01 apríl, 2021

Nýr mánuður, nýtt vor

Villingarnir undirbúa atriði sitt,
fyrir nokkrum dögum
Ítalir tóku upp á því þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst hjá þeim á vordögum á síðasta ári, að létta hver öðrum lundina með því að safnast út á svalir og syngja, hver fyrir annan. Ýmsir listamenn tróðu upp færðu fram allt það besta sem þeir höfðu að bjóða. Þessi siður breiddist síðan jafnvel til Íslands og naut talsverðrar hylli, þegar verst lét. 

Nú er aftur komið vor og páskahátíð handan við hornið, en enn setur kórónuveiran okkur skorður og þau okkar sem ekki viljum veltast á gosstöðvarnar, er ekki um annað að ræða, en beita hugmyndafluginu til að reyna að leyfa vorinu að umfaðma okkur. 

Þar sem við fD getum með engu móti hugsað okkur að láta ekki gott af okkur leiða, þegar og þar sem brýnust er þörfin, höfum við ákveðið að  létta lund Selfyssinga eftir megni. 
Þar sem við búum við aðstæður, sem fáir eiga kost á að njóta, ætlum við að efna til lítillar, en mikilvægrar vorhátíðar í útistofunni okkar klukkan 16.00 í dag, en þá verður gustlokunin dregin frá og borin verða fram, fyrir nágranna, gesti og gangandi, fjölbreytt atriði, sem við höfum verið að undirbúa nú á fyrsta ársjórðungi.

Fyrir utan það að tveir félagar úr Skálholtskórnum, tenór og sópran, munu flytja nokkra dúetta og einsöngsatriði (það eru nú að koma páskar), höfum við fengið til liðs við okkur nokkrar stórkanónur og þar má t.d. nefna þessar:
Hljómsveitirnar Mána og Skítamóral, sem munu flytja saman og sitt í hvoru lagi órafmagnaða (unplugged) dagskrá, með öllum þekktustu smellum sínum gegnum tíðina. Þessar hljómsveitir hafa lofað okkur að flytja, í það minnsta eitt frumsamið lag hvor. 
Þarna mun einnig koma fram pönkhljómsveit (gjörningahópur) sem var afar þekkt á sínum tíma, fyrir einstaklega frjóa nálgun að pönkinu, en þetta er hvorki meira né minna, en undan sveitin Villingarnir. Þessir félagar eru engum öðrum hljómsveitum líkir og munu án efa snerta strengi í hjörtum okkar, gömlu pönkaranna.

Til að slá síðasta tóninn, höfum við undirstungið bæjarstjórnina í Árborg og Vegagerð ríkisins, með að senda fulltrúa sína til að tilkynna opinberlega, formlega, um sameiginlega ákvörðun sína, sem tengist nýrri gangbraut yfir Austurveginn.

Eins og fyrr segir hefst þessi hátíð kl. 16.00 með setningarathöfn. Þá mun hvert atriðið taka við af öðru, allt til kl. 17.00, þegar gustlokunin verður dregin fyrir aftur og kófið heldur áfram, eins og áður, nema bara miklu skemmtilegra. 

Það þarf ekki að taka það fram, en sóttvörnum verður fylgt til hins ítrasta og hefur hvert smáatriði verið borið undir sóttvarnaryfirvöld, jafnvel þó margir þeirra sem fram koma séu þegar búnir að fá, í það minnsta fyrri skammtinn af Astra Seneca eða Pfizer Biontech.

Ákveðið hefur verið að Austurvegi verði lokað þann tíma sem þessi uppákoma stendur yfir, og umferð verður beint um Suðurhóla á meðan.

Njótum þessa fyrsta dags apríl mánaðar með frábærri skemmtun - kíkjum svo á þetta gos einhverntíma síðar.

Uppfært 1. apríl, kl. 16.30:
Ef svo ólíklega skyldi vilja til að einhver hafi talið sannleikskorn í textanum hér fyrir ofan, þá skal þess getið að hann var settur saman í tilefni dagsins.

Engin ummæli:

Ég hafði val (óður til eldri borgara) (1)

Ég veit það vel, að aldur er afstæður og hef reynt það á eigin skinni, að mat mitt á eigin aldri og því sem honum fylgir er ekki alltaf hárn...