Sýnir færslur með efnisorðinu innflutningur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu innflutningur. Sýna allar færslur

23 apríl, 2020

Sjálfum okkur næg

Aftast á myndninni eru Ellý, frænka úr Vestmannaeyjum
og móðir mín, Guðný Pálsdóttir. Þar fyrir
framan er Ella frænka (formaður félags eldri
borgara í Biskupstungum) og síðan ég sjálfur.
Fremst stendur Magnús bóndi í Hveratúni.
Ég fæddist inn í garðyrkjuna, en sannarlega ætla ég ekki að halda því fram að störfin sem mér var ætlað að sinna á garðyrkjustöð foreldra minna á æskuárum hafi verið sérlega skemmtileg; planta út, binda upp, brjóta þjófa, blaða, hreinsa götur, tína, vökvar (með slöngu), planta út. Nei, mér fannst þetta ekki neitt sérstaklega áhugaverð vinna, en hún var nú bara hluti af því að tilheyra svona fjölskyldu.
Það sem hefur eiginlega valdið mér einna mestum vangaveltum, þegar ég horfi til baka í samhengi við nútíma garðyrkju er, hvernig foreldrar mínir fóru að því að lifa af og ala upp 5 börn á ekki stærri garðyrkjustöð en Hveratún var.  Það var engin lýsing í gróðurhúsum og því lauk ræktun í október og það fór ekki að koma uppskera aftur fyrr en í apríl eða maí. Þetta þýddi að 5 mánuði ársins (svona um það bil) voru engar tekjur af þessum rekstri. Ég skil þetta ekki alveg enn.


Grunnur að gróðurhúsi í Kvistholti steyptur.
Ásamt mér sjálfum ber ég þarna kennsl á soninn
Þorvald Skúla og Skúla Sæland með hjólbörur.
Það leit  lengi vel ekki út fyrir að ég kæmi nálægt garðyrkju eftir að ég hleypti heimdraganum, en það æxlaðist samt þannig, að 1988 byggðum við, Kvisthyltingar 400 ferm gróðurhús, blokk, og hófum að rækta papriku, meðfram öðrum störfum. Þetta kom sér sannarlega vel, þar sem tekjur að aðalstarfi mín voru í mikilli lægð og svo virtist sem það starf þætti ekki ýkja mikilvægt í samfélaginu.
Þessi paprikuræktum bjargaði okkur sannarlega, en hafði það augljóslega í för með sér, að enginn varð frítíminn. Jólafríið fór í að hreinsa húsið, síðan fóru allar helgar í að sá, potta og planta út,  páskfríið fór í að sinna plöntum og sumarfríið frá kennslunni var undirlagt, eins og nærri má geta, því þá var uppskerutíminn.

Kvistholtshjón vinna vorverk í gróðurhúsinu.
Þetta "vinnurugl" var látið ganga fram undir aldamót, en þá var þráin eftir sumarfríi orðin of mikil, auk þess sem tekjuflæðið inn á heimilið orðið umtalsvert betra.
Þriðji þátturinn, og sá mikilvægasti, ef til vill, sem varð til þess að við hættum paprikuræktuninni var sá, að innflutningur á papriku var orðinn hömlulaus. Þetta hafði það í för með sér, að verslanirnar fóru að selja erlendu paprikuna fyrst og þá íslensku þegar upp á vantaði. Sölufélagið seldi svo elstu paprikuna á lagernum í búðirnar, þannig að þaðan kom alltaf gömul og jafnvel krumpuð, íslensk paprika, sem rétt  má ímynda sér að féll neytendum ekkert sértaklega vel í geð. Þar fyrir utan, auðvitað, var íslenska paprikan umtalsvert dýrari en sú innflutta og hver maður, sem vill á annað borð, getur ímyndað sér hversvegna það var nú.

Fjölskyldan tók öll þátt, hver með sínum hætti. Þarna eru
Brynjar Steinn og Guðný Rut að vinna við papriku vorið 1990
Því sem ekki tókst að koma út með þessum hætti var svo hent og það var kallað afföll.  Þetta var nefnilega þannig, að innflutninginn þurftu innflytjendur að greiða fyrir og tapið af því sem ekki seldist lenti á versluninni. Því var henni meira í mun að selja hann en íslensku vöruna, því það sem ekki seldist af innlenda grænmetinu fór í afföll (var hent), eins og það var kallað. Verslunin þurfi ekki að taka þátt í þeim afföllum, það þurftum við, ræktendurnir, að gera.

