Sýnir færslur með efnisorðinu skólamál. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu skólamál. Sýna allar færslur

05 september, 2020

Laugarás: Hvað ef þetta hefði gengið eftir?


Þann 6. apríl, árið 1972 var haldinn svokallaður almennur sveitarfundur í Aratungu. Þar var meðal annars fjallað um skólamál í uppsveitunum. Á þessum tíma var Þórarinn Þorfinnsson á Spóastöðum, oddviti hreppsnefndar. Arnór Karlsson, ritari fundargerða hreppsnefndar, ritaði fundargerð þessa fundar. 
 Á þessum tíma var ég nú bara unglingsræfill sem vann við brúarsmíðar á sumrin og gekk í ML á vetrum. 
 Ætli þetta sé ekki nægilegur formáli að þeim lið í fundargerðinni þar sem fjallað var og ályktað um skólamálin. Ekki á ég von á að þetta falli öllum í geð, en hafa ber í huga, að það er tæp hálf öld síðan þetta var. 
Ég mun freista þess að skrifa lítilsháttar viðbrögð við þessu, í lokin. Feitletranir eru mínar.

 

2. Skólamál

Sveinn Skúlason, formaður skólanefndar Reykholtsskólahverfis, reifaði þessi mál.

Sagði hann frá fundi, sem haldinn var í Árnesi í Gnúpverjahreppi, fyrr á þessum vetri með skólanefndamönnum og oddvitum í uppsveitum Árnessýslu. Þar var fjallað um framtíðarskipan fræðslumála í þessum sveitum. Einnig sagði hann frá umræðum um fræðslumál, sem fram fóru á aðalfundi Sambands sveitarfélaga í Suðurlandskjördæmi 25. marz, s.l, og tillögum til umræðna um skólaskipan á Suðurlandi, sem fulltrúar Menntamálaráðuneytisins lögðu þar fram.

Þórarinn Þorfinnsson ræddi þessi mál og lagði fram frumdrög að tilllögum til samþykkta.

Þorsteinn Sigurðsson tók til máls og drap á nokkkur atriði í sögu skólamála í Biskupstungum. Hann taldi, að mörg rök mæltu með að byggður væri skóli fyrir efstu bekki skyldunámsins í Laugarási og lýsti eindregið stuðningi sínum við þá hugmynd.

Taldi hann heppilegt að stofna búnaðarskóla á Laugarvatni. Grímur Ögmundsson lýsti stuðningi við þá hugmynd.

Sveinn Skúlason tók til máls og gaf nokkrar, nánari skýringar og óskaði eftir smávægilegum orðalagsbreytingum á tillögum Þórarins.

Tillögurnar voru síðan bornar upp og samþykktar samhljóða.

Þær voru á þessa leið:

Á almennum sveitarfundi í Biskupstungum, höldnum í Aratungu 6. apríl, 1972, þar sem rætt var um skólamál í uppsveitum Árnessýslu, með hliðsjón af nýjum tillögum Menntamálaráðuneytisins um skipan fræðslu- og skólamála á Suðurlandi, var samþykkt eftirfarandi:

1. Fundinum er ljóst, að til þess að leysa fræðslumálin á viðunandi hátt á þessu svæði, verða mörg sveitarfélög að vinna saman með rekstur skóla fyrir efstu bekki skyldunámsins og telur eðlilegt að sveitir þær, sem mynda Laugaráslæknishérað, vinni saman að lausn þessa máls.

2. Fundurinn telur Laugarvatn ekki heppilegan stað fyrir slíkan skóla. Bendir í því sambandi á að Laugarvatn er alveg úti á jaðri þess svæðis sem skólann á að sækja og því lítið hægt að koma við daglegum heimanakstri, vegna fjarlægðar, en mikill heimanakstur er talinn mjög æskilegur.

Einnig er vafasamt, að heppilegt sé, að setja svo marga, ósamstæða skóla hvað aldur nemenda snertir, á einn stað, eins og er á Laugarvatni.

