Sýnir færslur með efnisorðinu Hildur Lilliendahl". Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Hildur Lilliendahl". Sýna allar færslur

20 júní, 2017

Til Hildar

Komdu sæl, Hildur Lilliendahl Viggósdóttir.

Ég geng út frá því, þar til þú sannfærir mig um annað, að það sem þú sendir frá þér á Facebook síðunni þinn, sé ekki mynd af hinni raunverulegu Hildi Lilliendahl Viggósdóttur, heldur sé um að ræða tiltekna framhlið sem þú sýnir á þessum vettvangi og sem virðist höfða til fjölda fólks.

Ég vil auðvitað byrja á það þakka þér fyrir að vekja athygli á greininni minni, sem birtist á blogginu mínu, undir heitinu: "Aumingja konurnar".

Ég veit það núna, að þú átt marga vini á Facebook, í það minnsta viðhlæjendur, því kl. 11 að morgni sunnudagsins 18. maí tókust heimsóknir á bloggið mitt á slíkt flug að annað eins hefur aldrei gerst. (Ég þakka fyrir ef fjöldinn nær 200 að jafnaði) Það var einmitt á sama tíma og þú kaust að eyða á bloggfærsluna nokkrum vel völdum orðum á facebook síðunni þinni. Þegar þetta er ritað, eru gestir á bloggfærsluna mína orðnir nokkuð á sjötta þúsundið. Vel gert og ég ítreka þakkir mínar.

Ég fékk skýringu á þessum óvæntu vinsældum skrifa minna þetta sama kvöld, en þá fékk ég sendan hlekk á facebooksíðuna þína með þessum orðum:
"Þér hefur tekist að pirra mesta feminista Íslandssögunnar 😀"

Ég telst ekki til vina þinna eða viðhlæjenda á Facebook og hyggst ekki freista þess að breyta þeirri stöðu minni á næstunni.
Ég smellti á hlekkinn. Þarna tók þetta á móti mér:
  
Hildur Lilliendahl Viggósdóttir18. júní kl. 10:51 · Hæ, litli hræddi hvíti kall. Fyrirgefðu að ég skuli hafa verið að flækjast fyrir þér í útvarpinu með allt þetta glerþak og sjálfsvorkunn. Auðvitað átti ég bara að vera meira með tippi. Man það næst. P.s. Árið sem við fögnuðum 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna var 2015, ekki 2016.

Þú hafðir fellt þinn dóm. Þú hafðir skilgreint mig. Þú varst með þetta allt á hreinu. Þarna þurfti engin grá svæði, enga túlkun. Nei, þú vissir bara hver ég var.  Það búa ekki allir yfir hæfileikum til að geta áttað sig svona vel á fólki. Til hamingju með það, Hildur. Þarna birtist þú sem sannur leiðtogi  á Facebook síðunni þinni. Þú hafðir afgreitt eitt karlrembusvínið enn "in one fell swoop" eins og segir í á einum stað í Macbeth (ég vona að þú fyrirgefir mér hrokann, en ég þykist vita að það gerirðu ekki).

Þú ávarpar mig sem lítinn kall.
Það getur meira en verið að ég sé lítill kall, ekki síst gagnvart slíku stórmenni sem þú virðist telja þig vera. Þessi litli kall sér hinsvegar ekki stórmennið, heldur leiðtogann í eineltinu á skólalóðinni, sem segir við félagana: "Tökum þennan niður!"  Þessi aðferð þín er ekki síst alvarleg, þar sem þú telur þig vera að berjast fyrir því sem þú telur rétt vera og gott í samfélaginu.

Þú ávarpar mig sem hræddan kall.
Nei, Hildur, ég fann ekki til ótta við þig. Mögulega ótta við það að aðferðir af þessu tagi séu það sem er að verða viðtekið í samfélaginu. Mögulega, eins og við flest, ótta vegna framgöngu nýs forseta Bandaríkjanna, sem er ekki af ólíkum toga og sem lesa má út úr málflutningi þínum: Hann gefur út tilskipanir sem fylgdarsveinar og fylgdarmeyja sjá síðan um að útfæra.
Nei, Hildur. Ég óttast þig ekki og ég tel mig ekki hafa látið í ljós neinn ótta í greininni sem þú afgreiddir. Kannski notaðir þú þetta orð í ávarpi þínu vegna þess að það er svo góð kveikja: "Ertu hrædduuuuuur?" (hér vísa ég aftur á skólalóðina).