Eins og hver maður getur ímyndað sér, þá er ég nú loksins kominn að því sem varð kveikjan að þessum pistli á sumardaginn fyrsta, árið 2020, í miðjum heimsfaraldri; faraldri sem ekki sér fyrir endann á, en hefur orðið til þess að ég og sennilega flestir íbúar jarðarinnar, veltum fyrir okkur hvaða áhrif verða af þessu stóráfalli sem nú ríður yfir okkur.

Það voru líka ræktaðar gulrætur um tíma. Þarna brjóta fD og
Brynjar Steinn af  sumarið 2002.
Mín niðurstaða, eða bráðabirgðaniðurstaða, í það minnsta er sú, að við þurfum að fara að hægja aðeins á okkur, ekki bara aðeins, heldur bara alveg heilmikið. Þar er sannarlega að mörgu að hyggja.

Lega þessa lands okkar er þannig, að sumt getum við, en annað getum við ekki.
Við getum framleitt nóg af papriku fyrir okkur og þess vegna eigum að ekki að flytja inn papriku.
Við getum framleitt ísmola og þessvegna eigum við ekki að flytja inn ísmola.
Við getum framleitt nóg af lambakjöti fyrir okkur og þessvegna eigum við ekki að flytja inn lambakjöt.
Við getum ekki framleitt bíla (enn) og þess vegna skulum við flytja inn bíla.
Við getum ekki framleitt tölvuskjái (enn) og þess vegna skulum við flytja inn tölvuskjái. 
Við getum ekki framleitt myndavélar (enn) og þessvegna skulum við flytja inn myndavélar.

Þorvaldur Skúli bindur upp papriku árið 2002.
Það eru ótal ástæður fyrir því, að við eigum nú að stefna að því að verða sjálfum okkur nóg um allt það sem við getum framleitt sjálf. Þar er ekki síst um að ræða matvæli af ýmsu tagi.

Ég þykist vita að til séu þeir sem hafa ýmislegt að athuga við hugmyndir um að stöðva innflutning á matvælum sem við höfum fulla getu til að framleiða sjálf. Það veit ég, að útfærsla á svona hugmyndum er ekkert endilega  einföld, enda ekkert æskilegt að hún sé það.  Mikilvægur þáttur í að hrinda þeim í framkvæmd er, að hætta að hlaupa eftir kröfum innflytjenda um afnám tolla á matvæli. Þeir hafa, að mínu mati, fengið að vaða upp alltof lengi og í alltof miklum mæli. Þegar þeir svo þykjast bera hagsmuni neytenda fyrir brjósti, þá veit ég, að þeir eru að verða rökþrota.  Í þeirra huga snúast kröfurnar hreint ekki um neytendur, heldur hagsmuni þeirra sjálfra.

Við getum ræktað nóg af grænmeti fyrir þessa þjóð og við getum gert það á lægra verði. Til þess þurfum við að búa til aðstæður sem gera það kleift og þar skiptir, til dæmis, raforkuverð miklu máli; vistvæn raforka sem nóg er til af, sem hægt væri að selja á miklu lægra verði en gert er, jafnvel svipuðu og stóriðan greiðir fyrir þessa auðlind okkar.

Hvað með alþjóðasamninga og tollfrelsi eða hvað þetta kallast allt saman? Svar mitt við því er einfalt: flytjum inn það sem við getum ekki séð um að framleiða sjálf, bæði okkar vegna og  umhverfisins vegna. Þær aðstæður sem uppi eru núna: veirufaraldur sem skekur heimsbyggðina og bætist þannig við vaxandi loftslagsvá, ættu að kenna okkur, að hver þjóð verður að vera sjálfri sér næg um þá þætti sem stuðla að því að hún lifi af mögulegar hamfarir. Sú þjóð sem ekki áttar sig á þessu, er ekki í góðum málum.

Verum sjálfum okkur næg.

