Sýnir færslur með efnisorðinu ættfræði. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu ættfræði. Sýna allar færslur

20 maí, 2024

Valgerður Jónsdóttir (1805-1874)

Mér var sagt það fyrir nokkrum árum, að einni konu hefði tekist það að verða bæði amma afa míns, Magnúsar Jónssonar (1887-1965) og langamma ömmu minnar, Sigríðar Ingibjargar Björnsdóttur (1893-1968).  Síðan þá hefur mér all oft orðið hugsað til þessarar formóður minnar og það leiddi til þess að ég fór að afla mér upplýsinga um hvernig þessu var háttað.  Nú er ég búinn að fá af þessu allgóða mynd; nógu góða til að láta staðar numið.  Hér fyrir neðan eru niðurstöður mínar.


Valgerður Jónsdóttir (1805-1874)

Valgerður fæddist árið 1805 á Kirkjubóli í Skorrastaðarsókn í Norðfirði. Foreldrar hennar voru Jón Vilhjálmsson (1783-1835) og Valgerður Sveinsdóttir (1761 - ).

Á Kirkjubóli var Valgerður síðan sín uppvaxtarár, eða til ársins 1826 þegar hún var orðin 21s árs, en þá varð hún ófrísk eftir Magnús Guðmundsson, sem þá var vinnumaður á Kirkjubóli. Hún virðist þá hafa farið í vist að Bakka í sömu sveit. Þar eignaðist hún soninn Jón Magnússon (f. 24. júní, 1827). Hún staldraði stutt við á Bakka. Ekki hef ég fundið upplýsingar um þennan son hennar, en hann var aldrei skráður með henni og hann er ekki að finna í Íslendingabók.

Árið 1828 var hún skráð að Reykjum í Fjarðarsókn í Mjóafirði. Mér hefur ekki tekist að finna út hve lengi hún var þar, en 1832 er hún komin að Skógum í Fjarðarsókn og þar eignaðist hún soninn Jón Pétursson (20.maí).  Faðir hans var Pétur  Þorleifsson (f 1811) en hann hafði verið niðursetningur í æsku. Þetta annað barn Valgerðar fylgdi henni síðan þar til hún settist að  í Reykjum í Mjóafirði. Þá var hann skráður niðursetningur á Brekku í sama firði. Þar var hann enn í sömu stöðu 1845, en 1850 var hann orðinn vinnumaður í Vestdal í Dvergasteinssókn.  

 Þann 28. desember 1835 er skráð í kirkjubók Fjarðarsóknar í Mjóafirði, fæðing stúlku, sem hlaut nafnið Guðríður Halldórsdóttir. Móðirin var Valgerður. Hún lýsti föður barnsins Halldór Pálsson (1782-1855) í Innra Firði. „Þetta var hennar 3. frillulífsbrot“ segir skráningu prests. Stúlkuna er ekki að finna í Íslendingabók, en hún virðist hafa dáið 31. janúar 1837, (ungbarn frá Reykjum „af langvinnum sjúkdómi“).

 Árið sem dóttir hennar fæddist, 1835, fór Valgerður (28 ára) úr Firði (Fjarðarseli) í Skálanes, við mynni Seyðisfjarðar, með son sinn Jón Pétursson (3). Þar var hún í rúmt ár og árið 1837 var hún komin í Dvergastein við norðanverðan Seyðisfjörð og þar var þá vinnumaður að nafni Jónas Magnússon (24)  og svo að Selstöðum, þar skammt frá og eignaðist þar soninn Jónas Valgerðarson Hansson, þann 20 desember, 1837.  Valgerður lýsti Jónas Magnússon, föður barnsins, en hann mun hafa svarið barnið af sér.  (Í Íslendingabók segir svo: Í prestþjónustubók segir að lýstur faðir hafi verið Jónas Magnússon vinnumaður á Hofi í Mjóafirði, en hann þverneitaði og virðist jafnvel hafa svarið barnið af sér ef rétt er ráðið í máð letur.)   Tveim árum eftir fæðingu Jónasar yngri, árið 1839, er fjallað um það að Valgerður hafi lýst Jónas Magnússon föður barnsins, en að hann hafni því og þar við sat. (http://domabaekur.manntal.is/Fletta/25/444/130223).

Á þessu ári, 1839, eignuðust Valgerður og Magnús Magnússon (1808-1866) sitt fyrsta barn saman: Guðrúnu (25. sept. 1839).    

