Sýnir færslur með efnisorðinu vitlaus foss. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu vitlaus foss. Sýna allar færslur

06 júlí, 2021

Hinn (ó)fullkomni maður og hinn rétti/rangi foss

Samfélagið sem ég lifi og hrærist í kallar á ekkert minna en fullkomnun. Það hefur það í för með sér, að hvaðeina sem maður gerir eða hefur gert og sem ekki telst fullkomið, vekur pirring, hneykslan og jafnvel fordæmingu (ég er samsekur þegar kemur að íslensku máli). Þol fólks fyrir ófullkomleika er að nálgast núllpunktinn.

Ég er ófullkominn og er bara talsvert stoltur af því að treysta mér, á svona opinberum vettvangi, að viðurkenna það bara. Ég á konu, fD (afsakið að ég skuli segjast eiga hana), sem minnir mig nokkuð reglulega á ófullkomleika minn og freistar þess að gera mig að hinum fullkomna eiginmanni, en gengur það ekkert sérlega vel, enda gengst ég upp í því að vera ófullkominn.

Draumurinn

Það sem hér fer á eftir er lítil frásögn af því hvernig ófullkomleiki minn getur birst og ég vona sannarlega, að þið sem þekkið til staðhátta, náið fáið ykkur róandi tesopa áður en þið setjist við þennan lestur. Það getur jafnvel verið ráðlegt, að vera með munnþurrku við hendina ef þið skylduð byrja að froðufella, eða jafnvel að setja sjálfvirka læsingu á tölvuna áður en lestur þessa hefst, svo þið losnið við að þurfa að gera skriflegar athugasemdir við ófullkomleika minn.

Loksins, þegar við fD ákváðum að ganga að Brúarfossi í Brúará, vorum við auðvitað flutt úr sveitinni. Sannarlega hafði oft komið til tals að ganga að þessum fagra fossi einn góðan veðurdag, en svona getur maður verið. Jú, við höfðum séð myndir af þessum fossi og vissum í rauninni alveg hvernig umhorfs er í kringum hann og þar fram eftir götunum. 

Gangan

Leiðin að bílastæðinu var vel þekkt og þar var talsvert af bílum fyrir. Framundan ganga að Brúarfossi, sem merkingar á skilti bentu til þess að um væri að ræða 3,5 km. Við vorum sannarlega búin undir hana, með flugnanet, EOS og vatrnsbrúsa og annað sem nauðsynlegt taldist. 
Þarna uppeftir er afar þægileg ganga, fyrri hlutinn eftir malarstíg (reyndar frekar grófum, sem er frekar ófullkomið) og seinni hlutinn er moldarstígur í gegnum birkikjarr, sem er afar skemmtilegur og jafnvel rómantískur á köflum í ófullkomleika sínum. 
Eftir talsverða göngu, eða þegar malarstígnum sleppti og við komum að læk, þar sem tipla þurfti yfir á stórgrýti, var skilti sem á stóð, að það væru 2 km að Brúarfossi. Við nutum göngunnar um stíginn sem hlykkjaðist um birkikjarrið, í blankalogni. Við mættum göngufólki, eða þá það fór fram úr okkur, sem heilsaði á erlendum tungum. Allt fór þetta hið besta fram.

Fossinn

Þar kom að fossniður barst að eyrum okkar í gegnum kjarrið og fyrr en varði vorum við komin að Brúará þar sem Brúarfoss blasti við okkur í allri sinni dýrð. Mér fannst hann nú ekki veita mér þá möguleika til myndatöku sem ég hafði vænst, en ég varð bara að búa við það; fann nokkuð góðan stað, stillti upp þrífæti og skellti filter framan á vélina og myndaði af hjartans lyst. Ég myndaði og myndaði, með mismunandi stillingum og frá ýmsum sjónarhornum, hér og þar, eins og gengur. 
Þar sem við höfðum notið návistarinnar við náttúrufyrirbærið í góða stund, og ég myndað, kom að því að við ákváðum að halda til baka sömu leið, í fullvissu þess að nú hefðum við uppfyllt áralangan drauminn um að ganga að Brúarfossi. 

Efinn

Í þann mund er við vorum að leggja af stað bar að eldri mann, íslenskan, sem fór að spyrjast fyrir um Brúarfoss. Ég játaði auðvitað að ég hefði aldrei áður komið að þessum merka fossi. Hann kvað vera hálfa öld síðan hann sá hann síðast, taldi að hann væri nær núverandi brú yfir ána, sem sagt miklu neðar, kvaðst hafa verið að koma niður með ánni. Hann hafði sem sagt komið eftir stíg sem lá lengra uppeftir. Við ræddum þetta aðeins og þá rak ég augun í tréskilti sem á stóð Hlauptungufoss. Velti fyrir mér að það væri líklega einhver smá foss þarna ofar í ánni. Velti því svo ekki frekar fyrir mér og við fD héldum til baka.

Uppljómunin

Ég veit ekki hvernig það þróaðist í undirmeðvitundinni, en smám saman sótti að mér efi. Það hafði ekki verið nein ör sem benti í einhverja átt á tréskiltinu. Hversvegna lá stígur lengra upp  með ánni? Hversvegna voru kílómetrarnir tveir í gegnum birikjarrið svona stuttir? Gat það verið, að við hefðum bara aldrei komið að Brúarfossi?  Ég reyndi auðvitað að kæfa þessar hugsanir af fremsta megni, en þær létu mig ekki í friði. Það var ekki fyrr en við vorum komin á bílastæðið þar sem sérann beið þolinmóður, að gengin vegalengd var skoðuð í símum. Hún reyndist vera 4 km, en ekki 7, eins og skiltið við upphaf göngunnar hafði sýnt.  Þarna var okkur, sem sagt orðið ljóst, að við ættum enn eftir að ganga að Brúarfossi og gátum jafnframt fagnað því, að við hefðum enn tækifæri til að ganga þessa skemmtilegu leið, alla leið. Ættum enn eftir að upplifa Brúarfoss!  Sannarlega hlakka ég til þeirrar göngu í bráð.

Þakklætið

Ekki neita ég því, að það hefur verið erfitt að kyngja þeirri ófullkomnu hegðun sem við sýndum í tengslum við alla þessa gönguferð. Hvernig í ósköpunum gat okkur yfirsést hið augljósa? Hversvegna skoðuðum við ekki myndir af fossinum áður en við lögðum af stað? Hvernig má það vera að við, sem höfðum margoft séð fossinn á myndum, tengdum þær með engum hætti við fossinn sem við fundum?  Já, þetta er sko aldeilis með ólíkindum. Ég er jafnframt stoltur af því, að geta enn lifað í fullvissu þess, að ég er ekki fullkominn. 

Njótið fullkomleikans, þið sem fullkomin eruð, en mig langar ekki að skipta við ykkur.




Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...