Gleðilegt sumar og þakkir til ykkar 
sem kíkt hafið að þennan litla miðil minn, á liðnum vetri.

Farinn að nálgast það að ljúka ævistarfinu.
Skúli Magnússon, garðyrkjubóndi í Hveratúni
tínir steinselju.


22 febrúar, 2019

Innflutningur á efni

Mér þykir vænt um þjóð mína og allt sem hún stendur fyrir. Ég vil henni ekkert nema það besta. Ég hef mikla trú á þjóðinni minni. Ég held að hún viti hvað henni er fyrir bestu og að hún eigi að hafa val um hvernig hún hagar lífi sínu. Ég held að ég sé góður maður. 

Í ljósi þessa hef ég sett fram kröfu um að fá að flytja til landsins þetta efni. Ég hef sannarlega reynt að flytja það inn, en einhverjar fornar reglur kveða á um að mér sé það óheimilt. 
Forsjárhyggjan tröllríður þessu samfélagi og ég er staðráðinn í að berjast fyrir rétti einstaklinganna í þessu samfélagi til að velja sjálft hvernig það kýs að haga lífi sínu. Jú, auðvitað þarf ég að hafa eðlilegan arð af þessum viðskiptum. Það er eðli viðskipta, en eins og ég segi, fólk á að hafa val og það vantar þennan valkost á íslenskan markað. 

Þegar upp er staðið, er það ekki von mín um persónulegan hagnað sem ræður för, en ef vel tekst til með innflutninginn verður ekki annað um mig sagt en að ég sé velheppnaður athafnamaður, sem, með athöfnum mínum, hef auðgað líf fólks, jafnvel þeirra sem minnst mega sín og erfiðast eiga.  
Ég er sannur sonur Íslands.

Jæja, ekki þýðir víst að ganga fram af lesendum í oflofi um sjálfan mig. Ég neita því ekki, að þessi barátta mín tekur á og krefst þess að ég þurfi, vakandi og sofandi, að takast á við allar úrtöluraddirnar sem stöðugt reyna að bregða fyrir mig fæti. Sem betur fer hef ég ágætan aðgang að fjölmiðlum (á í nokkrum) og gott fólk í vinnu sem tryggir að engu verður látið ósvarað sem beint er að mér eða fyrirætlunum mínum, hvort sem það er á samfélagsmiðlum, dagblöðum, útvarpi eða sjónvarpi. 

Þessi barátta mín snýst ekki um það hvort ég get keypt hvað sem hugurinn girnist, geti ráðið til mín snjalla almannatengla, eða skattasérfræðinga og jafnvel slatta af stjórnmálamönnum. 
Nei, aldeilis ekki. 
Auðvitað hef ég þetta allt og meira til, einmitt til að geta tryggt að íslenskir neytendur fái að hafa val. Það eru þeirra hagsmunir sem ég berst fyrir. 

Jæja, þetta er efnið sem ég ætla mér að flytja inn, þó svo það muni kosta mig blóð, svita og tár:
Efnið eykur athygli og einbeitingu, dregur úr svefnþörf, minnkar matarlyst ásamt því að veita vellíðan. Það er stundum notað sem lyf til að meðhöndla athyglisbrest, drómasýki, og offitu.
Það er vinsælt þar sem það veldur vellíðan, eykur kynorku, heldur manni vakandi, og eykur einbeitingu. Viðbrögð verða fljótari, tímaskyn breytist, fólk hefur meira þol og meiri vöðvastyrk.
Er einhver ykkar, lesendur mínir, sem treystir sér til að halda því fram, að hér sé um að ræða vöru sem ég ætti ekki að fá að flytja inn?  Þau jákvæðu og góðu áhrif sem efnið hefur á fólk, munu verða til þess að efla þjóðina til átaka við neikvæðni og úrtöluraddir, sem virðast ekkert sjá fyrir sér þjóðinni til handa nema grútartýrur og moldarkofa.  Í þessu efni blasir við framtíð þjóðarinnar með þjóða.

