22 apríl, 2021

Eyðistaður, umlukinn miðaldamyrkri.

Skálholt 1948 (mynd Guðfinna Hannesdóttir)

"Það er eins og miðaldamyrkrið umlyki Skálholtsstað. Skálholt er að verða eyðistaður þar sem nokkrir trúaðir menn biðja til guðs."
Svo kemst Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra og alþingismaður, að orði í Dagskránni þann 14. apríl, 2021. Þarna er Guðni að fjalla um myndarlega uppbygginguna í Haukadal og telur að rétt væri að Skálholti verði komið í umsjá Haukdælinga, öfugt við það sem áður var.

Það er fjarri mér að fara að fjargviðrast yfir þessum orðum stjórnmálamannsins, enda eru stór orð sú leið sem þeir hafa til að ná athygli og eru vanir því að á orðum þeirra sé ekki tekið sérlega mikið mark oft á tíðum.  Skoðun Guðna er vel þess virði að velta fyrir sér. 

Hefur ekki tekist að endurreisa Skálholt til þess vegs og virðingar sem staðurinn á skilið, svona í ljósi sögu þessa mikla staðar sem miðstöðvar trúar og valds um aldir? Sé það niðurstaðan að Skálholt sé "að verða eyðistaður, umlukinn miðaldamyrkri" hlýtur að þurfa að velta fyrir sér mögulegum ástæðum þess og komast að niðurstöðu um hvort það er kannski sá stallur sem Skálholt á að vera á.

Niðurlægingartími (þarf ekki endilega að lesa)

Eigendurnir
En fyrst aðeins um sögu Skálholt frá því jörðin komst í eigu Hannesar Finnssonar biskups árið 1785, þar til ríkið eignaðist jörðina árið 1935.
Þegar Hannes biskup lést árið 1796 tók ekkja hans, Valgerður Jónsdóttir (1771-1856), sem var 32 árum yngri en Hannes, jörðina í arf. Eftir lát hennar árið 1856 gekk jörðin til dóttur hennar og Hannesar, Þórunnar (1794-1886). Við lát hennar varð jörðin eign sona hennar Árna (1828-1907)  og Steingríms (1831-1913) Thorsteinssona. Árni var landfógeti og Steingrímur eitt þjóðskálda okkar.  Ég er reyndar ekki orðinn alveg viss um að Steingrímur hafi erft jörðina ásamt bróður sínum, en það mun koma í ljós. Hvað um það.

Eftir að Árni lést sat ekkja hans Sophie Christine Hannesdóttir Thorsteinsson (1839-1914) í óskiptu búi til dauðadags. 
Erfingjarnir voru þá afkomendur þeirra Árna landfógeta og Sophie, en þeir voru:
Hannes Thorsteinsson (1863-1931), Árni Thorsteinsson (1870-1962), tónskáld, Þórunn Ziemsen Thorsteinsson (1866-1943)  og börn Sigríðar Thorsteinsson (1872-1905) Árni Pálsson (1897-1970) og Kristín Pálsdóttir (1898-1940).

Þegar ríkið keypti jörðina voru eigendur hennar svo þessir:
1/3 hluti: Þórunn Árnadóttir Siemsen Thorsteinsson (1866-1943) dóttir Árna landfógeta.
1/3 hluti: Árni Thorsteinson (1870-1962) tónskáld, sonur Árna landfógeta.
1/6 hluti: Árni Pálsson (1897-1970), sonur Sigríðar Árnadóttur Thorsteinson.
1/6 hluti: Kristín Pálsdóttir (1898-1940), dóttir Sigríðar Árnadóttur Thorsteinson.


Valgerður biskupsekkja bjó í Skálholti til 1816, en eftir það bjuggu þar leiguliðar á tveim hálflendum, sem voru kallaðar vesturbær og austurbær. Ekki hefur mér tekist að finna út, endanlega hvor bærinn var hvað, en það skiptir nú ekki öllu máli í þessu samhengi. Hinsvegar tel ég að tíminn frá því biskupsstóllinn var fluttur "í bæinn" 1786, og þar til ný dómkirkja var vígð 1963, hafi verið mesti niðurlægingartími í sögu Skálholts. Kirkjan sinnti staðnum ekki og þar var ekki einusinni prestssetur. Á þessum tíma þjónuðu prestar á Ólafsvöllum eða Torfastöðum þessum  mikla stað. Hvernig mátti þetta vera? 

