Sýnir færslur með efnisorðinu hamfarahlýnun. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu hamfarahlýnun. Sýna allar færslur

29 júlí, 2019

Fyllirí og þynnka

Einstaklingarnir á þessari mynd eru óþekktir og bara teknir
af internetinu.
Sú var nú tíð, að ég, eins og flestir jafnaldrarnir, komumst á aldur til að fara á sveitaböll. Mánaböllinn voru málið á þeim tíma. Þessi böll voru sannarlega engin teboð og fljótandi, vímugefandi efni sáu til þess að nánast algleymi var náð, hömlur hurfu og allt varð einhvernveginn einfaldara og auðveldara.  Þetta hefði bara verið ansi gott ef ekki hefði verið fyrir daginn eftir. Já, meira að segja hann ég á minningar um slíka daga. Þessir dagar hefðu aldrei átt að koma. Ilmurinn af lambslærinu í ofninum um hádegisbil var varð nú aldeilis ekki til að bæta líðanina. 
Sá tími kom, að ég fór að læra. Ég lærði það, að líklega var alsæla of mikillar notkunar fljótandi, vímuorsakandi efna, of dýru verði keypt. Ég lærði, að þar var betra að vera laus við hörmungar dagsins eftir.
Einhver kanna að velta fyrir sér hverskonar játningastuð ég er nú kominn í og ég mun upplýsa það í næstu málsgrein.

Við  erum að upplifa breytingar á veðurfari í heiminum og höfum ekki hugmynd um hvenær eða hve langt þær ganga. Við erum sauðdrukkin og njótum allra dásemdanna sem tækni og vísindi með tilstyrk kapítalismans, auglýsingamennsku og ímyndarsköpunar, hafa fært okkur.
Þetta er svo frábært.
Við eigum þessa jörð og við megum gera hvað sem okkur dettur í hug við hana.
Fokk bara einhverju kjaftæði um að við séum að eyðileggja hana!
Hvernig er líka hægt að halda slíku fram - dásemdar blíða dag eftir dag, hvert hitametið á fætur öðru slegið. Ísland er orðið Paradís á þessari jörð.  Gerum bara það sem hugurinn girnist og hendum einhverjum krónum í einhvern trjáræktarsjóð, sem einhverjir þykjast hafa reiknað út að geti kolefnisjafnað sukkið. Við getum líta látið einhverja aura renna í skurðalokunarsjóð, sem einhverjir þykjast hafa reiknað út að geti nánast bara bjargað þessu öllu.
Samviskuna get ég grætt 
og gefið henni sitthvað inn...
(Páll Ólafsson)
Vandinn við þetta allt saman er, að það er engin vissa fyrir neinu. Það er eintóm óvissa og það eru bornar fram upplýsingar og getgátur þvers og kruss. Eftir sitjum við í blíðunni, svokölluðu og njótum dásemdanna, við sem viljum ekki, eða nennum ekki að velta fyrir okkur alvarleika þess sem mögulega er framundan. 
Við þessi eldri, þjökuð af velmegun síðustu áratuga, kunnum að hugsa sem svo (vegna þess að við erum ansi sjálfhverf mörg hver) að þetta reddist meðan við erum ofar moldu.  Það er mögulega eina gáfulega niðurstaðan þegar upp er staðið. Okkar aðgerðir við að flokka endalaust til að draga úr stækkun ruslahauganna, breytir sennilega ekki svo miklu þegar upp er staðið.
NASA Earth observatory
Mig grunar, að þær aðgerðir sem mannkynið verður að grípa til, ef því á annað borð auðnast að grípa til annarra aðgerða en orðavaðals, séu svo  umfangsmiklar, að þær muni koma aldeilis við okkur.  Ef við erum ekki tilbúin til að draga úr lífsgæðum svo um munar, er ekki við öðru að búast en að illa fari - einhverntíma. Loftslagsvísindamenn lýsa undrun sinni á hraða þessarar hlýnunar, sem bendir til að þeir viti fátt um hvað framundan er. Ég fæ það stundum á tilfinninguna að við séum á litlum bát á stórfljóti sem ber okkur niður stöðugt þrengri farveg í átt að fossinum við enda gljúfursins.

Það sem fyllir mig ekki síst þessari svartsýni er, að í stað þess að velja til forystu fólk sem er tilbúið að kvelja okkur til breyttra lífshátta, á öllum sviðum, leiðum við trúða og vanvita í æ meira mæli til valda. Helst nógu gamla til að þeir þurfi ekkert að kvíða því að jörðin verði óbyggileg meðan þeir lifa.

Já, ég sit hér í svitakófi, 24°C hita í Kvistholti og blæs og fnæsi. Ég á mér von um að raus af þessu tagi eigi sér enga stoð, en það er einmitt sú hugsun sem er vísasta leiðin til ..... jæja.

Meðan veðurfræðingurinn á RUV heldur áfram að tala um hitametin sem BLÍÐU, er ástæða til að hafa áhyggjur.

Patrýið er að byrja að verða þreytt og núna er spurningin hvernig ilmurinn af lambslærinu á morgun fer í okkur.

Byrjum hinsvegar á því að velja okkur leiðtoga á þessari jörð sem eru nógu sterkir til að kvelja okkur til að snúa af þessari braut. Það held ég að sé eina leiðin.
------------------------------------------------------------------------------


Þetta var sem sagt svona dæmigerður orðavaðall, sem engu breytir víst. 
Svo er spurning hvort ég skelli mér ekki í að viðhalda yfirstandandi lífsstíl með öllu því sem honum fylgir.