Þegar ég hef, með tilteknum lagalegum aðferðum, náð þessu mikla réttindamáli fram, með hagsmuni þjóðfrelsis og einstaklingsfrelsis í huga, hyggst ég hefja baráttu mína fyrir enn frekari sókn af sama meiði og hef þegar fundið efnið sem er næst á dagskrá hjá mér, en það hefur þessa góðu eiginleika, meðal annarra:
- Mikla vellíðan og nánast alsælutilfinningu.
- Meiri orku, árvekni og félagsfærni.
- stórbætt sjálfsmat.
- þreyta hverfur eða minnkar í það minnsta.
- matarlyst minnkar - hver vill ekki grennast?.

Þetta er framtíðin og ég er staðráðinn í að berjast gegn durgum af hvaða tagi sem er til að þjóðin fái að hafa val. 
Tími brennivínsins, ákvítisins og landans er að líða undir lok. 
Það eru nýir tímar framundan.

------------------------ Jæja þá að raunveruleikanum --------------------------

Fyrra efnið sem ég segist ætla mér að flytja inn er AMFETAMÍN. Ég tók út allt það sem telja verður neikvætt við þetta efni.
Amfetamín er örvandi efni. Efnið eykur athygli og einbeitingu, dregur úr svefnþörf, minnkar matarlyst ásamt því að veita vellíðan og vímu. Það er stundum notað sem lyf til að meðhöndla athyglisbrest, drómasýki, og offitu.

Amfetamín er vinsælt eiturlyf þar sem það veldur vellíðan, vímu, eykur kynorku, heldur manni vakandi, og eykur einbeitingu. Viðbrögð verða fljótari, tímaskyn breytist, fólk hefur meira þol og meiri vöðvastyrk. Stærri skammtar af amfetamíni valda þó vöðvaniðurbroti, mjög stórir skammtar valda geðrofi með ranghugmyndum og ofsóknaræði. Þegar amfetamín er notað sem eiturlyf eru skammtarnir mun stærri en þegar það er notað sem lyf. Þessi háu skammtar valda því að fólk á mjög auðvelt með að ánetjast amfetamíni, og að aukaverkanir þess eru mun verri. Algeng götunöfn amfetamíns eru spítt og hraði sem vísa þá til örvandi áhrifa lyfsins á hegðun, hugsun, og tímaskyn.
Síðara efnið er kókaín, en þar láðist að geta þess, t.d. að:
Það er mikil hætta fólgin í því að nota kókaín, hvort heldur það er tekið gegnum nef, sprautað eða reykt. Stórir skammtar kókaíns geta valdið flogi og dauða vegna öndunartruflana, heilablóðfalli, blæðingum eða hjartabilunum. Ekki er til mótefni sem hægt er að nota ef of stórir skammtar kókaíns eru teknir.
Þetta er, í mínum huga ein leiðin til að fá okkur til að trúa því að vont sé gott. Við eigum á hafa úrval og ákveða sjálf hvernig við högum lífi okkar.
Svona nokkuð gengur í fólk, vegna þess að mörg okkar hugsa, því miður, ekki lengra en nef okkar nær. Ef eitthvað verður okkur að falli, þá er það einmitt þessi eiginleiki okkar.  

Það er sannarlega langt seilst hjá mér að bera saman kröfu um að fá að flytja inn fíkniefni, annars vegar og ófrosið kjöt og grænmeti hinsvegar.  Ég geri það bara samt, þar sem þarna er ýmislegt samanburðarhæft. sem ég er viss um að mörg okkar átta sig á - þangað til hagsmunaaðilar eða útsendarar þeirra snúa okkur aftur.


Mér er fremur óljúft að játa það, en það bærðist í mér framsóknarstrengur eftir daginn í gær. 
Maður á að segja eins og manni finnst.......

------------------------------------

Nú er svo komið að fólk er farið að panta hjá mér umfjöllun, sem sannarlega þarf ekki að koma á óvart, eða þannig. Eftir pistil minn í gær, fékk ég þessi skilaboð:
Bíð eftir skrifum um nýjasta útspil svokallaðs ráðherra landbúnaðarmála.

