Sýnir færslur með efnisorðinu trúin. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu trúin. Sýna allar færslur

31 desember, 2018

Eitthvað svona áramóta

Hvort sem vilji stendur til þess eða ekki, kemst maður einhvern veginn aldrei hjá því að hugsa fram og til baka um áramót. Maður getur reynt að vera raunsær og gera tilraun til að telja sjálfum sér trú um, að það sé bara hreint ekkert merkilegra við skilin á milli 31. desember og 1. janúar, en á milli 6. og 7. mars, en það virðist bara ekki vera einfalt.
Eins og um allt sem viðheldur þeirri skipan sem maðurinn hefur komið sér upp, þá eru bara hlutirnir með ákveðnum hætti, sem enginn einn hefur á valdi sínu að breyta. Einhvernveginn, einhverntíma, var ákveðið að koma á aðferð við að telja tíma, sem meðal annars fólst í því, að ákvarða að þar sem 31. desember og 1. janúar mættust, skyldu vera áramót, í það minnsta hjá ákveðnum hluta mannkyns.

Það er þannig, sko, að áramót eru bara tilbúningur, eða mannanna verk.

Er nú eitthvað meira vit í því en tískuslagorðinu: "Lífið er núna"?   Auðvitað er lífið núna, en líka áðan og í gær og fyrir þúsundum ára. Lífið er ekkert frekar núna en á einhverjum öðrum tíma. Hvar værum við stödd ef lífið væri bara núna? Ekkert okkar væri hér til að halda þessu fram. Í mínum huga er þetta slagorð bara birtingarmynd ákveðins hroka gagnvart öllu því sem liðið er og öllu því sem kann að verða.

Ég þykist alveg vita hvað átt er við með þessu slagorði, var bara aðeins að snúa út úr því.
En kannski veit ég bara hreint ekki hvað átt er við. Er merkingin einhver önnur en hvatning til þess að njóta dagsins, njóta þess sem er núna, gera eins gott úr því sem lífið hefur fært okkur í dag? Ég vona að einhver geti svarað því. Því ef merkingin er sú, að við eigum að lifa bara í núinu verður enn auðveldara fyrir þau öfl sem þannig eru innréttuð, að leiða okkur eins og lömb til slátrunar, hugsjónalaus og óvitandi um söguna. Það er reyndar margt sem bendir til þess að slík öfl séu að ná æ meiri undirtökum meðal okkar.

Það er sannarlega, í fljótu bragði, falleg pæling, þetta með að lifa bara í núinu. Raunhæf er hún samt ekki og ávísun á vandræði. Frjór jarðvegur fyrir svokallaða popúlista; "leiðtoga" sem tala inn í líf hugsjónalauss fólks sem lifir bara núna. Þannig met ég það.

Ekki hef ég oft sett hér inn biblíutilvitnanir, en geri það samt núna. Fullviss þykist ég um að ég misskil það sem þessi texti felur í sér, en mig grunar að margir skilji hann eins og ég: Vertu ekki með þessar áhyggjur. Ef þú fylgir mér þá mun ég bjarga þessu, alveg eins og ég sé um fugla himinsins og liljur vallarins.
Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn? Og hví eruð þér áhyggjufullir um klæði? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búin sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins, sem í dag stendur, en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlitlir! Segið því ekki áhyggjufullir: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir, og yðar himneski faðir veit, að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning. Mt 6.24-34
Því hefur verið haldið fram, að trúarbrögð hafi svipuð áhrif á fólk ópíum og í vissum skilningi má alveg halda því fram. Í vissum skilningi má einnig halda því fram, að framganga margra leiðtoga heimsins um þessar mundir minni nokkuð á á þessa hugmynd um trúarbrögðin. Hún birtist í hugarheimi fólks sem lifir í núinu, með lausnir sem virðast virka bara ansans ári vel núna.  Hvort sannleikurinn telst þar sagna bestur, er allt annað mál.  Sannleikurinn verður stöðugt umdeildari og óljósari. Það er að verða svo komið að hver og einn geti búið til sinn sannleika og þar með kallað sannleik annarra örgustu lygi.

---------------------

Þrátt fyrir það sem ég hef látið frá mér hér fyrir ofan þá horfi ég bjartsýnn til nýja ársins, því ég held að gervisannleikur vitgrannra þjóðarleiðtoga og predikara verði undir þegar upp verður staðið.

Svona í lokin: öllum ykkur sem hafið lesið alla spekina sem ég hef hellt hér inn á árinu, þakka ég einlæglega. Jafnframt óska ég ykkur heilla og farsældar á árinu 2019 og að ykkur auðnist að njóta hvers dags eins og hann kann að birtast ykkur. 

Lífið var í gær.
Lífið er núna.
Lífið er á morgun.
Lifum því.

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...