Sýnir færslur með efnisorðinu leikskóli. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu leikskóli. Sýna allar færslur

21 febrúar, 2018

Er það í raun bara þriðjungur?

Heildarvökutími 3ja ára barns á ári, miðað við 14 klukkustundir á sólarhring er 5110 klukkustundir.

Ef skoðað er dagatal leikskóla fyrir veturinn 2017 og 2018 og miðað við að þetta barn sé í 8 tíma vistun dvelur það í um 1810 klukkustundir á ári í umsjón annarra en foreldranna. Í umsjá foreldranna væri barnið þá 3300 klukkustundir. . Í þeirri tölu eru allir þeir dagar á árinu sem leikskólinn starfar ekki og 6 klukkustundir á hverjum virkum degi, fyrir og eftir að leikskóla lýkur.

Þetta þýðir að í um það bil 36% af vökutíma sínum dvelur barnið í umsjá leikskóla og þar með um það bil 64% í umsjá foreldra eða forráðamanna.

Svona getur þetta verið fyrstu 4-5 æviárin, ef frá er talið það fyrsta. Þannig má segja að barn í 8 tíma leikskóla á virkum dögum  í 4 ár, eyði þar 7240 klukkustundum.

Eftir er að svara spurningunni, að hve miklu leyti þessi 64% af vökutímanum getur talist vera svokallaður „gæðatími“, þar sem foreldrarnir taka með virkum hætti þátt í lífi barnsins: lesa fyrir það, tala við það, kenna því, skemmta sér með því, og svo framvegis. Hve mikill hluti þessa tíma fer í þætti þar sem barnið kemur eiginlega ekki við sögu: samfélagsmiðla, sjónvarp, matargerð, heimilisstörf, heilsurækt, skemmtanir, verslunarferðir og annað að þeim toga?

Ég hef ekki svarið við þeirri spurningu, en geng út frá því, að foreldrarnir séu þreyttir eftir vinnudaginn og vilji helst hvíla sig. Barnið er einnig þreytt eftir sinn dag sem hefur verið undirlagður af áreiti frá jafnöldrum. Líklega vill það einnig hvíla sig. Það væri ef til vill nær að ætla að virkur tími með foreldrunum sé talsvert lægra hlutfall vökutímans en 64%. Mér kæmi ekki á óvart ef hann er í kringum 30% eða þaðan af minna, en ég ítreka auðvitað, svo sanngjarn sem ég nú er, að þetta bara veit ég ekki og þetta er vísast misjafnt eftir fjölskyldum og fjölskylduaðstæðum.

Til samanburðar og gamans ætla ég að hverfa aftur um 60-70 ár, til reykvískrar fjölskyldu. Fjölskyldur þá voru taslvert barnfleiri en nú, enda svokölluð barnasprengja í gangi, börnin oft 5 eða fleiri. Ekki voru miklir möguleikar á að fá pössun fyrir þessi börn og það kom í hluta konunnar að gæta bús og barna meðan karlinn aflaði tekna til heimilishaldsins.

Ekki veit ég nákvæmlega hvenær dagvistun fyrir börn kom fram á sjónarsviðið fyrst, en hér neðst er umfjöllun frá 1928, sem er gaman að lesa.

Á stríðsárunum var tekið til við að senda börn úr borginni í sveit á sumrin og þá ekki síst vegna hættu á loftárásum á borgina. Á þeim tíma og síðar dvaldi mikill fjöldi reykvískra barna fjarri fjölskyldum sínum yfir sumartímann, annaðhvort á sveitabæjum, eða á sérstökum barnaheimilum. Reykjavíkurdeild Rauða krossins kom upp og rak heimili af þessu tagi, meðal annars í Laugarási, en þar var, frá 1952, tekið við um 120 börnum, 3-8 ára, til 8 vikna dvalar á sumrin. Sem sagt, börn, allt niður í þriggja ára, voru send að heiman í júní og komu ekki aftur í bæinn fyrr en í ágúst. Þegar ég nefni þetta, tekur fólk andköf. Börnin sem send voru til sumardvalar voru þar í átta vikur, og ef miðað er við sama vökutíma og ég geri hér efst, 14 tíma á sólarhring, gerir það 770 klukkustundir á ári, sem var þá sá tími sem börnin eyddu í umsjá annarra en foreldra sinna. Til upprifjunar þá dvelur 3ja ára barn nú 1810 klukkustundir í umsjá annarra en foreldranna, jafnvel í 4 ár.