Kannski ég fari að gerast atvinnupistlahöfundur, bara. 😅

06 janúar, 2019

Skoðun þessa vísindamanns

Það er í tísku að kasta rýrð á vísindin og vísindamenn. Ekki er það vegna þess að vísindamennirnir séu í sjálfu sér fábjánar, heldur vegna þess að niðurstöður þeirra eða skoðanir sem byggjast á rannsóknum, stangast á við hagsmuni valdamikilla hópa. Þetta vita nú allir sem vita vilja. Ef einhver skyldi nú ekki vita, vísa ég til stjórnarhátta í Bandaríkjunum.

Í gærkvöld var birt viðtal á RÚV við vísindamann, yfirlækni á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, sem varaði, með vísindalegum rökum við innflutingi á fersku kjöti og grænmeti.

Ekki var látið þar við sitja, heldur var framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda boðið í beina útsendingu í fréttasettið, til að bregðast við því sem vísindamaðurinn hafði látið frá sér fara.
Það fyrsta sem þessi framkvæmdastjóri gerði, því hann er maður sem veit hvað hann er að gera, var að kasta rýrð á vísindamanninn, gera lítið úr honum og málflutningi hans og gerði meira úr niðurstöðum "óháðra" aðila sem FA hafði fengið til að gera úttekt á sama máli og sem hafði leitt til allt annarrar niðurstöðu.

Framkvæmdastjóri FA, talsmaður þeirra sem hafa beinan hag af því að flytja sem mest inn, fékk þarna að eiga síðasta orðið.
Síðasta orðið er mikilvægast.

Fólkið sem horfði á þessa fréttaumfjöllun sat upp með þá tilfinningu að þessi "svokallaði" vísindamaður væri nú bara harla ómerkilegur pappír, með annarlega, pólitíska hagsmuni að leiðarljósi, meðan hið góða félag, Félag atvinnurekenda, vildi öllum allt hið besta og bæri hag neytenda og fólksins í landinu fyrst og fremst fyrir brjósti.
Góði kallinn og vondi kallinn - alger klassík.

Mér fannst þetta bara harla léleg fréttamennska hjá RÚV - ég sem hef verið eindreginn stuðningsmaður þess að það fái að eflast sem mest.

Það er vísast með þetta eins og annað hjá okkur, að við eigum okkar sannleika, hvert og eitt. Þetta eru ekki skoðanir lengur, heldur sannleikurinn í sinni tærustu mynd, séður frá einni hlið - þeirri hlið sem við sáum síðast.

Nokkrum sinnum hef ég slegið á lyklaborð í tengslum við innflutning á ferskum landbúnaðarvörum og þar er að ýmsu að hyggja öðru en bara því sem fram kemur hjá félagi atvinnurekenda.
Hér eru hlekki á nokkur tilvik:


Fáránleiki 21.11.2018
Engisprettufaraldur 20.09.2017

20 september, 2017

Þetta viljum við ekki vita

El Ejido
Í gær skrifaði ég um innflutning á grænmeti og ýjaði að því að mætti gjarnan koma til bætt siðferði.
Út úr greininni mátti auðveldlega lesa að íslensk garðyrkja stæði höllum fæti gagnvart gengdarlausum innflutningi á grænmeti og ávöxtum, ekki síst vegna þess að þeir sem að baki þeirri starfsemi standa, freista þess að leyna uppruna vörunnar, eða í það minnsta hafa ekki hátt um hann.  Ég fór inn á vefsíðu fyrirtækis sem er eitt þeirra stórtækustu í sölu á salati af ýmsu tagi í íslenskum verslunum. Ég leitaði að upplýsingum um uppruna þeirrar vöru sem þetta fyrirtæki vinnur lítillega og skolar mögulega með íslensku vatni, en um upprunann fann ég ekki stafkrók.


Ég ákvað að nefna þetta fyrirtæki ekki á nafn, enda um fleiri samsvarandi að ræða og varla réttmætt að taka það eitt út úr þeim hópi. Þar að auki hef ég ekki hugmynd um hvort það flytur inn grænmeti og ávexti frá El Ejido, sem hér er fjallað um í framhaldinu. Þeir geta sjálfum sér um kennt, að skammast sín svo fyrir afurðir sínar og þora ekki að birta upplýsingar um uppruna þeirra.