Ábúendurnir
Ég þykist vera búinn  að taka saman lista yfir leiguliðana í Skálholti á þessum tíma. Þarna var bæði fólk sem rak myndarbú og fólk sem miður gekk í baslinu. Þessi listi lítur svona út:  

Vesturbær

1816-1833 Jón Jónsson og Rannveig Jónsdóttir
1833-1860 Eiríkur Jónsson og Guðrún Bjarnadóttir
1860-1874 Erlendur Eyjólfsson og Margrét Ingimundardóttir
1874-1880 Þórður Halldórsson og Margrét Ingimundardóttir
1880-1883 Ingimundur Erlendsson og Guðfinna Erlendsdóttir
1883-1900 Grímur Eiríksson og Guðrún Eyjólfsdóttir
1900-1911 Skúli Árnason og Sigríður Sigurðardóttir
1911-1927 Skúli Árnason og Steinunn Sigurðardóttir (bústýra)
1927-1939 Jörundur Brynjólfsson og Þjóðbjörg Þórðardóttir (Skálholt verður eitt býli)

Austurbær

1816-1834 Jón Jónsson og Halla Magnúsdóttir
1834-1862 Ólafur Helgason og Ingiríður Einarsdóttir
1862-1870 Ingiríður Einarsdóttir og Helgi Ólafsson(sonur hennar)
1870-1877 Helgi Ólafsson og Valgerður Eyjólfsdóttir
1877-1897 Einar Kjartansson og Helga Hjörleifsdóttir
1897-1901 Guðmundur Erlendsson og Þórunn Stefánsdóttir
1901-1911 Jón Bergsson og Hallbera Jónsdóttir
1911-1916 Marel Halldórsson og Valgerður Vigfúsdóttir
1916-1919 Jón Gunnlaugsson og Jórunn Halldórsdóttir
1919-1922 Jón Gunnlaugsson
1922-1939 Jörundur Brynjólfsson og Þjóðbjörg Þórðardóttir
1939-1948 Jörundur Brynjólfsson og Guðrún Helga Dalmannsdóttir
1948-1950 Eyþór Einarsson og Guðfinna Dagmar Hannesdóttir (bústýra)
1950-1993 Björn Guðmundur Erlendsson og Ingunn María Eiríksdóttir




Nú má ég.

Á vígsludegi hinnar glæsilegu dómkirkju, þann 21. júlí, 1963, afhenti kirkjumálaráðherra, dr. Bjarni Benediktsson, þjóðkirkjunni Skálholt til varðveislu og eflingar kristninni í landinu. 
Við getum staldrað við og velt fyrir okkur hvort það hafi verið rétt. 
Hvernig átti þessi staður að verða til eflingar kristninni í landinu? 
Hvernig hefur til tekist? 
Hefur kirkjunni tekist að efla kristnina í landinu, með húsinu og jörðinni sem henni voru færð í hendur á vígsludeginum? 
Er hægt að halda því fram að kirkjan hafi staðið sig í stykkinu, sem eigandi og ábyrgðaraðili staðarins? 
Það er ekki nóg að byggja hús. Fleira verður að koma til.

Þar sem ég er ekki stjórnmálamaður, treysti ég mér ekki til að slá hér um mig með stóryrðum um málefni Skálholtsstaðar, en mér finnst að framundan megi greina bjartari tíma á staðnum. 

Þrennskonar Skálholt.


Kirkjustaðurinn
Það fer ekki á milli mála, að í Skálholti er ein þriggja dómkirkna á Íslandi. Hin íslenska þjóðkirkja á að tryggja það að frá staðnum berist boðskapurinn sem hún stendur fyrir. Henni ber, í samræmi við hlutverk sitt, að efla staðinn sem kirkjustað, ekki bara gagnvart þeim fáu sálum sem í nágrenninu búa, heldur meðal þjóðarinnar allrar. Ekki lítil ábyrgð það. 
Skálholtshátíð er haldin á hverju sumri en ég fæ ekki séð að þar fyrir utan sé mikið um stórar kirkjulegar athafnir í Skálholtsdómkirkju. Ekki fæ ég heldur séð að söfnuðurinn sem kirkjuna sækir heim á öðrum dögum ársins sé ýkja stór. Það er aðallega vegna sérstakra viðburða að fólk fyllir stundum kirkjuna. Fólk safnast þar inn til að kveðja ástvini, vini eða sveitunga. Fólk sækir tónleika talsvert og fólk leggur leið sína í kirkjuna til að njóta menningar og þess andblæs sögunnar sem þar er að finna.

Sögustaðurinn
Það er okkur flestum ljóst, að Skálholt er einn merkasti sögustaður landsins. Ég ætla ekki að fjölyrða um allar þær ástæður sem má telja fram þeirri fullyrðingu til staðfestingar. Biskupssetur um aldir, vettvangur stórra atburða og skólasetur.


Menningarstaðurinn
Dómkirkjan sjálf er listaverk sem Hörður Bjarnason skapaði og altarismynd Nínu Tryggvadóttur og gluggar Gerðar Helgadóttur eru einstök trúarleg verk. Gjafir frændþjóða okkur  setja svip á bygginguna að innan og utan. Uppi í turni er mikið bókasafn sem bíður þess að komast í aðgengilegra húsnæði. Tónlistin fær að blómstra.