Þegar upp er staðið, má segja að aðgengi barna að foreldrum sínum nú, sé umtalsvert minna en á þeim tíma þegar sumardvalarheimili fyrir reykvísk börn voru rekin víða um land.
Til að halda því nú til haga, þá sjá nútímabörnin allavega foreldra sína á hverjum degi.  
Eftir stendur spurningin um nýtingu þess tíma sem börn og foreldrar eru samvistum. Um það má margt segja, en það verður ekki gert hér og nú.

------------------------------------------

Sumargjöfin, í apríl. 1928 

Dagheimilið.

Ilt er að horfa á börnin á götunni hjer í Reykjavík alt sumarið, og góðir þykjast þeir foreldrar og eru það líka, sem hafa einhver ráð með að koma þeim þaðan og upp í sveit einhvern part úr sumrinu. Og þó að þeir sjeu orðnir margir, sem sjá ráð til þess, þá eru hinir fleiri, sem engin hafa ráðin. Barnavinafjelagið Sumargjöf rjeðst í það í fyrrasumar, að hafa nokkurskonar sveitaheimili, getur maður vel sagt, fyrir börn í Kennaraskólanum. Dagheimili var það kallað, því að börnin fóru heim til sín á kvöldin. Tilgangur félagsins var sá fyrst og fremst, að koma þeim, sem þar voru af götunni og veita þeim þar gott heimili, sem var svo í garðinn búið, að þau fengu góðan og einfaldan mat og nóga mjólk, — og vöndust þar góðum siðum, jafnframt því, sem þau gátu lifað lífi sínu úti í Guðs grænni náttúrunni, á Grænuborgartúnunum og melunum þar í kring, laus við götuna og alt, sem henni fylgir. Þyrftu þau einhvers með eða óskuðu einhvers, var hjálpin við hendina, þar sem við vorum, sem tekist höfðum á hendur að vera höfuð heimilisins. Ekki gat heldur verið um það að tala, að hópurinn væri nokkra stund eftirlitslaus, slíkt ungviði, sem þar var saman komið.  

Reynsla var hér engin fyrir, hvernig þetta mætti takast, eða hvert gagn mætti af verða, og undirbúningurinn heldur lítill. Félagið ungt, stofnað um sumarmálin í fyrra, og hafði litlu öðru yfir að ráða, en góðum og einlægum vilja, til þess að verða börnunum að liði. 

2000 kr. sem safnast höfðu á sumardaginn fyrsta í fyrra, var það eina fje, er það byrjaði þessa starfsemi sína með. Með sannfæringu og von þeirra, sem mestan áhuga höfðu fyrir að eitthvað gæti fjelagið gert fyrir uppeldi barna, var byrjað með þessu litla dagheimili, þannig að þó að þessi vísir, sem alveg væri ókunnugt um árangur af, væri lítill, þá myndi fjelagið altaf geta bygt upp af honum og haldið áfram, þótt ef til vill yrði breytt eitthvað til. 

