06 mars, 2021

Hún Jóra

Jórunn hét stúlka ein; hún var bóndadóttir einhvers staðar úr Sandvíkurhrepp í Flóanum; ung var hún og efnileg, en heldur þótti hún skapstór. Hún var matselja hjá föður sínum. Einhvern dag bar svo við, að hestaat var haldið skammt frá bæ Jórunnar; átti faðir hennar annan hestinn, er etja skyldi, og hafði Jórunn miklar mætur á honum. Hún var viðstödd hestaatið og fleiri konur; en er atið byrjaði, sá hún, að hestur föður hennar fór heldur halloka fyrir. Varð Jórunn svo æf við það og tryllt, að hún óð að hinum hestinum og reif undan honum lærið; hljóp hún þegar með það, svo ekki festi hönd á henni, upp að Ölfusá hjá Laxfossi, þreif þar upp bjarg eitt mikið úr hömrunum við ána og kastaði því nálega út á miðja á; síðan hljóp hún yfir á stillum þessum og mælti um leið:

"Mátulegt er meyjarstig;
mál mun vera að gifta sig."

Heitir þar síðan Tröllkonuhlaup, aðrir segja Jóruhlaup. Þar hélt hún upp Ölfus, austan undir Ingólfsfjalli, og upp í Grafning
, uns hún kom að hamragili því, sem liggur vestur úr Grafningi, skammt frá Nesjum; eftir því fór hún og linnti ekki á, fyrr en hún kom upp í Hengil. Þar tók hún sér bólfestu, og er þar síðan kallaður Jóruhellir, og varð versta tröll og grandaði bæði mönnum og málleysingjum.

Þetta er fyrri hluti þjóðsögunnar um Jóru, en eðli máls samkvæmt er ég á kafi í því þessi missirin, að kynna mér nánasta umhverfi mitt og á sannarlega margt ólært. 

Þegar kemur að þjóðsögum vantar yfirleitt talsvert upp á að þær megi færa upp á raunverulegar aðstæður og maður bara sættir sig við það, enda eru þessar sögur þjóðsögur, eða ævintýri, sem lúta allt öðrum lögmálum en það sem maður gæti sætt sig við með góðu móti í daglegum veruleika - þær eru frekar trumpískar, ef svo má að orði komast.

En aftur að sögunni um Jóru.

Margar spurningar vakna eðlilega við lestur þessarar sögu og hér læt ég gossa þær helstu sem mér koma í hug núna:
- Hvar er þessi Laxfoss, sem nefndur er í sögunni? Er hann kannski Selfoss?
- Hvar hefði Jóra getað fundið "bjarg eitt mikið" hérna sunnan ár, hvað þá hamra, á öllu þessu sléttlendi?
-"kastaði því nálega út í miðja á" - Jóruklettur er miklu nær norðurbakkanum, en hann kann að hafa flust til í jarðskjálftum síðan þetta var.
- Segjum sem svo, að Jóra hafi getað stokkið af bakkanum sunnan megin og út í Jóruklett. Hvernig í ósköpunum datt henni síðan í hug að stökkva alla leið út í Hlaupklett, sem er í það minnsta  fimmföld sú vegalengd sem hún hafði stokkið yfir á Jóruklett? Hversvegna stökk hún bara ekki yfir á árbakkann?
Þannig er, að í framhaldi af færslu sem ég kom fyrir á Fb fyrir nokkrum dögum, þar velti ég fyrir mér nafninu á klettum sem ég hafði þá nýlega gengið á. Þarna var mér tjáð að þessir klettar kölluðust Hlaupklettur. Í framhaldi af því fékk ég síðan upplýsingar um, að nafnið væri til komið vegna þess að Jóra hefði stokkið á hann af Jórukletti, með lærið af hrossinu. Þetta seinna stökk Jóru virðist mér vera harla órökrétt.
- Hversvegna stökk Jóra bara ekki yfir Ölfusá þar sem brú var sett síðar? Þar yfir er nú ekki langur spotti, miðað við þau tröllastökk sem hún valdi til að komast yfir ána.

---------
Ætli ég láti ekki staðar numið hér, í þeirri von að þetta verði ekki til þess að sagan um Jóru missi gildi sitt í hugum fólksins sem þetta les.

Engin ummæli:

Það sem maður ætlar sér

Ég læt mig hafa það að ítreka, að fyrir nokkru tók ég feil á fossum og er varla búinn að jafna mig á því enn.  Nú get ég hinsvegar staðfest...