Sýnir færslur með efnisorðinu Hvítá. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Hvítá. Sýna allar færslur

23 október, 2019

Hvernig flutt var yfir á

Það var ástæða fyrir því að mér kom í hug þessi gamla gáta í dag:

Hvernig flutt var yfir á
úlfur, lamb og heypokinn?
Ekkert granda öðru má,
eitt og mann tók báturinn.

Það var nú ekki svo, að þarna væri um stórkostlega samanburðarhæft tilvik að ræða - miklu einfaldari þraut blasti við okkur fD og í sem stystu máli, þá féllum við á því prófi og það með glans.

Nú segi ég bara söguna nákvæmlega eins og hún varð til í raunheimum.

Dekkjaskiptin

Það er komið fram í síðari hluta október og allra veðra von. Því var tekin ákvörðun um að panta tíma í dekkjaskipti á Vélaverkstæði Guðmundar og Lofts á Iðu, en Iða er í um tveggja kílómetra fjarlægð frá Kvistholti og milli þessara tveggja staða rennur Hvítá hjá Iðu og til að komast á milli er ekið eða gengið yfir Hvítárbrú, sem opnuð var 1957 og hefur þjónað okkur vel og dyggilega síðan.
Ég pantaði sem sagt tíma í dekkjaskipti fyrir heimilisbílana tvo. Já, þeir eru tveir. Ekki má nú víst minna vera, á þessum tímum umhverfismeðvitundar.
Tíma fékk ég í dag og mátti koma öðrum bílnum yfir ána í morgun, en síðan kæmi ég bara með hinn þegar sá fyrri yrði klár. Þetta hljómaði allt afskaplega einfalt.
Ég ók svo Qashqai sem leið lá yfir ána að Iðu í morgun (eftir að hafa verið búinn að steingleyma þessum tíma og eftir að fD hafði með einhverjum hætti munað eftir honum) og skildi hann þar eftir hjá Lofti, sem kvaðst myndu hringja í mig þegar dekkjaskiptum væri lokið. Þessa sömu leið ók fD á Yaris sínum til þess að ég þyrfti ekki að ganga heim í ísköldum norðaustan strekkingnum. Þegar ég hafði skilað Qashqai af mér héldum við heim aftur til að sinna því sem sinna þurfti. 
Leið nú nokkur tími, en þá hringdi Loftur og kvað vera kominn tíma til að skipta á bílum. 
Þar með settumst við fD upp í Yaris og ókum sem leið lá, yfir ána, að Iðu. Þar tók ég við Qashqai og við skildum Yaris eftir og fD fékk far með mér heim þar sem við hófum aftur að sinna því sem sinna þurfti. 
Á tilsettum tíma héldum aftur út yfir á að Iðu, á Qashqai og nú til að ná í Yaris. Hann var tilbúinn þegar við komum þangað og við gengum frá málum áður en við héldum heim, yfir ára, enn til að sinna því sem sinna þurfti og sinna þarf.
Þarna voru báðir heimilisbílarnir komnir heim í hlað, tilbúnir til vetraraksturs. 
----------------------------------------------------------------

Á einum timapunkti í þessu ferli laust mig í höfuðið sannleikurinn um ótrúlega hugsanaskekkju sem við höfðum bæði gerst sek um.  
Hver var hún?  

Rétt er að geta þess, að  annað okkar ekur báðum heimilisbílunum, en hitt aðeins öðrum.
Einnig er rétt að geta þess, að hvorugt okkar, tel ég, yrði metið vera komið með einhverskonar aldurstengdan kvilla í höfðinu.


19 apríl, 2018

Ekkert spor

Sumardagurinn fyrsti. Það held ég nú.
Ekki get ég neitað því, að það eru ýmis merki í umhverfinu um að veturinn er að gefa eftir. Fuglar syngja eins og á hverju vori og ég tek mig til og ætla nú aldeilis að fanga þetta fiðurfé, sem lætur svo dátt, á mynd.
Ég fer í smávegis bíltúr í bítið.
Hvítá umlykur Laugarás á þrjá vegu og það hlýtur að vera talsvert af þessum söngvurum þar að finna.
Jú, mikil ósköp, það vantar nú ekki.
Álftir og grágæsir. Einn tjaldur og einn stelkur.

Eftir fuglaskim byrja ég enn og aftur að efast um að mér sé ætlað að komast í tæri við einhverja merkilega fugla. Annaðhvort fela þeir sig þegar ég nálgast, eða þá að ég fer alltaf á stjá á vitlausum tíma dags.
Eitthvað er það.
Mér kemur í hug, að ef til vill þurfi ég að fara í læri á næsta bæ, nú eða bara að hætta að reyna að sjá aðra fugla en álftir og grágæsir.

