Sýnir færslur með efnisorðinu jörðin. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu jörðin. Sýna allar færslur

25 apríl, 2019

Jæja, þá er víst komið sumar (995)

Það er allavega komið vor, þó ekki sé nú hægt að segja að gróðurinn sé kominn á einhverja hvínandi siglingu.
Merkin eru samt þarna, ótvíræð og ekki auðvelt að ímynda sér hvernig hægt er að lesa í þau á annan hátt en þann, að framundan sé enn eina ferðina gróandi, hlýindi og hálsbindi.

Kannski er þetta síðasta vorið, síðasta vorið í Kvistholti.
Maður veit ekki.
Maður veit svo fátt.
Maður þykist auðvitað vita heil ósköp, en veit svo varla neitt nema eitthvað smávegis um það sem liðið er; geymir það í höfðinu og byggir á því til að reyna að meta líkindi þess að eitthvað tiltekið gerist síðan í framtíðinni.

Það sem maður hefur fast í hendi er það sem er hér og nú, allt sem gerist á morgun er ekki til, nema ef til vill í voninni um að það verði með einhverjum ásættanlegum hætti.
Jú, sumt er fyrirsjáanlegra en annað. Þannig munu auðnutittlingarnir sennilega koma á pallinn til að leita að sólblómafræinu sínu, þrestirnir líklega að kroppa í eplið, hrossagaukurinn mögulega hneggja og gera sig til fyrir verkefnið sem hann veit einhvernveginn að bíður hans.


Sumarið var tími sem maður hlakkaði til og er enn í vissum skilningi.
Það sem hefur breyst er, að tilhlökkunin er kvíðablandin. Hvernig verður veðurfarið hér á norðuhveli? Má búast við því sama og síðastliðið sumar? Skýjahula og votviðri á Suðurlandi, blíða fyrir norðan og austan, ógnvænlegar hitabylgjur og þurrkar á meginlandi Evrópu?  Er þetta kannski það sem bíður okkar næstu árin?
Hve mörg ár?
Hvað gerist þá?
Það er komin upp óvissa sem snýst í rauninni um framtíð lífs á jörðinni, hvorki meira né minna. Maður veltir því fyrir sér, svo nöturlegt sem það nú er, hvort maður lifir það að deyja út ásamt öðru lífi á jörðinni, eða hvort maður getur vonast til að hverfa á braut meðan allt leikur enn í stórum dráttum í lyndi.


Þetta er ekki fagrar pælingar. Þetta eru pælingar svartsýnismannsins og svartsýni er víst ekki það sem við þurfum þessi árin. Það er skylda okkar að takast á við það verkefni, að gera allt sem í okkar valdi stendur til að jörðin verði lífvænleg til langrar framtíðar.
Þá skyldu getum við hinsvegar ekki uppfyllt nema til komi sú forysta,  fyrir því lífsformi sem valdið hefur því að staðan er eins og hún er (manninum) sem dugir til að snúa við. Sú forysta er ekki fyrir hendi enn og það sem verra er, æ fleiri virðast stökkva á vagn þeirra sem hafa hátt um að allt tal um hlýnun jarðar, sé bara bull og vitleysa. Fólk stekkur á þennan vagn í fávisku sinni og þörfinni fyrir sterka leiðtoga.
Við þurfum sterka leiðtoga, sem eru raunverulega tilbúnir í að leiða mannkynið í því verkefni sem blasir við. Einhvern sem tekst að sannfæra okkur um að aðgerða sé þörf, leiðtoga sem hefur nægilega skýra sín á leiðina til baka í framtíðinni. Vandinn er hinsvegar sá, að slíkt fólk á ekkert sérstaklega upp á pallborðið hjá kjósendum þessa heims. Við erum nefnilega í eðli okkar dálítið heimsk og gjörn á að stökkva á skyndilausnir, sem hljóma vel í dag, en eiga sér enga framtíð.


