Sýnir færslur með efnisorðinu íslensk tunga. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu íslensk tunga. Sýna allar færslur

01 júní, 2016

Önnur sýn


Ég hef stundum velt því fyrir mér hve óheppinn ég er að vera uppi á sama tíma og tiltekið fólk  sem hefur mikil áhrif á daglegt líf þessarar þjóðar. Ég hef stundum þráð það að vera uppi á einhverjum öðrum tíma, þar sem þeir sem hefjast til valda í samfélaginu myndu búa yfir meiri mannskilningi, meiri hógværð, meiri víðsýni, meiri virðingu fyrir meðborgurum sínum en raunin hefur verið. Jafnharðan hef ég áttað mig á því, að sennilega heyrir það alltaf til undantekninga að leiðtogar þjóða, eða kjörnir leiðtogar yfirleitt, búi yfir þessum kostum. Væntanlega er það vegna þess að við viljum geta speglað okkur í sterkum leiðtoga, óbilgjörnum, sem stendur í lappirnar, lætur ekki kúga sig, og þar fram eftir götunum.  Ætli leiðtogar megi sýna veikleika eða kærleik? Við viljum líklega ekki svoleiðis fólk við stjórnartaumana.
Mér hefur verið hugsað til þessa, eina ferðina enn, undanfarna daga af tvennu tilefni.

S.l. laugardag brautskráðum við 44 nýstúdenta frá Menntaskólanum að Laugarvatni. Af þeim náðu allmargir afar góðum árangri, meðal þeirra Guðbjörg Hrönn Tyrfingsdóttir frá Ljónsstöðum í Sandvíkurhreppi, en hún hlaut næst hæstu fullnaðareinkunn sem gefin hefur verið við skólann frá upphafi. Ég er nú ekki að segja frá afreki Guðbjargar til að mæra hana neitt sérstaklega, enda held ég að hún kunni mér litlar þakkir fyrir þessi skrif. Ég er hinsvegar að benda á eiginleika sem ég tel að megi vera meira áberandi meðal þessarar þjóðar og sem endurspeglast í eftirfarandi færslu sem stúlkan skellti á Fb:
Efst í huga er þakklæti til allra sem fögnuðu deginum með mér, og þeirra sem voru á einhvern hátt hluti af fjögurra ára skólagöngu minni við Menntaskólann að Laugarvatni. Enginn er eins og hann er bara í út í bláinn og þið eigið hvert og eitt sinn þáttinn í því að ég er eins og ég er í dag og hef afrekað það sem ég hef afrekað. Ég hef ekki gert neitt í lífinu algerlega upp á eigin spýtur.  Ef þið eruð stolt af mér, verið þá í leiðinni stolt af sjálfum ykkur og ykkar þætti í mér. Svo vona ég að ég eigi einhverja góða þætti í ykkur líka.
 Þar sem ég las þetta, komu óðar upp í hugann "sterku" leiðtogarnir okkar, sem líta á sig nánast sem ómissandi, óskeikula hálfguði, sem hafa verið skapaðir í einhverju tómarúmi.  Mér finnst, svo sanngirni sé nú gætt, að við eigum stjórnmálamenn í þessu landi sem líta hlutverk sitt í "þjónustu við þjóðina" einmitt sem þjónustu, búa yfir nægu siðferðisþreki til að viðurkenna að þeir eru ekki fullkomnir, eru tilbúnir að sjá aðrar hliðar á málum en sína eigin, geta sett sig í spor annarra. Þegar ég skanna sviðið á Alþingi koma nokkur nöfn upp í hugann: Katrín Jakobsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Oddný G. Harðardóttir, Óttarr Proppé, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og svo óvænt sem það kann að hljóma, Sigurður Ingi Jóhannsson. Ég nefni þetta fólk sem dæmi og byggi þetta val algerlega á því hvernig það hefur virkað á mig. Það kann að vera að ég lesi það með röngum hætti. Ég er einnig viss um að meðal Alþingismanna eru fleiri af sama toga.
Það er líka margir af hinum toganum á þingi. Ég gæti auðvitað nefnt slatta, en kýs að láta það liggja milli hluta.

