03 janúar, 2010

Það kemur alltaf að því...

...að það komi að einhverjum endapunkti. Nú er komið að enn einum hér á bæ. Morgundagurinn felur í sér að ég tek til við vinnuna mína þar sem frá var horfið. Því fylgja eðlilega blendnar tilfinningar.
Það er að mörgu leyti ágætt að hafa eitthvað ákveðið fyrir stafni og alltaf sú von undirliggjandi, að maður sé að gera eitthvert gagn í starfi sínu.
Á móti kemur, að starfið fellur í sér talverð samskipti við fólk sem skilur stöðugt minna af því sem ég segi við það. Málfar sem er mér tamt er hratt að breytast í "gamalmennamál". Hvað sem tautar og raular mun ég viðhalda mínu gamalmennamáli fram í rauðan dauðann. Þetta var nú út fyrir efnið, en engu að síður verðugt umfjöllunarefni.

Nei, sennilega lít ég bara svo á, að nú sé jólahaldinu lokið og framundan sé hversdagsleikinn, nákvæmlega eins og eðlilegt er. Það væri nú lítið gaman að þessu ef alltaf væru jólin.

------------------------

Nú er blessuð þjóðin enn einu sinni að verða vitlaus í bið sinni eftir og yfirlýsingum sínum um undirskrift eða ekki undirskrift forseta. Ég held, svei mér þó, að okkur sé varla við bjargandi. Auðvitað er það svo, að það er nánast sama hvað blessaður maðurinn gerir, hann verður ausinn auri með hinum skrautlega orðaforða sem við erum orðin svo þjálfuð í að nota. Þegar afgreiðsla hans liggur fyrir, þá verða fjölmiðlarnir undirlagðir því í 2-3 daga. Þá getum við snúið okkur að því að brjálast yfir því sem þá tekur við.

HVERNIG MÁ ÞAÐ VERA, AÐ ÁKVEÐINN HÓPUR MANNA (sjálfsagt margir skynsamir og velmeinandi) TELUR AÐ ÁBYRGÐIN SEM VIÐ ERUM AÐ TAKA Á OKKUR MUNI REYNAST OKKUR OFVIÐA OG KEYRA ÞJÓÐFÉLAGIÐ Í ÞROT, Á MEÐAN ANNAR HÓPUR (sjálfsagt margir skynsamir og velmeinandi) TELUR AÐ EF VIÐ ÁBYRGJUMST EKKI ÞÁ MUNI AFLEIÐINGARNAR VERÐA ÞÆR AÐ ÞJÓÐFÉLAGIÐ FARI Á HÖFUÐIÐ?

Hvernig má það vera?

Það er ljóst, að annar hópurinn hefur, að öllum líkindum, rangt fyrir sér.
Hvernig eigum við, kjósendurnir, að vera í aðstöðu til að kjósa, með upplýstum hætti, um þetta mál? Hvað eru það margir kosningabærir einstaklingar í þessu landi, sem geta fært fullnægjandi rök fyrir afleiðingunum á annan hvorn veginn? Er það ekki mikill ábyrgðarhluti að velta þessu stóra máli yfir á herðar þjóðar, sem sveiflast eins og strá í vindi milli stjórnmálastefna? Þjóðar, sem fyrir rúmu ári vildi ganga í ESB er er nú aldeilis hætt við það. Þjóðar sem fyrir nokkrum mánuðum ákvað í kosningum að refsa stjórnmálaflokki fyrir þátt í hruninu, en hefur nú tekið hann í sátt aftur.

Ef við viljum að afstaðan til ísþrælsmálsins verði tekin á tilfinningalegum grundvelli þá skulum við endilega leyfa þjóðinni að kjósa. Þá verða málsaðilar bara að skella sér í öskurkeppni síðustu dagana fyrir kosningarnar og freista þess þannig að ná sínu fram. Vitræn verður sú umræða ekki, því miður.

Jamm - það kemur alltaf að því.





2 ummæli:

  1. þetta er nú einmitt það sem maður er að hugsa og sama hvað forsetinn gerir þá verður allt vitlaust í stuttan tíma. Svo þurfum við kannski að kjósa um þetta og þá verður allt vitlaust í stuttan tíma. Ég get svo svarið það að ég veit ekki hvað er best að gera og óska ekki eftir hlutskipti þeirra sem hafa staðið í samningum og forsvari á Alþingi. Ég vona bara að fólkið sem við kusum viti eitthvað hvað það er að gera og í raun langar mig ekkert að þurfa að fara að gera upp hug minn ef þjóðaratkvæðagreiðsla verður niðurstaðan.
    Gæfan veri með forsetanum og íslensku þjóðinni.
    Kv. Aðalheiður

    SvaraEyða
  2. Við komumst sennilega ekki langt áfram með svona aðferðum.
    Ekki þykist ég vita allt um kosti og galla - verð að treysta því að einhverjir fræðingar upplýsi mig - hverjum þeirra á ég svo að trúa? :(

    SvaraEyða

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...