Foreldrarnir eru yfirmáta stoltir af litlu krúttbollunni sinni og kalla eftir því, með myndum af afkvæminu, að aðrir "læki" myndirnar á ólíkustu miðlum og skrifi jafnvel eitthvað yfirmáta fallegt um krúttsprengjuna. Þetta er ekkert undarlegt í sjálfu sér, enda ung börn yfirleitt afskaplega falleg fyrirbæri og kalla á aðdáun og væntumþykju.
Svo líða dagarnir, mánuðirnir og árin. Hversdagurinn er algengari en hátíðirnar. Daglegt líf er kannski ekkert stórfenglegt svona út á við, en það er einmitt þar sem reynir á. Þar þarf að veita umhyggju, næringu, fæði, klæði og skjól,,,, og uppeldi. Þar skiptir máli hvernig á málum er haldið, því lengi býr að fyrstu gerð og allt það.
Sem betur fer, á þessu landi er það sennilega algengara að umhverfi barna sé til þess fallið að úr verði góðir einstaklingar, vel byggðir, sem njóta síðan góðs viðhalds. Skrýtið orð "viðhald" í þessu samhengi.
Hús eru byggð, stór og lítil.
Að mörgu leyti má segja að þau þurfi það sama og börnin, Falleg hús, sem er vel við haldið, endast lengi og gegna hlutverki sínu vel, áratugum og jafnvel árhundruðum saman. Ending þeirra ákvarðast auðvitað að stórum hluta af því hvernig grunnurinn var lagður. Hverjir byggðu og hverjum var ætlað viðhaldið. Sum hús eru byggð af einstaklingum sem bera síðan ábyrgð gangvart sjálfum sér, á því að viðhaldið sé það gott að gott verð fáist ef húsið er selt.
Önnur hús eru byggð á öðrum forsendum; t.d. til að halda nafni einhvers á lofti. Þau hús er þá alla jafna byggð fyrir almannafé til pólitískrar upphafningar einhverra einstaklinga, eða sameiginlegt átaksverkefni þjóðar til að halda á lofti trú eða menningu hennar.
Það er yfirleitt gert mikið með þessi hús og mikið í þau lagt. Færustu byggingamenn fengnir til að hanna og reisa, Mestu listamennirnir fengnir til að fegra og skreyta. Þessar byggingar eru stolt þjóðarinnar. Þær eru eign þjóðarinnar.
Svo líða árin og áratugirnir.
Hversdagurinn tekur við.
Pólitíkusarnir byggja ný hús í nafni þjóðarinnar, en þó aðallega til að halda eigin nafni á lofti.
Það er þarna sem byggingar eiga það til að verða munaðarlausar. Þær eru búnar að fá öll "lækin" og aðdáunina. Þar með telst markmiðinu náð. Það telst víst ekki neinum til framdráttar að sinna viðhaldi.
Hver á að sinna viðhaldi þjóðargersema? "Á ÉG að gera það?" segja menn. "Ég á engan pening í það. Hann fer allur í nýju, glæsilegu bygginguna sem ég er að reisa. Það verða einhverjir aðrir að sjá um þessar gömlu byggingar".
Þannig er þetta.
Samanburður við börnin.
Þegar kúfnum af myndasýningunum, með öllum "lækunum" og krútt "kommentunum" er lokið, er barnið látið í hendur annarra og þeim ætlað að sjá um uppeldið.
Foreldrarnir taka myndir fyrir samfélagsmiðla á jólum, páskum og jafnvel hvítasunnu, eða einhverjum sérstökum hátíðastundum. Eftir því sem tímar líða fækkar þessum myndum, og "lækunum" fækkar að sama skapi. Þörfin fyrir "lækin" hverfur ekki og það er búið til nýtt barn, til að endurvekja, í hugum annarra, einhverskonar aðdáun.
Öðrum er ætlað á sjá um uppeldið, öðrum er ætlað að sjá um viðhaldið. Hverjir eru þeir? Eru þeir starfi sínu vaxnir? Fylgir nægilegt fjármagn? Eru þeir kannski sjálfir að búa til sín eigin börn, eða byggja sínar byggingar?
Við lifum á tímum þar sem við erum lítið að velta fortíðinni fyrir okkur, hvað þá framtíðinni. Við lifum í núinu, rétt eins og hundurinn sem fyrirgefur eiganda sínum allt og þakkar honum ekkert. Eins og fuglar himinsins sem gleðja með söng sínum, en geta lent í kattarkjafti á morgun.
Það er eins og við lifum í samhengislausum heimi.
Ég ætla að hætta hér, áður en ég sekk mikið dýpra. Einnig tel ég að þú sért ein(n) afar fárra sem hafa lesið alla leit hingað niður.
Við þig segi ég: "Gleðilega hátíð"
Engin ummæli:
Skrifa ummæli