Hitt tilefnið sem varð til þess að ég ákvað að setjast í þessi skrif var viðtal við ísfirskan nýstúdent í Kastljósi á RUV:
Isabel Alejandra Díaz út­skrifaðist úr Mennta­skól­an­um á Ísaf­irði á laug­ar­dag með hæstu ein­kunn allra nemenda í ís­lensku. Hún tók við sérstökum verðlaunum af því tilefni og skartaði íslenskum þjóðbúningi; 20. aldar upphlut sem hún saumaði og gerði sjálf. Í áratug bjó hún við stöðugan ótta um að verða vísað úr landi af íslenskum stjórnvöldum. Í Kastljósi í kvöld sagðist hún þakklát Ísfirðingum og samfélaginu sem hjálpaði henni.
Það var ekki aðeins að málefnið sem Isabel fjallaði um væri áhugavert og umhugsunarvert, heldur bar framkoma henna vitni um mikinn þroska og víðsýni og málfarið með afbrigðum gott. Þarna var ekki orðafátæktinni eða beygingarvillunum til að dreifa.

Ég vona að þessar stúlkur og annað ungt fólk af sama tagi, sem áður en varir tekur við þessu samfélagi okkar, fái að njóta sín, sem mótvægi við forystumenn af því tagi sem mér finnst offramboð á.
Ég hef sannarlega oft, með sjálfum mér og við fD, jafnvel í litlum hóp, tjáð svartsýni mína á framtíð þjóðarinnar, vegna einhvers sem hefur birst mér í fari ungs fólks.
Ég er óðum að draga í land með það allt saman og vona að ég fái tækifæri til að draga stöðugt meira í land.

Þessi pistill er nú kannski ekki alveg í þeim tíl sem ég er vanur að viðhafa, en ég tel mig mega þetta líka.

19 desember, 2015

Áhigjur af f***ing túnguni.

Þetta er bara eitt af því sem ég þarf að losa mig við. Ég veit reyndar að það mun ekki gerast með þessu móti einu, en þetta er örugglega skref í átt að því að ég sætti mig við það sem er og fái betri innsýn í það sem líklega verður.
Eftirfarandi texta skrifaði ég á þessa síðu fyrir nokkru. Hér hef ég freistað þess að sjá fyrir mér hvernig hann gæti litið úr eftir einn til tvo áratugi.
Tilefnið er ræða menntamálaráðherra áðan, menntamálaráðherra.

Framundan eraði flutningur kórar úr uppsveitir með einsöngvarar, orgel, trompet og klarinett á verk eftir sigvaldi kaldalóns kirkja óma öll. það erar ekki á móti mæla að einhverjir tenórar beruðu nokkur kvíðbogi fyrir ein nóta í umrætt verk.
Forsaga málið eraði sú að við upphaf æfingar á þetta verk eraði það eins og hver annar verk sem æfað eraði tenórinn dansaði um nóturnar áreynslulaus þó svo ein nóta undir lok hver erindi hafi takað nokkur á. Það eraði ekkert annar en áskorun og þetta var hinn góðasti mál. Með þessi háttur eraði verkið æfað nokkur sinn og það eraði að koma góður mynd á það.

við þeir aðstæður geraði það allt í einu að einn sópraninn tjáaði þá skoðun sinn að sópranlínan liggjaði of lágur. Einhverjir margari sópran takaði undir þessi skoðun.


-lesendur eru varaðir við að taka mig alltof hátíðlega á þessu stigi. Þó kraumi undir, geri ég mér grein fyrir því að ýmislegt er óumflýjanlegt. Þar má til dæmis telja íslenska tungu.

07 desember, 2013

Kannski bara vitlaust gefið

Það er nú kannski að bera í bakkafullan lækinn að ætla sér að bætast í flokkinn sem hefur allar skýringarnar á því að íslenskir grunnskólanemendur koma illa út úr alþjóðlegri könnun  á læsi. Það fór eins og mig grunaði, að margir hafa  á þessu skoðanir, sem er smám saman að stefna í þá átt að þessi könnun sé að mæla vitlaust; við séum bara að leggja áherslu á aðra og nútímalegri kennsluhætti, sem gamaldags könnunin er mælir ekki. Við séum í farabroddi í kennslu og námi ef grannt er skoðað.

Ég er nánast að springa undir þessari umræðu allri, en verð að gæta mín að segja ekkert, stöðu minnar vegna, sem gæti gengið verulega gegn viðtekinni skoðun fólks, hvort sem það er til kallað til að lýsa áliti sínu, eða tjáir sig um þetta hvar sem tjáning er möguleg.

Það er fjarri mér að skella því framan í lesendur, að það hafi allt verið betra áður fyrr, engin vandamál, eða börn í vandræðum með nám - það hefur alltaf verið og mun alltaf verða. Ég ætla hinsvegar að varpa fram nokkrum dæmum um spurningar hér á eftir, sem mér finnst nauðsynlegt að fá svör við áður en við hlaupum til og dæmum PISA könnunina sem gamaldags. Það er góð regla, að fullyrða sem fæst áður en fyrir liggur einhver ábyggileg rannsókn sem styður það sem maður er að segja.