Valgerður giftist, þann 11. október, 1840 Magnúsi Magnússyni (1808-1866) og eignaðist með honum 7 börn og þar á meðal eitt, sem talsvert kemur við þessa sögu. Magnús fæddist á Bárðarstöðum í Klyppstaðasókn í Loðmundarfirði. Faðir hans varð bráðkvaddur nokkrum mánuðum fyrir fæðingu hans og hann fór með móður sinni í Árnastaði í sömu sveit. Hvernig leið hans lá síðan á fund Valgerðar, liggur hreint ekki ljóst fyrir, en systir hans, Ljósbjörg, sem var einhleyp alla ævi, birtist mér aftur og aftur þegar ég leitað Valgerðar í kirkjubókum. Því má gera ráð fyrir að kynni þeirra Magnúsar og Valgerðar hafi orðið í gegnum hana.

Valgerður og Magnús eignuðust 7 börn sem náðu fullorðinsárum:

Guðrún Magnúsdóttir 25. sept. 1839 - 5. júní 1927

Sigurður Magnússon 1840 - 31. jan. 1865
Sigríður Magnúsdóttir 4. feb. 1842 - 25. maí 1888
Svanhildur Magnúsdóttir 31. ágúst 1844 - 27. apríl 1915
Kristín Magnúsdóttir 28. sept. 1846 - 23. maí 1904
Ljósbjörg Magnúsdóttir 8. jan. 1848 - 5. jan. 1941
Hákon Magnússon 25. maí 1853 - 4. sept. 1874

Næstyngsta barn þeirra Valgerðar og Magnúsar, Ljósbjörg, er langamma mín. Síðasta barnið sem Valgerður eignaðist fyrir hjónaband, Jónas, er langalangafi minn.  
____________________________

Við leit mína að upplýsingum um formóður mína, sýnist mér að hún hafi verið búin að eignar 4 börn áður en Jónas, langalangafi minn fæddist, en mér hefur bara tekist að finna þau þrjú sem ég hef nefnt.

Hér til hliðar mun standa:
Var vísað á hrepp sinn hefur átt 4 börn í lausaleik hennar synir

 




20 ágúst, 2020

Ég og Galdra-Imba

Sæbjörg Jónasdóttir (1871-1946) og Björn Sigurðsson (1864-1900) ásamt börnum sínum: Haraldi (1896-1908) og S. Ingibjörgu (1893-1968).
Sæbjörg Jónasdóttir (1871-1946) og Björn Sigurðsson
(1864-1900) ásamt börnum sínum:
Haraldi (1896-1908) og S. Ingibjörgu (1893-1968).
Þau eignuðust tvö önnur börn: Guðrúnu Björgu
(1892-1895 og Sigurbjörgu (1898-1898).
Myndin er líklegast tekin 1896.
Sjálfsagt á ég það sammerkt með mörgum núlifandi Íslendingum, að vera kominn af fólki sem á að hafa fiktað við, eða ástundað galdra. Ég er nú kominn aðeins nær sannleikanum um hvernig því er háttað í mínu tilfelli.
Faðir minn hét Skúli Magnússon, eins og ýmsum er kunnugt.  Foreldrar hans, afi minn og amma, voru þau Magnús Jónsson og Sigríður Ingibjörg Björnsdóttir. Þau voru bæði Austfirðingar í húð og hár, langt aftur í ættir. Fólk virðist ekkert hafa verið sérstaklega mikið í því, áður fyrr, að sækja sér maka út fyrir sína sýslu eða landsfjórðung.
Hvað um það, Ingibjörg amma mín tengir mig við galdra.
Nú ætla ég að freista þess að lýsa þessum tengslum, en fyrst að greina aðeins frá langömmu minni og afa, þeim Sæbjörgu og Birni, sem bjuggu á Álfhól á Seyðisfirði þegar þau eignuðust börn sín. Fyrst Guðrúnu Björgu sem dó rétt fyrir þriggja ára afmælisdaginn sinn, Sigríði Ingibjörgu, ömmu mína, sem ein barnanna lifði til fullorðinsára, Harald sem dó tólf ára og Sigurbjörgu, sem lifði í nokkra daga. 
Björn lést árið 1900 frá konu sinni og tveim börnum og upp úr því var Ingibjörg send í fóstur til ömmubróður síns, Páls Geirmundssonar og konu hans Guðfinnu Guðmundsdóttur í Litluvík, sem er sunnan Borgarfjarðar (eystri). 
Ég læt þetta duga í bili, enda yfirlýstur tilgangur minn með þessum skrifum að fjalla um ættartengsl mín og hennar Galdra-Imbu.