Ég spyr enn: 
Hvar er stoltið af uppruna þeirrar vöru sem fyrirtækið selur?
---------------------


El Ejido og þrælahald
El Ejido
Í tengslum við greinina frá í gær, rakst ég á myndskeið sem lýsir grænmetisræktun á suður Spáni, í héraðinu Almeria, sem mörg okkar hafa örugglega gist einhverntíma.
Mynd frá þessu svæði má sjá efst í þessum pistli.
Sú Almeria sem við líklega þekkjum, er lengst til hægri á þeirri mynd. Þarna höfum við unað í sólinni á ströndinni. Notið lífsins í sumarleyfisferðinni okkar. Allt í góðu með það.

Ljósa svæðið á þessari mynd kallast El Ejido. Vegurinn sem liggur í gegnum það er milli 40 og 50 kílómetrar, eða jafn langt og frá Laugarási og ríflega niður á Selfoss.
Ljósi liturinn er engin sólarströnd, heldur "gróðurhús", en þau sjást betur á myndinni hér til vinstri
Eins og nærri má geta, er framleitt þarna gífurlegt magn grænmetis og ávaxta og starfsmennirnir eru, eftir því sem ég hef komist næst,  að stórum hluta nútíma þrælar, ólöglegir innflytjendur frá Marokkó.
Eins og nærri má geta er til önnur hlið, sem hagsmunaaðilar halda miklu frekar á lofti. Til að gæta nú að báðum hliðum birti ég hér slóðir á tvö myndskeið. Það fyrra er umfjöllum um þá ágætu starfsemi sem fer fram á El Ejido;


Það vekur athygli mína, að í þessu myndbandi koma nánast eingöngu fram hvítir stafsmenn, oftar en ekki í ábyrgðarstöðum.

Ég sýni einnig aðra hlið, en hana má sjá í þessari heimildamynd sem ber heitið
eða "El Ejido - lögmál hagnaðarins" 
Þessi mynd er næstum einn og hálfur klukkutími að lengd og fjallar um aðstæður verkamanna á svæðinu, loftið sem er þrungið daun af skordýraeitri og grunnvatnið sem  er að verða uppurið.  Efni myndarinnar er kynnt svona:

Today, the formerly-deserted region of Almeria in southern Spain produces one third of Europe’s winter consumption of fruits and vegetables and reaps two thirds of the country’s farm profits. This ‘economic miracle’ in a greenhouse relies on the labor of nearly 80,000 immigrants, half of whom do not have proper working papers. In a destroyed environment where the air is vitiated by pesticides and ground water is running out, the village of El Ejido illustrates, almost to the point of caricature, this industrial exploitation of men and the land encouraged by globalization. Driss, Moussaid, and Djibril are day laborers there, working for a pittance and, as is the case with most of their peers, without a working contract. They stay in chabolas, small constructions made of cardboard and plastic, without water or electricity. Near slavery that fills our plates...

Það er rétt að taka það fram, að þessi mynd var framleidd árið 2006, fyrir 11 árum. Dettur einhverjum í hug að breyting hafi orðið til batnaðar með gífurlegum fjölda flóttamanna undanfarin ár?

Ég læt einnig fylgja hlekk á grein í "The Guardian" frá árinu 2011, sem ber heitið:
"Salat ræktendur á Spáni eru þrælar nútímans, að sögn góðgerðastofnana"

Þessari grein fylgir myndskeið (13 mín) sem sýnir ástand mála í El Ejido.

Nóg um El Ejido.

Hvað kemur þetta okkur við?
Þessi spurning er óhjákvæmileg og eðlileg.
Hvað í ósköpunum kemur okkur það við hér norður í Ballarhafi, hvernig Spánverjar, eða aðrar þjóðir haga sínum málum?
Eru þeir ekki bara að reyna að skapa einhverja vinnu fyrir flóttamennina, sem að öðrum kosti myndu veslast upp og deyja?
Hvað er að því að hagnast lítillega í leiðinni?
Erum við eitthvað skárri?
Er góðærið okkar ekki keyrt áfram að talsverðum hluta með sama hætti?
Erum við kannski fólkið sem hreykir sér og segir: "Guð ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn?"
Lifum við kannski eftir einkunnarorðum  vitru apanna þriggja?:
Speak no evil, see no evil, hear no evil
Eða erum við eins og litlu börnin sem leiða ekki hugann að því sem er ekki fyrir framan þau?