1. Hvernig læra börn málið í nútímanum? Það liggur fyrir, óvéfengjanlega, að langstærstur hluti barna fer í leikskóla áður en máltaka hefst. Þar dvelja þau, í miklum mæli, 8 klukkustundirvirka daga með hóp af öðrum börnum fram á grunnskólaaldur. Ég tel að það sé nákvæmlega sama hve metnaðarfullir leikskólakennarar eru, þeir ná því ekki að sinna málfarslegum þörfum barna á þeim tíma ævinnar sem þau eru móttækilegust fyrir að læra móðurmálið, máltökuskeiðið. Jú, jú það er lesið fyrir börnin og þau fá eflaust formlega þjálfun í ýmsum þáttum málsins, en hvar beita þau málinu mest? Ég tel að máltaka barna fari fram að stærstum hluta gegnum samtöl við önnur börn á sama aldri. Ef ég hef rétt fyrir mér, þá er það talsvert alvarlegt. Jú, jú, foreldrarnir tala eflaust við börnin þegar þeir koma þreyttir heim úr vinnu, og um helgar, en er það í einhverjum umtalsverðum mæli? Er það ef til vill svo, að einhver umtalsverður hluti foreldra, þegar þeir loksins fá hvíld frá vinnunni, líti svo á að þá eigi þeir rétt á að fá einnig hvíld frá samskiptum við börnin sín? Finnst þeim þeir eiga rétt á að sinna sínum áhugamálum óáreittir? Hve miklum tíma, síðdegis, á kvöldin og um helgar, eyða foreldrar t.d. í tölvum? Hve miklum í heimilishald af ýmsu tagi? Hve miklum í bein, jákvæð samskipti við börnin?  Hver ber megin ábyrgð á máltöku barna? Er það ef til vill svo, að í nútímasamfélaginu okkar sé mikilvægi færni í beitingu tungumálsins ofmetin? Er tungumálið smám saman að leita einföldunar?
Getur það verið að þær uppeldisstefnur sem unnið er eftir í leikskólum, t.d. svokölluð Reggio-Emilia stefna, séu bara hreint ekki að virka?
Á þessu sviði finnst mér nauðsynlegt að byrja að rannsaka. Kannski er það búið, hver veit? Ef svo er væri gaman að skoða niðurstöðurnar.

2. Hvernig má það vera að svo stór hluti barna sem raunin virðist vera, samkvæmt könnuninni getur ekki lesið sér til gagns eða yndis við fimmtán ára aldur? Er skýringarinnar að leita í einhverju sem gerðist á máltökuskeiðinu,  þeim námskenningum sem unnið er eftir (t.d. uppgötvunarnám**), lestrarkennslu í molum, tölvunotkun, starfsfólki sem ekki veldur starfi sínu, almennri upplausn í samfélagsgerðinni? Ef stór hluti að skólagöngu barna í leikskóla og fyrrihluta grunnskólans fer í að fjalla um tilfinningar, innsæi, tjáningu án orða, rökhyggju og kerfishugsun (sjá Reggio-Emilia), fer þá ekki eitthvað forgörðum, sem síðara nám krefst. Ef máltökuskeiðið (sá tími ævinnar sem barn er móttækilegast fyrir að tileinka sér tungumálið) fer að einhverju leyti forgörðum má álykta sem svo að framhaldið geti orðið erfitt, nema því meiri áhersla verði lögð á tungumálið síðar.  Mér finnst þetta nú afskaplega rökrétt. Börn verða ekki alltaf börn og þar kemur að til þeirra eru gerðar kröfur um að þau búi yfir þekkingu og færni til að geta tekist á við nám, störf og líf sem fullvaxta, ábyrgir einstaklingar. Ef þeir geta ekki lesið, tjáð sig með orðum, þannig að mark sé á takandi, verð ég að gera ráð fyrir að þeir rekist á veggi.
Þetta samhengi allt þarf að rannska svo hægt sé að tala um það á einhverjum vitrænum grundvelli og að skoðanir séu ekki afgreiddar sem bull og vitleysa.

