Sýnir færslur með efnisorðinu uppeldi. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu uppeldi. Sýna allar færslur

27 nóvember, 2019

Að hleypa barninu út

Í gegnum áratugina hafa börn í Laugarási alist upp í lífshættulegu umhverfi. Opnir hveralækir, jökulfljótið Hvítá og opnir skurðir. Sem betur fer hafa aðeins orðið þrjú banaslys á börnum, mér vitanlega, frá því Laugarás hóf að byggjast á fimmta áratug síðustu aldar.  Þrem banaslysum of mikið.
Ég minnist þess ekki að hafa búið við boð og bönn í þessum efnum og tel því að frekar hafi ég lært að lifa með umhverfinu eins og það blasti við.
Ég reikna með að við getum í grunninn verið sammála um, að það sé mikilvægur þáttur í barnauppeldi, að leyfa ungdómnum að læra á umhverfi sitt og þar með að það býr yfir ýmsum hættum. Ef börn alast upp við ofverndandi umhverfi, þar sem þau fá ekki tækifæri til að reka sig á, fá kúlu á höfuðið, upplifa höfnun eða taka afleiðingum gerða sinna, til dæmis, er hætt við að þau verði vanbúin til að takast á við alvöru lífsins þegar þar að kemur. Mér finnst ekki ólíklegt, að kulnun í starfi eða kvíðaraskanir og þunglyndi, geti að einhverju leyti orsakast af því að í uppeldið miðaði að því að forðast allt hið illa. Einhverntíma verður hver einstaklingur að skríða undan dúnsænginni og takast á við sjálfan sig og umhverfi sitt, sem hvorttveggja getur oft verið óblítt.

Þetta var inngangurinn.
Undir og fyrir norðan Hvítárbrú, Laugarásmegin, er sandeyri, sem tekur breytingum eftir því hve mikið er í ánni. Þarna getur verið ágætis náma fyrir tiltölulega fíngerðan sand, sem mikið hefur verið notaður gegnum árin. Þarna getur líka verið hættulegt að vera, því þó áin um umhverfi hennar séu fögur og freistandi, þá leynast þar hættur sem varast ber.
Við geymum flest í okkur leifar af barninu sem við  vorum. Okkur langar oft að geta hegðað okkur eins og við gerðum þegar við vorum börn. Við búum hinsvegar yfir reynslu, sem börnin skortir. Reynslu sem veldur því að við erum varkárari og hugsum málin áður en við framkvæmum.

Bílstjórinn sem spólaði á bílnum sínum í fjölmarga hringi á eyrinni. Hvað getum við sagt um hann? Mér finnst að líklega hafi hann þurft að hleypa út barninu í sér, óvitaskapnum og hvatvísinni.

Það birtust fyrir skömmu myndir á Facebook þar sem afleiðingar aksturs út  á Þengilseyri sáust glögglega, svo og skurðir eftir hringspól á nýja planinu við söguskiltin.


Mér dettur í hug, að kannski sé hér bara um að ræða merki um að Laugarás sé að glata sakleysi sínu. Hver veit?
Ekki ég, en hitt er víst að umhverfið fagurt í Laugarási. Kannski hættulegt, en fagurt.




27 nóvember, 2018

Uppreist aldursæru

Þegar upp er staðið bý ég smám saman yfir þeirri visku og yfirsýn, að ég geti kinnroðalaust tjáð skoðanir mínar í fullvissu þess, að þær séu í rauninni harla eftirtektarverðar. Það er ekki bara vegna þess að ég er sá sem ég er (sem er auðvitað mikilvægt í þessu sambandi), heldur ekki síður vegna þess að aldur minn hefur fært mig, sköpunarhæfni mína og hugsun, langt fram úr flestu því sem aðrir og yngri kunna að hafa fram að færa. 
Ég held að segja megi að ég sé "með þetta".
Þá er það sagt.

Einhver kann  að velta fyrir sér hvað veldur því að ég tek svo stórt upp í mig sem raun ber vitni og því er mér ljúft að svara. Ég horfði nefnilega á sjónvarpsþátt í gærkvöld sem heitir: Lífsins gangur, eða "Secret Life og Growing Up". Ekki nenni ég að fara að endusegja þennan þátt, en bendi þeim sem ekki sáu á að  horfa á hann hér.

Í þessum þætti kom allt það fram sem ég hef upplifað á sjálfum mér eftir því sem árin hafa liðið. Stöðugt hefur mér orðið ljósara hve margt mér yngra fólk á margt ólært um lífið og tilveruna. Það er eins og það sé bjargföst skoðun nýútskrifaðra doktoranna að þeirra sé sannleikurinn og þekkingin og skilningurinn og hvaðeina. Sannarlega þarf ekki doktora til, því það fólk er margt og margvíslegt sem telur sig eitt vita allt og skilja, en veit fátt og skilur enn minna.

