21 febrúar, 2018

Er það í raun bara þriðjungur?

Heildarvökutími 3ja ára barns á ári, miðað við 14 klukkustundir á sólarhring er 5110 klukkustundir.

Ef skoðað er dagatal leikskóla fyrir veturinn 2017 og 2018 og miðað við að þetta barn sé í 8 tíma vistun dvelur það í um 1810 klukkustundir á ári í umsjón annarra en foreldranna. Í umsjá foreldranna væri barnið þá 3300 klukkustundir. . Í þeirri tölu eru allir þeir dagar á árinu sem leikskólinn starfar ekki og 6 klukkustundir á hverjum virkum degi, fyrir og eftir að leikskóla lýkur.

Þetta þýðir að í um það bil 36% af vökutíma sínum dvelur barnið í umsjá leikskóla og þar með um það bil 64% í umsjá foreldra eða forráðamanna.

Svona getur þetta verið fyrstu 4-5 æviárin, ef frá er talið það fyrsta. Þannig má segja að barn í 8 tíma leikskóla á virkum dögum  í 4 ár, eyði þar 7240 klukkustundum.

Eftir er að svara spurningunni, að hve miklu leyti þessi 64% af vökutímanum getur talist vera svokallaður „gæðatími“, þar sem foreldrarnir taka með virkum hætti þátt í lífi barnsins: lesa fyrir það, tala við það, kenna því, skemmta sér með því, og svo framvegis. Hve mikill hluti þessa tíma fer í þætti þar sem barnið kemur eiginlega ekki við sögu: samfélagsmiðla, sjónvarp, matargerð, heimilisstörf, heilsurækt, skemmtanir, verslunarferðir og annað að þeim toga?

Ég hef ekki svarið við þeirri spurningu, en geng út frá því, að foreldrarnir séu þreyttir eftir vinnudaginn og vilji helst hvíla sig. Barnið er einnig þreytt eftir sinn dag sem hefur verið undirlagður af áreiti frá jafnöldrum. Líklega vill það einnig hvíla sig. Það væri ef til vill nær að ætla að virkur tími með foreldrunum sé talsvert lægra hlutfall vökutímans en 64%. Mér kæmi ekki á óvart ef hann er í kringum 30% eða þaðan af minna, en ég ítreka auðvitað, svo sanngjarn sem ég nú er, að þetta bara veit ég ekki og þetta er vísast misjafnt eftir fjölskyldum og fjölskylduaðstæðum.

Til samanburðar og gamans ætla ég að hverfa aftur um 60-70 ár, til reykvískrar fjölskyldu. Fjölskyldur þá voru taslvert barnfleiri en nú, enda svokölluð barnasprengja í gangi, börnin oft 5 eða fleiri. Ekki voru miklir möguleikar á að fá pössun fyrir þessi börn og það kom í hluta konunnar að gæta bús og barna meðan karlinn aflaði tekna til heimilishaldsins.

Ekki veit ég nákvæmlega hvenær dagvistun fyrir börn kom fram á sjónarsviðið fyrst, en hér neðst er umfjöllun frá 1928, sem er gaman að lesa.

Á stríðsárunum var tekið til við að senda börn úr borginni í sveit á sumrin og þá ekki síst vegna hættu á loftárásum á borgina. Á þeim tíma og síðar dvaldi mikill fjöldi reykvískra barna fjarri fjölskyldum sínum yfir sumartímann, annaðhvort á sveitabæjum, eða á sérstökum barnaheimilum. Reykjavíkurdeild Rauða krossins kom upp og rak heimili af þessu tagi, meðal annars í Laugarási, en þar var, frá 1952, tekið við um 120 börnum, 3-8 ára, til 8 vikna dvalar á sumrin. Sem sagt, börn, allt niður í þriggja ára, voru send að heiman í júní og komu ekki aftur í bæinn fyrr en í ágúst. Þegar ég nefni þetta, tekur fólk andköf. Börnin sem send voru til sumardvalar voru þar í átta vikur, og ef miðað er við sama vökutíma og ég geri hér efst, 14 tíma á sólarhring, gerir það 770 klukkustundir á ári, sem var þá sá tími sem börnin eyddu í umsjá annarra en foreldra sinna. Til upprifjunar þá dvelur 3ja ára barn nú 1810 klukkustundir í umsjá annarra en foreldranna, jafnvel í 4 ár.