3. Hversvegna koma strákar talsvert ver út en stelpur í könnuninni?
Er það vegna þess að þeir eiga í eðli sínu erfiðara með nám? Er það vegna þess að sá rammi sem skólinn er, hentar þeim ekki? Er meðferð skólakerfisins á þeim með einhverjum öðrum hætti en meðferðin á stelpum? Getur það verið að skólinn sé kvenlæg stofnun, með kvenlæg gildi, kvenlæga sýn  og kvenlægar aðferðir við nám, sem strákar í eðli sínu finna sig ekki eiga samleið með?  Getur verið að strákar haldi síður áfram í námi og gangi ver, vegna þess að sú mynd af náminu sem þeir fá í gegnum 14 ára mótun kvenna (meira og minna), gengur gegn eðli þeirra?  Gengur skólinn í of miklum mæli út frá því, að strákar og stelpur séu, að upplagi, eins?
Tölvunotkun hefur verið tiltekin sem mikilvægur þáttur í þeim mun sem þarna kemur fram og það má vel vera. Ég stóð sjálfur að könnun á tölvunotkun meðal hóps  framhaldsskólanema s.l. vor, og þar kom í ljós, mér til undrunar, að stelpur nota jafn mikinn tíma í tölvum, fyrir utan námstengda notkun, og strákar.

Ég get sjálfsagt haldið lengi áfram um þessi mál, mörgum til armæðu, og hver veit nema ég taki næst fyrir efniviðin sem framhaldsskólinn fær til að vinna úr, eftir að fólk hefur varið 15 árum með ástríkum foreldrum, velmeinandi leikskólum, og alltumlykjandi grunnskólum.  Þar er ótal spurningum ósvarað, t.d. hvort framhaldsskólinn sé í takt við það sem á undan er gengið? Þetta þarf að rannsaka áður er eitthvað er fullyrt út í bláinn.



* Reggio-Emilia- stefnan:    Í héraði á Ítalíu varð til eftir síðari heimstyrjöldina leið/stefna í uppeldi ungra barna sem hefur notið vaxandi athygli víða um lönd. Þessi uppeldisstefna er kennd við hérað á Ítalíu þar sem hún varð til og nefnist Reggio Emilia. Stefnan spratt upp að frumkæði foreldra sem var umhugað um að fasismi næði aldrei aftur að höfða til fólks. Þeir stofnuðu leikskóla sem áttu að ýta undir gagnrýna hugsun barnanna. Sálfræðingur að nafni Loris Malaguzzi var helsti höfundur að hugmyndafræði leikskólanna í Reggio Emilia. Hann gagnrýndi vestrænt skólakerfi og menningu og sagði hefðbundna skólann byggja á rökhyggju og kerfishugsun og að of rík áhersla væri lögð á tungumálið. Ekki væri litið til tilfinninga og innsæis, tjáning án orða ætti sér ekki viðreisnar von í hinu almenna skólakerfi, hugur og líkami væru aðskilin. Malaguzzi varð strax hugmyndafræðilegur leiðtogi leikskólanna sem átti eftir að fjölga. Starfið í skólunum var mótað af heimspeki, sálfræði, vísindum og listum. Uppeldisstarf Reggio leikskólanna byggist á hugmyndum Malaguzzi, auk kenninga Piaget, Dewey, Celestine, Freinet, Bruno Giari og Gianni Rodari (Berglind Káradóttir o.fl. 1994-5:4).
Malaguzzi lagði mikla áherslu á mikilvægi þess að örva sjón og skynjun barns fyrir vitsmunaþroska þess. Skynjun er börnum mikilvæg til að geta tengt hluti og atburði fyrri reynslu. Barnið þarf að fá að vera sjálfstætt þegar það túlkar reynslu sína og upplifun, fullorðnir verða að varast að stýra skoðunum barna um of. Markviss örvun sjónskyns leiðir til lifandi og skapandi hugsunar sem er í senn hugmyndarík og raunsæ (Börn hafa hundrað mál 1988:7-8). Þannig beinist uppeldisstefna Reggio mjög að auganu sem sér og hendinni sem framkvæmir. Augað sér það sem höndin framkvæmir og tengir allt við þá heild sem heilahvelin mynda, það vinstra með orðagreiningu og það hægra með myndskyni sínu (Börn hafa hundrað mál 1988:14-15).*Uppgötvunarnám: 
** Uppgötvunarnám: Sú kennsluaðferð sem Jerome S. Bruner lagði áherslu á hefur verið kölluð uppgötvunarnám (e. learning by discovery). Að mati Bruners tileinkar nemandinn sér skipan námsefnis best með uppgötvunarnámi. Nemandinn leitar sjálfur að lausn viðfangsefna og aflar þekkingar til að svara spurningum sem vekja áhuga hans. Þessi kennsluaðferð er í eðli sínu aðleidd aðferð. Í framhaldi af þessu talar Bruner fyrir svokallaðri spíralaðferð við framsetningu á námsefni og þeirri skoðun sinni að kenna skuli undirstöðuatriði, meginlögmál eða „strúktúr“ fræðigreinar í stað einstakra þekkingaratriða. Nemandinn á ekki að læra að hrúga upp staðreyndum, hann á að læra að skipa staðreyndum í kerfi og nýta á þann veg þekkingu sína á tilteknum grundvallarlögmálum. Grundvallarhugsun hjá Bruner var að allar kennslufræðikenningar yrðu að ganga út frá sýn á þroska mannsins (Bruner, 1966). Hann leit einnig svo á að nám væri virkt, félagslegt ferli þar sem einstaklingurinn skapar nýjar hugmyndir og hugtök sem byggð eru á fyrri þekkingu. Félagsleg samskipti, í ólíku samhengi, eru lykilatriði í námsferlinu.