Ég var sjálfur eitt sinn í þeirri stöðu að vera ungur og vitlaus. Ég gleymi seint viðbrögðum okkar þessara yngri, þegar gamli kennarinn á kennarastofunni hóf upp raust sína um skólamál. Hann vildi deila með okkur reynslu sem hann hafði öðlast við tilteknar aðstæður.  Jú, hann fékk svosem að segja sitt, en í kjölfarið ríkti þögn um stund, áður en þeir yngri (eftir að hafa sagt, í huganum: "Já, já, allt í lagi, gamli, en nú eru bara aðrir tímar") héldu áfram að reyna að leysa málin út frá sínum fátæklega þekkingargrunni, reynsluleysi og einstrengingslegu skoðunum.
Undir lokin á starfsferlinum upplifði ég æ oftar samskonar viðhorf til þess sem ég taldi mig hafa fram að færa, þó ég verði að segja, að kollegar mínir fóru ansi vel með mig, eða þá að ég hélt skoðunum mínum dálítið fyrir mig, í ljósi reynslunnar sem ég fékk við meðferðina á gamla kennaranum, sem ég minntist á hér fyrir ofan.

Ég held að það teljist ekkert sjálfsagt að maður á mínum aldri tjái sig mikið um uppeldismál. Ég hef samt gert það, en upplifi aðallega þögnina sem viðbrögð við þeirri tjáningu.  Það verður bara svo að vera. Við verðum bara að fá að reka okkur á, eða réttara sagt börnin okkar, sem, þegar sá tími kemur, þurfa að takast í æ meira mæli á við öldugang lífsins.  Hvað sem hver segir, þá mun ég halda áfram að halda því fram, að það skiptir í grundvallaratriðum ekki máli hvort maður fæddist árið 1630 eða 2018, maður þarf það sama: foreldra til að elska, leiðbeina, kenna, setja mörk. Á engum tíma þurfa börn foreldra sem geta ekki beðið þess að losna við þau inn á leikskóla, foreldra sem líta á það sem rétt sinn að geta komið af sér börnunum svo þeir geti farið að sinna því sem mikilvægast er: starfsframanum.   

Þetta er grundvöllurinn og honum verður ekki breytt. Síðan tekur hitt við: að kenna börnunum að takast á við allan tækjabúnaðinn sem þeim stendur til boða, öll öppin og spjaldtölvurnar og jútjúb og netflix og forritunina; takast á við veruleikann sem bíður þeirra síðar. Það er bara allt annað mál. það kemur ekkert app eða tölvuleikur í stað foreldra, nefnilega.


ps. Upptendraður af þættinum frá í gærkvöld, sendi ég þetta frá mér. Efast reyndar um hvort það sé rétt ákvörðun, en í ljósi þess að það mun enginn taka þetta til sín, þá ætti það að sleppa. 

psps Stararnir á myndinni endurspegla það sem ég er að reyna að tjá. Ég teldist þá vera sá sem ekki gapir.    

06 febrúar, 2018

Umboðsmaður málleysingja

Ég læt mér fátt óviðkomandi og hef reyndar áður fjallað um þetta málefni, en geri það aftur nú í tilefni af degi leikskólans.
Það er eins með alla þá sem ekki hafa mál til að tjá sig, eða þroska til að gefa skýrt til kynna vilja sinn eða þarfir. Þannig er það með smáfuglana sem bíða í trjánum á hverjum morgni og éta síðan af hjartans lyst allan daginn, ef þeir fá fóður. Þeir kunna ekki að þakka fyrir sig, þeir banka ekki á gluggann til að tilkynna að þeir séu svangir og vilji fá mat, þeir halda áfram að leita þó þeir séu búnir með allt. Loks hverfa þeir í náttstað og sjást ekki aftur fyrr en daginn eftir.  Ég spyr mig:
Hvað get ég gert betur til að þessir "litlu skrattar" lifi af veturinn og ali síðan af sér næstu kynslóðir til að gleðja mig.
Hvenær er nóg gefið, hvenær of mikið, hvenær of lítið?
Þeir geta ekki sagt mér það með öðrum hætti en þeim að flögrið verður léttara og tístið ef til vill glaðlegra þegar allt er í lagi.
Ég þarf að reyna að lesa í þarfir þeirra og það gengur svona og svona. Mögulega þarf ég að læra meira um eðli þessara litlu vina minna til að nálgast svörin.

Ómálga barn hefur eðli máls samkvæmt ekki mál eða þroska til að tjá vilja sinn eða þarfir. Það er samt mikið fjallað um börn í þessu samfélagi og þarfir barna. Við berjumst fyrir því að vel sé gert við börn.
Í rauninni erum við ekkert að því.
Við erum fyrst og fremst að berjast fyrir þörfum foreldra. Börnin hafa ekkert um málið að segja.  Börn hafa hinsvegar verið rannsökuð fram og til baka af vísindamönnum úr ýmsum geirum. Skyldu niðurstöður úr þeim rannsóknum benda ótvírætt til þess, að það sé börnum mikilvægt að dvelja utan heimilis í allt að níu klukkustundir á dag, í umsjá fólks sem er ofhlaðið vinnu? Skyldu niðurstöðurnar benda til þess að það sé örvandi, þroskandi og hollt fyrir börn að dvelja með jafnöldrum sínum á hverjum virkum degi í allt að níu klukkustundir? Börn á þessum aldri eru nú ekki hljóðlátustu verur sem fyrirfinnast. Er það hugsanlega þroskandi eða hollt fyrir velferð barna að eyða átta til níu tímum á dag í stöðugum klið?
Reynum að hugsa þetta mál út frá börnunum, en ekki foreldrunum. Breytum síðan samfélaginu þannig, að ómálga börn dvelji ekki á stofnunum meira en 5-6 tíma að hámarki á hverjum degi.
Þetta er samfélagslegt mál, sem brýnt er að taka á.

