Í Skálholti 2016 |
Séra Egill tók við prestsembætti í Skálholti fyrir 23 árum, sama árið og Skálholtskórinn fór í merka söng- og gleðiferð til Þýskalands og Frakklands. Nýi presturinn slóst í för með kórnum í þessa ferð og þar hófust fyrstu kynni okkar af manninum sem sett hafði stefnuna á að verða sálusorgari okkar og samstarfsmaður til framtíðar.
Kórferð á erlenda grund 1998 |
Leiðin lá í Móseldalinn það sem vínviðurinn grær, schnitzel er borið á borð, og hvítvínið fyllir glösin.
Hópurinn reyndi margt saman í þessari eftirminnilegu ferð, en ekki hyggst ég fjölyrða um hana hér, en vísa þess í stað á frásögn af henni sem er að finna HÉR. Samt get ég ekki látið hjá líða, að nefna tvennt sem varð til þess að hjálpa til við að búa til þá mynd af nýja prestinum, sem síðan hefur fylgt honum í mínum huga, í það minnsta.
Þann 5. október 1998 kom kórinn og allt fylgdarfólkið saman til kvöldverðar, sem auðvitað er ekki í frásögur færandi í sjálfu sér. Þarna vorum við búin að dvelja í Móseldalnum í nokkra daga og framundan heimsókn yfir landamærin til Frakklands, bæjarins Barr í Elsasshérðinu.
Umræddur kvöldverður var á veitingahúsi og í boði voru mismundandi tegundir af Schnitzel, mismunandi tegundir af hvítvíni og margt annað girnilegt.
Eðlilega hafði ferðafólkið, þegar þarna var komið, fengið að njóta ríkulega helstu framleiðslu Móselmanna, hvítvínsins, bæði í meiri og minni mæli, eins og gengur. Þar sem séra Egill sat við borðsendann hjá mér, gekk þjónn um salinn og bjóða gestunum drykki með matnum, líka séra Agli. Pöntun hans hljóðaði svona:
"Dræ kóla, bitte"
Skömmu síðar kom þjónninn aftur með pöntunina, en það voru þá þrjú stór glös af kóladrykk, sem hann raðaði skilmerkilega fyrir framan þennan sérstaka gest. Það er skemmst frá því að segja, að við sem sátum við sama borð, veltumst um við þessa uppákomu og séra Egill hló manna mest. Þarna var þá kominn prestur sem hafði húmor fyrir sjálfum sér. Það var ágætt.
Með Ólafíu á þorpshátíð í Laugarási 2002 |
Hápunktur afleiðinga vopnakaupanna átti sér síðan stað, fimmtudaginn 8. október þegar hópurinn beið þess í flugvél í Frankfurt, að halda heimleiðis. Svo segir í frásögn af ferðinni:
Það síðasta sem við sáum af meginlandi Evrópu þennan dag var malbikið á flugvellinum nokkrir vöruvagnar og einmana miðaldavopn, vafið í pappír. Vopnið átti að vera hluti af farangrinum í vélinni sem var á norðurleið, til landsins nyrst í Atlantshafinu, þar sem skammdegið var að setjast að, en það fór hvergi. Hvar það er nú veit undirritaður ekki á þessari stundu.
Ekki veit ég enn hvað varð um þetta sverð.
Það er ekki mitt að fjalla um séra Egil sem predikara og boðbera Orðsins. Til þess eru aðrir betur fallnir. Þar að auki get ég ekki sagt, að ég hafi kynnst manninum svo heitið geti. Það kemur þó ekki í veg fyrir að mér finnist ég hafa eitthvað um hann að segja og sem mér finnst hafa einkennt hann, sem hluta af lífinu í Tungunum.
Aldarafmæli Guðmundar Indriðasonar, maí 2015 |
Þar má til dæmis nefna þetta með fermingarnar. Þar kom séra Egill fram af krafti, í samfélagi sem hafði verið vant því að fermt væri á hvítasunnudegi ár hvert. Með honum kvað við nýjan tón, smám saman. Hann var tilbúinn að ferma sem oftast, eitt barn hér og annað þar. Sannarlega fengu foreldrarnir þarna meira valfrelsi með dagsetningar, en á móti hvarf auðvitað sú sameiginlega upplifun allra fermingarbarna hvers árs að játa trú sína saman, með tilheyrandi minningum síðar. Hér var sennilega bara um að ræða vaxandi kröfur fólks um að ákveða fermingardaga sjálft, sem séra Egill tók bara fagnandi. Hann starfaði í samfélagi sem var smám saman að víkja frá einsleitninni, svona eins og þegar Ríkisútvarpið hætti að vera eina útvarps- eða sjónvarpsstöðin. Hér væri hægt að fjalla í löngu máli um hvort þær breytingar sem síðustu áratugir hafa fært okkur séu til góðs fyrir mannkynið, eða merki um upplausn, úrkynjun og endalok. Það mun ég þó ekki gera.
Annað einkenni á störfum séra Egils voru predikanirnar og útfararræðurnar, en þar dró hann ekki af sér alla jafna og ekki vil ég neita því, að stundum urðu þær full ítarlegar og að sama skapi í lengra lagi. Ég er nú samt þakklátur honum fyrir ræðuna sem hann hélt yfir föður mínum, en hana tel ég hafa verið í samræmi við það sem sá gamli hefði getað sætt sig við.
Skálholtshátíð 2018 ásamt Jóni Sigurðssyni og Drífu Hjartardóttur |
Séra Egill var maðurinn sem fylgdi takti samfélagsins og tók sér ýmislegt fyrir hendur, þar sem íhaldssamara fólk hefði staldrað við, en á sama tíma tókst honum að vera fullkomlega trúverðugur í hlutverki sínu sem sálusorgari og predikari. Það var eins og hann væri alltaf tilbúinn að feta nýja slóð, afla sér þekkingar á ólíkum sviðum. Ætli það kallist ekki, að vera leitandi.
Nú er sögu hans sem samferðamanns okkar sóknarbarnanna lokið, en við höldum áfram og þökkum honum hlýjuna og ljúfmennskuna sem einkenndi alla hans framkomu. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu þann 9. júní síðastliðinn og útför hans er gerð frá Skálholtsdómkirkju í dag.
- fyrir hönd Kvisthyltinga