18 september, 2011

Vér um oss frá oss til vor

Oss hefur fundist það, á samferðamönnum vorum gegnum tíðina, að þeim fyndist ekki eftirsjá að því að svokallaðar þéringar væru ekki lengur notaðar í samskiptum manna í milli. Eigi erum vér fyllilega sammála þeim sem fagnað hafa og fagna enn brotthvarfi þérunar úr samskiptum milli manna.

Eigi höfum vér allskostar kunnað við þann samskiptamáta sem tók við af þérunum, þar sem þar með hvarf nauðsynlegur, að voru mati, stöðumunur þeirra sem saman ræddu. Með því menn hættu, til að mynda, að þéra Forseta Íslands, hvarf nauðsynleg fjarlægð hans frá pöplinum og þar með  nauðsynleg virðing fyrir embættinu. Allt varð sama flatneskjan.
Þá finnst oss afar mikill missir að því að nemendum skuli ekki vera gert að þéra kennara sína lengur.
"Sigurður, þér eruð fífl!", hljómar t.d. miklu sterkara en "Siggi, þú ert fífl!"

Nei, þetta er horfið, en kom skyndilega í huga vorn aftur við litla og sakleysislega athugasemd á fésbók:
"Er það rétt sem mér sýnist á myndum yðar úr Tungnarétt(um) að það hafi rignt?"
 Í því samhengi sem þetta var þarna inn sett, gætum vér freistast til að reyna að túlka hvað að baki lá:

1. Er viðkomandi þarna að setja oss skör ofar en sjálfan sig, í virðingarstiga (hann notar ekki þérun er hann vísar til sjálfs sín).
2. Er þérunin til komin vegna uppskrúfaðs málfars í texta vorum, sem athugasemdin síðan byggir á?
3. Er viðkomandi þarna að setja oss skör neðar og þar með gera lítið út athugasemdum vorum um tilteknar réttir á Skeiðum?
4. Er viðkomandi að nýta sér þekkingu á þérunum til að villa um fyrir síðari kynslóðum, sem ekki þekkja þennan tjáningarmáta og get því ekki lesið í hin fínu blæbrigði.

Það má lengi velta fyrir sér hvað það var sem að baki lá, en vér teljum yður, lesendur vora engu  munu verða nær við frekari vangaveltu í því sambandi.

Með því að taka upp þéranir aftur munum vér nálgast á ný hið miklvæga jafnvægi.

17 júlí, 2011

Leyðindatuð

Þegar maður er að tjá sig munlega eða skrivlega er það eyna sem skiftir máli að þeyr sem erað hlusta eða lesa, skylji. Mjer er sljett sama kveddnig Jón Jónsson stafsetur fjesbógarfærsludnar sýnar eða bloginn sýn - það er bara hanns mál.  

Það er lýtið eitt vera þegar sá sem hefur tekjur af þí að skrifa eða flidja með öðrumm hætti, tegsta firir almening, kjemur honum egi óbreyngluðumm frá sér. Mjer finst það eyinlega bara alveg ótægt.

Þar sem jeg hef þesa skoðunn tylheiri ég þeymm leyðilga hóbi fóls sem er altaf að sedja útá það sem aðrir gera. Það er víst alveg tilgánslaust að vera aðessu tuði alltaf hreint. Það er auðvita alveg rjett á meðann alment viðhorf til þess kvenig málið er framm set er eynsog það er.

Eyðar þessa lans berjast við vyndmillur. 


02 maí, 2011

Hvað var O. Brynjar Þórhallur?

