Sýnir færslur með efnisorðinu brúin. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu brúin. Sýna allar færslur

12 janúar, 2018

"Fokkings fávitar!"

Það munaði litlu að ég þyrfti gifs á einhvern útlim, skömmu eftir hádegið, en mér tókst að rifja upp gamla danstakta frá kartöflumjölsstráðu gólfinu í Aratungu. Ég er samt viss um að aðfarir mínar á svellinu hefðu getað kallað fram brosvipru hjá þeim sem hefði séð, sem var enginn nema fD. Hún átti nú fullt í fangi með sjálfa sig og ekki í aðstöðu til neinna hlátraskalla.

Þetta er hinsvegar ekki efni pistilsins, þó það verði að teljast forsenda fyrir því að efni hans varð til.

Heilsubót dagsins fól í sér (ekki verða hissa) göngu út á brú. Aukaafurð heilsubótarinnar skyldi vera athugun á stöðu árinnar eftir síðustu veður.  Hún reyndist hinsvegar hin rólegasta, mikið til undir ís, en samt vaxandi lænur inn á milli, sérstaklega ein talsvert áhugaverð vestan megin. Þar er eiginlega gat í ísinn um það bil 3 sinnum 5 metrar. Framhjá þessu gati streymdi síðan jökulfljótið og sýndi, að þó yfirborðið væri að mestu rólegt, var þarna undir villidýr, sem bíður þess að láta til sín taka svo um munar.

Þar sem við fD stóðum þarna við brúarhandriðið norðan megin, hugfangin af skemmtilegu gatinu í ísinn, kom rúta inn á brúna að austanverðu.

Það veit maður, að þegar stórir bílar fara yfir brúna, sér þess glögg merki, með því það réttist úr boganum á brúargólfinu.
Það gerðist þarna.
Engu líkara en maður væri kominn á sjó.
En allt í lagi með það.
Þar sem um var að ræða hina verklegustu rútu stigum við upp á brúarkantinn og stóðum þétt upp við handriðið.
Frá Hangzhou
Þegar rútan var í um 30 metra fjarlægð frá okkur tóku ljósin á henni að blikka, hún hægði snarlega á sér og þegar mér varð litið á bílstjórann, var engu líkar en hann væri að stjórna hljómsveit. Kannski var þarna á ferð kínversk lúðrasveit frá Hangzhou, hvað vissi ég?
Þegar nær dró og mér tókst að greina andlit bílstjórans, var ekki annað að sjá en hann væri nokkuð æstur.  Handahreyfingarnar fóru einnig að benda til þess að hann væri að skipa okkur að fara frá, sem ég met út frá því að hann benti mjög ákveðið og ítrekað út fyrir brúna norðanmegin, þar sem gatið er á ísnum.
Var maðurinn að ætlast til þess, að við klifruðum yfir handriðið og stykkjum fram af?
Við fD?
Virkilega?
Með þann skilning í huga, og jafnframt staðfestu þess sem ætlar ekki að henda sér fram af brú, bara til að rúta, full af kínversku lúðrasveitarfólki kæmist framhjá, tók ég á það ráð, að brosa framan í bílstjórann og veifa, með fínu lopavettlingana mína á höndinni.  Auðvitað hefði ég getað sent frá mér annarskonar merki, en lopavettlingarnir gáfu ekki kost á slíku.
Í þann mund er Gray-line rútan ók framhjá, og til næsta áfangastaðar, sá ég andlit bílstjórans ummyndast af bræði og sannfærður er ég um að hann hefur sagt það sem fyrirsögnin gefur til kynna að hann hafi sagt.
Það hefði líka verið allt í lagi, því kínverska lúðrasveitarfólkið hefði alveg eins getað haldið að hann væri að benda á dæmi um það hvernig hraustir, Íslendingar haga lífinu og líta út.
Ég vil trúa á þann skilning þess.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...