Sýnir færslur með efnisorðinu ösp. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu ösp. Sýna allar færslur

16 febrúar, 2020

Logn

Það er alltaf rok á Selfossi, en þar er einnig stundum logn.
Ég er alltaf í góðu skapi, en get þó stundum orðið fúll og reiður.
Hann er alltaf sígjammandi, þessi hundur, en það er þó hreint ekki rétt.
Þetta barn er afskaplega fallegt, nema þegar það fer að grenja.
Ísland er fegursta land í heimi, en geymir samt ljótleika af ýmsu tagi.

Það er nefnilega þannig, að það er háttur okkar mannanna að alhæfa um hluti, bæði þá sem okkur finnst fallegir og góðir og þá sem við álítum ljóta og vonda. Svona er þetta nú bara, hvort sem okkur líkar betur eða verr.
Ég hef, svo dæmi sé tekið, í gegnum tíðina, átt það til að vísa til Laugarvatns sem "rokrassgats", sem er auðvitað alhæfing, enda býr sá staður yfir mörgum ágætum eiginleikum og þar hef ég meira að segja upplifað indælt logn. Ég hef verið ófeiminn við að nefna samanburð á Laugarvatni og Laugarási við Laugvetninga og hef komið inn hjá þeim, með endalausum endurtekningum, reyndar, hugmyndinni um að í Laugarási væri alltaf logn, sem væri þá andstæða þess sem mætti mér, þegar ég kæmi til vinnu á Laugarvatni.


Ég neita því ekki, að mér þykir nokkuð vænt um, að Laugvetningar og reyndar fjölmargir aðrir hafa, gegnum árin, fengið þá mynd af Laugarási, að þar væri mikil gróðursæld og lygnt. Þetta telst vera ímyndarsköpun. 

Já, svo kom einhver öflugasta lægð sögunnar yfir landið fyrir nokkrum dögum, með þeim afleiðingum að gamlar aspir (sennilega milli 70 og 80 ára - mig minnir að ösp verði að jafnaði ekki nema 40-50 ára - er ekki viss þó) með tiltölulega veikt rótarkerfi, lögðust á hliðina. Það er auðvitað leitt að svona hafi farið, en segja má, að það sé einmitt öspin sem hefur valdið þeirri veðursæld sem við fáum að njóta í Laugarási. Sannarlega eru ýmsir sem vilja halda því fram, að hún sé nánast illgresi, en það er nú samt henni að þakka að ekki hafa orðið meiri skaðar af veðri Í Laugarási en raun ber vitni. Sú var tíð, áður en öspin náði að mynda það skjól sem orðið er, að þegar suðaustan stormar geisuðu, varð oft mikið tjón á gróðurhúsum. Vissulega varð tjón nú, sem án aspanna hefið orðið miklu meira, ef að líkum lætur.


Þó svo það komi ein og ein djúp lægð yfir landið og hreyfi við trjátoppunum í Laugarási, þá víla ég ekki fyrir mér að halda á lofti þeim sannleik, að það er alltaf logn í Laugarási.

Svo má auðvitað halda því til haga, að það eru til fleiri tegundir af logni, en veðurfarslegt logn. 

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...