04 júlí, 2024

Jósefína Friðriksdóttir - minning


Við Jósefína kenndum saman í Reykholtsskóla við upphaf 9. áratugarins, þegar ég var að stíga fyrstu skref mín sem kennari og það gekk allavega hjá mér. Hún var rúmum 10 árum eldri en ég og orðinn reynslubolti á þeim starfsvettvangi sem kennslan er. Árin síðan þá eru nú orðin ansi mörg og margt hefur gerst í millitíðinni. 
Það bar ekki skugga á samstarf okkar í Reykholti, utan einu sinni og sá skuggi var stór og hefur einhvernveginn fylgt mér alveg síðan. Ég stóð þá frammi fyrir siðferðilegri klemmu, sem var þannig að báðir kostir voru slæmir. Kosturinn sem ég valdi hafði áhrif á samband okkar starfsfélaganna, þó svo ekkert hefði Jósefína sjálf gert á minn hlut. Ég viðurkenni það fúslega, að lengi síðan hef ég verið hálf miður mín vegna þess sem þarna varð til að varpa skugga á ágætt samstarf.  Ef ég, hinsvegar, stæði aftur frammi fyrir svipaðri klemmu, á ég síður von á að kæmist að annarri niðurstöðu.
Jósefina og fjölskylda hennar fluttu á Selfoss, eftir dvöl sína í Laugarási og öll tengsl við hana rofnuðu. Það var svo ekki fyrr en við Dröfn fluttum á Selfoss fyrir fjórum árum að Jósefína varð aftur á vegi okkar, þá búin að missa bæði son sinn og eiginmann. Hún hafði þá, meðal annars, tekið virkan þátt í fornsagnalesturshópi félags eldri borgara og fyrir dyrum stóð mikil ferð á Vestfirði, eftir að hópurinn hafð þrælað sér í gegnum Gísla sögu (held ég). Þá hafði Jósefína, að fyrra bragði samband til að athuga hvort við vildum ekki slást í hópinn, sem við þáðum, að sjálfsögðu. Það varð reyndar ekkert úr ferðinni vegna dálítillar veiru sem setti ýmislegt úr skorðum.  
Svo urðum við Jósefína samnemendur í fornlestrarhópnum og aldrei fann ég fyrir kala af hennar hálfu í minn garð. Viðmót hennar til mín var alltaf hlýtt og fyrir það er ég þakklátur. 
Ég get ekki látið hjá líða að nefna það, að stjórnmálaskoðanir Jósefínu höfðuðu sannarlega til mín og hún gat verið ansi beitt á stundum, en ávallt réttsýn.
Genginn er ágætur samferðamaður.

Jósefína lést þann 25. júní, og útför hennar er gerð frá Fossvogskirkju í dag.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Jósefína Friðriksdóttir - minning

Við Jósefína kenndum saman í Reykholtsskóla við upphaf 9. áratugarins, þegar ég var að stíga fyrstu skref mín sem kennari og það gekk allave...