Það þarf að hlusta á það sem ómálga börn geta ekki sagt. Því er ég kominn á það stig að kalla eftir því að sett verði á fót embætti umboðsmanns ómálga barna.  Jú, það er til embætti umboðsmanns barna, en ég hef ekki heyrt af því að það embætti taki sérstaklega fyrir þau börn sem ekki hafa mál. Þau eru ofurseld því sem foreldrar þeirra telja þeim eða sjálfum sér fyrir bestu, og þeir taka þá jafnvel frekar mið af eigin þörfum en þörfum barnsins.

Ég er nú ekki alveg grænn gagnvart þessu og vil því fara varlega í að kenna foreldrum um þetta allt saman, en þeir eiga sannarlega sína sök, ekki kannski viljandi, heldur frekar vegna þess að þeir hreinlega vita ekki betur. Það fæðist enginn með þekkingu til að vera foreldri. Hvernig á fólk að læra það?
Foreldrar sem nú eru að sjá fyrir þörfum ómálga barna voru flestir sjálfir undir þá sök seldir að vera geymdir á dagvistunarstofnunum 40-50 klukkustundir á hverri viku. Fyrir þeim er þetta eðlilegt og sjálfsagt - jafnvel spurning um rétt frekar en þarfir.

Í mínum huga þurfa ómálga börn umhyggju foreldra sinna stærstan hluta sólarhringsins. Þau þurfa að fá að hlusta á foreldra sína tala við sig, segja sér sögur, lesa fyrir sig, segja sér til, kenna sér hvað rétt er og rangt, setja sér mörk, nota hnífapör og allt það annað sem rannsóknir vísindamanna hafa leitt í ljós að er þroskavænlegt fyrir börn.

Samfélagið á sannarlega sína sök, ekki hvað síst að því er varðar það umhverfi sem fólki með börn er búið. Annað hvort hefur raungildi tekna fólks verið að fara stöðugt minnkandi eða þá að kröfur til lífsgæða hafa tekið stökk upp á við.  Nú þurfa allir að vinna fulla  vinnu til að hafa í og á sig og fjölskylduna.  Þessu finnst mér þörf á að breyta. Fólk þarf að temja sér rólyndislegra líferni og afslappaðra. Meiri tekjur auka nefnilega ekki lífshamingjuna, gagnstætt því sem virðist viðtekin skoðun.

Við þurfum að stytta vinnuvikuna og mér finnst að það gæti verið góð hugmynd að greiða foreldrum úr einhverjum sjóði fyrir að stytta vinnudaginn gegn því að vera í samvistum við börn sín.  Þannig gætu foreldrar í mörgum tilvikum minnkað starfshlutfall sitt án þess að tekjur skertust.
Það eru börnin sem skipta máli í þessu og það eru um þau sem þetta á að snúast, en ekki foreldrana. Börn eru ekki einhver óæskilegur baggi á foreldrum sínum, heldur beinlínis tilgangur tilveru þeirra, hvorki meira né minna.

Ég skal fyrstur manna viðurkenna, að ég er á sjötugsaldri og þarf því ekkert að vera að pæla í þessu og það má alveg skella því framan í mig að ég viti ekkert hvað ég er að tala um. Það má alveg segja við mig að minn tími sé liðinn, nú séu aðrir tíma og þarfir barna öðruvísi. Það má jafnvel spyrja mig, með hneykslunartón, hvað ég vilji eiginlega upp á dekk.
Ég held hinsvegar að á hvaða öld sem er fæðumst við eins inn í þennan heim. Það sem við tekur er síðan í höndum foreldranna og samfélagsins.

Ég hef eytt starfsævinni í að fást við ungt fólk og tel mig harla heppinn að hafa fengið það. Ég hef hinsvegar oft hugsað miður fallega til foreldra sem hafa augjóslega veitt börnum sínum hörmulegar aðstæður fyrstu árin í lífi þeirra, með allskyns afleiðingum fyrir bæði samfélagið allt og fjölskylduna.

Breytum þessu, eða ætti ég kannski að segja: "Breytið þessu!"



10 október, 2017

Ástleysi? Sjálfhverfa? Kunnáttuleysi? Skilningsleysi?

Allt sem ég mögulega læt frá mér fara hér fyrir neðan, er eitthvað almennt, sem beinist ekki að neinum einstaklingum, lífs eða liðnum. Bara almennar vangaveltur um aðstæður barna á þessu landi, eins  og þær birtast mér eða ættu að birtast mér, karlinum, á þeim aldri sem ég er, laus við ábyrgð af barnauppeldi, sem í mínu tilviki lauk fyrir talsvert löngu, á öðrum og talsvert ólíkum tíma og var mögulega ekkert sérstakt, þannig séð. 
Mögulega var sá tími að ýmsu leyti ekkert skárri en í dag, að þessu leyti. En börnin eru hinsvegar óbreytt þegar þau fæðast.