Hvað voru nú börnin að gera? 
Þau veltu sjer og ljeku á túnunum, þau mokuðu upp melinn með skóflum sínum, óku sandi fram og aftur í litlu hjólbörunum. Stundum var stafrófið á ferðinni, blýantar og teiknibækur, og búnir til rammar o. fl. úr basti. Þau hlupu af stað, þegar bjallan kallaði í máltíðir, og þá var að þvo sjer, áður en tiltækilegt var að setjast að borðum, og þá varð oft handagangur í öskjunni, því höndurnar voru margar og moldugar, enda fór líka stundum vatn á gólfið, en þau hjálpuðu sjálf til að þurka það upp, eins og þau líka þurkuðu af í dagstofunni sinni og löguðu þar til á morgnana til skiftis og báru af borðinu eftir máltíðir og sópuðu molana, sem dottið höfðu af borðum. Borð öll og sæti voru lág og við þeirra hæfi. Þegar þau höfðu sest niður að borða, lásu þau öll í einu og hvert fyrir sig góða og gamla borðbæn, tóku "mundlínuna, sem lá í umslagi á hverjum diski og létu framan á sig og tóku sér skamt, eftir að búið var að biðja þau að gera svo vel. Stóðu upp frá borðum þökkuðu fyrir sig og fóru til leikja sinna. Þessu líkt liðu dagarnir þarna þessa tvo mánuði, júlí og ágúst. Foreldrar barnanna voru ánægð með börnin sín þarna, og unnið var í þeim anda eins og áður er áminst, að þau ættu þarna heimili, sem ljeti sjer ant um að þeim liði

06 febrúar, 2018

Umboðsmaður málleysingja

Ég læt mér fátt óviðkomandi og hef reyndar áður fjallað um þetta málefni, en geri það aftur nú í tilefni af degi leikskólans.
Það er eins með alla þá sem ekki hafa mál til að tjá sig, eða þroska til að gefa skýrt til kynna vilja sinn eða þarfir. Þannig er það með smáfuglana sem bíða í trjánum á hverjum morgni og éta síðan af hjartans lyst allan daginn, ef þeir fá fóður. Þeir kunna ekki að þakka fyrir sig, þeir banka ekki á gluggann til að tilkynna að þeir séu svangir og vilji fá mat, þeir halda áfram að leita þó þeir séu búnir með allt. Loks hverfa þeir í náttstað og sjást ekki aftur fyrr en daginn eftir.  Ég spyr mig:
Hvað get ég gert betur til að þessir "litlu skrattar" lifi af veturinn og ali síðan af sér næstu kynslóðir til að gleðja mig.
Hvenær er nóg gefið, hvenær of mikið, hvenær of lítið?
Þeir geta ekki sagt mér það með öðrum hætti en þeim að flögrið verður léttara og tístið ef til vill glaðlegra þegar allt er í lagi.
Ég þarf að reyna að lesa í þarfir þeirra og það gengur svona og svona. Mögulega þarf ég að læra meira um eðli þessara litlu vina minna til að nálgast svörin.

Ómálga barn hefur eðli máls samkvæmt ekki mál eða þroska til að tjá vilja sinn eða þarfir. Það er samt mikið fjallað um börn í þessu samfélagi og þarfir barna. Við berjumst fyrir því að vel sé gert við börn.
Í rauninni erum við ekkert að því.
Við erum fyrst og fremst að berjast fyrir þörfum foreldra. Börnin hafa ekkert um málið að segja.  Börn hafa hinsvegar verið rannsökuð fram og til baka af vísindamönnum úr ýmsum geirum. Skyldu niðurstöður úr þeim rannsóknum benda ótvírætt til þess, að það sé börnum mikilvægt að dvelja utan heimilis í allt að níu klukkustundir á dag, í umsjá fólks sem er ofhlaðið vinnu? Skyldu niðurstöðurnar benda til þess að það sé örvandi, þroskandi og hollt fyrir börn að dvelja með jafnöldrum sínum á hverjum virkum degi í allt að níu klukkustundir? Börn á þessum aldri eru nú ekki hljóðlátustu verur sem fyrirfinnast. Er það hugsanlega þroskandi eða hollt fyrir velferð barna að eyða átta til níu tímum á dag í stöðugum klið?
Reynum að hugsa þetta mál út frá börnunum, en ekki foreldrunum. Breytum síðan samfélaginu þannig, að ómálga börn dvelji ekki á stofnunum meira en 5-6 tíma að hámarki á hverjum degi.
Þetta er samfélagslegt mál, sem brýnt er að taka á.