1. Amma mín var, sem sagt Sigríður Ingibjörg Björnsdóttir.
2. Faðir hennar var Björn Sigurðsson, sem bjó á Álfhól í Seyðisfirði, átti Sæbjörgu Jónasdóttur.
3. Móðir Björns var Ingibjörg  Geirmundsdóttir  átti  Sigurð bónda Þórarinsson.

4. Móðir Ingibjargar var Sigríður Jónsdóttir sem var kona Geirmundar Eiríkssonar og þau bjuggu í Stóru-Breiðuvík í Borgarfjarðarhreppi.
5. Faðir Sigríðar var Jón Ögmundsson, kvæntur Þórdísi Árnadóttur og þau bjuggu á Hólalandi í Borgarfirði.
6. Faðir Jóns var Ögmundur Oddsson, sem var kvæntur Guðfinnu Einarsdóttur. Þau bjuggu í Stóru-Breiðuvík í N-Múlasýslu. 
7. Faðir Ögmundar var Oddur Guðmundsson sem var kvæntur Þuríði Jónsdóttur.
Ættin sem er  frá honum komin hefur verið kölluð Galdra-Imbu ætt.
8. Móðir Odds var Þuríður Árnadóttir sem var kona Jóns Ketilssonar. Þau bjuggu í Nesi í Loðmundarfjarðarhreppi (1703). 
„Haldin ekki síður göldrótt en móðir hennar“, segir Espólín. „Þótti væn kona og kvenskörungur“, segir Einar prófastur. (Íslendingabók)
9. Móðir Þuríðar var sjálf Galdra-Imba, Ingibjörg Jónsdóttir, sem var fædd um 1630.
Var kennd við fjölkynngi og kölluð „Galdra-Imba“. Lærði að sögn galdra hjá Leódagaríusi eða Leka. (Íslendingabók)
Magnús Jónsson (1887-1965) og S. Ingibjörg Björnsdóttir (1893-1968) - afi minn og amma. 

Í 5. bindi bókaflokksins Ættir Austfirðinga er fjallað um formóður mína hana Galdra-Imbu og afkomendur hennar. Þar sem ég veit um fólk sem helst vill sem minnst lesa fræðilega ættfræðitexta, hef ég reynt að einfalda þessa frásögn eftir mætti, en hvort það er nóg, verður að koma í ljós.

Galdra-Imba

Ingibjörg Jónsdóttir, er kölluð hefur verið Galdra-Imba‚ var dóttir Jóns prests Gunnarssonar á Tjörn í Svarfaðardal‚ er þar var orðinn prestur 1619 og hefur víst verið þar prestur fram undir 1653. Hefur Ingibjörg verið fædd þar á því tímabili snemma‚ eða jafnvel fyrir 1619. Líklegast er þó‚ að hún sé fædd milli 1619 og 1630, því að Árni‚ maður hennar er orðinn prestur 1650, og Þuríður dóttir þeirra er fædd um 1660.

Ein sögn er sú um Ingibjörgu, að þá er hún var á barnsaldri hjá föður sínum‚ hafi hann eitt sinn sett hana á kné sér og kveðið þetta við hana:

Augun eru eins og stampar, 
í þeim sorgarvatnið skvampar,
ofan með nefinu kiprast kampar
kjafturinn eins og á dreka. 
Mér kemur til hugar‚ kindin mín‚
að koma þér fyrir hjá Leka.

Mynd af vef Landsbókasafns.
Leki þessi var nafnkunnur galdramaður. Var Ingibjörgu síðan komið fyrir hjá honum til náms‚ þegar hún hafði aldur til‚ og varð þar vel fær í fjölkyngi.

