Sýnir færslur með efnisorðinu Kvisturart. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Kvisturart. Sýna allar færslur

29 desember, 2016

"Ein frá Sólveigarstöðum!"

Flugeldur sem KvisturArt hyggst setja á loft á áramótum,
á miðnætti og nokkrir furðu lostnir furðufuglar.
Þá fóru allir út á miðnætti og fylgdust með flugeldaskotum annarra íbúa í þorpinu. Í Kvistholti var, heldur minna um stóra flugelda en hjá þeim sem betur voru stæðir. Það var reynt að stíla frekar upp á magnið en stærðina, enda í rauninni það mikilvægast sem næst manni var; það sem maður fékk sjálf(ur) að kveikja í.
Elstu pjakkarnir tveir voru farnir að sýna áhuga á að skjóta rakettum og þá komu ílurnar litlu í góðar þarfir, afar margar og ódýrar.

Hjá ýmsum öðrum var þetta allt stórfenglegra og þegar einhver skaut var hrópað, svo enginn missti nú af:
"Þarna kemur ein frá...." (svo var bærinn nefndur). Allir snéru sér þangarð. "VÁÁÁÁ þessi var flott!" "Þarna kemur ein frá...." (bærinn aftur nefndur). Allir snéru sér þangað. "Þessi var ekkert sérstök". 
Og svona gekk þetta. Raketturnar flugu á loft hver af annarri og ávallt var tekið eftir hvaðan þær komu. Það var hægt að sjá hver væri stórtækastur, sem var auðvitað ákveðið merki um velgegngni á árinu. Í Auðsholti mun hafa verið einhver sjómaður, sem skaut alltaf upp skiparakettu.

KvisturArt lýkur flugeldasýningu sinni
með kvenskörungum.
Svo liðu árin. Fjárhagurinn í Kvistholti fór heldur batnandi og þar með varð mögulegt að veita meira fé til flugeldakaupa. Börnin stækkuðu líka og jafnframt því minnkaði áhugi þeirra "fíriverki". Það sem einnig gerðist var að að trén sem Laugarásbúar höfðu plantað af dugnaði fyrir áratugum, stækkuðu og þar með varð erfiðara að greina hvaðan hvaða flugeldur, eða bomba, kom. Þetta gat jafnvel leitt til rökræðna, þegar fólkið var ósammála um uppruna flauganna.

Nú eru börnin auðvitað flogin úr hreiðrinu, en eftir situr einhver lítil neisti frá fyrri tíð og af þeim sökum, en þó aðallega til að styjða björgunarstarf í landinu, er alltaf keypt eitthvert fíriverk í Kvistholti. Einnig núna, en þessu sinni í nafni nýja gæluverkefnisins sem ber heitið KvisturArt.

Það má sem sagt segja, að Laugarásbúum og þeim sem eiga leið um Laugarás, hvort sem það er vegna þess að þeir hafa beinlínis komið af þessu tilefni eða af öðrum ástæðum, er boðið að horfa á þessa flugeldssýningu og njóta.  Auk þess sem þessum flugeldi verður skotið á loft, af fD sjálfri, verður lítilsháttar annað fíriverk beint í kjölfarið.

Svo tekur við nýtt ár með nýjum áskorunum.

07 nóvember, 2016

Með hálfum huga

'Furðufuglar" með nýju merkingunni.
Hver er mögulegur tilgangur minn með því að auglýsa sjálfan mig?
Þykist ég hafa eitthvað fram að færa umfram aðra?
Er ég með þessu að sýna af mér samskonaar innræti og faríseinn í Biblíunni?
Þetta eru mikilvægar spurningar þegar maður spyr sjálfan sig þeirra þar sem maður stendur frammi fyrir því að ákveða hvort maður opinberar verk sín fyrir öðru fólki.

Fyrir nokkru hélt fD sýningu á myndverkum sem hún hefur unnið að undanfarin ár. Þetta gerði hún eftir mikla umhugsun og vangaveltur af því tagi sem nefndar eru hér fyrir ofan. Lét vaða og það sem meira er, henni tókst að draga mig inni í málið einnig.

Sýningin gekk glimrandi vel og nú er frúin nánast horfin inn í dyngju sína til að freista þess að vinna upp lagerinn sem tæmdist.  Tenórsöngurinn sem oftast hefur verið í bakgrunni er hljóðnaður um stund.

"Verð ég ekki að setja upp einhverja síðu?" var óhjákvæmileg spurning í kjölfar sýningarinnar. Svarið var einnig óhjákvæmilegt. Og framkvæmd verksins einnig.
Nú er hafin uppestning á galleríi í kjallaranum í Kvistholti.
Auðvitað mun það heita 'Gallerí Kvistur'
Sem fyrr þegar ég fæ spurningar, tæknilegs eðlis frá fD, kemur svar mitt: "Ég veit ekkert hvernig það er gert". Spurningin hljóðnaði samt ekki og ég fór að prófa mig áfram og komst fljótt að því, að enginn þeirra möguleika sem boðið var upp á passar við það sem um var að ræða.  Valdi þar með bara einhvern sem gat ekki verið langt frá því rétta.

Það var ekki um að ræða að mynd af fD yrði gerð að prófíl mynd síðunnar, en hún reyndist ekki í vandræðum með að finna lausn á því máli: "Getum við ekki bæði notað þessa síður og merkið sem þú bjóst til?"  og þar með var ég orðinn virkur þátttakandi í innihaldi þessarar kynningarsíðu. Þarna skyldu sem sagt vera myndverk okkar beggja, sitt á hvað undir vörumerki Kvisthyltinga, en það hannaði ég fyrir rúmum þrjátíu árum og gerði grein fyrir tilurð þess hér.  Merkið hef ég síðan notað til að merkja ljósmyndir sem ég hef dundað mér við að taka og vinna úr síðan. Nú fékk þetta merki nýtt og mikilvægt hlutverk: að fylgja öllum myndverkum fD héðan í frá.

Það þarf ekki að orðlengja það, en í morgun var síðunni https://www.facebook.com/kvisturart/ varpað út í alheiminn með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Ég neita því ekki að það bærðust með mér ýmsar hugsanir þar sem ég sat frammi fyrir því að hefja útgáfuna, en lausnarorðin voru, á nútímamáli, en aðeins í huganum: "Fokkitt" og þar með smellti ég á fyrsta mögulega gestinn á síðunni.

Úr því ég er blandaður í málið hlýt ég að birta hér mynd
af minni mynd. Hún ber nafnið 'Verkfallsórar' máluð í
síðasta verkfalli ævi minnar í mars 2014.
Ég hef látið þess getið að mynd þessi sé föl fyrir
ISK350000. Þetta er akrýlmynd 140x130 cm.

Laugarás: Fagmennska, eða annað.

Þann 13. júní birtist á island.is  island.is   tilkynning frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands þar sem greint er frá því á vorið 2025 verði hei...