3. Fundurinn vill benda á Laugarás, sem heppilegan stað fyrir slíkan, sameiginlegan skóla uppsveitanna. Til stuðnings við Laugarás má nefna:

a. Laugarás er miðsvæðis, og skóli vel settur þar með tillliti til daglegs heimanaksturs.

b. Í Laugarási, sem er sameign Laugaráshéraðs, er vaxandi þéttbýli og öll nauðsynleg þægindi fyrir slíka stofnun.

c. Barnaheimili Rauða krossins í Laugarási þarf endurbyggingar við og virðist eðlilegt að samvinna væri höfð við Rauða krossinn um bygginguna, þannig að skólinn væri notaður fyrir barnaheimili að sumrinu. Nýtist þá húsið betur og rekstur þess yrði hagkvæmari.

d. Ekki er ólíklegt að einhver samvinna gæti orðið um kennslukrafta milli skólans í Laugarási og skólans sem verið er að reisa í Skálholti, þar sem svo stutt er á milli. Einnig er ekki lengra til Reykholts en það, að sami sami kennari gæti kennt á báðum stöðunum, ef það þætti henta.

 

Ég viðurkenni það, hér og nú, að ég hafði ekki búist við að sjá samþykkt af þessu tagi á almennum sveitarfundi í Aratungu. Þá neita ég því ekki, að ég hlakka dálítið til að kynna mér fundargerðabækur oddvitanefndar Laugaráslæknishéraðs þarna um vorið 1972. Því miður virðast gjörðabækur annarra sveitarfélaga í uppsveitum, frá þessum tíma ekki vera aðgengilegar á vefnum enn, en það væri fróðlegt að kynna sér hvaða samþykktir áttu sér stað þar, um þetta efni. 

Ég veit veit hvernig fór með þessa samþykkt, en mér er ekki ljóst enn, hvað leiddi til þess að svo fór sem fór. 

Það eru spennandi tímar framundan hjá þessum nörd.

18 nóvember, 2016

Gamalt en mögulega einnig nýtt (2)

Bókin

Hér held ég áfram að skella inn köflum og kaflabrotum úr sömu bók og síðast. margt að því sem þarna er að finna er eilífur sannleikur, annað hefur breyst með breyttum lífsháttun, tækniþróun og öðru.  Það var þannig að allt í einu vantaði mig bók til að lesa og renndi í gegum bókastaflann á heimilinu. Nennti ekki að byrja á Laxness safninu eða Íslendingasögunum og endaði því á óhefðbundnari ritverkum, þar sem ég fann þessa bók. Húnvar gefin út í íslenskri þýðingu Jóns Þórarinssonar árið 1917 af Bókaverzlun Sigfúsar Eymundssonar og var prentuð í Prentsmiðjunni Gutenberg. Titill hennar er BÖRN og undirtitill Foreldrar og kennarar og hún er eftir einhvern D.C. Murphy sem mun hafa verið "skóla umsjónarmaður í Ameríku" Um bókina segir þýðandinn m.a.: "þar þykir mikið til hennar koma og séð hef ég hana nefnda »kennslubók kennaranna og húslestrarbók heimilanna«.

Alþúðubl. 11.09.1943
Ökuskírteini Guðmundar, gefið út um ári áður en hann lést.

Eigandi bókarinnar

Bókin er merkt Guðmundi Þórarni Runólfssyni (1918-1943), en hann lést í slysinu sem lesa má um hér til hliðar. Bókin var gefin út ári áður en hann fæddist og hann hefur líklega eignast hana alllöngu seinna. Í Kvistholt barst bókin úr dánarbúi foreldra fD, en Guðmundur var föðurbróðir hennar.
Ekki vitum við margt um lífshlaup Guðmundar, annað en að hann fæddist í Heiðarseli á Síðu og að hann starfaði á Hvanneyri um það leyti sem hann lést. Það væri nú fengur í því ef einhver vissi eitthvað um Hvanneyri í kringum 1940, eða einhver gögn um lífið þar á þeim tíma.