01 júlí, 2019

Varnarleysi dauðans

Við getum varast það sem við sjáum og höfum reynslu af. Þetta líf okkar snýst að talsverðum hluta um að sneiða hjá þeim hættum sem felast í að eiga líf á þessari jörð. Það plaga okkur sjúkdómar, við eigum á hættu að slasast eða láta lífið í hvert skipti sem við hreyfum okkur.  Við notum  allskyns hættuleg efni til að gera gönguna um þennan táradal léttbærari, setjum ofan í okkur hitt og þetta sem við hefðum betur sleppt. Svona er þetta bara og við sættum okkur við það, svo lengi sem við gerum okkur grein fyrir þeim hættum sem allsstaðar er að finna. Ef maður fer svo að ofhugsa málið, þá blasir það við að það er nánast kraftaverk að við höldum lífi til lengdar. 

Á jörðinni lærir fólk á hverjum stað að takast á við hætturnar sem þar er að finna og lifi með þeim. Sumsstaðar eru þessar hættur algengari og líklegri til að valda því skaða. Annarsstaðar eru þær fátíðari og súa staða uppi að maður getur verið nokkuð viss um það, að ef allt gengur eftir sem ætlað er, þá eru meiri líkur en minni á því að maður ná að ljúka eðlilegri ævilengd miðað við kyn og allt annað sem ævilengt fólks ræður.

Ísland er tiltölulega hættulaust land, þannig séð. Hér eru ekki mikil hætta á að óargadýr verði þér að aldurtila, hryðjuverkaárasir fátíðar, fárviðri heyra til algerra undantekninga, veðurfar almennt bara vel þolanlegt og laust við ógnir af einhverju tagi. Það má  eiginlega segja að Ísland sé eitt besta land heims til að búa á um þessar mundir, eða allavega þar til .......

Allt þetta sem ég er búinn að segja hér fyrir ofan er auðvitað ekkert nema almennt kjaftæði, þó auðvitað sé það allt satt, en með því er ég að reyna að búa til samhengi við meginefni þessa pistils, bévítans (nú eða bara helvítis) LÚSMÝIÐ.

Hvernig má það vera að svona kvikindi séu yfirleitt til?  Hversvegna geta þau þá ekki allavega verið af stærð sem maður ræður við?
Nei, yfir fréttum eitthvert kvöldið fyrir nokkrum vikum fórum við að taka eftir örsmáum kvikindum sem flögruðu í kringum okkur Kvisthyltinga. Í okkar huga var þetta bara það sem við höfum kallað MOR (sbr. það er morandi í flugum). Þar er um að ræða örsmáar flugur sem eru algengar t.d. í gróðurhúsum, sem valda engum skaða öðrum en þeim að vera pirrandi.
Daginn eftir kom svo í ljós að þarna hafði ekki verið saklaust mor á ferð, heldur margumrætt lúsmý.  Ég hefði fengið meira að kenna á því en fD og pælingar voru uppi um að það tengdist blóðflokki, án þess að nokkur þekking lægi fyrir um það.

Lúsmý (mynd Karl Skírnisson)
Þarna þurfti að grípa til aðgerða ef ekki ætti að fara ver. Í þessum heimshluta er ekki um að ræða aldalanga þekkingu á að takast á við svona kvikindi, svo það var fylgst grannt með ráðleggingum á öllum tiltækum miðlum þar sem jafnfram voru birtar hryllingsmyndir af afleiðingum nætursvefns fólks sem hafði sofið nakið ofan á sænginni sinni við opin glugga í þessu sumarhitum. Það var allvega ljóst, að það var ekki viturlegt.

Framvegis var tekið á að ráð í Kvistholti að loka öllum dyrum og gluggum þegar kvöldaði. Það er gengið á allt sem opnanlegt var í húsinu að minnsta kosti tvisvar. Síðan var kvöldinu og nóttinni eytt í svitakófi, enda húsið með eindæmum vel einangrað.  Þetta var tekið til bragðs vegna þessara örsmáu kvikinda sem láta sér ekki nægja að drekka blóðið úr manni, heldur þurfa einnig að sprauta í mann einhverju ensími í leiðinni.

Það telst ekki nóg að loka öllum opnanlegum götum á húsinu, því þegar kvöldar úða Kvistholtshjónin yfir sig skordýrafælum og bera á sig sig einhver efni til að takast á við kláðann af því sem komið er og fylgjast síðan grannt með því hvort örsmáar flugur sjáist einhversstaðar í umhverfinu.

Svona er þetta búið að ganga fyrir sig og gekk sæmilega þar til eitt kvöldið, þegar lokunin virðist hafa átt sér stað of seint, eða þá að einhver glugginn hafði gleymst. Þá gerðist það sem sjá má á myndinni hér efst.

Lúsmý felur í sér óþolandi skerðingu á lífsgæðum og er, eins og svo margt annað sem þarf að kljást við þessi árin, hvar sem er á þessari jörð, afleiðing loftslagsvár eða hamfarahlýnunar.
Má ég þá frekar biðja um frostavor,  rigningarsumur, sumarið sem aldrei kom, og allt það.



Laugarási ljúfast er að búa‘ í
lognið elskar hvern þann sem hér er.
Þar með talið þetta árans lúsmý
sem þyrst í blóð mitt sækir, því er ver.

En lúsmýið má leika sér í friði
ég læt það ekki fjötra huga minn.
Ekki mun ég liggja á mínu liði 
og læt það finna að ég er tilbúinn.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...