Nýfæddur ég
Ef ég væri nýfæddur í dag, myndi ég í rauninni bara gera kröfu um eitt: skilyrðislausa ást og umhggju foreldra minna.  Mér væri alveg sama um hvernig rúmið mitt væri, eða vagninn, eða rúmfötin, eða fötin, eða bleyjurnar, eða snuðin... eða hvort ég fengi æpadd.
Ég myndi bara vilja geta treyst því að foreldrar mínir sæju um mig og sæju til þess að mig skorti ekkert af því sem mér væri nauðsynlegt, hugsuðu um mig nótt sem nýtan dag, leiðbeindu mér, kenndu mér, töluðu við mig, læsu fyrir mig, kenndu mér muninn á réttu á röngu, væru alltaf tilbúin að efla mig og bæta, styddu með ráðum og dáð gagnvart þeim og með þeim sem síðar tækju við mér og aðstoðuðu mig við menntun mína.

Auðvitað hefði ég ekki vit á því, en ég myndi reikna með, þau teldu það ekki eftir sér, að fórna stórum hluta af frelsi sínu fyrir mig, myndu leggja mikið á sig til að æska mín veitti mér þann grunn sem væri mér nauðsynlegur þegar ég síðar færi út að kanna heiminn.

Auðvitað hefði ég ekki vit á því, en ég myndi vilja að ást þeirra til mín og umhyggja fyrir velferð minni myndi aldrei flökta, að þeim væri það ljóst, dag og nótt, að ég væri eitthvað sem fyllti þau stolti og að þau bæru á því ábyrgð að sá grunnur sem ég færi með út í heiminn væri nægilega traustur til þess að líkurnar á því að ég hrasaði yrðu sem minnstar.

Auðvitað hefði ég ekki vit á því, en ég myndi vilja vera í leikskóla bara hálfan daginn, hinn helminginn með foreldrum mínum, sem veittu mér alla þá athygli sem ég hefði þörf fyrir, segðu mér hvað ég mætti og mætti ekki, hrósuðu mér fyrir það sem ég raunverulega gerði vel þannig að ég gæti þá bætt mig enn meira, leyfðu mér að vera hluta af lífi sínu, létu mig ekki þurfa að keppa við neitt um athygli þeirra, létu mig finna að ég væri mikilvægur og skipti máli.  Mér væri alveg sama þó við slepptum því að fara út að borða, eða til útlanda, eða í bíó, eða í hvalaskoðun. Mér væri alveg sama þó húsgögnin heima hjá okkur væru gömul og slitin, mér væri alveg sama þó bíllinn væri gömul drusla, mér væri alveg sama þó sjónvarpið væri túbusjónvarp.  Mér væri alveg sama um allt þetta efnislega, bara ef ég hefði þá, eins mikið og mögulegt væri, alltaf strax og þau væru búin að vinna á daginn, alltaf þegar þau ættu frí, allar helgar, alltaf.

Auðvitað hefði ég ekki vit á því, en ég myndi ekki gera ráð fyrir að foreldrar mínir væru mikið í einhverju þar sem ég kæmi ekki við sögu. Ég myndi vilja vera aðalpersónan, ekki þannig endilega að allt snerist í kringum mig, heldur þannig að ég gæti alltaf notið fullrar athygli þegar ég þyrfti á að halda, ekki hálfa athygli, eða brots úr athygli - fullrar athygli.

Auðvitað hefði ég ekki vit á því, en ég myndi gera rað fyrir því að foreldrar kynnu að vera foreldrar, að þeir bara kynnu það. Vissu að með því að ákveða að eiga mig, væru þeir að fórna eigin frelsi,  vissu að þeir þyrftu að setja mér mörk, vissu að samvera mín við þau væri nauðsynlegur þáttur í uppeldi mínu, vissu að leikskólinn eða grunnskólinn gæti aldrei komið í stað þeirra, vissu að það væri enginn annar en þeir, sem bæru endalega ábyrgð á því hvað úr mér yrði.


-------------------

Ég setti þetta ekki hér niður á skjá til að reyna að kalla fram einhverja sektarkennd hjá foreldum ungra barna. Tilgangur minn er nú bara að freista þess vekja til umhugsunar, ekki bara foreldra, heldur alla þá sem koma að barnauppeldi.
Sannarlega neita ég því ekki, að mér finnst átta til níu stunda vistunartími barna á því viðkvæma aldursskeiði sem leikskólabörn eru á, fjarri því að vera viðunandi fyrir þroska þeirra og sálarlíf.

Með þessum skrifum er ég ekki að og vil ekki beina spjótum að foreldrum, en aðstæður þeirra eru jafn mismunandi og þeir eru margir.
Mögulega erum við búin að búa okkur til samfélag þar sem báðir foreldrar þurfa vinna nótt sem nýtan dag til að hafa í fjölskylduna og á.
Mögulega eru kröfur okkar um efnisleg gæði komnar talsvert út fyrir það sem nauðsynlegt er eða skynsamlegt.
Mögulega er kominn tími til að endurhugsa þetta allt saman.
Huga meira inn á við.