Þú ávarpar mig sem hvítan kall.
Þarna hittirðu sannarlega naglann á höfuðið. Ég er hvítur karl, í þeirri merkingu, að ég tilheyri hvíta kynstofninum. Það er víst fátt sem ég get gert til að breyta því. Þú ert hvít kona, ekki sýnist mér annað.
Það kann að vera röng túlkun hjá mér, en ég held, að þú notir orðið "hvítur" í ávarpi þínu, til þess að árétta enn frekar flokkun þína á mér. Þannig myndi það teljast neikvætt að vera hvítur karlmaður, væntanlega þá vegna þess að þeir eru ekki menn að þínu skapi. Ég veit ekki, svei mér þá.
Til að gefa þér nú ekki færi á því að saka mig, á þessu stigi, um rasisma, kýs ég að taka það fram, að að seint verð ég víst sakaður um þann isma (nema þú takir upp á því).

Ég held áfram að fjalla um ávarpið þitt.

Þú biður mig að fyrirgefa þér.
Hildur, það er ekkert að fyrirgefa, því í greininni minni, vék ég ekki einu orði að þér og þú komst ekki einu sinni í hugann þar sem ég sat og skrifaði þennan, að einhverra mati, skelfilega pistil. Þú verður í staðinn að fyrirgefa mér að ég skyldi ekki hafa hugsað til þín.
Vissulega hef ég ýmislegt að athuga við málflutning þinn, eins og hann birtist á facebook síðunni þinni. Ef hann er með sama hætti þegar þú kemur fram í fjölmiðlum, þá finnst mér að þú eigir ekki heima þar.  Mér má finnast það, er það ekki?
Ég get, hinsvegar, sannarlega játað, að ég tek undir með þér, af heilum hug, þegar þú beinir spjótum þínum að ofbeldismönnum. Í þeim efnum ber harla lítið í milli, nema kannski orðavalið.
Ég átta mig ekki á tilvísun þinni í þetta með "typpið", sem þú nefnir þarna. Ég læt mér í léttu rúmi liggja hvort þú ert með typpi eða ekki. Ef þú ert almennileg manneskja er mér slétt sama.

Þú leiðréttir mig.
Ég er fyrstur manna til að viðurkenna mistök og þykir leitt að hafa farið rangt með ártalið. Ég geri mér grein fyrir að mistök eða rangfærslur í málflutningi veikja hann.

Áfram með smjörið, því þú varst ekki búin að tjá þig um mig.
(Þetta gæti farið eitthvað yfir 1000 orðin, þannig að orðateljandi þingmaðurinn gæti gefist upp, og aðrir "vinir" þínir gætu þurft að leggjast á spítala vegna líkamlegra verkja. en ég verð bara að taka því).
Í athugasemdum við stöðufærslu þína segir þú (eftir að "lækin" eru farin að hrúgast inn):

18. júní kl. 10:59
Hildur Lilliendahl Viggósdóttir „Ég vona að ef einhver kýs að tjá sig með einhverjum hætti um þetta efni, þá geri hann það á eigin forsendum og málefnalega.“

Takk fyrir áréttinguna, Páll. Ég hef verið að hugsa málið eftir að ég las þessa djúpu hugleiðingu þína og ég hef komist að þeirri niðurstöðu að best sé að segja a) fokkaðu þér og b) mikið ofsalega ertu vitlaus.

Til áréttingar, þá er þetta innan gæsalappanna, tilvitnun í greinin mína.
Þú hugsaðir í heilar 8 mínútur, Hildur.  Frá 10:51 til 10:59. Ertu nú alveg viss um að þú hafir yfir höfuð lesið öll orðin í umræddri grein? Ertu nú alveg viss um að þú hafir velt fyrir þér öllu sem þar kom fram?  Fannstu virkilega ekkert, sem féll þér þar í geð? Alveg viss?  Ef  þú skyldir nú svara þessum spurningum neitandi, hljóta mín viðbrögð að verða þau að álíta sem svo að þig skorti nokkuð á að hafa trú á kynsystrum þínum.
Snýst þetta ef til vill meira um það að ég, lítill, hræddur og hvítur kallinn, hafi bara hreint ekki rétt til þess að koma inn á þitt svæði?  Er bara þín skoðun rétt, Hildur?  Ef svo er, hver er þín skoðun, og í hverju víkur hún frá minni?  Þetta er ekki svona "Ein Volk, ein Reich, ein Führer"- dæmi, er það?

