04 janúar, 2010

Ég kalla sko allt ömmu mína!


(þetta er ekki persóna sem tengist mér - bara einhver internet amma :))


Það kannast væntanlega flestir (þó líklega ekki allir skjólstæðingar mínir) við hvað það þýðir þegar sagt er um einhvern: "Hann kallar sko ekki allt ömmu sína, þessi!" - merkingin þá að viðkomandi láti sér ekki allt fyrir brjósti brenna (sem örugglega ekki allir skilja) - merking þess er, eins og einhverjir vita, að viðkomandi er enginn aumingi (allir vita hvað það er).

Þetta ömmu tal er hér til komið þar sem það kom upp í samtali við gamla unglinginn nú síðdegis. Til umræðu var sú kuldatíð sem nú gengur yfir og fólkið sem kvartar yfir hvað það er "svakalega kalt"(Ég tek það fram hér, til að það liggi fyrir, að ég var ekki að kvarta um kulda).
"Já, þetta fólk kallar allt ömmu sína" sagði hann og fór síðan að fjalla um hvernig húsakynni voru áður fyrr, þegar eina upphitunin var í eldhúsinu við ylinn frá eldavélinni þar sem brennt var taði eða mó. Þá var oft um það að ræða að fjósið væri undir baðstofunni og fólki tókst að ylja sér við þær lífrænu, upphitandi, jórturvélar sem þar var að finna.
"Það fólk kallaði sko ekki allt ömmu sína."

Moralen er (flottara á dönsku): Því betri sem lífsskilyrði okkar eru, því meiri aumingjar verðum við. Því meira vorkennum við sjálfum okkur allt það sem við túlkum sem erfitt. Við köllum það ömmu okkar.

Hvers eiga blessaðar ömmurnar að gjalda, að vera notaðar um aumingjaskap?
Það væri gaman að fá upplysingar um hvar þessi ömmutenging varð til. Við höfðum það ekki á hraðbergi, við gamli.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...