19 júní, 2015

Gekt fab einkanir

Ég er enginn veiðimaður, en hef þó farið nokkrum sinnum að veiða um ævina og þá bara á svæðum þar sem mögulegt er að veiða silung. Ég hef fundið þá tilfinningu  að hafa veitt silung, einhverskonar sigurtilfinningu með tilheyrandi adrenalínflæði (einkunn 9,5). Oftast veiddi ég þó ekkert þó ég hafi vandað mig við val á veiðarfærum og staðið tímunum saman úti í á eða á árbakka (Einkunn 4,0).
Það eru sennilega um 20 ár síðan ég fór, ásamt fleirum úr fjölskyldunni til silungsveiða á stað þar sem silungur var ræktaður og sleppt í lítið vatn eða tjörn og síðan gat fólk keypt veiðileyfi þannig að greitt var fyrir hvert kíló sem veiddist.  Við hófum þarna veiðar og ekki leið á löngu áður en það beit á (9,5) hjá mér og hinum. Frábært, fannst okkur. Við kunnum að veiða, eftir allt saman. Hentum út í aftur og viti menn, það beit aftur á, og aftur og aftur og aftur. Eftir því sem aflinn varð meiri minnkaði ánægjan og á endanum nenntum við þessu ekki lengur og síðan hefur mig ekkert langað til veiða.

Þetta var inngangur til að sýna fram á munninn á ánægjunni af því að leggja sig fram til að ná árangri, annarsvegar og ánægjuleysinu af því að ná fyrirhafnarlausum árangri, hinsvegar.

Það er rætt um það þessa dagana, að margt bendi til þess, að einkunnir nemenda sem sækja um inngöngu í framhaldsskóla fari hækkandi ár frá ári, þær samræmist æ ver þeim kröfum sem framhaldsskólinn gerir til nemenda sinna og að þær séu ekki sambærilegar milli grunnskóla.

Framhaldsskólar kalla eftir samræmdum prófum til að unnt sé raða umsóknunum á sambærilegan mælikvarða.
Foreldrar gera kröfur til þess að árangur barna þeirra sé metinn þannig að þau komist í þá skóla sem þau (eða foreldrana) fýsir að komast í.

Nú er ég kominn á svæði sem er fullt af jarðsprengum og ég vil forðast feilspor.

Þar sem ég sit við tölvuna mína og skoða umsóknir grunnskólanema um bóknámsframhaldsskólann sem ég starfa við velti ég óhjákvæmilega fyrir mér hvað liggur að baki þeim einkunnum sem þar birtast mér. Þarna blasa við mér einkunnir þriggja nemenda (A, B og C) úr þrem mismunandi grunnskólum (1, 2  og 3). Þær eru alveg sambærilegar, en ég verð að velja á milli þeirra. Einn kemst inn, en hinir tveir ekki.
Með því að slá einkunnum umsækjendanna inn í excel kemst ég að því, að einkunnir nemanda B úr grunnskóla 1 eru örlítið hærri en einkunnir A og C. Ég vel nemanda B. En spyr mig jafnframt hvort það val var sanngjarnt. Ég spyr mig hvað það var sem myndaði einkunnir þessara nemenda. Voru þær sambærilegar, eða var ég kannski að hafna nemanda sem væri talsvert betur undirbúinn en B fyrir bóknám?  Hafði nemandinn sem ég hafnaði allt til brunns að bera sem einkennir öflugan námsmann, en bara svo "óheppinn" að koma úr grunnskóla þar sem kennarar hans höfðu gert kröfur á hann og ekki gefið honum neitt sem hann ekki átti? Kom nemandinn sem ég valdi úr grunnskóla þar sem matið byggði einvörðungu á hæfni hans til að taka próf? Kom hinn nemandinn sem ég hafnaði úr skóla þar sem matið byggðist að miklum hluta á öðru en prófum, þar sem metnir voru aðrir þættir frekar en þekking á námsefninu, s.s. ástundun, samvinnuhæfni, samviskusemi, viðhorf eða því um líkt? Var það jafnvel svo, að kennarar nemandans sem ég valdi höfðu gefið honum einkunnir á öðrum forsendum en þeim sem ég geng út frá? Var það kannski svo að einkunnagjöfin í viðkomandi grunnskóla endurspeglaði hreint ekki getu eða hæfni nemendanna?

