14 september, 2017

Ekki mjög trúlegt

Guðjón Arngrímsson, Maðurinn sjálfur og
Þorkell Ingimarsson. Mynd frá: Eiríki Jónssyni
Mér varð hugsað til baka, til áttunda áratugs síðustu aldar í gær þar sem ég lá í jörðinni með allar myndavélagræjurnar í kringum mig í moldaarflaginu. Þannig hefur ástandið ekki ávallt verið.
Það kom ekki til af góðu að ég lá þarna og þakkaði mínum sæla fyrir að ekki hefði farið ver.

Aðdragandinn að þeirri stöðu sem þarna blasti við mér, var sú ákvörðun mín að gera það sem ég hef lengi ætlað mér: ganga norður í Skálholtsása og líta nánasta umhverfi mitt frá aðeins öðru sjónarhorni.

Ég gekk norður að Smiðjuhólum og stillti þar upp tækjum og tólum áður en ég hóf að smella af, eins og ég kunni best (reyndist svo hafa gleymt að taka hristivörnina af, sem kom ekki í ljós fyrr en ferðin var afstaðin). Þessi staður er merktur með X á myndinni sem fylgir.
Eftir að hafa lokið mér af þarna, tók ég saman og lagði leið mína í vestur, þar sem ég taldi að útsýnið til norðurs og vesturs yrði betri og sú var raunin. Því næst lá leiðin í suður, en ég hafði í hyggju að taka nokkrar myndir af hæðinni sem er á móts við heimreiðina að Skálholtskirkju og Skálholtsskóla.

Ég sá fljótlega, að þarna á milli var rafmagnsgirðing með tveim strengjum, sem ég myndi þurfa að komast yfir með dótið. Það er stundum rafmagn á rafmagnsgirðingum, en oftar ekki. Ég ákvað að það væri ekki og það reyndist auðvitað rétt vera. Þegar ég var kominn yfir girðinguna, við suðurenda skógræktar sem þarna er, tók við fremur óárennilegt svæði og þar sem ég stóð þegar nánast á öndinni eftir að hafa klöngrast áreynslumikið um móana í Skálholtsásum, ákvað ég að snúa til baka, fara aftur yfir girðinguna og síðan yfir hana þar sem göngufærið myndi verða vinsamlegra.
Þar með kom ég að girðingunni þar sem merkt er O á myndinni. Ekki taldi ég að erfiðara gæti orðið að fara til baka yfir þessa rafmagnslausu rafmagnsgirðingu og hafði því ekki fyrir því að losa mig við búnaðinn áður en yfirferðin hæfist, en hún fólst í því að klofa yfir efri vírinn, en hann var í hóflegri hæð og girðingin slök. Hægri fóturinn komst yfir, vandræðalaust, en þá var sá vinstri eftir.
Allt gekk það eins og ætlunin var, þar til kom að skónum, en vírinn flæktist með einhverjum hætti í honum (gæti lýst þessu með ítarlegri hætti, en það yrði of langt mál). Það skipti engum togum að allt jafnvægi hvarf og í stjórnleysi líkamans hlunkaðist ég til jarðar þannig að hægra hné tók við öllum mínum þunga þar sem ég lenti í moldarflagi, einn til tvo sentimetra frá grjóthnullungi.
Knattspyrnan
Mynd frá Eiríki Jónssyni
Hefði grjóthnullungurinn tekið við hnénu, hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum.
Þarna lá ég svo um stund og hugleiddi öll þau ef sem þarna voru uppi.
Hvað hefði til dæmis gerst ef hnéð hefði lent á grjóthnullungnum?
Þarna voru einir fimm tímar í að fD kæmi úr vinnu, en hún var eina manneskjan sem hafði grun um hvert ég hygðist leggja leið á þessum morgni.
Hvað ef fD myndi síðan telja að ég hefði bara orðið svo hugfanginn að umhverfinu, að ég hefði ákveðið að eyða bara deginum þarna í ásunum?  Þarna var ég, liggjandi í moldarflaginu, kominn í nánast núvitundarástand, utan það ef til vill, að ör andardrátturinn og hraður hjartslátturinn gaf allt aðra vísbendingu.
Hrokafullir nemendur að fara að spila körfubolta
við kennara., 1974  Mynd frá EJ
Allt gekk eins og best varð á kosið eftir þetta, en myndavélin hafði lent ásamt mér í flaginu og bar þess nokkur merki.

Þessi pistill er ekkert um þessa gönguför í Skálholtsása, heldur það sem eitt sinn var.
Ég er viss um að einhverjum sem þetta les, kunni, í ljósi lýsingarinnar hér að ofan, að koma á óvart þegar ég greini frá þeirri staðreynd að fyrir einhverjum árum var ég afrenndur íþróttamaður.
Þarna var ég á kafi í körfuknattleik, knattspyrnu (markvörður) og blaki.

En, svona er þetta.
Nu er ég bara afrenndur í einhverju öðru.
Þannig er nú með lífið.
Skólalið Héraðsskólans á Laugarvatni 1970
Mynd frá EJ


Engin ummæli:

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var...