Þetta er nú einhver dimmasti pistill sem ég hef hingað til leyft mér að skella hér inn og í sannleika sagt velti ég fyrir mér hvort ég hef yfirleitt rétt til að láta svona nokkuð frá mér. 
Ég held ég geri það samt.
Það eina sem einhver ykkar munu líklega hugsa er: "Hvílíkt svartnættisraus!"  Fleira mun ekki gerast, vona ég (það er alltaf þessi von).

Í rauninni er það svo, að ég veit ekkert, þó ég telji mig kannski vita ýmislegt. Ég veit ekkert, í þem skilningi, að það sem ég þykist vita um framtíðina byggist á þvi sem ég heyri í umhverfi mínu, sé í kringum mig og ímynda mér síðan í framhaldinu. Svo get ég ekkert annað en vonað það besta, rétt eins og við öll.
Ég ætla að vona það besta, og stefni á að gera mitt til að reyna að bæta fyrir það sem mín kynslóð og kynslóðirnar þar á undan hafa gert til að tefla framtíð lífs á jörðinni í tvísýnu.
Annað get ég ekki gert.
Það eina sem ég græði á þessari fyrirætlun minni, hvernig svo sem til tekst með hana, er að ég get líklega lagt höfuðið að koddann á kvöldin, sáttur við minn þátt.

Ekki meira um þetta, heldur bara það sem var upphaflegur tilgangur minn með þessu pistli á sumardaginn fyrsta:
Gleðilegt sumar. 


21 nóvember, 2018

Fáránleiki

Fáránleiki er  eitt af þessum orðum sem er orðið merkingarlaust eftir að hafa verið misnotað um ýmislegt sem varla getur talist neitt sérlega fáranlegt. Þetta orð er þarna samt og ég ætla að leyfa mér að nota það um allan fjárann hér á eftir og leyfa lesandanum síðan að meta það, hvort um er að ræða viðeigandi notkun orðsins.


1. Það er fáránlegt ef ég kaupi poka af ísmolum í Bónus. Ísmolum sem búið er að flyta í frystigámi frá Bandaríkjunum.



2. Það er fáranlegt þegar ég, í verslunarferð í Krónuna, kaupi grísakjöt frá Spáni, þegar ég get fengið sýklalyfjalaust, íslenskt grískjöt frá bónda í næsta nágrenni við mig.
3. Það er fáránlegt þegar ég kaupi blandað salat í Nettó, sem ræktað er og unnið á Ítalíu, en skolað úr íslensku vatni  í stað þess að kaupa samskonar bakka með salati sem er ræktað í næsta húsi, algerlega laust við varnarefni.

4. Það er fáránlegt þegar ég kaupi tilbúinn fiskrétt frá Noregi í 10-11 þegar ég get keypt margfalt betri samskonar íslenskan fiskrétt.

5. Það er fáránlegt þegar ég á leið í Vínbúðina og kaupi rauðvínsflösku frá Chile eða Nýja Sjálandi. Fáránlegt vegna þeirrar vegalengdar sem þessi glerflaska hefur ferðast áður en vínið ratar í glasið mitt og glerflaskan, eins þung og hún er, lendir í maski í endurvinnslunni.

6. Það er fáránlegt að í íslenskum matvöruverslunum þurfi ávallt að vera til ávextir og grænmeti af öllum tegundum, allt árið. Látum vera með þetta helsta, sem ekki er ræktað hér á veturna, en það er fáránlegt, að kaupa grænmeti og ávexti frá Suðurálfu, sem fluttir hafa verið 15.000 km hingað norðureftir. Segðu mér að það sé ekki fáránlegt.

7. Það er fáránlegt þegar ég kaupi innflutt glingur til jólagjafa á sama tíma og ég get nálgast allt sem ég þarf í þessu efni, jafnvel í næsta herbergi.

Þessum fáránleika öllum þarf eiginlega að linna. Fyrir honum færa innflytjendurnir ýmis þau rök sem ganga í neytendur. Stundum eru rökin gild en í annan stað fáránleg. Já, ég nota áfram þetta margþvælda orð: fáránlegt.

