27 júní, 2024

Laugarás: Æ, ég veit ekki....

Heilsugæslustöðin í Laugarási
virðist ekki að hruni komin.
Nú hefur forstjóri HSU skrifað annan pistil á vefinn island.is, til að upplýsa okkur um að heilsugæslan verði flutt að Flúðum næsta vor. Forstjórinn var búinn að þessu og lítil ástæða til að endurtaka það sem þegar hefur verið sagt. Vissulega bætir hann við skrifin ágripi af sögu heilsugæslu í uppsveitum. Þar ýjar hann að því, að þegar Skúli Árnason, fyrsti læknir héraðsins, lét af störfum og það þurfti að finna nýjan stað fyrir læknissetur, að ekki hafi það gengið hnökralaust fyrir sig. Það gekk hreint ekki hnökralaust fyrir sig.  
Hér er reiknað með því, að menn hafi séð fyrir sér, að í uppsveitum yrðu tvö læknishéruð, annað vestan Hvítár og þá líklegast með læknissetri í Grímsnesi og hitt austan árinnar, mögulega með aðsetri í Hrunamannahreppi. (af laugaras.is)

Það var þarna uppi ágreiningur, sem var leystur með því að kaupa jörðina Laugarás í Biskupstungum. Draumurinn um að fá sitt læknissetur, eða heilsugæslu, hefur lifað allar götur síðan austan Hvítár og það lítur út fyrir að hann fái nú að rætast - hver veit?

Forstjórinn fer í framhaldinu í það að reyna að klóra yfir blekkingarnar sem beitt var sem megin rökum fyrir þessum flutningi. Þarna finnst mér mikil lágkúra vera borin fram. Svo heldur hann áfram:

Í ljósi þessa var því mikilvægt að leggja mat á það hvort núverandi staðsetning heilsugæslunnar væri hentug til framtíðar eða hvort vænlegra væri að færa heilsugæsluna í þéttari byggðarkjarna og á sama tíma efla þjónustuna við íbúa uppsveita Suðurlands.

Í ljósi hvers - að það var svo dýrt að gera við húsið í Þorlákshöfn!?  Þá þurfti að meta hvort vænlegra væri að flytja heilsugæslustöðina í Laugarási í "þéttari" byggðakjarna?  Mér er fyrirmunað að skilja þessa röksemdafærslu og þegar forstjórinn klikkir svo út með því að segja: "og á sama tíma efla þjónustuna við íbúa uppsveita Suðurlands"  tekur steininn úr, að mínu mati, að sjálfsögðu. Hvernig ætlar forstjórinn að efla heilsugæslu í uppsveitum með þessu? Á kannski bara að vera svona lítil, "kósý" stöð á Flúðum fyrir Hreppamenn, en aðrir á svæðinu fái að njóta fádæma góðrar þjónustunnar á Selfossi? 

 Ekki meira um pistil forstjórans.

Fyrir þau ykkar sem þetta kunna að lesa, en vita kannski ekki alveg hvernig landið liggur í uppsveitum Árnessýslu, læt ég hér fylgja kort af uppsveitunum sem sýnir leiðirnar sem liggja frá byggðakjörnum í uppsveitunum, í heilsugæsluna í Laugarási.  Vegalengdir frá Laugarvatni, Flúðum og Árnesi, í Laugarás, eru um 25 km. Til annarra byggðakjarna er hún styttri.


Svo læt ég fylgja sama kort, en nú með þeim leiðum sem íbúar í uppsveitum þyrftu að fara frá byggðakjörnum í fyrirhugaða heilsugæslu á Flúðum.


Hér er mynd sem sýnir íbúafjölda í byggðakjörnum í uppsveitunum:Hér er kort sem sýnir sveitarfélagamörk í uppsveitum.


Grímsnes- og Grafningshreppur á sneið innan Bláskógabyggðar, sem hefur því miður annan lit.

 

Hér er súlurit sem tilgreinir íbúafjölda í sveitarfélögunum 4 þann 1. jan., 2024, en þessar upplýsingar er að finna á vef Hagstofunnar.


Loks er hér súlurit sem tilgreinir íbúafjölda í Hrunamannahreppi, annarsvegar og hinna þriggja sveitarfélaganna hinsvegar.Mér finnst upplýsingarnar hér fyrir ofan sýna fram á það, að það er enginn faglegur grunnur fyrir því að flytja heilsgæslu frá Laugarási á Flúðir, en það dregur sjálfsagt hver sína ályktun af þeim.

Ég viðurkenni, að ég nenni ekki að fara í meiri spurningaleik við forstjórann, enda mun hann ekki svara mér þannig, að ég sannfærist um að faglega hafi verið staðið að þessu máli. Í mínum huga er það ljóst að það var makkað um þetta bakvið tjöldin og síðan tínd til einhver rök, sem engu vatni virðast halda.

Ég ætla ekki að fara að eyða frekari tíma í þetta mál, en mun auðvitað fylgjast grannt með, hvort fyrirsvarsmenn í uppsveitum, sem lýsa sig andvíga þessum flutningi, ætla að láta þetta ganga yfir, án þess að leita færra leiða til að láta fara fram mat á þeirri málsmeðferð sem hér er um að ræða.

Góða helgi.

(Ég er fæddur og uppalinn í Laugarási og bjó þar síðan í um 40 ár. Nú bý ég á Selfossi. Undanfarin 12 ár hef ég unnið að vefnum um Laugarás: https://www.laugaras.is/ )

Það nýjasta sem ég hef skrifað um þennan fyrirhugaða flutning Heilsugæslunnar er: 

Laugarás: Fagmennska, eða annað  

14. júní, 2024

7. janúar, 2024

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Jósefína Friðriksdóttir - minning

Við Jósefína kenndum saman í Reykholtsskóla við upphaf 9. áratugarins, þegar ég var að stíga fyrstu skref mín sem kennari og það gekk allave...