Sýnir færslur með efnisorðinu heimreiðar. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu heimreiðar. Sýna allar færslur

22 janúar, 2019

Að moka heimreiðar

Það er fjarri mér að setja út á það þegar sveitarfélagið sem ég bý í tekur sig til að ákveður að auka þjónustu við íbúana. 
Það sem ég læt frá mér hér á eftir ber að skoða í því ljósi. 
Þá ber að hafa það í huga við lesturinn, að ég fjalla ekki um málið út frá minni persónu, þó sannarlega tilheyri hún þeim hópi sem fjallað er um og er notuð sem útgangspunktur í umfjölluninni. 

Vissulega munu ýmsir afgreiða þetta sem enn einn þáttinn í þeirri "kvartsýki" sem ákveðinn hópur er sagður þjást af, þegar hann gagnrýnir verk yfirvalda og þá er það bara þannig.

Jæja, þá er það tilefni þess að ég nýti hluta þessa fallega dags til að lemja aðeins á lyklaborðið.

Á 199. fundi byggðaráðs Bláskógabyggðar, sem var haldinn í Aratungu þann 26. september, s.l. var þessi tillaga samþykkt:

2.5. Tillaga um breytt fyrirkomulag á snjómokstri, mokaðar verði heimreiðar að öllum bæjum þar sem skráð er lögheimili og föst búseta. Byggðaráð Bláskógabyggðar samþykkir að gera þá breytingu á fyrirkomulagi snjómoksturs að mokaðar verði heimreiðar að öllum bæjum þar sem íbúi/íbúar eru skráðir með lögheimili og hafa fasta búsetu. Í útboði á snjómokstri í Bláskógabyggð, sem Vegagerðin og Bláskógabyggð standa saman að, fyrir tengi- og héraðsvegi, verði boðinn út mokstur heimreiða skv. framangreindu. Sviðsstjóra framkvæmda- og veitusviðs og sveitarstjóra er falið að útbúa drög að verklagsreglum sem lagðar verða fyrir sveitarstjórn.  (feitletrun mín)
Lái mér hver sem vill, en með þessari samþykkt taldi ég víst, að nú fengi ég aukna þjónustu. Það er nefnilega þannig, að til mín liggur heimreið. Ég er skráður með lögheimili og hef fasta búsetu á lögbýli.  Ég var bjartsýnn og fagnaði.

Svo fór loksins að snjóa, bara nokkuð hressilega. Snjóruðningstækin voru tekin til kostanna og í framhaldinu kom stöðufærsla á facebook frá sveitarfélaginu:
Nú hefur reynt í fyrsta sinn á nýtt fyrirkomulag í snjómokstri sveitarfélagsins með að moka heim á bæi þar sem föst búseta er.
Við gerð áætlunar um mokstursleiðir er mögulegt að eitthver bær hafi farið fram hjá okkur og því biðlum til íbúa til að láta vita ef ekki hefur verið mokað til þeirra sem hafa rétt á mokstri. Eins ef eitthvað má betur fara.
(feitletrun mín)
Þar sem ekki hafði verið mokað heim til mín, bað ég, í viðbrögðum við þessari færslu, um nánari útlistun á því hvernig reglurnar sem unnið væri eftir, væru.

Á facebooksíðu Bláskógabyggðar birtust í gær þær verklegsreglur sem unnið er eftir, en þær eru þessar:

Því miður var það mynd af verklagsreglunum sem inn var sett, þannig að ég slæ hér inn það sem fjallað er um og ég hef merkt með gulum lit:

1. Einungis eru mokaðar heimreiðar að bæjum þar sem er föst búseta og viðkomandi íbúar með skráð lögheimili.
2. Sveitarfélagið sér ekki um mokstur á heimkeyrslum að fyrirtækjum eða íbúðarhúsum í þéttbýli, gildir það einnig um heimkeyrslur að lögbýlum sem eru innan þéttbýlis.
3. Samþykkt í sveitarstjórn Bláskógabyggðar 8. nóvember, 2018.
Þessar verklagsreglur hef ég ekki fundið á vef sveitarfélagsins, en þar ættu þær væntanlega að vera. Reglurnar samþykkti sveitarstjórn með þessum hætti (samhljóða):
4.17 Viðmiðunarreglur vegna snjómoksturs. Lagðar voru fram viðmiðunarreglur vegna snjómoksturs. Vegagerðin hefur nýlega boðið út snjómokstur í samstarfi við sveitarfélagið. Í útboðsgögnum er kveðið á um mokstur heimreiða að bæjum þar sem er föst búseta og skráð lögheimili og er það í samræmi við ákvörðun sveitarstjórnar frá því í haust. Í viðmiðunarreglunum kemur fram hvaða reglur hafðar eru til viðmiðunar um mokstur héraðs- og tengivega (svokallaðra helmingamokstursvega) og heimreiða. Umræða varð um reglurnar. Sveitarstjórn samþykkir reglurnar samhljóða.  (feitletrun mín)

Hvað um það, með þessum verklagsreglum er ég útilokaður frá þeirri auknu þjónustu sem sveitarfélagið er að veita íbúunum, jafnvel þó til mín liggi heimreið sú sem sést á myndinni efst, þó ég sé skráður með lögheimili á staðnum og með fasta búsetu og greiði skatta og gjöld rétt eins og hver annar.
Vissulega á það ekki við um mig að ég sé háður því að koma afurðum mínum og aðföngum heim til mín, en það á við um aðra, sem þarna fá ekki þessa þjónustu, þó svo þeir búi á lögbýlum og þurfi að sjá til þess að flutningabílar geti athafnað sig.
Þéttbýlin í Bláskógabyggð eru talvert ólík því sem gerist í þéttbýli eins og t.d. á Selfossi, eða Reykjavík, eins og hver maður getur ímyndað sér.  Hér liggja ekki stofnæðar við húsvegginn, heldur liggja heimreiðar að bæjunum.

Ef eitthvað, þá má segja að mokstur stofnæðanna valdi mér jafnvel meiri vanda en þær leysa, þar sem snjóplógarnir moka upp hryggjum við endann á heimreiðinni sem verða síðan að grjóthörðum saltpækli.

Ég hef nú ekki umtalsverða von um að sveitarfélagið ákveði að breyta skilgreiningu sinni á því hvað telst vera bær með heimreið. Mér finnst hinsvegar ótækt að okkur, sem þarna er gert að sjá sjálf um okkar snjómokstur, sé gert erfiðara fyrir en vera þarf. Því legg ég til að sveitarfélagið veiti mér og öðrum sem við á, þá þjónustu að moka að minnsta kosti burt snjóhryggjunum sem snjóplógarnir ryðja inn í heimreiðar okkar.
Það væri skref í rétta átt.
Ég legg einnig til, að sveitarfélagið reyni í framhaldinu, af fremsta megni, að sjá til þess að íbúar sveitarfélagsins njóti sambærilegrar þjónustu að þessu leyti, óháð búsetu.

Það var fallegt við Hvítá í morgun.

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...