20 maí, 2024

Valgerður Jónsdóttir (1805-1874)

Mér var sagt það fyrir nokkrum árum, að einni konu hefði tekist það að verða bæði amma afa míns, Magnúsar Jónssonar (1887-1965) og langamma ömmu minnar, Sigríðar Ingibjargar Björnsdóttur (1893-1968).  Síðan þá hefur mér all oft orðið hugsað til þessarar formóður minnar og það leiddi til þess að ég fór að afla mér upplýsinga um hvernig þessu var háttað.  Nú er ég búinn að fá af þessu allgóða mynd; nógu góða til að láta staðar numið.  Hér fyrir neðan eru niðurstöður mínar.


Valgerður Jónsdóttir (1805-1874)

Valgerður fæddist árið 1805 á Kirkjubóli í Skorrastaðarsókn í Norðfirði. Foreldrar hennar voru Jón Vilhjálmsson (1783-1835) og Valgerður Sveinsdóttir (1761 - ).

Á Kirkjubóli var Valgerður síðan sín uppvaxtarár, eða til ársins 1826 þegar hún var orðin 21s árs, en þá varð hún ófrísk eftir Magnús Guðmundsson, sem þá var vinnumaður á Kirkjubóli. Hún virðist þá hafa farið í vist að Bakka í sömu sveit. Þar eignaðist hún soninn Jón Magnússon (f. 24. júní, 1827). Hún staldraði stutt við á Bakka. Ekki hef ég fundið upplýsingar um þennan son hennar, en hann var aldrei skráður með henni og hann er ekki að finna í Íslendingabók.

Árið 1828 var hún skráð að Reykjum í Fjarðarsókn í Mjóafirði. Mér hefur ekki tekist að finna út hve lengi hún var þar, en 1832 er hún komin að Skógum í Fjarðarsókn og þar eignaðist hún soninn Jón Pétursson (20.maí).  Faðir hans var Pétur  Þorleifsson (f 1811) en hann hafði verið niðursetningur í æsku. Þetta annað barn Valgerðar fylgdi henni síðan þar til hún settist að  í Reykjum í Mjóafirði. Þá var hann skráður niðursetningur á Brekku í sama firði. Þar var hann enn í sömu stöðu 1845, en 1850 var hann orðinn vinnumaður í Vestdal í Dvergasteinssókn.  

 Þann 28. desember 1835 er skráð í kirkjubók Fjarðarsóknar í Mjóafirði, fæðing stúlku, sem hlaut nafnið Guðríður Halldórsdóttir. Móðirin var Valgerður. Hún lýsti föður barnsins Halldór Pálsson (1782-1855) í Innra Firði. „Þetta var hennar 3. frillulífsbrot“ segir skráningu prests. Stúlkuna er ekki að finna í Íslendingabók, en hún virðist hafa dáið 31. janúar 1837, (ungbarn frá Reykjum „af langvinnum sjúkdómi“).

 Árið sem dóttir hennar fæddist, 1835, fór Valgerður (28 ára) úr Firði (Fjarðarseli) í Skálanes, við mynni Seyðisfjarðar, með son sinn Jón Pétursson (3). Þar var hún í rúmt ár og árið 1837 var hún komin í Dvergastein við norðanverðan Seyðisfjörð og þar var þá vinnumaður að nafni Jónas Magnússon (24)  og svo að Selstöðum, þar skammt frá og eignaðist þar soninn Jónas Valgerðarson Hansson, þann 20 desember, 1837.  Valgerður lýsti Jónas Magnússon, föður barnsins, en hann mun hafa svarið barnið af sér.  (Í Íslendingabók segir svo: Í prestþjónustubók segir að lýstur faðir hafi verið Jónas Magnússon vinnumaður á Hofi í Mjóafirði, en hann þverneitaði og virðist jafnvel hafa svarið barnið af sér ef rétt er ráðið í máð letur.)   Tveim árum eftir fæðingu Jónasar yngri, árið 1839, er fjallað um það að Valgerður hafi lýst Jónas Magnússon föður barnsins, en að hann hafni því og þar við sat. (http://domabaekur.manntal.is/Fletta/25/444/130223).

Á þessu ári, 1839, eignuðust Valgerður og Magnús Magnússon (1808-1866) sitt fyrsta barn saman: Guðrúnu (25. sept. 1839).    

Valgerður giftist, þann 11. október, 1840 Magnúsi Magnússyni (1808-1866) og eignaðist með honum 7 börn og þar á meðal eitt, sem talsvert kemur við þessa sögu. Magnús fæddist á Bárðarstöðum í Klyppstaðasókn í Loðmundarfirði. Faðir hans varð bráðkvaddur nokkrum mánuðum fyrir fæðingu hans og hann fór með móður sinni í Árnastaði í sömu sveit. Hvernig leið hans lá síðan á fund Valgerðar, liggur hreint ekki ljóst fyrir, en systir hans, Ljósbjörg, sem var einhleyp alla ævi, birtist mér aftur og aftur þegar ég leitað Valgerðar í kirkjubókum. Því má gera ráð fyrir að kynni þeirra Magnúsar og Valgerðar hafi orðið í gegnum hana.

Valgerður og Magnús eignuðust 7 börn sem náðu fullorðinsárum:

Guðrún Magnúsdóttir 25. sept. 1839 - 5. júní 1927

Sigurður Magnússon 1840 - 31. jan. 1865
Sigríður Magnúsdóttir 4. feb. 1842 - 25. maí 1888
Svanhildur Magnúsdóttir 31. ágúst 1844 - 27. apríl 1915
Kristín Magnúsdóttir 28. sept. 1846 - 23. maí 1904
Ljósbjörg Magnúsdóttir 8. jan. 1848 - 5. jan. 1941
Hákon Magnússon 25. maí 1853 - 4. sept. 1874

Næstyngsta barn þeirra Valgerðar og Magnúsar, Ljósbjörg, er langamma mín. Síðasta barnið sem Valgerður eignaðist fyrir hjónaband, Jónas, er langalangafi minn.  
____________________________

Við leit mína að upplýsingum um formóður mína, sýnist mér að hún hafi verið búin að eignar 4 börn áður en Jónas, langalangafi minn fæddist, en mér hefur bara tekist að finna þau þrjú sem ég hef nefnt.

Hér til hliðar mun standa:
Var vísað á hrepp sinn hefur átt 4 börn í lausaleik hennar synir

 




Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...