 Guðmundur (fjórði f.v.), móðir hans, Sigurbjörg
Þórarinsdóttir og bræður, um 1925,
Gísli, f. 19. nóv. 1911, d. 23. apr. 1932,
Þorsteinn, f. 22. okt. 1913, d. 30. sept. 1991,
Ólafur, f. 16. des. 1914, d. 13. jan. 1939,
Guðmundur, f. 2. júní 1918, d. 9. okt. 1943 og
Þorvaldur, f. 4.1.1920, d. 15.3.2007.


 Úr bókinni

Ég ætlaði, sem sagt, að setja inn nokkur gullkorn úr þessari bók, en þar kemur í ljós, eins og búast mátti við, að manneskjan breytist ekki mikið, þó umhverfi hennar breytist. 

Foreldrar og kennarar

1. Sambandið milli foreldra og skóla.
Sumir hafa þá skoðun, að skólinn sé staður þar sem börnum sé komið fyrir til pössunar, en að öðru leyti er þeim lítið hugarhaldið um skólann eða kennarann. En þetta er röng hugsun. Verki foreldranna er ekki lokið með því að klæða börnin og sjá þeim fyrir líkamlegum þörfum; þeir hafa heldur ekki gert alla skyldu sína með því að láta þau ganga reglulega í skóla. Ef foreldrunum er áhugamál að börn þeirra komist  vel áfram og njóti svo góðrar skólafræðslu sem kostur er, þá verða þeir að neyta allra ráða til að gera þeim kost á því, búa sem allra best í haginn.

2. Hugmyndir foreldra um kennara
Foreldrar hafa mjög ólíkar skoðanir um það, hvað geri kennarann góðan fræðara. það minnir á munnmælasöguna um riddara, sem deildu um skjöldinn, hvað efni væri í honum; annar sagði að í honum væri silfur, en hinn að hann væri úr gulli. Þrátt þeirra endaði í einvígi. Þeir skilmdust langa stund, en með því að áþekt var um vígfimi þeirra og hreysti, bar hvorugur sigur úr býtum. Loks féllu báðir, örmagna af þreytu. Þá bar að þriðja riddarann, og báðu þeir hann að skera úr, hvor hefði rétt fyrir sér. Þegar hann fór að rannsaka skjöldinn reyndist hann öðru megin úr  gulli, en úr silfri hinumegin.

3. Tvennskonar foreldrar
Einhver hefur sagt að öllum foreldrum megi skifta í tvo flokka, skynsama og óskynsama. Ekki er allur sannleikurinn sagður með því, en það gefur fyllilega hugmynd um hvað er sannleikur í þessu efni. Fyr nefndi flokkurinn er langt um fjölmennari; en hinn síðarnefndi veldur öllum erfiðleikunum. Meðal óskynsamra foreldra eru þeir, sem hafa þá mölétnu hugmund að »kennarinn verði að fara eins með öll börn«.   Mörg ár eru síðan þessi hugmynd reyndist jafn óheilbrigð eins og hún er gömul. 
Kennarinn verður að fást við mjög ólíkt eðlisfar barna, sum þarf svo sem ekkert að aga; sum er auðvelt að aga, og við sum veitir ekki af að beita öllum þeim ráðum sem kennarinn kann. Læknir sem gæfi öllum sjúklingum sama lyf, myndi lækna suma en drepa suma.

4. Áhugaleysi foreldra
Hversu mjög gætu foreldrarnir stutt að því að skólinn ynni gott gagn, ef þeir fengju svo mikinn áhuga á skólavinnunni að þeir létu börn sín vera við nám í það minsta stundarkorn á hverjum degi! Foreldrar eru stundum algerlega hirðulausir um uppeldi barna sinna, og þó er gott uppeldi besti arfurinn sem þeir gætu leift þeim.  Eitt af verstu meinum vorrar þjóðar er slæpingshátturinn.
Á engan hátt geta heimilin stutt skólann að starfi betur en þann, að gæta barnanna sem best þann tímann, sem þau eru ekki í skólanum - varna því að þau leggist í iðjuleysi; að þau séu með góðum leiksystkinum og að ekkert hindri þau frá að sækja skólann reglulega.