Ég biðst afsökunar á að nota svona ruglingslega fyrirsögn. Sennilega er hér bara um að ræða rugl í mér, en ég held að framhaldið skýri hvað um er að ræða.

Í morgun bárust fréttir af því, eftir öllum hugsanlegum leiðum, að austurlandabúinn og hryðjuverkamaðurinn O.B.L. væri allur.

Í kjölfarið héldu fréttir af þessum atburði áfram í allan dag og enn er ekki talað um neitt frekar, nema þá brotthvarf annarrar lífveru vestur á fjörðum.

Það sem ég velti fyrir mér í öllu þessu fréttaflóði er orðnotkun: Hvað var gert við O.B.L.?

Var hann drepinn, veginn, aflífaður, tekinn af lífi, myrtur, felldur eða deyddur?
Var honum banað, eytt, sálgað, fargað eða stútað?

Það má velta þessu fyrir sér - orðavalið ræðst líklega af viðhorfum til viðfangsins/verksins/verknaðarins.

Þessara sömu spurninga má spyrja í tengslum við litla, fallega óarga/rándýrið sem tapaði lífinu í dag.

Í fréttum var talað um hræ dýrsins. Auðvitað er ekki hægt að tala um lík þess, en má ekki tala um skrokk?

Hvaða orð myndum við nota um jarðneskar leifar O.B.L.?

Það er nú svo.


02 apríl, 2011

Ritföng

Staður: Kassi í lágvöruverðsverslun.
Aðstæður: Maður á sextugsaldri ekur körfunni sinni að færibandinu og tínir varning á bandið: skyr, harðfisk, bjúgu, bláa mjólk, smjör, haframjöl, og svo framvegis, vona eins og fólk á þessum aldri kaupir inn. Við kassann stendur dökkhærður piltur, á að giska 15-16 ára. Hann tekur við vörunni jafnóðum og hún kemur með færibandinu í átt til hans, og skannar verðið inn í tölvuna, setur síðan vöruna áfram þar sem hún telst vera tilbúin til að fara í innkaupapokann.
Þegar hann hefur skannað vöruna fyrir  manninn á sextugsaldrinum á þetta samtal sér stað:



"5643"
"Eruð þið ekki með ritföng hérna?"
Þögn.
"Ha?"
"Ritföng?"
"Ritföng?"
"Já."
"Hvað er það?"
"Hvað er það? Veistu það ekki?"
"Nei."
"Það eru t.d stílabækur, blýantar og pennar!"
"Núúú. Nei, við eru ekki með svoleiðis."
"Jæja, hvað var þetta mikið, segirðu?"
"5643"
Maðurinn á sextugsaldrinum gengur frá sínum málum, meðan Kvisthyltingar við næsta kassa hristast í taugaveikluðu hláturskasti.



Íslensk tunga


Hvað er nú tungan? - Ætli enginn
orðin tóm séu lífsins forði. -
Hún er list, sem logar af hreysti,
lifandi sál í greyptu stáli,
andans form í mjúkum myndum,
minnissaga farinna daga,
flaumar lífs, í farveg komnir
fleygrar aldar, er striki halda.

Tungan geymir í tímans straumi
trú og vonir landsins sona,
dauðastunur og dýpstu raunir,
darraðarljóð frá elztu þjóðum.
Heiftareim og ástarbríma,
örlagahljóm og refsidóma,
land og stund í lifandi myndum
ljóði vígðum - geymir í sjóði. 


23 apríl, 2010

Eyðilegging jákvæðrar fréttar

Mér þykir svo sem ekkert sérstaklega uppbyggilegt eða ánægjulegt, hvorki fyrir mig né aðra, að vera að dunda mér við að benda á það sem betur má fara í umhverfi mínu. Ég hugga mig þó við það, að ég er ekki einn um að vera í þessu hlutverki.

Í dag birtist frétt um það á einum vefmiðlinum, að rannsókn doktorsnema í Háskóla Íslands hefði víða vakið mikla athygli, en hér er um að ræða leið til að bæta líkur á að ráða niðurlögum erfiðs krabbameins. Ekkert nema gott um þetta að segja. 
Ég þurfti hinsvegar, áður en ég las fréttina, að ergja mig á fyrirsögninni, sem var og er svona:

Nemi í HÍ vekur athygli vegna meðhöndlun krabbameins




Skoðum þetta nánar með því að búa til svipaða setningu og nota í stað orðsins MEÐHÖNDLUN, annað nafnorð, sem er ekki eins í neinu falli, og þar dettur mér í hug orðið HESTUR.