Úr því fuglaúrvalið er ekki meira fer ég að huga að öðru. Minnist frásagnar sem ég fékk frá brúarvinnumanni, af því þegar hann synti yfir ána og skildi síðan eftir fórspor sitt í blautri steypu til minningar um afrekið.
Ég fór að leita að þessu 60 ára gamla fótspori, undir syðri stöpli brúarinnar, en fann bara steypuklessu með tveim stöfum: HV.  Hver var þessi HV? Þar sem ég hef ekki lista yfir alla þá sem komu að brúarsmíðinni, veit ég það auðvitað ekki. Kannski er þetta eitthvert seinni tíma verk.
Jæja, kannski er sporið undir nyrðri stöplinum. Mögulega er það undir vatnsyfirborðinu, en það er mikið í ánni núna.
Ég mun finna þetta spor, ef það er finnanlegt.

Meiri gæsir og álftir. Söngur allra hinna, sem ekki vilja leyfa mér að sjá sig.
Kannski er ég bara þessi sem sé bara stóra fugla, ekki þessa litlu ræfla sem þarf að tæla með matargjöfum svo þeir láti sjá sig.

Stórir fuglar eru líka ágætir.

Gleðilegt sumar og takk fyrir vetrarlesturinn.

03 febrúar, 2018

Fer hún upp?

Ekki veit ég hverskonar hugsunarháttur það er, kannski eitthvað eðlislægt og sem er hluti af því að vera manneskja, en ég er ekki alveg viss nema það hvarfli að mér að það gæti verið spennandi ef Hvítá leysti af sér klakaböndin með dálitlum látum.
Þetta er ekki beinlínis falleg hugsun, en ég skýli mér á bak við það, að við mannfólkið viljum alltaf hafa einhverja "sensasjón", einhver átök, eitthvað stórt sem setur líf fólks úr skorðum. Þannig nærast fjölmiðlar á hörmungafréttum því enga næringu fá þeir úr því sem slétt telst og fellt.
Flóð í Hvítá gæti sett og hefur sannarlega sett líf fólks úr skorðum

Vísir, 3. mars, 1930
Áin mun hafa runnið alveg yfir Bræðratungu heim að bæ og yfir alla Skálholtstungu upp að Skálholtsásum. Bærinn Reykjanes í Grímsnesi, við Brúará, var umflotinn, og varð ekki í ívo daga komist úr bænum. Bátur úr Skálbolti komst þangað í morgun. Vatnið var á miðjar síður á bestunum i hesthúsinu í Reykjanesi. Við nánari fregnum úr Tungunum er vart að búast fyrr en í fyrsta lagi í kveld, er menn geta farið á milli, sem horfur eru á

Já, við mannfólkið viljum einhverskonar uppnám, eitthvað sem kemur eilitlu róti á tilfinningar okkar, eitthvað sem snertir okkur, við viljum "sensasjón". Hvað ætli við höfum einhvern áhuga á einhverju venjulegu? Ófarir annarra eru okkur að skapi, ekki í orði, auðvitað,  Það er meira að segja svo, að allt þjóðlífið er orðið gegnsýrt af þessari þrá okkar eftir "sensasjón", allt frá athugasemdakerfum (kommentakerfum) fjölmiðla eða samfélagsmiðla til æðstu stofnana ríkisins.

Það er nefnilega orðið þannig, að það ná engin mál í umræðuna hjá okkur, nema þau feli í sér "sensasjón".  Ef persónulegur harmleikur liggur að baki, þá er áhugi okkar vakinn. Ef lögbrot eða siðferðisbrestur liggur að baki rísum við upp í heilagri vandlætingu.  Við erum nefnilega svo óskaplega "góð". Samt erum við það ekki í reynd. Við erum dálitlir hrægammar, ekki í orði, heldur innra með okkur, eða í raun.
Ég er svona líka, tel ég, þó ég voni að svo sé ekki. Ég vel og hafna, skanna yfir fyrirsagnir og ef þær vekja ekki áhuga minn, læt ég vera að lesa lengra.  Svona er þetta bara.    

Ég er í aðstöðu til að rannsaka þetta eilítið þar sem ég hef dundað mér við að skrifa þessa pistla við og við. Ég get síðan séð hve margir skoða eða lesa. Ég hef tekið eftir því, að ef ég fjalla um eitthvert ólán sem hefur hent mig, fjölgar lesendum, ef ég fjalla um skoðanir, án þess að þær feli í sér einhverjar öfgar, hlýtur umfjöllunin heldur dræmar viðtökur.  Ef ég skreyti umfjöllunina með fyrirsögn sem gæti jafnvel talist hneykslanleg, þá fjölgar lesendunum.
Hér má sjá nokkur dæmi af handahófi um fjölda þeirra sem hafa í það minnsta opnað á bloggpistla.  Þessir tveir sem fóru upp fyrir 2000 lesendur eiga sínar skýringar í allmikilli "sensasjón".