5. Hirðulausir foreldrar.
Foreldrar sem eru hirðulausir um það, hvort börn þeirra sækja skóla reglulega, eru versta hindrun í starfi kennarans. Sumir foreldrar sýna aldrei að þeir skeyti  mikið um börn sín - fyr en þeim er refsað í skólanum, eða önnur börn tekin fram yfir þau; þá ranka þeir við sér; og mörg börn í barnaskólunum okkar fá litla hjálp eða upphvatningu heima fyrir. Það er eins og foreldrarnir segi við kennarann: »Ég fæði barnið og klæði, hitt verðið þér að gera« Fyrir getur það komið, að foreldrar undrist yfir því að ekkert heyrist um óþekt barna þeirra í skólanum, þó þeir ráði ekkert við þau heima.

6. Aðfinslur foreldra.
Annað er það sem oft angrar kennara en það eru aðfinslur foreldra barnanna, sem oft eru á reiðum höndum. Einn sagði: »Ekki gest mér að hvernig sá kennari kennir reikning; alt öðru vísi var mér kent«.  Drengurinn hans festr orðin í minni af því að faðir hans sagði þau, og honum þykir fremur gaman að því að eitthvað er út á kennarann að setja. Þegar hann fer í skólann, hljóma orð föður hans  í eyrum honum  og í reikningstímanum ber hann með sjálfum sér brygður á að kennarinn fari rétt með reikningsdæmin.  Hefði faðir hans verið skynsamur maður, þá hefði hann getað sagt sem svo:  »Aðferðirnar eru öðruvísi nú, en þær, er ég vandist, og líklega betir, því að allar kennsluaðferðir eru betri nú en áður.«  Þá hefði drengurinn farið í skólann með sannfæringu um að kennarinn hans segði betur til en kennarar föður hans höfðu gert.  
Stundum þarf að ávíta barn fyrir eitthvað í skólanum. Barnið fer heim og segir frá ofanígjöfinni, og gerir svo lítið úr misgjörð sinni sem það þorir. Foreldrarnir hafa heyrt einungis annan málsaðilann, hugsa að kennarinn hafi haft rangt  fyrir sér og segja það til allrar óhamingju svo barnið heyrir. Það fer aftur í skólann næsta dag, er nú í uppreisnarhug, gerir meira fyrir sér en fyrri daginn og er refsað þunglega. Þá er ekki einungis grátur í skólastofunni, heldur gnístran tanna á heimilinu.

7. Vinátta og heimsóknir
Milli kennara og foreldra ætti að vera innilegt vináttusamband og ef svo er ekki, þá er eitthvað athugavert, annaðhvort við kennarann eða foreldrana, og þá ættu þeir þegar að skilja að skiftum.
Í of mörgum sveitum má kennarinn heita ókunnur maður foreldrum barnanna. Sumstaðar koma foreldrar aldrei til kennarans, nema til að kæra yfir einhverju. Engin eftirtekt er veitt starfi hans, nema þegar eitthvað ber út af. Góð áhrif sem hann hefur á börnin eru skoðuð sem sjálfsagður hlutur; aldrei heyrir hann hlýtt orð fyrir það; en verði honum eitthvað á, þá hljóma áfellisdómar fjöldans bæði hátt og djúpt.

------------------------
Ég sé til hvort ég set inn eitthvað fleira úr þessari bók, en nú sem fyrr skiptir aðkoma foreldra að uppeldi barna sinna höfuðmáli, ekki aðeins til þess að vernda þau frá öllu illu, heldur til að beina þeim inn á þær brautir sem best munu gagnast þeim þegar þau vaxa úr grasi.

24 júní, 2016

Seríos áskorunin

"Börn í leik" Dröfn Þorvaldsdóttir (2015)
Þar sem  ég hef ákveðið að blanda mér ekki í mismislita umræðuna sem á sér stað um Brexit, forsetakosningar eða EM, hef ég þessu sinni valið mér að fjalla í stuttu máli, auðvitað, um börn og foreldra (aðallega feður, að mér sýnist).
Ef ekki fæddust nein blessuð börn væri mannkynið sannarlega í djúpum skít - en það fæðast börn. Reyndar eru íbúar svokallaðra þróaðra þjóða, sem mér sýnist að, að mörgu leyti megi kalla úrkynjaða (þetta var illa sagt og vanhugsað - kannski), komnir að þeirri niðurstöðu, að börn séu til vandræða fremur en eitthvað annað.  Í það minnsta fækkar börnum meðal þessara þjóða og ég ætla ekki að hætta mér út í vangaveltur um ástæðurnar, þó á þeim hafi ég vissulega ótæmandi úrval skoðana.