Ég gæti haldið áfram lengi, en ætli það breyti nú miklu.
Við höldum áfram að kaupa grænmetið okkar sem búið er að þvo úr íslensku vatni, við höldum áfram að dásama fataverslanir sem geta selt ódýr föt vegna þess að það fórst fyrir að greiða starfsfólkinu í verksmiðjunum einhver laun að ráði, eða þá vegna þess að börn eru svo ódýr starfskraftur.

Ég yrði ekki hissa á því, ef innan ekki langs tíma komi að uppgjöri á þessum málum. Fólk er fólk og æ fleiri munu átta sig á því, að sú misskipting gæða sem viðgengst, er óþolandi.

Einn viðmæælandinn í greininni í "The Guardian" sem hlekkur er á hér ofar segir:

Bændurnir vilja bara ómenntað, meðfærilegt vinnuafl sem kostar helst ekki neitt. Aðeins einn þáttur þessarar greinar hagnast, en það er stóru  fjárfestarnir. Það eru landbúnaðarfyrirtækin sem sigra.  Fjármagnseigendurnir sigra. Mannúðin eða mennskan er þannig drepin.
Fólk mun bregðast við þessu. Þú getur slegið mig einusinni utanundir. Ef þú reynir það aftur mun ég bregðast við og þú verður þá að drepa mig. Það er það sem mun gerast.

Fólk vill bara ekki heyra. Það vita allir að þetta kerfi er  við líði. Það er þrælahald í Evrópu. Við hliðið inn í Evrópu er þrælahald ástundað. 

Við búum við svokallað frelsi, líklega meira frelsi en flestar þjóðir.
Frelsið er vandmeðfarið, en það er með það eins og kommúnismann: hugsjónin eða hugmyndin er frábær, en mannskepnan býr ekki yfir þroska til að raungera hana eins og hún er hugsuð.

Frelsi án siðferðiskenndar er ekkert frelsi.


19 september, 2017

Lifi frelsið - burt með siðferðið


 Ég hef víst áður nefnt þetta umfjöllunarefni og þá var tilefnið engispretta sem varð að leikfélaga barna í leikskóla einum á höfuðborgarsvæðinu og þótti bara heldur "krúttleg". Mörg önnur dæmi um svipað hafa ratað í fjölmiðla, en aldrei verið gert neitt stórmál úr þeim.  Allavega ekki jafn stórt og þegar ekki fannst kjöt í kjötbökunni hérna um árið, eða þegar þurfti að fjarlægja öll brúnegg úr stórmörkuðum.

Ég velti því fyrir mér hversvegna gallaðar vörur fá svo misjafna athygli eftir því hvort  þær eru innlendar eða erlendar.  Enn sem komið er hef ég aðeins eitt svar: Neikvæð umræða um innflutningsvörur þjónar ekki hagsmunum innflutningsverslunar.  Er það mögulega svo, að stærstu innflytjendurinir og dreifendurnir stýri því hvað fjallað er um í fjölmiðlum á þessu landi?   Hvað vitum við, þetta venjulega fólk um það hvað liggur að baki umfjöllun fjölmiðla? Getum við yfir höfuð treyst nokkru sem þar kemur fram, vegna þess að það er allt meira og minna litað af hagsmunum eigendanna?
Ég veit þetta ekki.
Ég veit hinsvegar að íslensk garðyrkja á mjög undir högg að sækja í stórverslunum vegna þess að þar hefur innflutt grænmeti, samskonar og það sem einnig er framleitt hér, náð yfirhöndinni svo um munar.

Hversvegna er íslenskt grænmeti komið í þennan skammarkrók?
Aðrir vita það sjálfsagt betur en ég og stór hluti neytenda vill fremur íslenskar garðyrkjuafurðir en erlendar,. þó þær sé því miður dýrari en þær innfluttu, af þrem ástæðum, fyrst og fremst:

1. Þær eru íslenskar.
Við, sem þjóð eigum að vera sjálfum okkur næg í matvælaframleiðslu og með óheftum innflutningi gröfum við undan möguleikum okkar til sjá þjóðinni fyrir matvælum, ef og þegar á þarf að halda.

