Sýnir færslur með efnisorðinu breytingar. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu breytingar. Sýna allar færslur

24 ágúst, 2017

Það þarf að finna nýjan takt, svo einfalt er það.

Ilmurinn í loftinu gefur til kynna að haustið sé í nánd.
Ys og þys sumarsins tekur enda, haustverkin taka við og síðan kemst allt í fastar skorður vetrarins áður en varir.
Börnin byrjuð í skólanum, en hann er líklega sá þáttur í lífi okkar sem setur okkur hvað mestar skorður.
Sumum okkar.
Fara á fætur, koma börnunum í skólann og skella sér í vinnuna.
Taka síðan við börnunum úr skólanum, græja kvöldmatinn, koma börnunum í rúmið, fara að sofa til að vakna aftur til nýs vinnudags.
Ætli þetta sé ekki svona hjá flestum barnafjölskyldum.
Ákveðinn rammi sem skólinn setur.
Ef ekki væri skólinn væri ýmislegt hægt, en það verður að bíða næsta sumars.

Ilmurinn í loftinu setur okkur í ákveðnar stellingar.
Mörgum reynist þetta erfitt.
Frelsið fyrir bí og framundan fjötarnir sem náttúran klæðir gróður jarðar í, og fjötrarnir sem binda okkur í klafa kaldra og dimmra vetrarmorgna, mánuðum saman.
Ekkert ljós eða birta nema skíman í kringum jólin, flugeldarnir og áramótabrennurnar.
Eftir það frost og snjór fram á vor.
En það kemur vor.

Ég hef lifað þessu taktfasta lífi í áratugi.
Ilmur haustsins hefur minnt mig á það, fyrst af öllu, að skólinn sé framundan.
Nýtt skólaár, nýr vetur, enn á ný nýjar áskoranir, fleira nýtt fólk, ávallt ungt fólk, ávallt yfirkomið af spennu vegna komandi vetrar, ávallt með fyrirheit um að standa sig.

Unga fólkið fyrir 35 árum er að komast á sextugsaldurinn núna.
Eftir 35 ár verður unga fólkið núna komið á sextugsaldurinn og unga fólkið fyrir 35 árum að njóta síðustu sólargeislanna í lífi sínu.
Það verður farið hausta í lífi þess. Ilmurinn fer ekki á milli mála.

Nú þarf ég að fara að finna mér nýjan takt.
Framundan er líf án skóla.
Vekjarklukkan hefur ekkert hlutverk lengur.
Enginn kaldur bíll til að setja í gang á frostköldum morgni.
Bjallan er hætt að klingja í eyrunum.
Ungmennin hætt að spyrja hvort tíminn sé ekki a[ verða búinn.
Engar frekari tilraunir til að fá unglinga til að sjá lífið í víðara samhengi.
Enginn Shakespeare.
Enginn tilhlökkun vegna jólaleyfis eða skólaloka að vori.

Nýr taktur.
Ég átta mig á, að alla ævi, frá fimm ára aldri hefi ég verið í skólatakti.
Fyrst hjá Sigurbjörgu í Launrétt, þá í Reykholtsskóla, Héraðsskólanum á Laugarvatni, Menntaskólanum að Laugarvatni, Lýðháskólanum í Skálholti, Háskóla Íslands, Reykholtsskóla og Menntaskólanum að Laugarvatni.
Þetta er dálítið merkilegt, svona þegar maður horfir til baka.
Lífið hefur verið skóli, þar sem stundataflan hefur rammað inn hvern dag.
Framundan er engin stundatafla.
Bara dagur eftir dag.
Hver dýrðardagurinn á fætur öðrum, þar sem stærsti vandinn mun líklega felast í því að forgangsraða öllu því sem ég þarf að koma í verk.

Ég þarf að koma ýmsu í verk, svo lengi sem heilafrumurnar starfa með nokkurnveginn eðlilegum hætti.
Ég þarf að búa til stundatöflu.
Virkja vekjaraklukkuna aftur.
Skella mér í hressingargöngu á frostköldum vetrarmorgnum,
Vera kominn heim áður en snjallsíminn hringir inn í fyrsta tíma.
Setjast að skilgreindu verkefni í skilgreindan tíma.

Hlakka til að takast á við nýtt líf.

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...