Hversvegna ætti fólk að eignast börn, yfirleitt?
Varla fyrir slysni, enda hægur vandi að skipuleggja barneignir á þessum tímum.
Ég get alveg tínt til nokkrar mögulegar ástæður.

1. Meðfædd þörf mannskepnunnar, eins og annarra dýra, að geta af sér afkvæmi. Það er reyndar ekkert meira um það að segja. Örugglega góð og gild ástæða.

2. Krafa stórfjölskyldunnar (ekki síst mæðra, ímynda ég mér) um að fjölgun eigi sér stað. Með öðrum orðum, utanaðkomandi þrýstingur. "Er eitthvað að? Geturðu ekki átt börn?"

3. Þörf samfélagsins til að til verði einstaklingar til að standa undir samfélagi framtíðarinnar. Það verður að búa til framtíðar skattgreiðendur til að halda hjólunum gangandi, standa undir efnahagslegum vexti. Það þurfa alltaf að vera til neytendur framleiðslunnar. Einhvernveginn  þarf að borga fyrir heilbrigðisþjónustu, ævikvöld foreldranna og annað það sem hver kynslóð þarf að geta  staðið undir.

4. Þrýstingur jafnaldra. Allir vinirnir eru búnir að eignast börn og birta dásemdar myndir af á þeim á samfélagsmiðlum. Þessar myndir tjá endalausa hamingju foreldranna. "Þetta er frábært! Ætlar þú ekki að fara að koma með eitt?"

5. Sú hugmynd að börn séu stöðutákn. Þau sýna fram á að foreldrarnir eru færir um að fjölga sér og sjá fyrir sér og sýnum. Foreldrar og börn njóta virðingar umfram þá sem einhleypir eru eða barnlausir.

6. Krydd í tilveru hverrar manneskju. Sá tími kemur að djammið um hverja helgi fullnægir ekki lengur þörfinni fyrir merkingarbært líf. Tákn um það að einstaklingurinn er orðinn fullorðinn og maður meðal manna. Nýr taktur í lífið.

Ég gæti örugglega haldið lengi áfram að skella fram mögulegum ástæðum fyrir barneignum fólks. Það má segja að allar ástæðurnar sem ég taldi hér fyrir ofan tengist með ýmsum hætti og að þannig ráði oftast ekki ein ástæða umfram aðrar. Ég held því hinsvegar fram, að þegar ákvörðun er tekin um að eignast barn, ráði ástæða númer þrjú minnstu.

Hvað um það, barn er getið og það fæðist, eftir dálítið dass af bumbu- og/eða fósturmyndum á facebook. Það er hægt og bara harla auðvelt, að deila hamingju foreldranna með öðrum, og hversvegna þá ekki að gera það?

Það er okkur öllum ljóst, að öllum foreldrum finnst sitt barn fallegast og best. Því ekki að fá staðfestingu á því? Það er alltaf gott að fá hrós. Við höfum öll þörf fyrir það.  Við þekkjum öll slíkt hrós: "AWWWW", "Dúllan", "Þetta krútt" og svo framvegis.

Sumum er þetta ekki nóg, og ganga lengra.  Það má jafnvel segja, að hrósþörfin verði að fíkn, að gleðin og hamingjan vegna krúttsins verði æ mikilvægari eftir því sem það verður fyrirferðarmeira.
Það verður smám saman ekki nóg að birta krúttmyndir með fyrirsjáanlegum viðbrögðum. Það þarf meira.
Þá koma oftar en ekki til hugmyndaríkir pabbar. Dæmin felast í myndunum sem hér fylgja.

