Sýnir færslur með efnisorðinu Flúðir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Flúðir. Sýna allar færslur

07 janúar, 2024

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997
(mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson)
Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri, með handboltaveislu og hækkandi sól. Smátt fólk hefur nú valdið því að skugga ber á. Það er í það minnsta mín skoðun, að þar sé smátt fólk á ferð; fólk sem vinnur mál neðanjarðar og nýtir sér pólitísk sambönd, mögulega harla óeðlileg. Smátt, frekt fólk. 


Fyrir nokkrum dögum var sett innlegg á samfélagsmiðla þar sem birt var skjáskot af vefnum visir.is, þar sem greint var frá því, að á vef FSRE (Framkvæmdasýslan - Ríkiseignir) myndi birtast auglýsing um húsnæði fyrir heilsugæslu í uppsveitum. Þetta skjáskot má sjá hér til hliðar.  

Það virðist hafa verið heilmikið neðanjarðarleikrit í gangi varðandi flutning á heilsugæslustöðinni úr Laugarási, að Flúðum í Hrunamannahreppi; frá miðju uppsveitanna út á kant. 

Ég neita því ekki, að ég finn fyrir nokkurri klígju vegna þessa máls, eins og það blasir við mér.  Það er ansans ári dapurlegt hve stór smæð fólks getur verið. Það sem mér finnst þó einna verst er, hve þumbaraleg sveitarstjórnin í Bláskógabyggð virðist vera í því hvernig hún hefur sýnst taka á þessu máli. Getur verið að í raun sé hún bara nokkuð sátt, þótt hún telji sig þurfa að halda öðru fram? 

Nú vona ég bara að það verði niðurstaða um, að heilsugæslan verði áfram í Laugarási, í 25 ára gamalli byggingu, sem var hönnuð til að vera heilsugæslustöð og sem er,  að bestu manna yfirsýn, í fínu lagi enn, þrátt fyrir að það hafi verið notað sem rök í þessu máli, að viðhaldsþörf á húsinu væri orðin gífurleg, án þess að fram hafi komið einhver rök því til stuðnings. 
Er ekki bara rétt að hætta þessari vitleysu? 

Myndir frá vígslu heilsugæslustöðvarinnar, á vefnum laugaras.is, sem komnar eru frá Jóni Eiríkssyni í Vorsabæ, en það var Jónas Yngvi Ásgrímsson, þáverandi framkvæmdastjóri heilsugæslunnar í Laugarási, sem tók þær. 

-------------------------------------------
Sannarlega átta ég mig á að ég á engra hagsmuna að gæta í málinu, nema tilfinningalegra, en það eru einnig hagsmunir.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...