2. Þær eru einfaldlega miklu ferskari, nýrri og ómengaðri en innfluttar afurðir, sem við þar að auki vitum ekkert um meðhöndlun á.

3. Kolefnisspor þeirra er rétt um helmingur kolefnisspors innfluttra afurða.



Hér er um að ræða einn mikilvægasta þáttinn, svona ef maður reynir að horfa kalt á málið. 
Á sama tíma og íslenskt salat, sem ræktað er í gróðurhúsum sést varla í stórverslunum, blasa þar við ótaldir hillumetrar að erlendu salati.

Sannarlega eru salatpokarnir rækilega merktir með heitum íslenskra fyrirtækja, eins og Hollusta eða Hollt og gott. Í smáa letrinu kemur uppruninn síðan fram. Ég hef fyrir því fulla vissu, að fjölmargir, ef ekki flestir, telja að þarna séu um íslenska vöru að ræða og kemur á óvart þegar ég hef bent á hið gagnstæða. Ég tel að þarna sé verið að blekkja neytendur, eins og svo oft áður.  

Ef þessi fyrirtæki væru stolt af vörunum sínum og uppruna þeirra, myndi upprunalandsins vera getið með stóru letri á umbúðunum svo væntanlegir kaupendur gætu valið á eðlilegum forsendum: 
Splunkunýtt frá Spáni
Íðilfagurt frá Ítalíu.
Makalaust frá Marokkó
Hvar er stoltið?

Þetta salat var ræktað og skorið einhversstaðar við einhverjar aðstæður, með einhverjum áburði eða vökvun, með einhverjum lyfjum, af einhverjum. Það eina sem við fáum að vita um þetta er, að það hefur (stundum) verið skolað með íslensku vatni.
Þetta salat var flutt, jafnvel yfir hálfan hnöttinn í flugi, í það minnsta frá einhverju landi á meginlandi Evrópu.

Ég er löngu búinn að átta mig á því, að þau fyrirtæki sem flytja inn grænmeti til að keppa við hið íslenska, hafa einungis það í huga að ná sæmilegum arði út úr innflutningnum. Sum hafa ekki einu sinni fyrir því að þvo það úr íslensku vatni, áður en það lendir á borði okkar. Við bregðumst bara hreint ekki við þessu.  Jú, jú, það finnst rottuungahræ í salati. Frá þessu er sagt í einum litlum fjölmiðli og síðan ekki söguna meir.  Er innflytjandinn ekki kallaður til ábyrgðar?  Það er ekki svo. 

Mér varð hugsað til þessa í morgun þegar ég sá, annarsvegar rottuhræið og hinsvegar frásögn af því að í landinu sem hreykir sér af frelsi og hreysti, í fylkinu Flórída, er fólki bannað að setja sólarrafhlöður á þök húsa sinna, til að framleiða vistvæna orku, vegna þess að öflugir talsmenn orkufyrirtækis hafa séð til þess að lög eru í gildi sem banna fólki að framleiða eigin raforku.

As pointed out by the Miami New Times, Florida Power and Light (FPL) – a major supplier of electricity to the state – has invested heavily in lobbying state lawmakers to disallow residents from powering their own homes with solar power panels. In fact, thanks to the current laws, it is illegal to do so; you have to connect any solar panels to your local electric grid.



Það þarf ekki að fjölyrða um það, en þarna eru það hagsmunir fyrirtækja, sem hafa áhrif inn í stjórnkerfið, sem ráða för, en ekki það sem kemur almenningi vel.
Það sama tel ég að megi segja um stöðu mála á þessu landi.
"Fólk þarf að geta treyst því að það verði gengið í málin og þau leyst fyrir það". Einhvernveginn svona orðaði formaður Flokksins þetta fyrir nokkrum dögum.

Ef við viljum búa við frelsi, þurfum við að búa yfir siðferðiskenndinni sem óhjákvæmilega verður að vera með í för.
Án siðferðiskenndar er ekkert frelsi, svo einfalt er það.


-------------------------------------------------
KANNSKI NÆST:


😎

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...