Er rétt að líta á börn sem leikföng, eða nota þau í því samhengi?  Því verður hver að svara fyrir sig, en í stóra samhenginu, sem felst í lið númer þrjú hér fyrir ofan, held ég nú að leikfangsvæðing barna geti verið nokkuð varasöm. Hlutverk foreldra er að skila af sér einstaklingi sem þeir eiga ekki og hafa aldrei átt, nema kannski í orði kveðnu. Það er sannarlega í góðu lagi að þeir njóti þess að eignast barn og njóti samvistanna við það. Foreldrarnir mega hinsvegar ekki líta framhjá þeirri staðreynd að litla krúttið vex og þroskast út frá því umhverfi sem það fæddist inn í og ólst upp í.

Ég get svo haldið áfram og fjallað um aðkomu samfélagsins og ábyrgð þess, en ég nenni því eiginlega ekki að svo komnu máli.




16 febrúar, 2016

"The Condom King" - eða þannig

Ekki veit ég hvaða afleiðingar þessi pistill hefur fyrir mig en ég verð að láta á það reyna. Ég treysti því í það minnsta að þeir sem þekkja taki þessum skrifum eins og til er ætlast.

Það varð nokkur kurr meðal nemenda í ML í morgun þegar þessi fyrirsögn birtist á vísi punktur ís:







Ég nokkuð viss um að fólk sem hefur ekki fylgst með fréttum undanfarna daga hafi skilið þessa fyrirsögn talsvert öðruvísi en hún átti að skiljast.  Skilningur einhverra var með þessum hætti (með því að lesa fyrirsögnina):

"Það er kominn tími til, í ljósi ástandsins meðal nemenda í Menntaskólanum að Laugarvatni að bregðast við og ræða við þá um mikilvægi smokkanotkunar" 
Undirtextinn væri þá sá að nemendur stundi ábyrgðarlaust kynlíf í stórum stíl og nauðsynlegt sé að freista þess að koma þeim í skilning að til sé fyrirbæri sem kallast smokkar sem hafa þann megin tilgang að koma í veg fyrir þunganir, sem séu alltof margar.

Svona er ástandið þetta auðvitað ekki í mínum ágæta skóla og það má fastlega reikna með því að nemendur stundi kynlíf í svipuðum mæli og jafnaldrar þeirra vítt um landið.

Þarna er við fréttamann vísis að sakast, en hann hefði sannarlega átt að setja fréttina í viðeigandi samhengi við þá umræðu sem átt hefur sér stað að undanförnu, um mikilvægi smokksins við að koma í veg fyrir  fjölónæmar lekandasýkingar.

Samhengið var miklvægt þar sem það verður æ erfiðara að ná til einhvers umtalsverðs fjölda fólks í gegnum fjölmiðla, ekki síst ungs fólks og auðvitað þeirra sem lesa bara fyrirsagnirnar og telja sig fá úr þeim þær upplýsingar sem þörf er á.

Í ML fá nemendur sannarlega upplýsingar um gagnsemi smokksins strax á fyrsta ári (ef þeir hafa þá ekki fengið slíka fræðslu áður). Auk þess er vinsælasti fyrirlesarinn, á Dagamun á hverju ári, kynfræðingur sem fjallar um kynlíf og kynheilbrigði.

Eftir þennan dag situr skólameistari ML uppi með, í hugum einhverra, titilinn sem þessi pistill ber, hafandi birst við hliðina á litríkum smokkahaug á vefmiðli, eftir að hafa í grandaleysi svarað spurningum fréttamanns um það hvort í ML væru smokkasjálfsalar, ef ekki:hversvegna og hvað væri meiningin að gera í sambandi við það.
Þá má það teljast undarlegt að ekki skuli, í sömu frétt fjallað um svör skólameistara FSu varðandi þetta mál. Það má túlka þannig, að líklegt sé talið að ML-ingar séu duglegri í kynlífinu en jafnaldrar þeirra í þeim skóla.
Orð og frramsetning þeirra eru vandasöm fyrirbæri.

Það fyndnasta er, líklegast, að hér sit ég í svipuðu hlutverki og Jóhannes Þór Skúlason þegar hann freistar þess að túlka orð forystumanns ríkisstjórnarinnar.

