Við erum mörg reið og það hvílir á okkur einhver óviðráðanlegur þungi. Við upplifum vonleysi og varnarleysi. Við reynum að skilja hvernig heimurinn virkar, en þrátt fyrir að við teljum okkur vita það svona í stórum dráttum, erum við engu nær. Hvernig heldur valdið og fjármagnið óréttlætinu gangandi. Við horfum á það sem gerist í Palestínu, á Gaza og á Vesturbakkanum og okkur líður eins og við séum föst á brúninni – hrópandi inn í tómið.
Hvernig getur þjóð, með stuðningi öflugustu ríkja heims, komist upp með að myrða tugi þúsunda saklausra? Hvernig getur samfélag þjóða – Sameinuðu þjóðirnar – verið svo valdalaust, svo tannlaust, þegar eitt ríki getur alltaf beitt neitunarvaldi á vettvangi þeirra?
Við höfum aðeins orð. Ekki vopn, ekki vald, ekki áhrif – bara orð. En þau brenna í okkur. Þau neita að þegja.
Auðvitað á að leggja af hernaðarstuðning við Ísrael. Mannréttindi eiga að vera í forgrunni, en ekki hagsmunir. Það á ekki að vera hægt að réttlæta morð á saklausu fólki með þeim afburða lélegu rökum, að um sé að ræða „sjálfsvörn“ á sama tíma og börn eru grafin úr rústum. Það á að hætta að líta á líf sumra mikilvægara en annarra.
En hvað gerum við þegar það sem við viljum virðist ómögulegt?
Við skrifum. Við hrópum gegnum stafina. Við neitum að kalla þetta ástand „flókið“ þegar
það er í grunninn einfalt: fólki er rænt lífi, frelsi og framtíð – og heimurinn
horfir á.
Kannski breyta orðin ekki heiminum í dag. En þau lifa. Þau geta snert. Þau geta vakið aðra, ef máttur þeirra verður þá ekki of seint á ferðinni.
Já, kannski erum við reið. Kannski líður
okkur eins og vonin sé að dofna. En við erum ekki ein. Jafnvel þegar við eigum bara orð – þá skiptir það máli hvernig
við notum þau.
Það er víðar, en bara í Palestínu, sem orðum okkar þurfa að fylgja aðgerðir. Okkur finnst kannski eins og heimsmyndin sé að gliðna fyrir augum okkar. Þá höfum við bara orð.
Vonleysið blasir við hvert sem litið er: íslenskir ráðamenn fordæma dráp á saklausu fólki. Hverju breytir það? Stríðsglæpadómstóllinn dæmir níðingana, en hverju breytir það? Friðarpostulinn fyrir vestan ætlar bara að hrista friðinn fram úr erminni, en hvað breytist við það?
Er eitthvað það tæki til, sem þessi manngrúi sem jörðina byggir, getur beitt til að hér megi ríkja friður?
Ætli það - nema ef vera skyldu orð. Skrifuð orð. Töluð orð. Hrópuð orð ....