![]() |
Minning um þrælahald |
Valle de los Ingenios Dalur sykurreyrsmyllanna Valley of the Sugar Mills
Þarna er um að ræða þrjá dali, San Luis, Santa Rosa og Meyer sem voru miðstöð sykurframleiðslu á Kúbu á síðari hluta 19. aldar. Þegar hæst lét voru þarna yfir 50 sykurmyllur og ríflega 30.000 þrælar, sem látnir voru vinna verkin.Nú er umhverfið þarna ósköp friðsælt, einhverskonar þögul áminning um skelfingar þrælahaldsins. Við nútímafólk ættum svo sem ekkert að vera að hreykja okkur og telja að við séum eitthvað skárri. Það var áhugavert að ímynda sér hvernig þarna var umhorfs fyrir 150 árum.
![]() |
Sykurpressa í Valle de los Ingenios |
Jú, kannski vannst það, að ég varð nokkru betur að mér um mannlegt eðli, þá lítilsvirðingu og niðurlægingu sem mannskepnan er fær um að beita. Auðvitað vissi ég þetta allt fyrir, en komst þarna einhvern veginn aðeins nær því, kannski vegna þess að ég gekk þarna, með einhverjum hætti í sögunni. Gat ímyndað mér að þar sem ég mundaði EOS-inn til að ná góðri mynd, hafi einhverntíma runnið blóð og sviti þræla.
Þetta var áhrifaríkt.
Trinidad
![]() |
Víða fallegt umhverfi í Trinidad |
Okkar erindi í þessan bæ á þessum degi var að fá í hann örlitla innsýn, við gengum um götur og snæddum hádegisverð á veitingahúsi sem var ekki ríkisrekið. Eftir hádegið var okkur sleppt lausum til að kynnast bænum enn betur. Já, já, hitinn var kominn yfir 30°C, göturnar virtust mér allar eins og þó svo við (þessi þrjú) vissum nokkurnveginn í hvaða átt sjóinn var að finna leið ekki á löngu áður en við vissum ekkert hvar við vorum stödd. Það var ekkert kort með í för, vatnið fór minnkandi og sólavörnin greinilega eitthvað misheppnuð. Þar á ofan bættist að í hópnum tók að myndast togstreita á hverjum gatnamótum um það hvert halda skyldi, sem varð ekki auðveldara viðureignar með því að ekkert okkar vissi neitt.
![]() |
Markaður í Trinidad |
Það varð úr, að við settumst niður á einhverju torgi í skugga og hugsuðum ráð okkar. Þar sáum við eðlu og gamlan mann taka hádegislúrinn sinn við aflagðan gosbrunn, en héldum að því búnu göngu okkar út í óvissuna. Gangan sú varð ekki löng, enda lækkaði hitinn ekki, sólin var miskunnarlaus, vatnið á þrotum og .... jæja.
Það varð sem sagt úr að við fórum að svipast um eftir leigubíl, sem birtist von bráðar, en þar var ekki ríkisbíll á ferð, heldur svona einkaleigubílstjóri.
![]() |
Leiðsögn um Trinidad |
Það sem eftir lifði
![]() |
Þarfnast ekki útskýringar |
Þetta kvöld var skipulagður kvöldverður fyrir allan hópinn á veitingastaðnum La Rosa, sem svo vel vildi til að var bara beint fyrir utan innganginn að herberginu okkar. Það var því ekki valkostur að liggja þetta atriði af sér og við ákváðum bara að taka á því, eins og sannir Íslendingar.
Þannig gerðist það, að ég losnaði úr álögum ofþornunar og ofhitnunar og við héldum til kvöldverðar, þar sem ofgnótt indæls matar var borin fyrir okkur. Undir borðum lék næstum sama hljómsveit og kvöldið áður, í það minnsta var söngkonan sú sama. Þetta var feikna góð söngkona.
![]() |
Mojito, Piña Colada og kúbanskur vindill. La dolce vita. |
Svo kom cha-cha-cha.
Söngkonan gerði sér þá lítið fyrir og sveif á mig, sem sat þarna saddur og sæll, og bauð mér upp í dans, sem ég þáði, enda alveg tilbúinn í einhverja vitleysu á þessum tímapunkti. Hún hefði sennilega betur látið þetta ógert, svona eftir á að hyggja. Ég smellti mér í ævafornan dansgír, bjó til mitt eigið ch-cha-cha (sem ég hef aldrei lært) og sveiflaði söngkonunni um gólfið, hring eftir hring, snúning eftir snúning og spor eftir spor. Svo þakkaði ég fyrir dansinn og settist í sæti mitt í lok dansins, en ég tók eftir því að söngkonan treysti sér ekki í þrjú næstu lög, meðan hún var að ná úr sér mestu mæðinni.
Fleiri úr hópnum létu til sín taka við tónlistarflutning þetta kvöld, en fyrir utan þau sem hristu plastflöskuna, átti Gunnar Rögnvaldsson harla skemmtilega innkomu með söng og gítarleik, sem sannarlega kveikti Íslendinginn í okkur hinum.
Þegar upp var staðið var þetta aldeilis ágætur dagur, en svo tók svefninn við í kúbverskum bæ á strönd Karíbahafsins.
![]() |
Við fR í tilraun til sólbaðs á svölunum hjá Rósu. |
Valle de los Ingenios (Google maps) |