04 júní, 2017

Uppeldi og viðhald

Það fæðist barn í þennan heim, sem er vissulega ekki í frásögur færandi, í það minnsta ef það er ekki þitt barn eða þinna.
Foreldrarnir eru yfirmáta stoltir af litlu krúttbollunni sinni og kalla eftir því, með myndum af afkvæminu, að aðrir "læki" myndirnar á ólíkustu miðlum og skrifi jafnvel eitthvað yfirmáta fallegt um krúttsprengjuna.  Þetta er ekkert undarlegt í sjálfu sér, enda ung börn yfirleitt afskaplega falleg fyrirbæri og kalla á aðdáun og væntumþykju.
Svo líða dagarnir, mánuðirnir og árin. Hversdagurinn er algengari en hátíðirnar. Daglegt líf er kannski ekkert stórfenglegt svona út á við, en það er einmitt þar sem reynir á.  Þar þarf að veita umhyggju, næringu, fæði, klæði og skjól,,,, og uppeldi.  Þar skiptir máli hvernig á málum er haldið, því lengi býr að fyrstu gerð og allt það.
Sem betur fer, á þessu landi er það sennilega algengara að umhverfi barna sé til þess fallið að úr verði góðir einstaklingar, vel byggðir, sem njóta síðan góðs viðhalds.  Skrýtið orð "viðhald" í þessu samhengi.

Hús eru byggð, stór og lítil.
Að mörgu leyti má segja að þau þurfi það sama og börnin, Falleg hús, sem er vel við haldið, endast lengi og gegna hlutverki sínu vel, áratugum og jafnvel árhundruðum saman. Ending þeirra ákvarðast auðvitað að stórum hluta af því hvernig grunnurinn var lagður. Hverjir byggðu og hverjum var ætlað viðhaldið.  Sum hús eru byggð af einstaklingum sem bera síðan ábyrgð gangvart sjálfum sér, á því að viðhaldið sé það gott að gott verð fáist ef húsið er selt.

Önnur hús eru byggð á öðrum forsendum; t.d. til að halda nafni einhvers á lofti. Þau hús er þá alla jafna byggð fyrir almannafé til pólitískrar upphafningar einhverra einstaklinga, eða sameiginlegt átaksverkefni þjóðar til að halda á lofti trú eða menningu hennar.

Það er yfirleitt gert mikið með þessi hús og mikið í þau lagt. Færustu byggingamenn fengnir til að hanna og reisa, Mestu listamennirnir fengnir til að fegra og skreyta.  Þessar byggingar eru stolt þjóðarinnar. Þær eru eign þjóðarinnar.
Svo líða árin og áratugirnir.
Hversdagurinn tekur við.
Pólitíkusarnir byggja ný hús í nafni þjóðarinnar, en þó aðallega til að halda eigin nafni á  lofti.
Það er þarna sem byggingar eiga það til að verða munaðarlausar. Þær eru búnar að fá öll "lækin" og aðdáunina. Þar með telst markmiðinu náð.  Það telst víst ekki neinum til framdráttar að sinna viðhaldi.

Hver á að sinna viðhaldi þjóðargersema? ÉG að gera það?" segja menn. "Ég á engan pening í það. Hann fer allur í nýju, glæsilegu bygginguna sem ég er að reisa. Það verða einhverjir aðrir að sjá um þessar gömlu byggingar".

Þannig er þetta.
Samanburður við börnin.
Þegar kúfnum af myndasýningunum, með öllum "lækunum" og krútt "kommentunum" er lokið, er barnið látið í hendur annarra og þeim ætlað að sjá um uppeldið.
Foreldrarnir taka myndir fyrir samfélagsmiðla á jólum, páskum og jafnvel hvítasunnu, eða einhverjum sérstökum hátíðastundum. Eftir því sem tímar líða fækkar þessum myndum, og "lækunum" fækkar að sama skapi. Þörfin fyrir "lækin" hverfur ekki og það er búið til nýtt barn, til að endurvekja, í hugum annarra, einhverskonar aðdáun.
Öðrum er ætlað á sjá um uppeldið, öðrum er ætlað að sjá um viðhaldið. Hverjir eru þeir? Eru þeir starfi sínu vaxnir? Fylgir nægilegt fjármagn? Eru þeir kannski sjálfir að búa til sín eigin börn, eða byggja sínar byggingar?

Við lifum á tímum þar sem  við erum lítið að velta fortíðinni fyrir okkur, hvað þá framtíðinni. Við lifum í núinu, rétt eins og hundurinn sem fyrirgefur eiganda sínum allt og þakkar honum ekkert. Eins og fuglar himinsins sem gleðja með söng sínum, en geta lent í kattarkjafti á morgun.

Það er eins og við lifum í samhengislausum heimi.

Ég ætla að hætta hér, áður en ég sekk mikið dýpra. Einnig tel ég að þú sért ein(n) afar fárra sem hafa lesið alla leit hingað niður.

Við þig segi ég: "Gleðilega hátíð"


.