Svona er lífið ófyrirsjáanlegt.

19 júní, 2015

Gekt fab einkanir

Ég er enginn veiðimaður, en hef þó farið nokkrum sinnum að veiða um ævina og þá bara á svæðum þar sem mögulegt er að veiða silung. Ég hef fundið þá tilfinningu  að hafa veitt silung, einhverskonar sigurtilfinningu með tilheyrandi adrenalínflæði (einkunn 9,5). Oftast veiddi ég þó ekkert þó ég hafi vandað mig við val á veiðarfærum og staðið tímunum saman úti í á eða á árbakka (Einkunn 4,0).
Það eru sennilega um 20 ár síðan ég fór, ásamt fleirum úr fjölskyldunni til silungsveiða á stað þar sem silungur var ræktaður og sleppt í lítið vatn eða tjörn og síðan gat fólk keypt veiðileyfi þannig að greitt var fyrir hvert kíló sem veiddist.  Við hófum þarna veiðar og ekki leið á löngu áður en það beit á (9,5) hjá mér og hinum. Frábært, fannst okkur. Við kunnum að veiða, eftir allt saman. Hentum út í aftur og viti menn, það beit aftur á, og aftur og aftur og aftur. Eftir því sem aflinn varð meiri minnkaði ánægjan og á endanum nenntum við þessu ekki lengur og síðan hefur mig ekkert langað til veiða.

Þetta var inngangur til að sýna fram á munninn á ánægjunni af því að leggja sig fram til að ná árangri, annarsvegar og ánægjuleysinu af því að ná fyrirhafnarlausum árangri, hinsvegar.

Það er rætt um það þessa dagana, að margt bendi til þess, að einkunnir nemenda sem sækja um inngöngu í framhaldsskóla fari hækkandi ár frá ári, þær samræmist æ ver þeim kröfum sem framhaldsskólinn gerir til nemenda sinna og að þær séu ekki sambærilegar milli grunnskóla.

Framhaldsskólar kalla eftir samræmdum prófum til að unnt sé raða umsóknunum á sambærilegan mælikvarða.
Foreldrar gera kröfur til þess að árangur barna þeirra sé metinn þannig að þau komist í þá skóla sem þau (eða foreldrana) fýsir að komast í.

Nú er ég kominn á svæði sem er fullt af jarðsprengum og ég vil forðast feilspor.

Þar sem ég sit við tölvuna mína og skoða umsóknir grunnskólanema um bóknámsframhaldsskólann sem ég starfa við velti ég óhjákvæmilega fyrir mér hvað liggur að baki þeim einkunnum sem þar birtast mér. Þarna blasa við mér einkunnir þriggja nemenda (A, B og C) úr þrem mismunandi grunnskólum (1, 2  og 3). Þær eru alveg sambærilegar, en ég verð að velja á milli þeirra. Einn kemst inn, en hinir tveir ekki.
Með því að slá einkunnum umsækjendanna inn í excel kemst ég að því, að einkunnir nemanda B úr grunnskóla 1 eru örlítið hærri en einkunnir A og C. Ég vel nemanda B. En spyr mig jafnframt hvort það val var sanngjarnt. Ég spyr mig hvað það var sem myndaði einkunnir þessara nemenda. Voru þær sambærilegar, eða var ég kannski að hafna nemanda sem væri talsvert betur undirbúinn en B fyrir bóknám?  Hafði nemandinn sem ég hafnaði allt til brunns að bera sem einkennir öflugan námsmann, en bara svo "óheppinn" að koma úr grunnskóla þar sem kennarar hans höfðu gert kröfur á hann og ekki gefið honum neitt sem hann ekki átti? Kom nemandinn sem ég valdi úr grunnskóla þar sem matið byggði einvörðungu á hæfni hans til að taka próf? Kom hinn nemandinn sem ég hafnaði úr skóla þar sem matið byggðist að miklum hluta á öðru en prófum, þar sem metnir voru aðrir þættir frekar en þekking á námsefninu, s.s. ástundun, samvinnuhæfni, samviskusemi, viðhorf eða því um líkt? Var það jafnvel svo, að kennarar nemandans sem ég valdi höfðu gefið honum einkunnir á öðrum forsendum en þeim sem ég geng út frá? Var það kannski svo að einkunnagjöfin í viðkomandi grunnskóla endurspeglaði hreint ekki getu eða hæfni nemendanna?