Það þarf að hlusta á það sem ómálga börn geta ekki sagt. Því er ég kominn á það stig að kalla eftir því að sett verði á fót embætti umboðsmanns ómálga barna.  Jú, það er til embætti umboðsmanns barna, en ég hef ekki heyrt af því að það embætti taki sérstaklega fyrir þau börn sem ekki hafa mál. Þau eru ofurseld því sem foreldrar þeirra telja þeim eða sjálfum sér fyrir bestu, og þeir taka þá jafnvel frekar mið af eigin þörfum en þörfum barnsins.

Ég er nú ekki alveg grænn gagnvart þessu og vil því fara varlega í að kenna foreldrum um þetta allt saman, en þeir eiga sannarlega sína sök, ekki kannski viljandi, heldur frekar vegna þess að þeir hreinlega vita ekki betur. Það fæðist enginn með þekkingu til að vera foreldri. Hvernig á fólk að læra það?
Foreldrar sem nú eru að sjá fyrir þörfum ómálga barna voru flestir sjálfir undir þá sök seldir að vera geymdir á dagvistunarstofnunum 40-50 klukkustundir á hverri viku. Fyrir þeim er þetta eðlilegt og sjálfsagt - jafnvel spurning um rétt frekar en þarfir.

Í mínum huga þurfa ómálga börn umhyggju foreldra sinna stærstan hluta sólarhringsins. Þau þurfa að fá að hlusta á foreldra sína tala við sig, segja sér sögur, lesa fyrir sig, segja sér til, kenna sér hvað rétt er og rangt, setja sér mörk, nota hnífapör og allt það annað sem rannsóknir vísindamanna hafa leitt í ljós að er þroskavænlegt fyrir börn.

Samfélagið á sannarlega sína sök, ekki hvað síst að því er varðar það umhverfi sem fólki með börn er búið. Annað hvort hefur raungildi tekna fólks verið að fara stöðugt minnkandi eða þá að kröfur til lífsgæða hafa tekið stökk upp á við.  Nú þurfa allir að vinna fulla  vinnu til að hafa í og á sig og fjölskylduna.  Þessu finnst mér þörf á að breyta. Fólk þarf að temja sér rólyndislegra líferni og afslappaðra. Meiri tekjur auka nefnilega ekki lífshamingjuna, gagnstætt því sem virðist viðtekin skoðun.

Við þurfum að stytta vinnuvikuna og mér finnst að það gæti verið góð hugmynd að greiða foreldrum úr einhverjum sjóði fyrir að stytta vinnudaginn gegn því að vera í samvistum við börn sín.  Þannig gætu foreldrar í mörgum tilvikum minnkað starfshlutfall sitt án þess að tekjur skertust.
Það eru börnin sem skipta máli í þessu og það eru um þau sem þetta á að snúast, en ekki foreldrana. Börn eru ekki einhver óæskilegur baggi á foreldrum sínum, heldur beinlínis tilgangur tilveru þeirra, hvorki meira né minna.

Ég skal fyrstur manna viðurkenna, að ég er á sjötugsaldri og þarf því ekkert að vera að pæla í þessu og það má alveg skella því framan í mig að ég viti ekkert hvað ég er að tala um. Það má alveg segja við mig að minn tími sé liðinn, nú séu aðrir tíma og þarfir barna öðruvísi. Það má jafnvel spyrja mig, með hneykslunartón, hvað ég vilji eiginlega upp á dekk.
Ég held hinsvegar að á hvaða öld sem er fæðumst við eins inn í þennan heim. Það sem við tekur er síðan í höndum foreldranna og samfélagsins.

Ég hef eytt starfsævinni í að fást við ungt fólk og tel mig harla heppinn að hafa fengið það. Ég hef hinsvegar oft hugsað miður fallega til foreldra sem hafa augjóslega veitt börnum sínum hörmulegar aðstæður fyrstu árin í lífi þeirra, með allskyns afleiðingum fyrir bæði samfélagið allt og fjölskylduna.

Breytum þessu, eða ætti ég kannski að segja: "Breytið þessu!"



Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...