Það er þetta með viðskiptafrelsið og alþjóðasamninga.
Við lifum á tímum þar sem það sem hægt er að gera telst mikilvægara en það sem þarf að gera. Okkur finnst að vegna þess að það er hægt að flytja inn ódýra ísmola frá Bandaríkjunum, þá skuli það gert og það telst vera réttur okkar.
Algengustu rökin fyrir fáránlegum innflutningi snúa að því, að það sem innflutt er, sé ódýrara. Oft er það rétt, en hvernig má það vera?
Hvernig getur kíló af rauðri papriku sem er flutt inn frá Spáni kostað 300 kr meðan sú íslenska kostar 900 kr.?
Hvernig getur staðið á því að poki með ísmolum frá Bandaríkjunum sé 40% ódýrari en samsvarandi poki sem framleiddur er á Íslandi?  Og, ef út í það er farið, hvernig getur mögulega staðið á því að innflutt vara, með öllum þeim áhrifum sem hún hefur á umhverfi okkar, sé ódýrari og oft miklu ódýrari en vara sem framleidd er hér á landi, með allri þeirri ódýru og hreinu orku og hreinu vatni sem við njótum?
Hvernig getur staðið á því?
Nokkrar tillögur, sem ef til vill þarf að skoða:

1. Við erum gráðug þjóð.  Góð og gild fullyrðing og líklega hægt að sannreyna í einhverjum tilvikum.
2. Við búum við hærri framleiðslukostnað vegna þess að við borgum betri laun og gerum betur við starfsfólkið okkar.  Vísast er þetta að einhverju leyti réttmæt fullyrðing, en er þetta á heildina litið svo?  Ég veit um Íslending sem sótti um vinnu, en fékk ekki, þar sem hægt var að fá innflutt vinnuafl að miklu hagstæðari kjörum (fyrir vinnuveitandann).
3. Ísland er bara á þannig stað á jörðinni, að framleiðsla hlýtur að kosta meira. Þetta á ekki síst við um ræktun grænmetis og ávaxta. Þessu verður varla á móti mælt.
4. Íslenskur markaður er svo lítill og því kostar framleiðsla á hverja einingu meira. Erfitt er að að mótmæla þessu. Það kostar að vera lítill og búa norður í Ballarhafi.
5. Milliliðir á Íslandi taka  óeðlilega mikið til sín. Þessu hefur löngum verið haldið fram og er rannsóknarefni.
6. Innfluttar vörur eru framleiddar fyrir margfalt stærri markaði og af margfalt ver launuðu vinnuafli (jafnvel börnum og þrælum).  Ég fjallaði um innflutning á grænmeti í fyrra og þá umfjöllun má lesa undir þessum hlekkjum:

Engisprettufaraldur  


Lifi frelsið - burt með siðferðið 


Þetta viljum við ekki vita.


Framundan er innflutningur á hráu kjöti. 
Dómur hefur verið kveðinn upp þar sem okkur er gert að leyfa slíkan innflutning.
Það er varað við afleiðingum þess.
Við vitum öll hvernig það fer.

Við búum í landi sem þannig er ástatt með, að við þurfum að flytja inn stóran hluta þess varnings sem við notum. Mér finnst að við ættum að gera það vel, vanda okkur.
Einbeitum okkur að því að framleiða íslenskar vörur og kaupa íslenskar vörur.  Það er gott fyrir okkur þegar upp er staðið og það er líka til þess fallið að auka líkur á að jörðin verði byggileg eitthvað áfram.
Þetta síðasta er sennilega of dramatískt, en hvað er dramatík, ef út í það er farið?

Ætli sé ekki rétt að láta staðar numið - í bili - og halda áfram með lífið í þessu leikhúsi fáránleikans.

Þar með er þessi blástur frá í tilgangsleysi sínu........ og fáránleika.


Bæði góður, en líka leiðinlegur.

Þ að er nú ekki vegna þess að ég hef ekkert við tímann að gera, nema finna eitthvað í lífinu til að fjargviðrast yfir, sem ég ákvað að reyna...