Sýnir færslur með efnisorðinu Norðurljós. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Norðurljós. Sýna allar færslur

29 september, 2016

Er þetta nú svona merkilegt?

Inngangur, eða bakgrunnur

Ég kann ekki að taka myndir af norðurljósum og hef heldur ekki þolinmæði til að standa tímunum saman í bítandi kulda við að horfa á þau.  Ekki fD heldur og enn síður en ég.
Samt, eftir óendanlegan áróður í fjölmiðlum í marga daga, vorum við búin að fá á tilfinninguna, að við myndum bera ábyrgð á því að láta lífið sjálft framhjá okkur fara ef við legðum ekki leið okkar út fyrir hússins dyr til að líta þá himnanna dásemd og ólýsanlega dýrð dansandi norðurljósanna í gærkvöld. Ég lét mig hafa þetta, jafnvel þó ég hefði, hefði ég verið með réttu ráði, átt að kúra undir sæng til að ná úr mér flensuskít. Ég hugsaði þetta sem svo, að þarna þyrfti ég að velja á milli heilsunnar og norðurljósanna. Heilsan vék.
Ég er viss um, að ef áróðurinn fyrir framsóknarflokknum verður jafn brjálaður og fyrir þessari norðurljósasýningu, gæti vel farið svo að hann fái atkvæði mitt þegar sá tími kemur.

fD hefur ekki lagt það á sig undanfarna áratugi að fara úr húsi til að skoða norðurljós, svo ég muni, en ég hef gert það nokkrum sinnum og þá aðallega til að láta á það reyna hvort mér tekst að ná myndum sem ég tel vera boðlegar. Það hefur ekki tekist enn og ég er kominn að þeirri niðurstöðu, að til myndatöku af þessu tagi þurfi sérfræðinga, sem eru tilbúnir  að vaða elda og brennistein, í bítandi kulda, kvöld eftir kvöld, tímunum saman, með fullkomnustu græjur sem völ er á, til að ná einhverjum myndum af viti, en ekki meira um það.

Út í myrkrið

Við héldum út í myrkrið um 22:30 í gærkvöld á Qashqai. Ég dúðaði mig eins og kostur var í þeirri von að mér myndi ekki slá niður og enda í kjölfarið á sjúkrastofnun.  Að sjálfsögðu var EOS-inn með í för og þrífóturinn mikli. Ég var búinn að forstilla tækið í samræmi við mjög misvísandi leiðbeiningar, sem höfðu fylgt ofangreindum áróðri.

Fyrsti staður 

Á fyrsta staðnum sem reyndum, við vestari endann á brúnni, lýsti fD með sýnum hætti því sem fyrir bar, sem var bara norðurljósalaus, stjörnubjartur himinn. Ég reyndi að malda þarna nokkuð í móinn; hélt því á lofti sem fjölmiðlar höfðu sagt að myndi gerast, maður þyrfti að vera þolinmóður.
Ég stillti öllu upp, tilbúinn fyrir hinn glæsilega dans, en velti því jafnframt fyrir mér, hversvegna í ósköpunum ég léti ekki bara duga að horfa á dýrðina þegar og ef hún birtist. Þúsundir fólks væru nú úti í sömu erindagjörðum og ég, með mismerkilegar græjur og mis hæft til myndatöku af þessu tagi, fullt vonar um að nú myndi það ná  hinni einu sönnu norðurljósamynd.
Þessar pælingar komu ekki í veg fyrir að ég stillti upp. Ég gat þó haft Hvítárbrúna og Skálholtskirkju í forgrunni og hafði því talsvert forskot á flesta.
Ég byrjaði á að taka mynd af brúnni, Í þann mund kom bíll vestan að og lýsti hana upp. EOS-inn lokaði ekki ljósopinu fyrir en bíllinn var kominn nokkuð inn á brúna. Þarna varð til hin ágætasta mynd, sem er hér efst, og ég hef kosið að kalla: "Ljósmengun".