Svona gerir maður í janúar         84  Hér greini ég frá linsukaupum.
Austur verður vestur og öfugt     83 Hér pæli ég hvernig Hvítárbrúin snýr.
Ekki mjög trúlegt                        57 Hér segir frá myndatökuferð í Skálholtsása og fleira.
Árás á náttúruöflin                      75 þetta er um tilraun til að skjóta niður fellibyl.
Jón frændi                                   71 segi frá nokkuð fjarskyldum frænda frá Alberta sem við tókum á móti.
„Fokkings fávitar“                      501  um viðskipti við rútubílstjóra á brúnni
Aumingja konurnar                    5758
Til Hildar                                    2684
Svo segi ég ekki meira um það  963 um hjúkrunarheimili í Laugarási.

-------

Eins og svo oft áður, tókst mér að víkja umtalsvert frá því efni sem til stóð að fjalla um: mögulegt flóð í Hvítá.  
Ég er í sjálfu sér engu nær. Áfram lifir í mér strengurinn sem kallar á að áin "fari upp" með látum. Hann togast á við hina strengina, sem eru talsvert mildari í afstöðu sinni og leiða mig frekar inn á þau svið þar sem allt er slétt og fellt.  
Ég afgreiði þetta bara þannig, að það skiptir engu máli hverjar óskir mínar eru í þessum efnum. Þær breyta engu um það sem verður.

Smá sensasjón í lokin: 



Haförn þessi flaug rétt ofan Hvítárbrúar í gær í fylgd annars. Bráðabirgðagreining Kristins Hauks Skarphéðinssonar hjá Náttúrufræðistofnun er svona: 

29 september, 2016

Er þetta nú svona merkilegt?

Inngangur, eða bakgrunnur

Ég kann ekki að taka myndir af norðurljósum og hef heldur ekki þolinmæði til að standa tímunum saman í bítandi kulda við að horfa á þau.  Ekki fD heldur og enn síður en ég.
Samt, eftir óendanlegan áróður í fjölmiðlum í marga daga, vorum við búin að fá á tilfinninguna, að við myndum bera ábyrgð á því að láta lífið sjálft framhjá okkur fara ef við legðum ekki leið okkar út fyrir hússins dyr til að líta þá himnanna dásemd og ólýsanlega dýrð dansandi norðurljósanna í gærkvöld. Ég lét mig hafa þetta, jafnvel þó ég hefði, hefði ég verið með réttu ráði, átt að kúra undir sæng til að ná úr mér flensuskít. Ég hugsaði þetta sem svo, að þarna þyrfti ég að velja á milli heilsunnar og norðurljósanna. Heilsan vék.
Ég er viss um, að ef áróðurinn fyrir framsóknarflokknum verður jafn brjálaður og fyrir þessari norðurljósasýningu, gæti vel farið svo að hann fái atkvæði mitt þegar sá tími kemur.

fD hefur ekki lagt það á sig undanfarna áratugi að fara úr húsi til að skoða norðurljós, svo ég muni, en ég hef gert það nokkrum sinnum og þá aðallega til að láta á það reyna hvort mér tekst að ná myndum sem ég tel vera boðlegar. Það hefur ekki tekist enn og ég er kominn að þeirri niðurstöðu, að til myndatöku af þessu tagi þurfi sérfræðinga, sem eru tilbúnir  að vaða elda og brennistein, í bítandi kulda, kvöld eftir kvöld, tímunum saman, með fullkomnustu græjur sem völ er á, til að ná einhverjum myndum af viti, en ekki meira um það.

Út í myrkrið

Við héldum út í myrkrið um 22:30 í gærkvöld á Qashqai. Ég dúðaði mig eins og kostur var í þeirri von að mér myndi ekki slá niður og enda í kjölfarið á sjúkrastofnun.  Að sjálfsögðu var EOS-inn með í för og þrífóturinn mikli. Ég var búinn að forstilla tækið í samræmi við mjög misvísandi leiðbeiningar, sem höfðu fylgt ofangreindum áróðri.

