. Systir mín veiktist fyrst, en varð ekki þungt haldin og komst á fætur eftir tæpa viku. Næst veiktist ég og varð ekki veikari en svo, að ég gat lesið Íslendingasögurnar mér til skemmtunar í bólinu. Uppgötvaði ég þá, hvílík heilsubót þær eru í vægum veikindum. Egilssögu las ég tvisvar og suma kafla úr henni margoft. Hafði ég orð á því við föður minn, að sagan hlyti að vera eftir Snorra Sturluson, því að þannig hefði enginn skrifað nema sá, sem skrifaði söguna af för Þórs til Útgarða-Loka. Faðir minn varð fár við og bað mig að reyna ekki að gizka á, hverjir væru höfundar Íslendingasagna. Þar hefðu verið að verki andleg stórmenni, sem hefðu verið gædd aðalsmerki sannra manna: að vera ekki að trana sér fram, heldur láta verk sín tala. Mér urðu orð hans ógleymanleg og því er þetta atvik tilfært hér, að það lýsir Skúla lækni vel.

Ég reis brátt albata úr rekkju og var um leið hrifinn úr töfraveröld fornbókmenntanna, en við blasti nöturleg alvara lífsins. Skúli læknir hafði verið í sífelldum sjúkravitjunum síðustu sólarhringana vegna sóttarinnar. Hann var sýnilega að verða örmagna af þreytu og veiktist nú hastarlega af pestinni, sem magnazt hafði, eftir því sem á leið. Hann varð brátt sárþjáður og sagði, að annað lungað í sér myndi hafa rifnað, svo að blætt hefði. Þetta reyndist rétt til getið, eins og síðar verður vikið að. Átti hann nú mjög örðugt um andardrátt. hann bað mig að afgreiða öll lyf fyrir sig, og gerði ég það. Reyndist mér það stautsamt. Menn frá sýktum heimilum stóðu nálega í biðröð hjá okkur á hverjum degi. Fyrst þurfti ég að fá hjá þeim sjúkdómslýsingar, fara síðan að sóttarsæng læknisins og spyrja hann, hvað gera skyldi, en afgreiða því næst meðulin eftir bestu getu. Að vísu voru sjúkdómslýsingarnar nokkuð samhljóða, en fleiri þörfnuðust þó lækninga en þeir, sem sýkzt höfðu af Spönsku veikinni. Gamalt fólk virtist einna ónæmast fyrir þessari farsótt. Elzta fólkið í Skálholti veiktizt a.m.k. ekki.

Dag einn kom til okkar roskin kona og kvartaði um langvinna magaveiki. Þann dag var Skúli læknir svo veikur, að við hugðum honum vart líf. Ég tók því það ráð að blanda lyf handa konunni af eigin rammleik, en auðvitað sem líkast því er ég hafði séð lækninn setja saman við svipuðum kvilla. Með það fór konan. Þegar við hittumst ári seinna, sagði hún mér, klökk af hrifningu, að lyfið hefði læknað sig af aldarfjórðungs innanslæmsku! Að svo mæltu þrýsti blessuð gamla konan kossi á kinn mér og innsiglaði með því þakklæti sitt. Þetta hefði ef til vill getað orðið örlagakoss, því að á þeirri stundu lá við, að mér fyndist ég ætti að reyna að verða læknir. Ég var þá nýorðinn gagnfræðingur og þóttist því heldur en ekki karl í krapinu. En faðir minn tók þá af skarið og sagði með miklum alvöruþunga: “Ef þí vilt verða dreplúinn og heilsulaus á 15 árum, skaltu lesa læknisfræði og verða héraðslæknir úti á landi.” - Málið var útrætt, og dyrnar að læknavísindunum lokuðust mér fyrir fullt og allt, sem einu gilti.

Spánska veikin magnaðist jafnt og þétt og varð að skæðri drepsótt. Í Reykjavík skapaðist hálfgert neyðarástnd, og voru lík þar stundum greftruð í fjöldagröfum.

Þegar við vorum að komast í öngþveiti, barst okkur kærkomin hjálp. Læknastúdent úr Háskóla Íslands var sendur austur að Skálholti okkur til bjargar. Hann hét Kjartan Ólafsson. Stóðst það á endum, að nauðsynlegustu lyf okkar voru á þrotum, er hann kom með nýjar birgðir. Skömmu síðar fór föður mínum að batna og var þá sem fargi létti af öllum.

Faðir minn varð ekki heill heilsu fyrr en sumarið eftir Spönsku veikina. Var hann m.a. ákaflega mæðinn og kenndi oft verkjar fyrir brjósti. Samt sinnti hann læknisstörfum, eins og ekkert hefði í skorizt. Dag einn á slætti var verið að reiða heima hey af Skálholtstúni. Var það bundið í bagga, eins og þá tíðkaðist. Skúli var nærstaddur, er baggi hrökk upp af klakki. Gleymdi hann þá, að hann þoldi ekki snögg viðbrögð, þreif baggann og snaraði honum til klakks. Við þessa áreynslu fékk hann ákafa hóstakviðu, og gengu upp úr honum dökkar blóðlifrar. Eftir það létti honum mjög. Kvaðst hann nú loksins hafa fengið fullan bata, en þetta blóð hefði setið þarna síðan í veikinni síðastliðinn vetur. Upp frá þessu var hann heilsugóður.


Ég hélt nú, að það yrði ekkert stórmál að taka saman sögu læknishéraðs í uppsveitum Árnessýslu, en það hefur reynst vera heldur meira verk en ág hugði. Það hlýtur að vera út af COVID.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...