18 september, 2024

Eldri borgari kaupir skjávarpa (1)

Það er þannig, að ef þú ætlar að eiga viðskipti við vefverslun, þarftu að hafa vaðið fyrir neðan þig. 

Það var viðtal við gamla konu í Danmörku um daginn, í sjónvarpsfréttum. Hún var búin að fylla íbúðina sína af allskyns dóti sem hún hafði sankað að sér í viðskiptum við vefverslanir. Ástæðan sem hún gaf upp fyrir kaupunum var sú, aðallega, að það væri svo gaman að láta sig hlakka til að fá pakkasendingarnar og opna svo pakkana.  

Kannski fór eitthvað svona í gegnum huga minn, þann 13. ágúst síðastliðinn, þar sem enn einu sinni birtist, á samfélagsmiðli, auglýsing frá vefverslun sem bar nafnið Snjallkaup . Ég er viss um, að þér lesandi góður, þykir skjávarpinn hér vinstra megin bara skrambi flottur og ekki varð hann síðri þegar nánari upplýsingar um hann voru skoðaðar. 
Auðvitað velti ég fyrir mér, til hvers ég ætti nú að fara að kaupa mér skjávarpa. Hér innandyra er hreint ekkert pláss á veggjum til að sýna nokkurn hlut, hvað þá óskarsverðlaunamyndir í cinemascope, eða hvað sem það nú er. Til að gera langa sögu stutta, eftir að ég hafði sannfært sjálfan mig um að skjávarpinn myndi nýtast vel við hitt og þetta, skoðaði ég þetta fyrirtæki aðeins nánar (en ekki nógu nákvæmlega) og komst meðal annars að þessu:


Auðvitað klikkaði ég að að skoða þetta allt betur, t.d  hvernig hægt væri að ná sambandi við þetta fyrirtæki, öðruvísi en með tölvupósti.  
Hvað um það, þarna bauðst mér þessi frábæri skjávarpi á ISK14.680 og endaði á sannfæra sjálfan mig (ég á of auðvelt með það, reyndar) um, að ég yrði svo sem ekkert fátækari í peningalegu tilliti, við að tapa þessum krónum, ef þetta reyndist nú allt vera í plati. Ég myndi reyndar lenda í hópi fólks, sem hefur látið glepjast af gylliboðum á samfélagsmiðlum, en þá væri bara að taka því. 

Þetta fór nú bara harla vel af stað og ég mun hér freista þess að gera grein fyrir öllum þeim tölvupóstsendingum sem áttu sér stað í framhaldi þess að ég ýtti hnappin sem gaf til kynna, að kaup hefðu átt sér stað:

SNJALLKAUP
13. ágúst
Takk fyrir pöntunina!
Við erum að gera pöntunina þína tilbúna til sendingar. Við munum láta þig vita þegar hún hefur verið sent.

Gott, svo langt sem það náði.

Næsti póstur kom svo  þann 16. ágúst, og þá var ég aðeins að byrja að efast, en hann var svohljóðandi:

SnjallKaup™ mailer@shopify.com

Your 6-digit code is:
911554
This code can only be used once. It expires in 15 minutes.
© SnjallKaup™
Engelbrecht LLC, 6527 Falls Lake Drive, Charlotte NC 28270, United States
Þarna þurfti ég að slá inn kóða til að komast að því hvernig skjávarpanum liði. Eftir notkun kóðans á viðeigandi stað, komst ég að því að póstrakningarnúmerið sem þar var að finna, vísaði ekki á neina sendingu. Þetta númer var:
RG026125626CN
Rakningarnúmerið skiptir máli upp á framhaldið, en þarna var mér orðið ljóst, að sendingin væri á leiðinni frá Kína, hvorki meira né minna og ég sem var búinn  að sjá fyrir mér "krúttlegt" lítið fyrirtæki í höfuðborginni.

