Sýnir færslur með efnisorðinu Ármannsfell. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Ármannsfell. Sýna allar færslur

28 september, 2019

Fátt segir af þokunni

"Svartagil!! Við áttum að fara að Svartagili!  hérna!". 
Auðvitað beygði ég. Svo tók við malarvegur, sem brátt sveigði burt frá fjallinu.
"Ætli þetta sé ekki örugglega rétt?"
Eftir um kílómeters akstur í áttina að Þingvallavatni voru vonir farnar að dofna um að við værum á réttri leið, en þá blasti við beygja til vesturs og síðan til norðurs og í átt að fjallinu, Vonir glæddust. En svo kom aftur beygja á veginn til suðvesturs og vonir dofnuðu. Það sem hélt voninni hinsvegar á lífi var slóði sem lá áfram og í átt að fjallinu.
"Prófum þennan. Hann virðist liggja þarna inn í gilið".
Slóðinn lá þarna eitthvert inn úr og það var meira að segja lítil brú ("Þú ferð ekki lengra!"), sem lá yfir lítinn læk og sauðfé á beit og beitarhólf og svo bara gufaði slóðinn upp.
Þarna tóku við ýmsar vangaveltur.
"Ég veit nú ekki hverskonar leiðbeiningar þetta eru eiginlega! Afhverju er þetta ekki betur merkt?"
Þarna sáust engin merki um göngustíga en nýlegar mannaferðir, yfirleitt, svo það var bara snúið við. Reynt að gúgla, án þess að komast nær upplýsingum um hvar hefja skyldi gönguna á fjallið.

Þetta átti að vera gangan sem hafði það markmið eitt að finna grænan póstkassa einhversstaðar uppi á Ármannsfelli, samanber Ármannsfellið fagurblátt og fannir Skjaldbreiðar, og svo framvegis.  Sannarlega voum við orðin nokkuð viss um hvar Ármannsfell var, en eins og flestir vita eru ýmsir möguleikar á uppgöngu á það.  Þeirrar sem taldist vera heilsueflandi, leituðum við lengi, lengi og vorum næstum búin að aka í kringum fjallið þegar tekið var á það ráð að hringja "í vin". Þar fengust leiðbeiningar sem leiddu okkur nær einhverskonar sannleika. Sannleikurinn var þó ekki meiri en svo, að hann kostaði okkur kílómetra lengri göngu en ástæða hefði verið til.


Svo tók gangan við og þar sem ganga er bara ganga, segir fátt af henni, en því vil ég halda til haga, að fjallgöngur hafa aldrei verið neitt sérstakt áhugamál hjá mér og því var það fyrir lítt orðaðan hópþrýsing og ekkert annað, að ég lét hafa mig úti í þessa för. Ég hugsaði á endanum sem svo, að ég gæti þó allavega tekið nokkrar myndir. Þar með burðaðist ég þarna áleiðis með helstu linsur og EOS-inn.
Útsýnið reyndist síðan ekkert sérstakt: móða og mistur.  Það var aldrei ætlun mín að klífa þetta fjall nema að hluta til, en samferðafólkið gerði heilmikið úr því að það ætlaði að finna póstkassann og skrifa nöfn sín í bókina. Ég setti mér þó mí hóflegu markmið og smám saman þokuðumst við upp hlíðina, með  hvassviðri í fangið. Þetta fannst mér vera talsvert feigðarflan sem engan veginn myndi til góðs.
Til að gera langa sögu styttri þá var viðhaldið óorðuðum þrýsingi á mig, sem varð til þess að markmið mín og um freista þess að ná kannski upp í miðjar hlíðar, enduðu með því að toppnum var náð, en þá skall á niðadimm þoka svo leitin að póstkassanum tók á sig undarlegar myndir, sem skiluðu sér að lokum inn í EOS-inn, áður en haldið var aftur niður hlíðina, undan hvassvirðinu og eftir nokkur skakkaföll.


Svo sem búast mátti við, lauk göngunni þar sem Qashqai beið þolinmóður, miklu lengra burtu en þörf hefði verið á og þar með lauk tilraunum mínum til að klífa fjöll, í það minnsta þar til skrokkurinn og sálin verða tilbúnari, sem ég útiloka auðvitað ekki að verði, svo sem.

Hvað er svo satt af ofanskráðu verður hver og einn lesenda að meta fyrir sig.




Koma heim og heita því
að leggja aldrei upp á ný.
Dreyma margar næstu nætur
hrap í björgum, brotna fætur.
Segja löngu seinna frá því:
„Sjáið tindinn, þarna fór ég!
(úr ljóðinu "Fjallganga", eftir Tómas Guðmundsson)



























Ég tel rétt að þakka göngugörpunum Ragnheiði Jónasdóttur og Dröfn Þorvaldsdóttur fyrir hvatninguna og samfylgdina. Án óþreytandi hvatningar frá þeim hefði ég líklega aldrei lagt Ármannsfell að fótum mér.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...