Sýnir færslur með efnisorðinu AliExpress. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu AliExpress. Sýna allar færslur

29 september, 2024

Eldri borgari kaupir skjávarpa (eftirmáli með Ali)

Þetta má heita framhald þessa.

Eftir að ég hafði nú fengið krónurnar sem ég hafði greitt fyrir skjávarpann sem kom svo aldrei, sat ég uppi með krónur, sem hefðu allt eins getað lent annarsstaðar en á mínum bankareikningi. Við þær aðstæður þurfti ég að ákveða hvað gera skyldi við þennan aur. 
  
Ég hafði komist að því, að skjávarpa eins og þann sem ég hafði greitt fyrir hjá Snjallkaupum, var hægt að fá á nákvæmlega helmingi lægra verði á AliExpress. Ágætur peningur fyrir Snjallkaupsmenn að leggja 100% á vöru fyrir það eitt að vera milliliður með staðlaða frasa á íslensku í kynningarefni sínu.
Hvað um það, þarna var ég kominn í nokkurn gír og ákvað bara að nýta endurgreiðsluna til þess að kaupa skjávarpa frá Ali Express. Hann myndi þá ekki gera annað en koma ekki.

Þann 20. september pantaði ég, sem sagt skjávarpa, sem var helmingi dýrari en sá sem ég hafði áður pantað frá Snjallkaupum, eins og verðið var á honum hjá Ali Express. 
Til að útskýra þetta á einfaldan hátt:
Skjávarpi A kostaði tæpar 15.000 kr hjá Snjallkaupum, en 7500 hjá Ali Express.
Skjávarpi B kostaði kr. 15.000 hjá AliExpress - og það var hann sem ég festi kaup á. Þetta var sem sagt merkilegri græja.

Ali lét mig vita af því að það gæti dregist fram í lok desember, að pakkinn næði til mín og því var ég bara rólegur.  Ég upplýsti fD ekki um kaup mín á þessum skjávarpa. Ég þyrfti þá ekki að fara að verja neitt, ef hann kæmi aldrei. 


Mér til óumræðilegrar undrunar fékk ég tilkynningu um það í gær, 8 dögum eftir pöntunina, að skjávarpinn biði mín í póstboxi.   
Þegar framundan var, að ég nálgaðist hann, þótti mér óhætt að upplýsa frúna um stöðu mála. Ekki get ég nú sagt að hún hafi steypt stömpum af fögnuði, en það "slædaði".
Skjávarpinn reyndist vera í póstboxinu, eins og  skilaboð póstsins höfðu gefið til kynna.


Þetta er búið að vera nokkurt ævintýri í hinum óáþreifanlega heimi sem internetið er. Eftir situr spurningin um hvernig þessi skjávarpi getur nú komið að sem bestum notum.
Það hafa komið fram ýmsar áhugaverðar tillögur í því efni - það verð ég að segja, en svo segi ég ekki meira.

Þakkir til ykkar sem lesið hafa. Farið varlega í viðskiptum við vefverslanir.  



 

Eldri borgari kaupir skjávarpa (eftirmáli með Ali)

Þetta má heita framhald þessa . Eftir að ég hafði nú fengið krónurnar sem ég hafði greitt fyrir skjávarpann sem kom svo aldrei, sat ég uppi ...