Sýnir færslur með efnisorðinu Austfirðir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Austfirðir. Sýna allar færslur

10 september, 2021

Miðjarðarhafið eða Melrakkaslétta

Á Melrakkasléttu (skiltin eru innfelld og óraunveruleg)
  Nokkrar myndir fylgja neðst 
(smella til að stækka).

Þegar þetta er ritað hefðum við fD átt að vera að spóka okkur við norðvesturhluta Miðjarðarhafsins í einstakri 13 daga ferð í góðum hópi, væntanlega. 
Þessi ferð var ákveðin fyrir hálfu ári og þá þóttumst við örugg um að allt yrði fallið í ljúfa löð; við fullbólusett og hömlur farnar um alla Evrópu. 
Jú við erum víst fullbólusett orðin, en Evrópa og sóttleysi vítt og breytt allt í einhverju fokki. 
Þessi draumaferð var, sem sagt, felld niður.
Við þessar aðstæður varð úr, ekki síst vegna þess að Miðjarðarhafið er nánast jafnlangt orð og Melrakkaslétta, og að báðir þessir staðir á jarðarkringlunni hefjast á sama bókstaf (sem gefur gott færi á skemmtilegri bloggfyrirsögn), að við myndum skreppa á Melrakkasléttu í stað Miðjarðarhafsins. Að auki var Melrakkasléttan sá staður á landinu, sem hvorugt okkar hafði komið til, jafn vel þó ég hefði lært það í barnaskólalandafræðinni minni að þar væri að finna næstnyrsta tanga Íslands, Hraunhafnartanga.

Ekki ætla ég að rekja ferðasöguna hér, enda um áfallalausa ferð að ræða í íslensku blíðviðri, eins og best hentar til ferðalaga. Gististaðirnir sem booking.com sá um að mæla með, á þeim stöðum sem við höfðum hug á að gista, voru hreint ágætir, hver með sínum hætti.

Þegar tvær manneskjur eins og við fD sitja saman í bíl á ferð - manneskjur sem ferðast hafa saman, árum saman, í blíðu og stríðu, í eiginlegri og óeiginlegri merkingu, fór ekki hjá því að ýmislegt bæri á góma og fD var dugleg að rifja upp hina og þessa staði sem við höfðum komið á, sem, samkvæmt mínu minni, voru ekki þar sem hún taldi þá vera og öfugt. Þannig var það til dæmis með refasetrið sem við áttum að hafa heimsótt í einhverri ferðinni, en staðsetning þess hófst við Eyjafjörð, fór þaðan í Mjóafjörð og endaði loks sem Melrakkasetur Íslands á Súðavík, sem rétt mun vera.  Ýmislegt fleira í þessum dúr bar á góma, en það myndi æra óstöðugan ef ég færi að telja það allt upp hér.

Ferðin í hnotskurn
- gististaðirnir í bláum hringjum - Breiðdalsvík, Egilsstaðir, Raufarhöfn og Akureyri x2

Ekki hittum við margt fólk í þessari fínu ferð, en renndum við hjá Mannsa og Dísu á Egilsstöðum, fundum hús frænda á Fáskrúðsfirði, leituðum ekki uppi manninn á Raufarhöfn og rákumst að Laugvetningana Bödda og Sólveigu á Akureyri.  Við gerðum á móti, mikið af því að skoða fegurð landsins, eins og maður á að gera í svona ferðum. 
Aðvitað varð furðumargt ferðafólk af erlendu bergi brotið á leið okkar, en umferðin var aldrei til trafala og sérann stóð vel fyrir sínu, nema helst í brekkum.

Sem sagt, hin ágætasta ferð.

Nokkrar myndir til viðbótar:

Fáskrúðsfjörður



Norðfjörður - Neskaupstaður

Egilsstaðir

Vopnafjörður

Bakkafjörður 

Rauðanes

Heimskautsgerðið Raufarhöfn

Hraunhafnartangi - um það bil

Við ysta (nyrsta) haf - Melrakkaslétta

Ásbyrgi

Raufarhöfn



  

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...