Hver eftirfarandi setninga væri þá á réttu máli?:

Nemandi í LBHÍ rekinn vegna hestur skólastjórans. (nf,)
Nemandi í LBHÍ rekinn vegna hest skólastjórans.  (þf.)
Nemandi í LBHÍ rekinn vegna hesti skólastjórans. (þgf.)
Nemandi í LBHÍ rekinn vegna hests skólastjórans.  (ef.)

Nemi í HÍ vekur athygli vegna meðhöndlun krabbameins. (nf.)
Nemi í HÍ vekur athygli vegna meðhöndlun krabbameins. (þf.)
Nemi í HÍ vekur athygli vegna meðhöndlun krabbameins. (þgf.)
Nemi í HÍ vekur athygli vegna meðhöndlunar krabbameins. (ef.)

Það má einnig hugsa sér aðrar setningar þar sem orðið VEGNA kemur við sögu:

Hún kom bara vegna ég.
Hún kom bara vegna mig.
Hún kom bara vegna mér.
Hún kom bara vegna mín.

Ég læt lesendur um að finna út hvað er rétt í þessu máli, en hér finnst mér um að ræða eitt leiðinlegasta fyrirbærið í 'þróun' tungunnar á síðustu árum. 

01 mars, 2010

Þögull málfarsfasisti

Næst stærsta sjónvarpsstöð landsins auglýsti á besta tíma í fréttatímanum sínum í kvöld ódýrasta verðið á áskrift, eða eitthvað í þá veru. Ég veit auðvitað ekkert hvað það er; hef aldrei getað keypt ódýrt eða dýrt verð. Ég hef getað keypt ódýrt svínakjöt, í það minnsta fyrir hrun.
Í framhaldi af þessu hélt fráttatíminn áfram og í honum taldi ég, í þvermóðskufullri vandlætingu minni, eigi færri en 4 málvillur og ambögur.

Nú er það auðvitað svo, í þessu landi frjálsræðis á öllum sviðum, að maður má segja það sem manni dettur í hug, eins og manni dettur í hug. Hver sá sem rís upp eins og risaðla úr forneskju, fær að heyra það, beint og óbeint, að hann sé málfarsfasisti; hér sé bara um að ræða eðlilega þróun málsins; það sé einkenni á lifandi tungumálum að þau breytist stöðugt og það sé ekkert sem hægt er að gera til að koma í veg fyrir það.

Jatla náttla bra láttetta gángifir mér, fokkitt.
Je möstaði bra komissu frámmér.
Búnaððí.
Bæ.

04 janúar, 2010

Ég kalla sko allt ömmu mína!


(þetta er ekki persóna sem tengist mér - bara einhver internet amma :))


Það kannast væntanlega flestir (þó líklega ekki allir skjólstæðingar mínir) við hvað það þýðir þegar sagt er um einhvern: "Hann kallar sko ekki allt ömmu sína, þessi!" - merkingin þá að viðkomandi láti sér ekki allt fyrir brjósti brenna (sem örugglega ekki allir skilja) - merking þess er, eins og einhverjir vita, að viðkomandi er enginn aumingi (allir vita hvað það er).

Þetta ömmu tal er hér til komið þar sem það kom upp í samtali við gamla unglinginn nú síðdegis. Til umræðu var sú kuldatíð sem nú gengur yfir og fólkið sem kvartar yfir hvað það er "svakalega kalt"(Ég tek það fram hér, til að það liggi fyrir, að ég var ekki að kvarta um kulda).
"Já, þetta fólk kallar allt ömmu sína" sagði hann og fór síðan að fjalla um hvernig húsakynni voru áður fyrr, þegar eina upphitunin var í eldhúsinu við ylinn frá eldavélinni þar sem brennt var taði eða mó. Þá var oft um það að ræða að fjósið væri undir baðstofunni og fólki tókst að ylja sér við þær lífrænu, upphitandi, jórturvélar sem þar var að finna.
"Það fólk kallaði sko ekki allt ömmu sína."

Moralen er (flottara á dönsku): Því betri sem lífsskilyrði okkar eru, því meiri aumingjar verðum við. Því meira vorkennum við sjálfum okkur allt það sem við túlkum sem erfitt. Við köllum það ömmu okkar.

Hvers eiga blessaðar ömmurnar að gjalda, að vera notaðar um aumingjaskap?
Það væri gaman að fá upplysingar um hvar þessi ömmutenging varð til. Við höfðum það ekki á hraðbergi, við gamli.

03 janúar, 2010

Það kemur alltaf að því...

