01 júní, 2017

Hálf öld er stuttur tími

F.v. Páll, Pétur, Silli, Einar, Gunni, Steini, Maggi,
sr. Guðmundur, Loftur, Ragnhildur, Þrúða.
Í einhverju limbói milli þess að vera barn og unglingur. Það var engra spurninga spurt, bara gert eins og maður átti að gera. Uppreisn gegn þessu kom aldrei til greina. Eftir að hafa verið reglulegur kirkjugestur, aðallega fyrir tilstuðlan móður minnar, Guðnýjar í Hveratúni, var aldrei spurning um annað en staðfesta skírnina með því að fermast. Ég ímynda mér stundum hvað hefði gerst ef ég hefði sett niður fótinn og harðneitað. Þá sviðsmynd tekst mér ekki að kalla fram í hugann. Ekki neita ég því að það hafa orðið allnokkrar breytingar á samfélaginu á þeim fimmtíu árum sem eru horfin í aldanna skaut síðan.

Það er reyndar ekkert sérstaklega margt sem ég man frá þessum tíma; einstaka smámyndir koma upp í hugann og þá aðallega fyrir tilstuðlan myndefnis í tengslum við þennan merkisviðburð í sögu Hveratúnsfjölskyldunnar.
Ég man eftir fermingarbarnamóti á Laugarvatni, í Húsó (Lindinni). Þangað mætti ég með myndavél (kodak instamatic), man bara eftir einni svarthvítri mynd af jafnaldra sem var að taka mynd af mér. Held að það hafi verið Áslaug Eiríksdóttir frá Grafarbakka í Hrunamannahreppi. Að auki gerðist þarna eitt og eitt atriði, sem ekki verður rifjað upp hér.

Orgelið tekið til kostanna
Um aðdraganda fermingarinnar er frekar fátt að segja.
Ég hafði verið að læra á orgel hjá Guðjóni Guðjónssyni organista, sem síðan gerðist prestur (kannski vegna reynslunnar af að reyna að kenna mér) og ég held að hann hafi lengi starfað sem slíkur í Svíþjóð. Allavega hvarf hann af landi brott einhverntíma. Ég var hinsvegar í orgeltímum hjá honum. Ekki veit ég hvort orgelnám mitt var tilefnið, en í Hvertún kom gamalt kirkjuorgel, svona sem maður þurfti að stíga. Á þessa græju æfði ég mig á "fjárlögunum" og mig grunar að móðir mín hafi lagt að mér að undirbúa mig fyrir að leika á þetta orgel í fermingarveislunni. Sem ég auðvitað gerði - ávallt hlýðinn.

Sr. Guðmundur Óli Ólafsson var presturinn sem undirbjó hópinn með kristilegri uppfræðslu, tvær stúlkur og átta pilta. Einhvern veginn finnst mér að frú Anna (Magnúsdóttir) hafi aldrei verið fjarri og hafi haldið mikið til utan um hina praktísku hlið þessa. Hún var það þeirra hjóna sem hafði agann á okkur. Maður vogaði sér ekki að vera með neinn uppsteyt þegar hún var nálæg, ekki það að ég hafi nokkurntíma verið með uppsteyt - aðrir voru ef til vill meira í því, þó ekki telji ég að svo hafi verið.

Allt annar bragur á fólkinu.
Fermingardagurinn væri í algerri þoku, nema vegna þeirra mynda sem til eru og sem Gústi (Gústaf Sæland) mágur minn og þá tiltölulega nýbakaður faðir, tók. Gústi tók ekki bara myndirnar, hann sá einnig um hárgreiðsluna. Þarna var bítlatískan ekki búin að ná neinni festu hér í uppsveitum. Ennþá réðu þeir Elvis Prestley og Cliff Richards hártísku ungra karlmanna og Gústi kunni sannarlega á slíkri greiðslu lagið, enda sjálfur ávallt vandlega greiddur með  góðum skammti af briljantíni.  Það var þannig greiðsla sem ég fékk, en myndirnar sýna hana glögglega.  Ekki man ég hvort það var á undan eða eftir þessum tím sem menn greiddu í píku, eins og það kallaðist, en þannig greiðslu fékk ég ekki hjá Gústa.

Ég er viss um að einhver fermingarsystkina minna muna eftir athöfninni sjálfri, fyrir hana og eftir. Ég man ekkert um þann tíma, annaðhvort var ég í einhverju losti af streitu, eða ekkert sérstakt gerðist.  Jú, ég man að ég gekk fyrstur á eftir sr. Guðmundi inn í kirkjuna, úr Biskupshúsinu, en þar bjuggu prestshjónin þá, og síðastur út, eftir að skírnin hafði verið staðfest með pomp og prakt, móður minni án efa til mikillar gleði. Einhvernveginn hef ég það á tilfinningunni að faðir minn hafi ekki sýnt af sér jafn mikinn áhuga á tilstandinu, en hann lék með, eins og góðum eiginmanni sæmir.

Þetta var nú aðeins
veraldlegt líka.
Svo var það veislan, og allir þessir venjulegu fermingagestir. Það voru fermingargjafirnar, það var veislukaffið, með glæsilegri rjómatertu. (mér hefur alltaf þótt rjómaterta með betra bakkelsi).
Ég lék, kófsveittur á orgelið og fékk klapp og hrós í kjölfarið. Mér fannst ég aldrei ná góðum tökum á þessu spiliríi, kannski vegna þess að ég var frekar latur við æfingar.

Stolt systranna, Sigrúnar og Ástu, leynir sér ekki.
Já, ekki veit eg annað en þetta hafi verið ágætis dagur, þó þarna hafi ég verið í einhverskonar miðpunkti, sem ég var og er allajafna heldur lítið fyrir.

Svo hélt lífið áfram og um haustið hófst samskiptasaga mín við Laugarvatn í Laugardal, sem hefur staðið síðan, með litlum hléum.

Þennan dag, 14. maí, 1967, hvítasunnudag, staðfestu þessi ungmenni skírn sína í Skálholtsdómkirkju:
Einar Jörundur Jóhannsson frá Ljósalandi
Geirþrúður Sighvatsdóttir frá Miðhúsum (Þrúða í Miðhúsum)
Gunnar Sverrisson frá Hrosshaga  (Gunni í Hrosshaga)
Loftur Jónasson frá Kjóastöðum  (Loftur á Kjó)
Magnús Kristinsson frá Austurhlíð (Maggi í Austurhlíð)
Páll Magnús Skúlason frá Hveratúni  (ég)
Pétur Ármann Hjaltason frá Laugargerði (Pési)
Ragnhildur Þórarinsdóttir frá Spóastöðum (Ragnhildur á Spó(astöðum))
Sigurður Þórarinsson  Reykholti (Silli)
Þorsteinn Þórarinsson frá Fellskoti (Steini í Fellskoti).

Sex okkar búa enn í Biskupstungum - geri aðrir árgangar betur.

Fjölskyldan í Hveratúni með tvær nýjar viðbætur, Skúla Sæland
og Agnar Örn Arason.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...