28 apríl, 2021

Sérann, stungan og lögbrotið.

Það var einmitt þegar ég var að byrja að sannfærast um, að ég væri ekki til lengur, að allt tók að gerast. Ég ætla ekki að fjölyrða um þakklæti mitt og léttinn sem felst í því að uppgötva að maður er til; hluti af samfélaginu, virkur þátttakandi í göngunni milli fæðingar og dauða; eitthvað meira en algert núll. 
Ég enduruppgötvaði tilveru mína nú á síðustu dögum og er því upprisinn til hópsins telst vera menn með mönnum. 

Þetta byrjaði með því að við fD ákváðum að skipta um bíl, en eins og þeir sem mig þekkja, þá er ég ekkert sérstaklega fljótur til þegar framkvæmdir eru annars vegar.  
Allavega létum við verða af því að kíkja á bílsölu í bænum, svona til að sjá hvaða möguleikar voru í stöðunni. Ef einhver stefna var fyrir hendi þá snérist hún um að skella sér á einhvern "nýjan úr kassanum", sem við gætum kinnroðalaust ekið um vegi landisns næstu árin, en eins og við öll vitum þá mun þrengja æ meira að hreinum jarðefnaelsneytisknúðum bifreiðum, fyrr en nokkurn grunar.  Aðspurður um hve langan tíma það tæki að fá nýjan bíl, kvað sölumaðurinn það geta tekið allt að þrem mánuðum ef sérviska okkar í vali á hinu og þessu væri þess eðlis að slík bifreið væri ekki til á landinu. Ekki ætla ég að hafa um það mörg orð, svo sem, en við fengum að prófa einn, "konubíl" í merkingunn að kona hafði átt hann, ekinn örfáa kílómetra. Það skipti engum togum, að við ókum heim daginn eftir á "séranum", sem ég hef kosið að kalla gripinn.

Það næsta sem gerðist, eftir að ég hafði þurft að sitja undir nánast stanslausri gagnrýni fD á heilbrigðisyfirvöld hér á svæðinu, vikum saman, í svo miklum mæli, að ég var sjálfur farinn að trúa því að ég hefði dottið úr þjóðskrá, að í símann komu skilaboð um að ég skyldi mæta á tilteknum stað á tilteknum tíma þann 29. apríl til að fá í upphandlegginn Astra Zeneca bóluefni við Covid-19.

Þegar þarna var komið var nú farin að léttast á mér brúnin og ég byrjaður að vera til aftur. Ég var farinn að sjá aftur til sólar og lét vaða út í sólstofu eins og hinir öldungarnir hér í umhverfi mínu. Leyfði orkugefandi geislum sólar að baka mig, þó vissulega passaði ég mig á því, að sýna ekki allt (eða of mikið), því það hefði getað valdið umferðaröngþveiti hér fyrir framan.

Svo er að segja frá því tilviki þegar ég sannfærðist endanlega um tilveru mína að morgni þessa sólardags, en þá vorum við fD á leið úr stórverslun við Ölfusárbrú. Í baksýnisspegli sérans birtist þá lögreglubifreið, sem olli því að góð ráð urðu dýr. Það er nefnilega þannig, að til þess að komast heim til okkar úr ofangreindri átt, er um tvennt að ræða: annaðhvort að beygja yfir óbrotna línu, í veg fyrir umferðina sem á móti kemur (og brjóta þannig lög), eða aka langar leiðir, snúa þar við og koma að innkeyrslunni úr hinni áttinni. Með lögreglubifreiðina á hælunum, var tekin ákvörðun í skyndi, um að brjóta ekki lögin, heldur aka langar leiðir til að koma réttu megina að. Til þess að komast hjá mögulegum sektum tilgreini ég ekki hér, hvernig ég fer alla jafna heim til mín við þessar aðstæður. 

Þarna  var ég, tvísannfærður um að ég væri til sem virkur  einstaklingur í samfélaginu, ákveðinn í að kalla ekki fram þriðju staðfestinguna, umkringdur blikkandi ljósum lögreglunnar í Árnessýslu.

Það er ágæt tilfinning að vera til.

Engin ummæli:

Tungnamenn vildu kaupa

Ég hef stundum fjallað um Laugarás í þessum pistlum og ekki að ósekju. Uppsveitahrepparnir eignuðust Laugarásjörðina þegar þar var sett niðu...