Sýnir færslur með efnisorðinu Guðríður Erna Halldórsdóttir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Guðríður Erna Halldórsdóttir. Sýna allar færslur

06 mars, 2018

Töffari

Erna var farin að velta fyrir sér hvort ekki væri bara réttast að flytja til Tenerife. Lét þeim pælingum fylgja, að hún nennti ekki "þessu rugli" lengur. Hún var ekkert að skafa utan af hlutunum frekar en fyrri daginn þessi baráttukona fyrir betra veðri, réttlátara samfélagi og fjölskyldunni.
Veðrið var síðasta umfjöllunarefni hennar á Facebook síðuna sína, daginn sem hún lést öllum að óvörum, þann 25. febrúar, nýskriðin inn á 73. aldursárið.

Guðríður Erna Halldórsdóttir hét hún og leiðir okkar lágu saman í allmörg ár, þegar hún var gjaldkeri Mötuneytis Menntaskólans að Laugarvatni. Á samskipti okkar bara auðvitað aldrei skugga, enda held ég að við höfum haft svipaða sýn á flest sem skiptir máli og það sem er fyndið, allavega  hlógum við yfirleitt á sömu stöðum, hún þessum grallaralega hlátri þess sem lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Tepruskapur er það síðasta sem ég gæti tengt við þessa ágætu samstarfskonu. Það var nú eitthvað annað.

Svo hætti hún á Laugarvatni þegar hún hafði aldur til. Hvarf niður á Selfoss og þaðan fékk ég að fylgjast með henni og fjölskyldu hennar. Þó svo flest það sem hún sendi frá sér á samfélagsmiðlum bæri með sér svipaðan keim og fram kemur hér efst, var annað uppi á teningnum þegar hún birti myndir af barnabörnunum, eða deildi fréttum af knattspyrnumanninum sínum í Ísrael eða tónskáldinu sínu, sem hún missti af að fylgja síðasta spölinn í undankeppni Evrópusöngvakeppninnar. Hún var afar stolt af afkomendum sínum og mig grunar að þeir hafi átt hauk í horni í ættmóðurinni.

Á Laugarvatni var hún hinsvegar Erna gjaldkeri, sem stóð við og við upp, kom inn á kaffistofu til að "kjafta", eins og hún myndi kalla það.

Já, mér líkar vel við svona konur, konur sem mæðast ekki í hlutunum, segja hug sinn án þess að skreyta meiningu sína neitt sérstaklega, eru fyndnar án þess að það komi illa við nokkurn mann. Það duldist þó aldrei að undir alveg sæmilega hrjúfu yfirborðinu bjó einstakt hjartalag þess sem kallaði stöðugt eftir réttlæti og sanngirni.  Það var ekkert verið að berja sér á brjóst, bara gengið í verkin af festu.

Ég ætla ekki að halda því fram, að ég hafi endilega gjörþekkt hina raunverulegu Ernu, reyni bara að búa til mynd af henni eins og hún kom mér fyrir sjónir. Ef sú mynd er nokkuð rétt, þá hefur nú kvatt hin ágætasta kona og ég mun sakna þess að sjá ekki lengur færslurnar hennar á hreinni íslensku, lausri við skrúðmælgi.

Ég neita því ekki, að mér finnst það sóun á mannauð, að missa Ernu. Hún átti margt ósagt og mörg ár inni til að njóta í samvistum við fólkið sitt. Um það er bara ekki spurt frekar en fyrri daginn.
Ætli frúin sé bara  ekki komin til sinnar Tenerife, þar sem veðrið leikur við hana.

Samúðarkveðju læt ég fylgja til Viðars og allra afkomendanna.

Útför Ernu er gerð í dag frá Selfosskirkju.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...