Ég hef víst áður nefnt þetta umfjöllunarefni og þá var tilefnið engispretta sem varð að leikfélaga barna í leikskóla einum á höfuðborgarsvæðinu og þótti bara heldur "krúttleg". Mörg önnur dæmi um svipað hafa ratað í fjölmiðla, en aldrei verið gert neitt stórmál úr þeim. Allavega ekki jafn stórt og þegar ekki fannst kjöt í kjötbökunni hérna um árið, eða þegar þurfti að fjarlægja öll brúnegg úr stórmörkuðum.
Ég velti því fyrir mér hversvegna gallaðar vörur fá svo misjafna athygli eftir því hvort þær eru innlendar eða erlendar. Enn sem komið er hef ég aðeins eitt svar: Neikvæð umræða um innflutningsvörur þjónar ekki hagsmunum innflutningsverslunar. Er það mögulega svo, að stærstu innflytjendurinir og dreifendurnir stýri því hvað fjallað er um í fjölmiðlum á þessu landi? Hvað vitum við, þetta venjulega fólk um það hvað liggur að baki umfjöllun fjölmiðla? Getum við yfir höfuð treyst nokkru sem þar kemur fram, vegna þess að það er allt meira og minna litað af hagsmunum eigendanna?
Ég veit þetta ekki.
Ég veit hinsvegar að íslensk garðyrkja á mjög undir högg að sækja í stórverslunum vegna þess að þar hefur innflutt grænmeti, samskonar og það sem einnig er framleitt hér, náð yfirhöndinni svo um munar.
Hversvegna er íslenskt grænmeti komið í þennan skammarkrók?
Aðrir vita það sjálfsagt betur en ég og stór hluti neytenda vill fremur íslenskar garðyrkjuafurðir en erlendar,. þó þær sé því miður dýrari en þær innfluttu, af þrem ástæðum, fyrst og fremst:
1. Þær eru íslenskar.
Við, sem þjóð eigum að vera sjálfum okkur næg í matvælaframleiðslu og með óheftum innflutningi gröfum við undan möguleikum okkar til sjá þjóðinni fyrir matvælum, ef og þegar á þarf að halda.
2. Þær eru einfaldlega miklu ferskari, nýrri og ómengaðri en innfluttar afurðir, sem við þar að auki vitum ekkert um meðhöndlun á.
3. Kolefnisspor þeirra er rétt um helmingur kolefnisspors innfluttra afurða.
Hér er um að ræða einn mikilvægasta þáttinn, svona ef maður reynir að horfa kalt á málið.
Á sama tíma og íslenskt salat, sem ræktað er í gróðurhúsum sést varla í stórverslunum, blasa þar við ótaldir hillumetrar að erlendu salati.
Sannarlega eru salatpokarnir rækilega merktir með heitum íslenskra fyrirtækja, eins og Hollusta eða Hollt og gott. Í smáa letrinu kemur uppruninn síðan fram. Ég hef fyrir því fulla vissu, að fjölmargir, ef ekki flestir, telja að þarna séu um íslenska vöru að ræða og kemur á óvart þegar ég hef bent á hið gagnstæða. Ég tel að þarna sé verið að blekkja neytendur, eins og svo oft áður.
Ef þessi fyrirtæki væru stolt af vörunum sínum og uppruna þeirra, myndi upprunalandsins vera getið með stóru letri á umbúðunum svo væntanlegir kaupendur gætu valið á eðlilegum forsendum:
Splunkunýtt frá Spáni
Íðilfagurt frá Ítalíu.
Makalaust frá Marokkó
Hvar er stoltið?
Þetta salat var ræktað og skorið einhversstaðar við einhverjar aðstæður, með einhverjum áburði eða vökvun, með einhverjum lyfjum, af einhverjum. Það eina sem við fáum að vita um þetta er, að það hefur (stundum) verið skolað með íslensku vatni.
Þetta salat var flutt, jafnvel yfir hálfan hnöttinn í flugi, í það minnsta frá einhverju landi á meginlandi Evrópu.
Ég er löngu búinn að átta mig á því, að þau fyrirtæki sem flytja inn grænmeti til að keppa við hið íslenska, hafa einungis það í huga að ná sæmilegum arði út úr innflutningnum. Sum hafa ekki einu sinni fyrir því að þvo það úr íslensku vatni, áður en það lendir á borði okkar. Við bregðumst bara hreint ekki við þessu. Jú, jú, það finnst rottuungahræ í salati. Frá þessu er sagt í einum litlum fjölmiðli og síðan ekki söguna meir. Er innflytjandinn ekki kallaður til ábyrgðar? Það er ekki svo.
Mér varð hugsað til þessa í morgun þegar ég sá, annarsvegar rottuhræið og hinsvegar frásögn af því að í landinu sem hreykir sér af frelsi og hreysti, í fylkinu Flórída, er fólki bannað að setja sólarrafhlöður á þök húsa sinna, til að framleiða vistvæna orku, vegna þess að öflugir talsmenn orkufyrirtækis hafa séð til þess að lög eru í gildi sem banna fólki að framleiða eigin raforku.
Það þarf ekki að fjölyrða um það, en þarna eru það hagsmunir fyrirtækja, sem hafa áhrif inn í stjórnkerfið, sem ráða för, en ekki það sem kemur almenningi vel.
Það sama tel ég að megi segja um stöðu mála á þessu landi.
"Fólk þarf að geta treyst því að það verði gengið í málin og þau leyst fyrir það". Einhvernveginn svona orðaði formaður Flokksins þetta fyrir nokkrum dögum.
Ef við viljum búa við frelsi, þurfum við að búa yfir siðferðiskenndinni sem óhjákvæmilega verður að vera með í för.
Án siðferðiskenndar er ekkert frelsi, svo einfalt er það.
-------------------------------------------------
KANNSKI NÆST:
😎
Engin ummæli:
Skrifa ummæli