Fyrsti staður 

Á fyrsta staðnum sem reyndum, við vestari endann á brúnni, lýsti fD með sýnum hætti því sem fyrir bar, sem var bara norðurljósalaus, stjörnubjartur himinn. Ég reyndi að malda þarna nokkuð í móinn; hélt því á lofti sem fjölmiðlar höfðu sagt að myndi gerast, maður þyrfti að vera þolinmóður.
Ég stillti öllu upp, tilbúinn fyrir hinn glæsilega dans, en velti því jafnframt fyrir mér, hversvegna í ósköpunum ég léti ekki bara duga að horfa á dýrðina þegar og ef hún birtist. Þúsundir fólks væru nú úti í sömu erindagjörðum og ég, með mismerkilegar græjur og mis hæft til myndatöku af þessu tagi, fullt vonar um að nú myndi það ná  hinni einu sönnu norðurljósamynd.
Þessar pælingar komu ekki í veg fyrir að ég stillti upp. Ég gat þó haft Hvítárbrúna og Skálholtskirkju í forgrunni og hafði því talsvert forskot á flesta.
Ég byrjaði á að taka mynd af brúnni, Í þann mund kom bíll vestan að og lýsti hana upp. EOS-inn lokaði ekki ljósopinu fyrir en bíllinn var kominn nokkuð inn á brúna. Þarna varð til hin ágætasta mynd, sem er hér efst, og ég hef kosið að kalla: "Ljósmengun".

Annar staður

Það bólaði lítið á ljósunum merku og því varð það úr að við ókum sem leið lá að heimreiðinni í Skálholt. Þarna sýndum við af okkur talsverða þolinmæði. Það var einmitt þarna, sem dans norðurljósanna hófst af einhverri alvöru. Ég smellti og beið, smellti og beið, stillti, smellti og  beið, stillti aftur hraða, ljósop, ISO og allt þetta sem maður stillir og beið.
Þarna dönsuðu norðurljosinn sannarlega í tvær mínútur eða svo og auðvitað sagði ég "VÁ", en ekki "WOW".
Að þessum tveggja mínútna dansi loknum gerðist ekkert. Þarna var bara einhver ólöguleg ljósrák eftir himinhvolfinu. Við þær aðstæður var ákveðið að prófa nýjan stað.

Þriðji staður

Nú lá leið inn á gamla Skálholtsveginn, þar sem Skálholtskirkja, upplýst í bak og fyrir, blasti við. Hugsunin var að að ná glæsilegri mynd af kirkjunni, baðaðri í ljósum, umvafðri dansandi himinljósum. Í huganum gæti þarna orðið til verðlaunamynd.
Upp var stillt og tilraunaskot framkvæmd. Ekki verður nú sagt hér, að dýrð ljósanna hafi valdið því að ég félli í stafi (og þá ekki fD). Ég smellti þó og beið, eins og maður gerir.  Alltaf var ljósum prýdd kirkjan hroðalega yfirlýst á myndunum, jafnvel þó ég héldi fingrum fyrir neðri hluta linsunnar, stóran hluta lýsingartímans (tæknimál).  Í rauninni var það eina markverða sem gerðist á þessum stað, þar sem ég einbeittur stillti fyrir næsta skot, að vinstra megin við mig heyrðist óhugnanlegt og ókennilegt hljóð, sem varð til þess að ég hrökk í kút að kuldahrollur hríslaðist niður bakið. Það munaði sáralitlu að þrífóturinn missti fótanna þar sem ég stökk upp. Þegar um hægðist í huganum leit ég í þá átt sem hljóðið hafði borist úr. Þar sá ég grilla í nokkur hross, en eitthvert þeirra virðist hafa ákveðið að láta vita af sér með ofangreindum hætti.

Fjórði staður

Þrátt fyrir að hugurinn stefndi heim og undir sæng, klukkan talsvert farin að ganga tólf, varð úr að við lögðum leið niður í sláturhús (þar sem glæsihótelið mun rísa, að því er oddvitinn segir).
Á þessum fjórða stað reyndust norðurljósin vera á vitlausum stað, en í huganum hafði ég séð þau dansa yfir Vörðufelli og í forgrunni væri stórfengleg brúin.
Sú ljósasýning sem þarna átti sér stað, náði aldrei að uppfylla vonir mínar og svo fór að ég pakkaði saman og við héldum við svo búið heim.  fD fjallaði á leiðinni um það hvernig norðurljós æsku hennar hefðu fyllt himinnin tímunum saman í ægifögrum dansi. Ég vildi á móti halda því fram, að ekki væru nú alveg treystandi á að æskuminningar færu með rétt mál.

Lok

Í dag fór ég svo að vinna myndirnar. Þær voru eins og ég átti von á, en ég hafði vonað að ljósblossanum sem á að vera Skálholtskirkja, gæti ég breytt þannig að í það minnsta væri hægt að sjá hvað fælist í ljósinu, en vonin sú brást.
Ég veit, að þegar ég hitti næst norðurljósdýrkendur fái ég að heyra allt um hve frábær norðurljósin (já, jafn vel geðveik) hefðu verið upp úr miðnættinu.  Þá var ég bara hættur að fylgjast með.  Ef mig langar að sjá norðurljós aftur, þá reikna ég með að þau eigi eftir að sýna sig, þó síðar verði.


FLEIRI MYNDIR

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...