Þá er faðir hennar var prestur á Tjörn‚ var sá prestur á Völlum‚ gegnt Tjörn‚ er Jón hét Egilsson (1622—1658, vígður 1615, dáinn 1660), 

Sonur Jóns prests á Völlum og Þuríðar Ólafsdóttur hét Árni. Hann varð prestur til Rípur og Viðvíkur 1650, fékk Fagranes 1669 og Hof á Skagaströnd 1673. Kona séra Árna var Ingibjörg Jónsdóttir á Tjörn, Galdra-Imba.
Þá er þau voru á Hofi á Skagaströnd var séra Árni borinn galdri um 1680 og dæmdur tylftareiður. Var kona hans þó sökuð miklu meira um galdur af almenningi en hann. Þá strauk séra Árni til Englands. Ingibjörg kona hans elti hann og rakti slóð hans til sjávar í Loðmundarfirði. Kvaðst hún eigi hafa vitað af er hann strauk. Hún staðnæmdist síðan eystra og eru ýmsar sagnir um fjölkyngi hennar. Hún var síðast hjá Þuríði dóttur sinni á Nesi í Loðmundarfirði fyrir 1703. 


Börn séra Árna og Ingibjargar voru Gunnar, Gísli‚ Margrét‚ Þuríður. 
Þuríður, dóttir Árna prests og Galdra-Imbu átti Guðmund son Odds bónda í Húsavík Jónssonar úr Reyðarfirði, bjuggu á Nesi í Loðmundarfirði. Þeirra börn voru Jón, Oddur og fleiri.

Það bar til einn páskadag, að Oddur Guðmundsson var að leika sér og lét fremur ósiðsamlega. Sló þá faðir hans hann og kvað ljótt‚ hvernig hann hagaði sér. Galdra-Imba var þar þá hjá þeim Guðmundi. Féll henni þetta illa‚ því að Oddur var hennar eftirlæti. Kvað hún þá óvíst‚ að Guðmundur yrði oft til að berja hann.
Fé var niðri í Hellisfjörum og var lausasnjór mikill í bakkanum. Guðmundur gekk ofan í fjöruna til kinda sinna. Þuríður vissi af ferðum hans‚ settist á hlaðvarpann og starði ofan á bakkann.
Þá bar að ferðamann nokkurn, er var kunnugur Þuríði‚ og bað hana gefa sér að drekka. Hún kvaðst skyldu gera það eftir litla stund. Hann spurði hvað hún væri að stara‚ og bað hana gefa sér strax að drekka. Hún kvaðst ekki gera það strax. „Það er þó ef þú tímir ekki að gefa mér að drekka“, sagði hann. Hún styggðist við‚ sagði‚ að hann skyldi að vísu fá að drekka‚ en hún mundi ekki hljóta gott af því. Hljóp hún inn og kom að vörmu spori aftur með drykkinn. Þá sá komumaður‚ að Guðmundur kom upp á bakkabrúnina, en þá hljóp bakkinn allur með Guðmund út að sjó. Þuríður kvað hann nú sjá hvað hlotizt hefði af áfergju hans. Hún þótti væn kona og kvenskörungur. Hún bjó ekkja á Nesi í Loðmundarfirði 1703, 43 ára‚ og voru þá hjá henni synir hennar Jón (19) og Oddur (15).

Oddur Guðmundsson, f. um 1688, sonur Galdra-Imbu, bjó á Nesi við Loðmundarfjörð góðu búi‚ átti Þuríði (f. um 1696) Jónsdóttur frá Brimnesi Ketilssonar. Þ. b.: Jónar 2, Guðmundur, Ögmundur, Tómas  Snjólfur,  Málfríður, Guðrún.
Það er sérstaklega ættin frá Oddi‚ sem kölluð hefur verið GALDRA-IMBU ÆTT.
Ögmundur Oddsson frá Nesi  bjó í Breiðuvík í Borgarfirði, átti  tvær konur. Síðari kona hans var Guðfinna Einarsdóttir frá Úlfsstöðum (f. um 1744). Börn þeirra voru Jón‚ Guðmundur bl., Sigríður, Sigríður önnur bl., Arndís bl., Steinunn, dó 18 ára 1791. Ögmundur dó 1790, 67 ára.  Hann mun hafa átt 17 börn.

Jón Ögmundsson var langa langafi ömmu minnar, Ingibjargar. Ekki hefi ég haft af því fregnir, eða séð þess merki neinsstaðar, að þessir forfeður mínir eða formæður hafi lagt stund á galdra eftir að þær mæðgur Ingibjörg og Þuríður áttu leið um jarðlífið. 


Þetta er að finna um Galdra-Imbu 
í tímariti Sögufélags,  Sögu, 1. tbl. 1954 bls 46-58



Bæði góður, en líka leiðinlegur.

Þ að er nú ekki vegna þess að ég hef ekkert við tímann að gera, nema finna eitthvað í lífinu til að fjargviðrast yfir, sem ég ákvað að reyna...