22 janúar, 2017

Hetjudraumar og framtíð karlmennskunnar (1) kannski

Það sem hér fer á eftir er framhald þess sem ég skrifaði á þessa síðu í gær og tengist einnig því sem ég hef áður skrifað um þessi mál.  Kveikjan að greininni í gær var tilvitnun í framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu, sem ég sá í fjölmiðlum, þar sem eftir honum/henni var haft, að: piltar falli frekar úr skóla vegna þess að þeir ali með sér drauma um að verða atvinnuknattspyrnumenn.
Ég vil halda því til haga, að þetta var kveikjan. Jafnframt, að ég ætla framkvæmdastjóranum ekki að halda fram þessari skoðun skýringalaust, en ég hef ekki hlustað að viðtalið við hann/hana, sem fyrirsögnin byggir á.
Eins og ég nefndi í pistlinum taldi og tel ég að það séu einhverjar ástæður fyrir þessum "draumum" ungra pilta.  Í framhaldi af því setti ég fram skoðanir á því og vísa bara í pistilinn varðandi þær.
Af ráðnum hug setti ég inn í greinina myndskeið sem lýsa því hvað gerist þegar ein dýrategund er alfarið alin upp af annarri. Ef einhverjum hefur dottið í hug að með því væri ég að halda því fram að uppeldisaðstæður pilta varu fyllilega sambærilegar því sem þar birtist, þá er mér ljúft og skylt að leiðrétta það. Tilgangur minn var auðvitað að benda á að umhverfi okkar mótar okkur, sem er auðvitað bara ágætt og eðlilegt.  Það er ekki fyrr en í ljós kemur, að mótið sem við erum sett í passar ekki eðlislægum eða líffræðilegum eiginleikum okkar, sem jafnvægi raskast.
Ég held því fram að jafnvægið í uppeldislegum aðstæðum barna á Íslandi (og reyndar miklu víður í hinum vestræna heimi) hafi raskast, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Þetta er auðvitað mín skoðun og hver sem er getur tjáð sínar skoðanir og jafnavel haldið því fram að þarna sé ekkert sem ástæða er til að hafa áhyggjur af. Það getur hver sem er haldið því fram að skoðanir mínar séu bara gamaldags og taki mið af raunveruleika sem er horfinn. Það er mér að meinalausu.

Ég byggi málflutning minn á tvennskonar þróun, sem erfitt getur reynst að afneita:
1. Kynjahlutfall starfsfólks í leik-, grunn- og framhaldsskólum:
Leikskólar 1998: konur 3635, karlar 79 - 2014: konur 5635, karlar 384
Grunnskólar 1998: konur 2993, karlar 1052 - 2014: konur 3911, karlar 902
Framhaldsskólar 1998: konur 644, karlar 823 - 2012: konur 1009, karlar 902

2. Kynjahlutfall háskólanema
1984: konur 2500, karlar 2500 - 2013: konur 12500, karlar 7500  (fyrir 1984 voru karlar fjölmennari í háskóla).

Það er betra að skoða þessa þróun á línuritum hér.

Það sem fólk segir eða heldur fram um þessi kynjamál, byggir á skoðunum, en minna fer fyrir einhverju því sem ótvírætt gefur til kynni hvernig á þeim breytingum stendur, sem þarna birtast. Mér var bent svör á vísindavef HÍ við spurningunni:
Er í alvöru til eitthvað sem heitir eðli, hjá mannfólki og sem munur á milli kynjanna?
Þarna eru birt tvenns konar svör, annað frá sjónarhóli kynjafræðings og hitt frá sjónarhóli heimspekings. Kjarni málsins í sambandi við þessi svör, sem eru sjálfsagt ágæt, út af fyrir sig, er, að þau koma af tilteknum "sjónarhóli". Þar með geta þau engan veginn talist algild eða marktæk og það sem meira er, þau veita hreint ekki svar við þessum spurningum:
Er samhengi milli skekkts kynjahlutfalls við kennslu í leik- og grunnskólum og samsetningu nemenda í háskólum?
Ef þetta samhengi er ekki fyrir hendi, hvað er það þá sem veldur því að piltar leggja síður fyrir sig háskólanám en stúlkur (annað en bara draumurinn um að verða atvinnuknattspyrnumaður)?
Mér er alveg sama hvaða skoðanir eru settar fram um þetta efni. Þær munu ekki breyta minni fyrr en gerð hefur verið einhver sú rannsókn sem ég treysti mér til að taka mark á.  Öll erum við, jú, á okkar sjónarhólum. Hver er sá sjónarhóll sem er bestur? Sá sem veitir sýn á flestar hliðarnar, að mínu mati.

Konur eru jafn góðir kennarar og karlar og öfugt. Um það snýst málflutningur minn ekki.  Hinsvegar breytum við því ekki, að konur eru konur og karlar eru karlar. Hættum að reyna að gera karla að konum, eða konur að körlum.  Annað er hvorki betra né verra en hitt. Þau bara eru, með réttu eða röngu. 
Málflutningur minn gengur út á það, að fjöldi kennara sem eru konur, hafi áhrif á pilta. Ég er ekkert á leiðinni að breyta þeirri skoðun minni. 