...að það komi að einhverjum endapunkti. Nú er komið að enn einum hér á bæ. Morgundagurinn felur í sér að ég tek til við vinnuna mína þar sem frá var horfið. Því fylgja eðlilega blendnar tilfinningar.
Það er að mörgu leyti ágætt að hafa eitthvað ákveðið fyrir stafni og alltaf sú von undirliggjandi, að maður sé að gera eitthvert gagn í starfi sínu.
Á móti kemur, að starfið fellur í sér talverð samskipti við fólk sem skilur stöðugt minna af því sem ég segi við það. Málfar sem er mér tamt er hratt að breytast í "gamalmennamál". Hvað sem tautar og raular mun ég viðhalda mínu gamalmennamáli fram í rauðan dauðann. Þetta var nú út fyrir efnið, en engu að síður verðugt umfjöllunarefni.

Nei, sennilega lít ég bara svo á, að nú sé jólahaldinu lokið og framundan sé hversdagsleikinn, nákvæmlega eins og eðlilegt er. Það væri nú lítið gaman að þessu ef alltaf væru jólin.

------------------------

Nú er blessuð þjóðin enn einu sinni að verða vitlaus í bið sinni eftir og yfirlýsingum sínum um undirskrift eða ekki undirskrift forseta. Ég held, svei mér þó, að okkur sé varla við bjargandi. Auðvitað er það svo, að það er nánast sama hvað blessaður maðurinn gerir, hann verður ausinn auri með hinum skrautlega orðaforða sem við erum orðin svo þjálfuð í að nota. Þegar afgreiðsla hans liggur fyrir, þá verða fjölmiðlarnir undirlagðir því í 2-3 daga. Þá getum við snúið okkur að því að brjálast yfir því sem þá tekur við.

HVERNIG MÁ ÞAÐ VERA, AÐ ÁKVEÐINN HÓPUR MANNA (sjálfsagt margir skynsamir og velmeinandi) TELUR AÐ ÁBYRGÐIN SEM VIÐ ERUM AÐ TAKA Á OKKUR MUNI REYNAST OKKUR OFVIÐA OG KEYRA ÞJÓÐFÉLAGIÐ Í ÞROT, Á MEÐAN ANNAR HÓPUR (sjálfsagt margir skynsamir og velmeinandi) TELUR AÐ EF VIÐ ÁBYRGJUMST EKKI ÞÁ MUNI AFLEIÐINGARNAR VERÐA ÞÆR AÐ ÞJÓÐFÉLAGIÐ FARI Á HÖFUÐIÐ?

Hvernig má það vera?

Það er ljóst, að annar hópurinn hefur, að öllum líkindum, rangt fyrir sér.
Hvernig eigum við, kjósendurnir, að vera í aðstöðu til að kjósa, með upplýstum hætti, um þetta mál? Hvað eru það margir kosningabærir einstaklingar í þessu landi, sem geta fært fullnægjandi rök fyrir afleiðingunum á annan hvorn veginn? Er það ekki mikill ábyrgðarhluti að velta þessu stóra máli yfir á herðar þjóðar, sem sveiflast eins og strá í vindi milli stjórnmálastefna? Þjóðar, sem fyrir rúmu ári vildi ganga í ESB er er nú aldeilis hætt við það. Þjóðar sem fyrir nokkrum mánuðum ákvað í kosningum að refsa stjórnmálaflokki fyrir þátt í hruninu, en hefur nú tekið hann í sátt aftur.

Ef við viljum að afstaðan til ísþrælsmálsins verði tekin á tilfinningalegum grundvelli þá skulum við endilega leyfa þjóðinni að kjósa. Þá verða málsaðilar bara að skella sér í öskurkeppni síðustu dagana fyrir kosningarnar og freista þess þannig að ná sínu fram. Vitræn verður sú umræða ekki, því miður.

Jamm - það kemur alltaf að því.





11 október, 2009

Vegna Guðmundi

- ég komst ekki vegna hestinum sem lá á veginum.
- vegna fækkun sjúklinga var spítalinn lagður niður.
- hann fagnaði vegna sameiningu sveitarfélaga
- vegna fréttaaukanum missti ég af matnum.
- ég hringdi vegna lögregluþjóninum sem hafði komið á staðinn.
- vegna samningu laga um réttarbætur til handa Jóni.

Tvær ofangreindra setninga komu fyrir í fréttum í kvöld.
Hafa lesendur eitthvað við þær að athuga?

Ég hef það vissulega og mér virðist að þessi tjáningarmáti sé orðinn regla frekar en undantekning.



Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...