Segðu mér nú hvað það er sem þér finnst vera rétt. Leyfðu mér svo að velta fyrir mér, að hve miklu leyti við erum sammála um málin.  Þó þú sért kannski "mesti feministi Íslandssögunnar" eins og stóð í skilaboðunum sem ég fékk, þá tel ég ekki að þú búir ein yfir réttinum til að segja hvað er rétt og hvað er rangt.  Sannleikurinn er ekki þín eign, Hildur.
Þú hefur auðvitað fullan rétt á að tjá skoðanir þínar og birta öðrum sannleikann eins og hann blasir við þér, en heldur finnst mér nú fátækleg afgreiðsla þín á skoðunum mínum. Þú dæmir þær ekki heldur mig.  Fellur það vel að þeirri hugmyndafræði sem þú byggir framgöngu þína á, svona almennt séð?

Niðurstöður þínar eru, svo því sé nú haldið til haga:
a) fokkaðu þér 
Ekki efast ég nú um að þetta sé það sem þér finnst rétt að segja við mig. Hildur. Það skal ég segja þér, að í mínum eyrum, að teknu tilliti til hvaðan það kemur, er þetta hrósyrði.
b) mikið ofsalega ertu vitlaus
Viðbrögð mín við þessu gullkorni, þessari orðkyngi, eru þau sömu og við a-lið.

Ég reikna með, að þú teljir þetta hafa verið náðarhöggið;
Þarna væri þetta ömurlega og heimska karlrembusvín endanlega afgreitt.
Dómur fallinn.
Hvað var hann líka að voga sér inn á svið sem honum kemur ekki við og þar að auki með rangar skoðanir?
Vel gert, Hildur, eða þannig.
"Þú ert flottust!", 
"Burn! Djöfulsins meistari ertu Hildur!"
(svo vitnað sé til tveggja áhangenda þinna, reyndar við önnur innlegg þín á síðunni þinni).

Þú kemur næst við sögu í Facebookfærslu þinni þegar háskólaprófessorinn í hópnum spyr:

"Hvur er þessi náungi?" ·
18. júní kl. 13:47
Hildur Lilliendahl Viggósdóttir Kennir í Menntaskólanum á Laugarvatni.
· 18. júní kl. 14:36
NN1:  nei hann er nýhættur störfum. Útskýrir kannski eitthvað...
· 18. júní kl. 15:18
NN2: Eins gott að þau eru að fá stórkvendið NN3 sem kennara!
· 18. júní kl. 15:50
Háskólaprófessorinn: Hildur Lilliendahl Viggósdóttir Púff!

Ég kýs að nafngreina ekki vini þína eða viðhlæjendur hér, þar sem ég er með þessum skrifum að beina máli mínu til þín, Hildur, þar sem þú ert ritdómarinn. Hinir koma síðan inn, einn af öðrum til að setja sinn lit á "umræðuna", og er þar allt á einn veg, eins og ég hefði svo sem getað sagt mér sjálfur.

Þú leiðréttir mig, réttilega varðandi ártalið og því er mér ljúft að leiðrétta þig. Ég hef ekki starfað sem kennari við Menntaskólann Laugarvatni síðastliðin 7 ár, svo því sé nú haldið til haga.   Jafnframt vil ég fara fram á að þú blandir Menntaskólanum Laugarvatni ekki inn í umfjöllun þína um mig eða skoðanir mínar.  Sannarlega er þar og hefur verið afskaplega öflugt skólastarf og þar eru jafnréttismál í öruggum höndum (þú berst fyrir jafnrétti, er það ekki, Hildur? - jafnrétti til að halda fram ólíkum skoðunum, jafnvel?). 