Mér er það fulljóst, þar sem ég sit og velti þessu fyrir mér, að einkunnirnar, það eina sem ég hef á skjánum, kunna að vera og eru líklega algerlega ósambærilegar.

Ég vona að það sé orðið þeim ljóst, sem þetta lesa (ef þeir eru á annað borð einhverjir) að ég er talsverður talsmaður þess að nemendur sem útskrifast úr grunnskóla og ætla sér í framhaldsnám, gangist undir samræmt mat, annað er ávísum á að þeir verði ekki metnir inn í framhaldsskóla á sömu forsendum og aðrir.

Ég veit að það er trúaratriði hjá mörgum að berjast gegn samræmdum prófum og þeirra vilji er ofan á þessi árin.  Trú þeirra breytir engu um það að nemendur halda áfram að flytjast milli grunnskóla og framhaldsskóla. Framhaldsskólar munu varla til lengdar sætta sig við að val á nýnemum sé einhverskonar happdrætti. Einhverjir eru farnir að tala um inntökupróf.  Hvernig ætti nú að framkvæma slíkt? Ef tekið verður upp inntökupróf í framhaldsskóla, þá mun það líklega enda sem samræmt próf, því ekki gengur að hver nemandi þurfi að fara í inntökupróf í 2-4 framhaldsskólum, það segir sig sjálft.

Hvað er til ráða?  
Það þarf enginn að fara í grafgötur um að ég veit það, en það er víst ekki nóg. Þrátt fyrir það leyfi ég mér að hvísla það hér inn í storminn.
1. Foreldrar gera sér grein fyrir því að það er börnum þeirra fyrir bestu að fara í það nám sem hentar hæfileikum þeirra og áhuga.
2. Foreldrar gera sér grein fyrir því að einhverntíma þurfa börn þeirra að takast á við eitthvað sem gerir kröfur til þeirra, setur pressu á þau, veldur þeim kvíða, stillir þeim upp í samkeppnisaðstæðum.
3. Grunnskólar skipuleggja nám þannig í 9. og 10. bekk, að nemendur fái að njóta sín á þeim sviðum sem hentar áhuga þeirra og hæfileikum. Foreldrar eru kallaðir að borðinu og þeir sannfærast  um hvaða leiðir í framhaldsnámi henta börnum þeirra. Þeir vita hvaða leiðir eru í boði fyrir hvern og einn.
4. Á haustmánuðum í 10. bekk er tekin ákvörðun um hvert stefnt skal og í framhaldi af því eru nemendur 10. bekkjar skráðir í mismunandi tegundir samræmds mats allt eftir áhuga, hæfni, viðhorfum, lífssýn eða hvaðeina. Markmiðið: nemandinn fái að njóta sín til fullnustu. Hver getur mótmælt slíku?
5. Á vormánuðum gangast nemendur í 10. bekk undir samræmt mat til undirbúnings umsóknar um framhaldsskóla á viðkomandi sviðum.
6. Nemendur senda inn umsóknir sínar um þá skóla sem stefnt er á. 
7. Framhaldsskólarnir fá í hendur algerlega sambærilegar niðurstöður og vinna úr þeim.

Ég veit að það vakna ótal spurningar í þessu sambandi, en kjarninn er sá, að mér finnst foreldrar og grunnskólar  verði að taka undirbúning fyrir umsókn um framhaldsnám föstum tökum. Það hefur átt sér stað og á sér stað feikileg sóun á hæfileikum margra ungmenna sem hafa lagt í nám sem þau hafa ekki áhuga á eða hæfni til að stunda. Því þarf að breyta.

Á sextánda ári eiga unglingar að vera færir um að takast á við krefjandi verkefni, streitu og kvíða í hæfilegum skammti. Slíkt tel ég vera góðan undirbúning fyrir framhaldið.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...