Janúar er venjulega frekar leiðinlegur mánuður. Ljósadýrð jóla og áramóta frá og ekki lengur lifandi spurningin um að skella sér á þorrablót. Þannig var staðan þann 15. janúar s.l. Þar sem ég sat fyrir framan tölvuna mína (eins og stundum) og dundaði eitthvað, birtist mér póstur frá Kúbuferðum. Hann greindi meðal annrs frá því, að nú væri hægt að bóka sig í ferð á þeirra vegum til Costa Rica, þann 14. nóvember. Það skipti engum togum, eftir jákvæð viðbrögð fD, að ég skráði okkur í þessa ferð. Fékk einnig afar jákvæð viðbrögð frá fyrrum ferðafélaga okkar í ferð með Kúbuferðum, í mars 2019, sem dreif einnig í að panta sæti, sem hann afpantaði reyndar síðar.
Ferðaáætlunin gerði ráð fyrir flugi til Toronto í Kanada. Þar skyldi gist eina nótt áður en flogið yrði til Liberia á Costa Rica. Þetta var samskonar ferðafyrirkomulag og í Kúbuferðinni.
Með þessari aðgerð vorum við búin að redda janúar og febrúar. Það er nefnilega þannig, að þegar við blasir eitthvað áhugavert og spennandi í á tilteknum tíma í framtíðinni, er eins og myrkur hinna dimmu og drungalegu mánaða ársins hverfi eins og dögg fyrir sólu. Að nokkrum mánuðum liðnum, myndum við fljúga til áfangastaðar okkar í Mið-Ameríku: Costa Rica.
Þarna er ekki um að ræða eitt þessara landa sem maður veit eitthvað umtalsvert um og þessvegna gafst færi, í aðdraganda ferðarinnar, á að afla sér smávegis upplýsinga um það ágæta land.
Costa Rica er eitt svokallaðra Mið-Ameríkuríkja. Næstu nágrannar landsins eru Nicaragua að norðanverðu og Panama fyrir sunnan. Það liggur að Karíbahafi í austri og Kyrrahafi í vestri.
![]() |
| Í hringnum á myndinni hafa verið að eiga sér stað ógnandi tilburðir vanstilltra ráðamanna í "landi hinna frjálsu", sem var nokkurt áhyggjuefni. |
Costa Rica er um 51,2 ferkílómetrar að stærð, eða um helmingur af stærð Íslands. Íbúarnir eru rúmlega 5 milljónir og búa flestir í, eða í nágrenni við höfuðborgina, San José. Eins og mörg önnur ríki á þessum slóðum var landið nýlenda Spánverja til 1821 og spænska er aðal tungumálið.
1838 lýsti landið yfir sjálfstæði.
Það var háð stutt borgarastyrjöld þarna í mars og apríl 1948 og eftir að henni lauk, 1949, var samþykkt ný sjórnarskrá, sem meðal annars fól í sér að landið yrði herlaust og svo hefur verið síðan. Landinu er stjórnað af forseta, sem er kosinn til fjögurra ára og sem má ekki bjóða sig fram til næsta kjörtímabils. Forsetinn velur fólk til setu í ríkisstjórn.
Núverandi stjórn landsins er ansi höll undir stjórnvöld í Bandaríkjunum og það hefur skapað allmiklar deilur meðal landsmanna. Kjörtímabil þessarar stjórnar rennur úr næsta vor og binda ýmsir vonir við að næsti forseti standi fyrir aðra stefnu í utanríkismálum.
Tæplega 84% íbúa þessa lands eru hvítir eða blandaðir afkomendur Spánverja (Evrópumanna) og frumbyggja (Mestizo). Tæp 7% eru blandra svartra og hvítra (Mulatto) og aðrir, tæp 10% eru frumbyggjar, (sem búa margir á sérstökum svæðum sem stjórnvöld hafa úthlutað þeim (reservations)), svartir eða af öðrum kynstofnum.
Í landinu er skólaskylda til 14 ára aldurs og menntun ókeypis, í það minnst upp í háskóla. Það fé sem áður var notað í herinn er nú nýtt til mennta- og heilbrigðismála.
Ég get tínt til margt til viðbótar um þetta land, sem framundan var að heimsækja, en ætli megi ekki segja að herleysið hafi vakið mesta athygli mína. Næsti nágranni, Panama, lagði herinn af árið 1990.
Þetta herleysi er skiljanlegt að því leyti, að þessi tvö lönd mynda mjóa ræmu milli norður og suður Ameríku og hernaðarbrölt þeirra gæti skapað ýmis vandamál umfram þau sem þegar eru fyrir hendi milli ríkjanna norðan og sunnan við þau. Það má kannski líta á þessi tvö lönd sem einskonar stuðpúða. Vegalengdin milli Kyrrahafs og Karíbahafs er um það bil 120 km. þar sem styst er.
-------------------
Ætli sé ekki best að láta hér staðar numið í þessum inngangi að ferð okkar fD til Costa Rica, en fara þess í stað að freista þess að gera grein fyrir ferðinni sem hófst þann 14. nóvember og lauk að morgni þess 26. Það verður bara að koma í ljós hvernig það gengur, enda aðventa, jól og áramót ekki rólegasti tími ársins. Allt kemur þetta í ljós. Þetta kemur þegar það kemur.
FRAMHALD síðar