Hér get ég farið að fjalla í löngu máli um þær gífurlegu þjóðfélagsbreytingar sem hafa átt sér stað á síðustu áratugum, með afleiðingum sem við erum ekki farin að sjá fyrir endann á.  

Jack Myers, höfundur bókarinnar  The Future of Men: Masculinity in the Twenty-First Century segir í grein í TIME:
Donald Trump and Bernie Sanders are tapping into what I’m calling a “Lean Out” generation of young, discouraged and angry men—men who are feeling abandoned by the thousands of years of history that defined what it meant to be a real man: to be strong; to be a provider; to be in authority; to be the ultimate decision maker; and to be economically, educationally, physically and politically dominant. A growing percentage of young men are being out-earned by young women, as women capture 60% of the higher education degrees required for success in today’s economy.
Eru ungir menn farnir, í síauknum mæli að upplifa sig utanveltu? Eru þeir farnir að leita fyrirmynda í "hetjum"af einhverju tagi frekar en venjulegum karlmönnum sem eiga venjulegt líf, bara vegna þess að þeir hafa ekki tækifæri til að kynna sér slíka karla?
Líta ungir karlmenn í vaxandi mæli á sig sem tapara, ofbeldismenn, fávita eða eitthvað álíka jákvætt?
Í niðurlagi greinarinnar segir Myers:
If we fail to focus on redefining men’s roles alongside women’s, we are in danger of fostering a culture of hostility among men who are feeling left out in school, in the job market, and in relationships. These men will be less likely to accept gender equality, less likely to advocate advances for women, and less likely to foster healthy relationships and families. For the sake of a healthy society, we need to redefine a positive and appropriate form of masculinity.
Just as it’s no longer acceptable to educationally, economically and politically restrict women, it is no longer acceptable to disregard men’s issues. When we bring men into the conversation, we further gender equality for everyone.
Svei mér þá, ég held að ég hætti bara hér.
Ég hef enga trú á að skoðanir mínar breyti einu eða neinu, en það skiptir mig ekki öllu.  Ég veit um marga sem eru mér sammála og deila áhyggjum mínum af þróuninni, ég veit líka um fólk sem telur að þetta sé allt með eðlilegum hætti.
Svona er nú lífið nú létt og skemmtilegt.

Hér fyrir neðan set ég svona til gamans, viðbrögð við pistlinum sem ber nafnð Hetjudraumar. Ég vona að mér hafi tekist að bregðast við einhverju því sem þar kom fram, en hafa ber í huga að allar eru þessara umræður fremur þokukennadar.
Ég þakka þeim sem þar lögðu sitt til málanna.


9 ummæli
Ummæli
Helga Ágústsdóttir Fleiri karla í uppeldisstéttirnar. Það er lífsnausyn - hef lengi sagt.
Helga Ágústsdóttir Feleiri karla - ins if skot!
Bjarni Þorkelsson Þetta er ég fús að taka undir - og á þessu er ég alltaf að hamra þegar tækifæri gefast!
Pálmi Hilmarsson Alveg sammála þér þarna Páll, eins og svo oft áður😊
Freyja Rós Haraldsdóttir Eins og nærri má geta þá hef ég velt þessum málum fyrir mér og hef á þessu skoðun. Alveg sammála því að körlum þarf að fjölga í kennarastéttinni. Eðlishyggjan þar sem muninum á körlum og konum er líkt við muninn á lambi og hundi eða fólki og úlfum er hins vegar eitthvað sem ég get ekki tekið undir. Læt duga að benda á þessa grein: http://www.visindavefur.is/svar.php?id=1084. Fyrst og fremst erum við fólk. Strákar eru allskonar og stelpur eru allskonar. Fjölbreytni í skólastarfi er því af hinu góða. 

Kyn kennara skiptir máli, ekki af því að strákar þurfi einhverja sérstaka tegund af kennslu. Ekki trúi ég því heldur að þeir hafi þörf á tilsögn í því að vera "karlmannlegir". 
En þeir þurfa fyrirmyndir. Í þeim skilningi að þeir ættu að fá að upplifa skólastarf sem vettvang fyrir bæði karla/stráka og konur/stelpur. 