Mér er ljúft að upplýsa þig um það, Hildur, að ég starfaði við skólann í rúmlega 30 ár, fyrst sem kennari, síðan sem kennari og námsráðgjafi, þá sem aðstoðarskólameistari, til að byrja með ásamt kennslu, þar til s.l. haust að ég fór á eftirlaun, en ég var áfram í hlutastarfi með starfstitilinn ráðgjafi og verkefnastjóri. Ég er nú á 64. aldursári. Vonandi fyllir þetta að einhverju leyti inn í mynd þina af mér.
Þá hef ég svarað spurningunni sem háskólaprófessorinn varpaði fram: "Hvur er þessi náungi?"  
Í samskiptunum sem sjá má hér fyrir ofan, og sem tekin eru af  facebooksíðu þinn, er aðeins eitt sem ég átta mig ekki á: "Hildur Lilliedahl Viggósdóttir Púff!" háskólakennarans.  Ég er dálítið forvitinn um það hvað hann á við.

Niðurlag
Ég skrifaði grein og kallaði hana "Aumingja konurnar", á bloggsvæði mitt. Þar er hægt að skrá athugasemdir og það hefur einn gert það, kurteislega og málefnalega, að ég tel.  
Þú kaust, Hildur, að fella þinn dóm, á þínu heimasvæði, þar sem tínast inn þúsundir vina þinna eða viðhlæjenda um leið og þú byrjar að slá inn skoðanir þínar eða fella dóma um menn og málefni.   
Ekki áfellist ég þig fyrir það, það er þitt val, en þú gerir þér væntanlega grein fyrir ábyrgð þinni gagnvart fólkinu sem fylgir þér.
Það hvarflar að mér, að það sé þér efst í huga við dómana sem þú fellir, að upphefja sjálfa þig á kostnað annarra, í stað þess að velta fyrir þér hvort það er rétta aðferðin við að vinna þeim málefnum sem þú segist berjast fyrir, fylgi.   Það voru ríflega 5000 manns sem opnuðu bloggfærsluna mína. Hve margir lásu hana og veltu innihaldi hennar fyrir sér, veit ég ekki. Ég veit að sumum fannst tíma sínum illa varið við lesturinn, allt í lagi. Sumir fundu til líkamlegra óþæginda, og það þykir mér leitt, auðvitað. Brugðust sumir við, án þess að lesa greinina; treystu þér bara til að dæma hana "rétt"?.

Einn álitsgjafinn sagði: Held að svona pistill eins og hann er að skrifa flokkist undir þöggunartilburði og er dæmigert karlrembufyrirbæri.
Já, það er með þetta hugtak, þöggun, Hildur. Finnst þér þinn málflutningur geta flokkast þannig, Er til einhver handbók þar sem hægt er að lesa sér til um þetta hugtak? Fer merking þess í manngreinarálit?

Jæja, Hildur. Nú er þessi pistill orðinn rúmlega 2000 orð (2242), og þingmaðurinn væntanlega farinn að bæta hag barna, öryrkja og aldraðra, hvað veit ég? Einhverjir eru búnir að eyða dýrmætum tíma af lífi sínu. Þú búin að fella dóminn. Allt eins og vera ber, ........eða?

Ég lét mig hafa það að setjast við þessar umtalsverðu skriftir, vegna þess að mér mislíkar hvernig þú afgreiddir skoðanir mínar og persónu mína. Það gerðir þú með því að reyna að gera lítið úr mér sem persónu, þó þú hefðir aldrei heyrt á mig minnst. Ég fer auðvitað fram á að þú biðjir mig afsökunar, en veit að það verður víst aldrei, enda tel ég að slík afsökun hefði ekkert raunverulegt innihald. 

Eins og ég sagði í upphafi, þá held ég að framganga þín á facebook síðu þinni, sé ekki það sem þú ert í raun. Ég veit það auðvitað ekki. Kannski ertu bara að þessu til að búa til "sensasjón", því það er sensasjón sem gengur í "pöpulinn". Hver veit?

Njóttu dagsins og megi þér ganga vel að takast á við þau verkefni sem lífið færir þér.
----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

VIÐBÓT 
vegna framhalds málsins.

Þessa viðbót set ég inn í framhaldi af því að Hildur fór að gera athugasemd við pistil sem ég hafði skrifað í framhalda þessa og bar titilinn FINSLIT.  Hann fjallar í sem stystu máli um að ég hygðist fjarlæga snertifleti milli mín og konunnar á Facebook.

Hér birti ég samskipti okkar Hildar við þetta tækifæri:

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...