Annar staður

Það bólaði lítið á ljósunum merku og því varð það úr að við ókum sem leið lá að heimreiðinni í Skálholt. Þarna sýndum við af okkur talsverða þolinmæði. Það var einmitt þarna, sem dans norðurljósanna hófst af einhverri alvöru. Ég smellti og beið, smellti og beið, stillti, smellti og  beið, stillti aftur hraða, ljósop, ISO og allt þetta sem maður stillir og beið.
Þarna dönsuðu norðurljosinn sannarlega í tvær mínútur eða svo og auðvitað sagði ég "VÁ", en ekki "WOW".
Að þessum tveggja mínútna dansi loknum gerðist ekkert. Þarna var bara einhver ólöguleg ljósrák eftir himinhvolfinu. Við þær aðstæður var ákveðið að prófa nýjan stað.

Þriðji staður

Nú lá leið inn á gamla Skálholtsveginn, þar sem Skálholtskirkja, upplýst í bak og fyrir, blasti við. Hugsunin var að að ná glæsilegri mynd af kirkjunni, baðaðri í ljósum, umvafðri dansandi himinljósum. Í huganum gæti þarna orðið til verðlaunamynd.
Upp var stillt og tilraunaskot framkvæmd. Ekki verður nú sagt hér, að dýrð ljósanna hafi valdið því að ég félli í stafi (og þá ekki fD). Ég smellti þó og beið, eins og maður gerir.  Alltaf var ljósum prýdd kirkjan hroðalega yfirlýst á myndunum, jafnvel þó ég héldi fingrum fyrir neðri hluta linsunnar, stóran hluta lýsingartímans (tæknimál).  Í rauninni var það eina markverða sem gerðist á þessum stað, þar sem ég einbeittur stillti fyrir næsta skot, að vinstra megin við mig heyrðist óhugnanlegt og ókennilegt hljóð, sem varð til þess að ég hrökk í kút að kuldahrollur hríslaðist niður bakið. Það munaði sáralitlu að þrífóturinn missti fótanna þar sem ég stökk upp. Þegar um hægðist í huganum leit ég í þá átt sem hljóðið hafði borist úr. Þar sá ég grilla í nokkur hross, en eitthvert þeirra virðist hafa ákveðið að láta vita af sér með ofangreindum hætti.

Fjórði staður

Þrátt fyrir að hugurinn stefndi heim og undir sæng, klukkan talsvert farin að ganga tólf, varð úr að við lögðum leið niður í sláturhús (þar sem glæsihótelið mun rísa, að því er oddvitinn segir).
Á þessum fjórða stað reyndust norðurljósin vera á vitlausum stað, en í huganum hafði ég séð þau dansa yfir Vörðufelli og í forgrunni væri stórfengleg brúin.
Sú ljósasýning sem þarna átti sér stað, náði aldrei að uppfylla vonir mínar og svo fór að ég pakkaði saman og við héldum við svo búið heim.  fD fjallaði á leiðinni um það hvernig norðurljós æsku hennar hefðu fyllt himinnin tímunum saman í ægifögrum dansi. Ég vildi á móti halda því fram, að ekki væru nú alveg treystandi á að æskuminningar færu með rétt mál.

Lok

Í dag fór ég svo að vinna myndirnar. Þær voru eins og ég átti von á, en ég hafði vonað að ljósblossanum sem á að vera Skálholtskirkja, gæti ég breytt þannig að í það minnsta væri hægt að sjá hvað fælist í ljósinu, en vonin sú brást.
Ég veit, að þegar ég hitti næst norðurljósdýrkendur fái ég að heyra allt um hve frábær norðurljósin (já, jafn vel geðveik) hefðu verið upp úr miðnættinu.  Þá var ég bara hættur að fylgjast með.  Ef mig langar að sjá norðurljós aftur, þá reikna ég með að þau eigi eftir að sýna sig, þó síðar verði.


FLEIRI MYNDIR

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...