Þegar upp er staðið, má segja að aðgengi barna að foreldrum sínum nú, sé umtalsvert minna en á þeim tíma þegar sumardvalarheimili fyrir reykvísk börn voru rekin víða um land.
Til að halda því nú til haga, þá sjá nútímabörnin allavega foreldra sína á hverjum degi.  
Eftir stendur spurningin um nýtingu þess tíma sem börn og foreldrar eru samvistum. Um það má margt segja, en það verður ekki gert hér og nú.

------------------------------------------

Sumargjöfin, í apríl. 1928 

Dagheimilið.

Ilt er að horfa á börnin á götunni hjer í Reykjavík alt sumarið, og góðir þykjast þeir foreldrar og eru það líka, sem hafa einhver ráð með að koma þeim þaðan og upp í sveit einhvern part úr sumrinu. Og þó að þeir sjeu orðnir margir, sem sjá ráð til þess, þá eru hinir fleiri, sem engin hafa ráðin. Barnavinafjelagið Sumargjöf rjeðst í það í fyrrasumar, að hafa nokkurskonar sveitaheimili, getur maður vel sagt, fyrir börn í Kennaraskólanum. Dagheimili var það kallað, því að börnin fóru heim til sín á kvöldin. Tilgangur félagsins var sá fyrst og fremst, að koma þeim, sem þar voru af götunni og veita þeim þar gott heimili, sem var svo í garðinn búið, að þau fengu góðan og einfaldan mat og nóga mjólk, — og vöndust þar góðum siðum, jafnframt því, sem þau gátu lifað lífi sínu úti í Guðs grænni náttúrunni, á Grænuborgartúnunum og melunum þar í kring, laus við götuna og alt, sem henni fylgir. Þyrftu þau einhvers með eða óskuðu einhvers, var hjálpin við hendina, þar sem við vorum, sem tekist höfðum á hendur að vera höfuð heimilisins. Ekki gat heldur verið um það að tala, að hópurinn væri nokkra stund eftirlitslaus, slíkt ungviði, sem þar var saman komið.  

Reynsla var hér engin fyrir, hvernig þetta mætti takast, eða hvert gagn mætti af verða, og undirbúningurinn heldur lítill. Félagið ungt, stofnað um sumarmálin í fyrra, og hafði litlu öðru yfir að ráða, en góðum og einlægum vilja, til þess að verða börnunum að liði. 

2000 kr. sem safnast höfðu á sumardaginn fyrsta í fyrra, var það eina fje, er það byrjaði þessa starfsemi sína með. Með sannfæringu og von þeirra, sem mestan áhuga höfðu fyrir að eitthvað gæti fjelagið gert fyrir uppeldi barna, var byrjað með þessu litla dagheimili, þannig að þó að þessi vísir, sem alveg væri ókunnugt um árangur af, væri lítill, þá myndi fjelagið altaf geta bygt upp af honum og haldið áfram, þótt ef til vill yrði breytt eitthvað til. 

Hvað voru nú börnin að gera? 
Þau veltu sjer og ljeku á túnunum, þau mokuðu upp melinn með skóflum sínum, óku sandi fram og aftur í litlu hjólbörunum. Stundum var stafrófið á ferðinni, blýantar og teiknibækur, og búnir til rammar o. fl. úr basti. Þau hlupu af stað, þegar bjallan kallaði í máltíðir, og þá var að þvo sjer, áður en tiltækilegt var að setjast að borðum, og þá varð oft handagangur í öskjunni, því höndurnar voru margar og moldugar, enda fór líka stundum vatn á gólfið, en þau hjálpuðu sjálf til að þurka það upp, eins og þau líka þurkuðu af í dagstofunni sinni og löguðu þar til á morgnana til skiftis og báru af borðinu eftir máltíðir og sópuðu molana, sem dottið höfðu af borðum. Borð öll og sæti voru lág og við þeirra hæfi. Þegar þau höfðu sest niður að borða, lásu þau öll í einu og hvert fyrir sig góða og gamla borðbæn, tóku "mundlínuna, sem lá í umslagi á hverjum diski og létu framan á sig og tóku sér skamt, eftir að búið var að biðja þau að gera svo vel. Stóðu upp frá borðum þökkuðu fyrir sig og fóru til leikja sinna. Þessu líkt liðu dagarnir þarna þessa tvo mánuði, júlí og ágúst. Foreldrar barnanna voru ánægð með börnin sín þarna, og unnið var í þeim anda eins og áður er áminst, að þau ættu þarna heimili, sem ljeti sjer ant um að þeim liði

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...