Mér er það fulljóst, þar sem ég sit og velti þessu fyrir mér, að einkunnirnar, það eina sem ég hef á skjánum, kunna að vera og eru líklega algerlega ósambærilegar.

Ég vona að það sé orðið þeim ljóst, sem þetta lesa (ef þeir eru á annað borð einhverjir) að ég er talsverður talsmaður þess að nemendur sem útskrifast úr grunnskóla og ætla sér í framhaldsnám, gangist undir samræmt mat, annað er ávísum á að þeir verði ekki metnir inn í framhaldsskóla á sömu forsendum og aðrir.

Ég veit að það er trúaratriði hjá mörgum að berjast gegn samræmdum prófum og þeirra vilji er ofan á þessi árin.  Trú þeirra breytir engu um það að nemendur halda áfram að flytjast milli grunnskóla og framhaldsskóla. Framhaldsskólar munu varla til lengdar sætta sig við að val á nýnemum sé einhverskonar happdrætti. Einhverjir eru farnir að tala um inntökupróf.  Hvernig ætti nú að framkvæma slíkt? Ef tekið verður upp inntökupróf í framhaldsskóla, þá mun það líklega enda sem samræmt próf, því ekki gengur að hver nemandi þurfi að fara í inntökupróf í 2-4 framhaldsskólum, það segir sig sjálft.

Hvað er til ráða?  
Það þarf enginn að fara í grafgötur um að ég veit það, en það er víst ekki nóg. Þrátt fyrir það leyfi ég mér að hvísla það hér inn í storminn.
1. Foreldrar gera sér grein fyrir því að það er börnum þeirra fyrir bestu að fara í það nám sem hentar hæfileikum þeirra og áhuga.
2. Foreldrar gera sér grein fyrir því að einhverntíma þurfa börn þeirra að takast á við eitthvað sem gerir kröfur til þeirra, setur pressu á þau, veldur þeim kvíða, stillir þeim upp í samkeppnisaðstæðum.
3. Grunnskólar skipuleggja nám þannig í 9. og 10. bekk, að nemendur fái að njóta sín á þeim sviðum sem hentar áhuga þeirra og hæfileikum. Foreldrar eru kallaðir að borðinu og þeir sannfærast  um hvaða leiðir í framhaldsnámi henta börnum þeirra. Þeir vita hvaða leiðir eru í boði fyrir hvern og einn.
4. Á haustmánuðum í 10. bekk er tekin ákvörðun um hvert stefnt skal og í framhaldi af því eru nemendur 10. bekkjar skráðir í mismunandi tegundir samræmds mats allt eftir áhuga, hæfni, viðhorfum, lífssýn eða hvaðeina. Markmiðið: nemandinn fái að njóta sín til fullnustu. Hver getur mótmælt slíku?
5. Á vormánuðum gangast nemendur í 10. bekk undir samræmt mat til undirbúnings umsóknar um framhaldsskóla á viðkomandi sviðum.
6. Nemendur senda inn umsóknir sínar um þá skóla sem stefnt er á. 
7. Framhaldsskólarnir fá í hendur algerlega sambærilegar niðurstöður og vinna úr þeim.

Ég veit að það vakna ótal spurningar í þessu sambandi, en kjarninn er sá, að mér finnst foreldrar og grunnskólar  verði að taka undirbúning fyrir umsókn um framhaldsnám föstum tökum. Það hefur átt sér stað og á sér stað feikileg sóun á hæfileikum margra ungmenna sem hafa lagt í nám sem þau hafa ekki áhuga á eða hæfni til að stunda. Því þarf að breyta.

Á sextánda ári eiga unglingar að vera færir um að takast á við krefjandi verkefni, streitu og kvíða í hæfilegum skammti. Slíkt tel ég vera góðan undirbúning fyrir framhaldið.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...