Til samanburðar má taka dæmi af fótboltanum. Stelpur eru færri í fótbolta heldur en drengir. Til að fjölga stelpum í sportinu væri mjög til bóta að fleiri konur væru sýnilegar í tengslum við íþróttina; iðkendur, þjálfarar, fréttafólk, dómarar o.s.frv. Ekki svo fótboltinn geti orðið kvenlegri svo stelpur finni sig þar betur, heldur svo stelpur upplifi að fótboltinn sé vettvangur þar sem konur jafnt sem karlar taka þátt.
Líka viðSvara220 klst.Breytt
Páll M Skúlason Skelli í viðbrögð á morgun 😎
Gylfi Þorkelsson Mér er nær að halda að öldum saman, sennilega alla tíð, hafi konur séð um uppeldi barna og því sé það engin ný bóla, eins og álykta má af þessum pistli. Auðvitað hafa þau ekki alla tíð verið jafn lengi undir verndarvæng kvenna enda samfélög breyst mikið og þau ekki send til ,,vinnu" utan heimilis jafn snemma nú á dögum og áður tíðkaðist, þar sem drengir fengu að fylgja feðrum sínum, bræðrum, öfum og kynbræðrum, ef þeir voru það heppnir að fá að alast upp meðal vandamanna. En hræddur er ég um að mæður, systur, ömmur, langömmur og frænkur hafi alla tíð séð um uppeldi drengja mestan hluta sólarhringsins, alveg þar til þeir voru taldir hæfir til, með réttu eða röngu, að yfirgefa hreiðrið og fara að ,,vinna karlmannsverk". Þó því verði síður en svo neitað að afar mikilvægt sé að karlmönnum fjölgi í kennarastétt og öðrum uppeldisstéttum þá má heldur ekki gleyma þeirri mikilvægu grundvallarbreytinu sem orðin er á mikilvægasta uppeldisstaðnum, með fæðingarorlofi karla og þátttöku þeirra inni á heimilunum. Þar njóta drengir (og auðvitað stúlkur líka) nú feðra sinna, mikilvægustu karlkynsfyrirmyndanna, sem fyrri kynslóðir nutu ekki eða mjög takmarkað. Og þó vökutími barna á heimilum sínum, eftir að þau komast á ,,stofnanaaldur", sé of stuttur þá gæti sá tími sem þó gefst með báðum foreldrunum, en ekki bara móður, vegið býsna þungt. Nema menn trúi því að mikilvægasta fyrirmyndin fyrir unga drengi sé að faðir þeirra sé að heiman - á veiðum til að færa björg í bú?
Bjarni Þorkelsson Var ekki ,,vandamálið", sem lagt var upp með í grein Páls, að karlar skuli nánast vera horfnir úr kennarastétt, nema einstaka nátttröll eins og undirritaður, sem hér leyfði sér orð til hneigja - um það megininntak?
Líka viðSvara6 klst.Breytt
Gylfi Þorkelsson ... það væri vandamál að ungir drengir væru nánast eingöngu í umsjá kvenna frá 8-20 (vegna skorts á körlum í kennara- og uppeldisstéttum) sem ég leyfði mér að halda fram að væri ekki ný bóla - og því varla nýtt vandamál.
Líka viðSvara13 klst.
Bjarni Þorkelsson Gylfi Þorkelsson Ekki spánnýtt, auðvitað - en kannski visst vandamál samt, og viðvarandi. Verst er nú ef vopnin snúast í höndum manns og einhverjir fara að skilja það svo að maður efist um yfirburði þeirra góðu kvenna sem sjá um uppeldi þjóðanna og kennslu skólabarna!
Gylfi Þorkelsson Ekki held ég neinum detti það í hug.
Gylfi Þorkelsson Best að taka það fram, áður en Páll hakkar mig í sig í nýjum, beittum pistli, að ég leit ekki svo á að ég væri að gagnrýna, hvað þá mótmæla neinu sem hér hefur verið skrifað. Aðeins að reifa málið frá öðru sjónarhorni.
Líkar ekki viðSvara11 klst
Páll M Skúlason Gylfi Þorkelsson  Ég hef ekki í hyggju að hakka eitt eða neitt - svo því sé nú haldið til haga.
Líka viðSvara11 klst
Gylfi Þorkelsson Bjóst ekki við því. En gamansemi skilar sér illa. Nema helst með ,,brosköllum" 😌
Páll M Skúlason Ég er nú bara að bíða eftir því að þið hættið þessari umræðu svo mér gefist færi á að byrja pistilinn mikla.
Líkar ekki viðSvara11 klst
Bjarni Þorkelsson ..............og ég líka, ef mig skyldi kalla!
Líkar ekki viðSvara11 klst
Páll M Skúlason Auðvitað þakkaég ykkur sem hér hafið lagt orð í belg. Allt er þar auðvitað á málefnalegum nótum, eins og ykkar er von og vísa. Ég mun, í framhaldsgrein í bloggi mínu (nema hvað) freista þess að takast á við verkefnið sem þið hafið fært mér. Mér finnst þetta samfélagsmiðlaumhverfi einhvern veginn ekki henta og vel því að fr þá leið sem ég nefndi hér að ofan. Vona að það sé ykkur að meinalausu að ég vitni til ummæla ykkar, sem hluta af greininni.
Líka viðSvara12 klst.
Geirþrúður Sighvatsdóttir Góðir pistlar hjá þér Palli og ég er sammála greiningunni á þróun samfélagsins frá því að konur voru "dregnar" út á vinnumarkaðinn í seinni heimsstyrjöldinni í fjarveru karla og fólk uppgötvaði að þær gátu gert allt sem karlar gátu allavega á andlega sviðinu. Það er munur á líkamlegum styrk og viðhorfum til margra mála og það þarf að viðurkenna. Og best að það sé jafnvægi milli kynjanna sem víðast, í uppeldismálum, stjórnmálum, launamálum o.s.frv... En þú átt samherja Páll, hlustaðir þú á Ævar Kjartansson og Gísla Sigurðsson tala við félagsfræðinginn Ingólf (man ekki hvers son) í morgun á Rás 1?:)
Líkar ekki viðSvara22 klst. 

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...