Nú úr því rakningarnúmerið virkaði ekki sendi ég þeim Snjallkaupsmönnum póst:
16. ágúst
Sæl Ég frétti ekkert af þessum skjávarpa sem ég festi kaup á hjá ykkur. Rakning virkar ekki og nú er ég smám saman að verða fullur efasemda. Vonandi eiga þær ekki við rök að styðjast.
kv pms
Ég fékk svar sem var svona:17. ágúst kl 00,55


Sendingin er á leiðinni og ætti hún að koma bráðlega, engar áhyggjur.
Við afsökun þessa töf og vonum við að skilningur berist á því. Starfsmenn hafa verið í sumar fríi.
Kær kveðja,
SnjallKaup

Mér var auðvitað létt og svaraði því:  

17. ágúst kl 07.23
Fínt er. Þá get ég verið rólegur :)
kv pms
Það næsta sem gerðist var þetta:

17. ágúst kl 08.48
SnjallKaup™
Order #2497
Sendingin þín er á leiðinni. Fylgstu með sendingunni þinni.
tracking number: RG026125626CN
... en það gerðist fátt og því fylgdist ég, fullur efasemda, grannt með ferðum sendingarinnar. Þar sem rakningarþjónustan fann ekki uppgefið rakningarnúmer, sendi ég þetta á Snjallkaup: 

20. ágúst kl 07.08
Eitthvað lítið að gerast.....

 ásamt þessari mynd frá rakningarþjónustunni:

... þar sem fram kemur að þar á bæ séu engar upplýsingar um þetta rakningarnúmer.

Enn létu Snjallkaupsmenn svo lítið að virða mig viðlits og sendu mér þennan póst:

 21. ágúst kl. 01.07

Hæ,
Sendingin er á leiðinni og ætti hún að koma bráðlega, engar áhyggjur.
Við afsökun þessa töf og vonum við að skilningur berist á því. Starfsmenn hafa verið í sumar fríi.
Kær kveðja,
SnjallKaup

 

.. en þetta var nánast orðrétt sama svar og ég hafði áður fengið og enn jukust grunsemdir mína um maðk í mysunni.

23. ágúst kl 02.52
SnjallKaup™
Order #2497
Your shipping status has been updated
The following items have been updated with new shipping information.
DHL tracking number: LR179315267NL
Hér var, sem sagt komið til sögunnar nýtt rakningarnúmer LR179315267NL og ég fann ekkert um pakka með því númeri og sendi því þetta:

23. ágúst kl 07.06
Þetta sendingarnúmer finnst ekki á rakningarsíðum.
Við þessu kom kunnuglegt svar:

24 ágúst, kl 00.28
Hæ,
Sendingin er á leiðinni og ætti hún að koma bráðlega, engar áhyggjur.
Við afsökun þessa töf og vonum við að skilningur berist á því. Starfsmenn hafa verið í sumar fríi.
Kær kveðja,
SnjallKaup

Þegar hér var komið, gat ég fylgst með ferðum pakkans, sem þá var sagður vera kominn til Hollands og í vinnslu þar í nokkra daga. Á endanum var hann sagður kominn til Íslands og farinn í vinnslu þar.  Þar kom, að ég fékk tilkynningu frá Póstinum um að pakkinn væri tilbúinn til afhendingar á pósthúsinu í Kópavogi.  Þetta kom mér á óvart í tvennu tilliti: Ég hafði ekki verið rukkaður um toll og pakkinn fór í Kópavog en ekki á Selfoss.  

Þarna fór ég á spjallsíðu hjá Póstinum og þar fékk ég þessi viðbrögð:


þarna fékk ég að vita að viðtakandi sendingarinnar væri Hugrún nokkur, sem ætti heima í Kópavogi. Með þessar upplýsingar snéri ég mér enn til Snjallkaupa:

2. sep kl 16.43
Sæl enn
Nú er pakkinn kominn til landsins, það á að vera búið að reikna út toll og hann er sagður vera kominn á pósthúsið í Kópavogi - en ég bý nú á Selfossi. Það á að vera búið að senda mér tilkynningu um hann, en ég hef enga fengið. Það á að vera búið að reikna út aðflutningsgjöld, en ég hef ekkert fengið um það. Ég er búinn að hafa samband við Póstinn og þeir halda enn, að ég heiti Hugrún ...
Þetta er dularfullt mál.
pms
Þegar hér var komið hætti ég að fá viðbrögð frá Snjallkaupum og hef ekkert heyrt frá þeim síðan. Ég var samt ekki hættur, en frá því greini ég næst. 

FRAMHALD >>>>> HÉR

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Eldri borgari kaupir skjávarpa (2)

Þetta er framhald þessarar færslu. Þegar hér var komið bárust ekki lengur stöðluð svör, á íslensku, frá Snjallkaupum og mig fór að gruna (ha...