Get ég?

Hér er ég sennilega kominn að viðkvæmasta hlutanum í þessum pistli fyrsta sumardegi þessa árs. Er þjóðkirkjan, í þeirri stöðu sem hún er í samfélaginu, fær um að bera ábyrgð á Skálholtsstað og sýna honum þá virðingu sem honum ber? Aðrir eru sjálfsagt betur færir til að svara þeirri spurningu, en fyrir mig get ég sagt, að það stjórnkerfi sem staðurinn hefur búið við frá því þjóðkirkjan fékk hann í hendur, hefur ekki virkað honum í hag. Þar kemur tvennt til:
- Það hefur ekki ríkt einhugur um hvert á að stefna með staðinn. 
Það eru þeir sem vilja að hann þjóni fyrst og fremst hagsunum kirkjunnar, eða trúarinnar. 
Það eru þeir sem vilja líta á hann fyrst og fremst sem sögustað og efla hann á þeim grunni.
Það eru þeir sem sjá hann aðallega fyrir sem stað þar sem menning og listir fá að blómstra. 


Það má segja, eins og þetta hefur blasað við mér, í það minnsta, að milli þessara mismunandi áhersluþátta hafi verið, eða séu, átök sem hafa leitt til þess að fátt hefur þokast í átt til viðhalds á staðnum eða eflingar hans. Þá má jafnvel ganga svo langt að hann hafi stöðugt verið að missa þann sess sem honum var ætlaður með byggingu dómkirkjunnar.
- Þjóðkirkjan er ekki sú stofnun lengur sem hún eitt sinn var og iðkun kristinnar trúar er á undanhaldi, með þeim afleiðingum að fólk er síður tilbúið að láta fé af hendi rakna til viðhalds og uppbyggingar á stöðum eins og Skálholti, þar sem þjóðkirkjan er við stjórnvölinn.

Megum við núna?

Nú hafa verið gerðar þær breytingar á því kerfi sem vonandi tekst að verða til þess að halda áfram verkinu sem upp var lagt með gjöfinni 1963. 

Ég vona, að nú sé búið að gera þær breytingar á stjórnun mála í Skálholti, að það takist að vinna sig í áttina að þeim einhug um framtíð staðarins, sem verður að nást. Hann er alveg nógu stór til að rúma áherslur á þá þrjá þætti sem ég nefni hér fyrir ofan.

Ljósblettir


Kristján Björnsson, vígslubiskup fjallaði um málefni Skálholts í Litla Bergþór í desember síðastliðnum. hann nefnir þar ýmislegt sem gert hefur verið nú siðustu ár, það sem unnið að núna og það sem framundan er. 
Það helsta sem lokið er má segja að séu þau stóru verkefni sem voru endurgerð listglugga Gerðar Helgadóttur og altarismyndar Nínu Tryggvadóttur. Þá er búið a hreinsa upp minjasvæðið og lagfæra undirganginn sem liggur úr kirkjunni út í minjasæðið
Nú er unnið að því að móta Þorláksleið, sem mun liggja frá Þorlákssæti og allt að Þorlákshver, sem er tæplega 5 km spotti, þar sem sagan drýpur af hverju strái.

Framundan eru miklar framkvæmdir við kirkjuhúsið. Þakið verður endurgert, svo og gluggar í turnhúsi, húsið málað að utan og innan, kirkjutröppurnar fá yfirhalningu og fyrirhugað er að endurhanna alla lýsingu í kirkjunni.
Væntanleg er ný klukka í stað þeirra sem féll og brotnaði.
Biskupshúsið, sem nú kallast Gestastofa eða Gestahús hefur verið endurhannað til að mæta nýju hlutverki, sem móttökustaður fyrir ferðamenn, bókasafn og prentsögusetur.
Fyrir utan Þorláksleið, er framundan mikil skógrækt í samvinnu Skógræktarfélags Íslands og Kolviðar, svo hefur verið settur kraftur í að selja veiði í Brúará og Hvítá.
Þeta er svona listi yfir hitt og þetta sem segja má um stöðu staðarins núna. Vísast mætti nefna ýmislegt fleira.
---------------------
Ég hef að undanförnu verið að öðlast meiri trú á að það takist að gera Skálholt að þeim stað í hugum fólks að það afgreiði hann ekki sem eyðistað í miðaldamyrkri, þar sem nokkrir trúaðir menn biðja til Guðs. Hann á meira skilið.

Gleðilegt sumar og þakkir mínar til ykkar, sem hafið látið það eftir ykkur að renna yfir pistla mína á þessum vettvangi.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...