Sýnir færslur með efnisorðinu sameining. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu sameining. Sýna allar færslur

19 nóvember, 2023

Hvað ef .....?

Þann 10. nóvember, árið 1998, sat ég síðasta fund minn sem hreppsnefndarmaður í Biskupstungnahreppi. Efir það hvarf ég úr nefndinni og hef ekki komið með beinum hætti að sveitarstjórnarmálum síðan.
Ástæður mínar fyrir ákvörðuninni, þarna í lok árs 1998 eru eflaust fleiri en ein, t.d var ansi mikið hjá mér að gera í vinnunni á þessum tíma. 
Það má einnig nefna tvær líklegar ástæður, sem ég tel að standi nú upp úr svona þegar ég lít til baka. 
Annarsvegar voru það mér allmikil vonbrigði að ekki skyldi takast að sameina hreppana í uppsveitunum, en það var kosið tvívegis um sameiningu þeirra á umræddu ári. Í seinni kosningunum var sameining 4 hreppa samþykkt með talsverðum meirihluta í þrem hreppanna, en felld í Skeiðahreppi, en þar reyndist fólk frekar sjá fyrir sér sameiningu eða samvinnu við Gnúpverjahrepp. Innan hreppsnefndar Biskupstungnahrepps reyndist harla lítil vilji til að halda þessum leik áfram, eins og sjá má af afdrifum tillögu minnar hér fyrir neðan. 


Hin ástæðan sem ég tel að hafi valdið miklu um brotthvarf mitt úr hreppsnefend, var einfaldlega samsetning nefndarinnar á þessum tíma. Mér fannst ég ekki eiga nægilega mikið sameiginlegt með samnefndarfólki mínu, ekki einusinni fólkinu á mínum lista, sem ákvað að ganga til samstarfs við lista fráfarandi meirihluta.  Ég hef löngum verið þeirrar skoðunar, að saman á framboðslistum til sveitarstjórna, ætti að vera fólk sem er sammála  í grundvallaratriðum um helstu mál. Búseta fulltrúanna, umfram allt, eða ósætti við afmörkuð mál, finnst mér vera frekar veitur grundvöllur til að byggja á 4 ára samstarf, ef ekki kemur einnig til lágmarks pólitískur samhljómur, eða lífsskoðun.  Í mínu tilviki reyndist ég eiga fremur fátt sammerkt  með samstarfsfólki mínu. Vissulega hefði ég getað látið mig hafa það að sitja þarna út kjörtímabilið, en mér fannst hreinlegast að stíga bara til hliðar, hverfa af vettvangi sveitarstjórnarmálanna. Kannski var ég bara ekki nógu mikill baráttumaður.  

Ef hrepparanir 4, Þingvallahreppur, Laugardalshreppur, Biskupstungnahreppur og Hrunamannahreppur hefðu nú haldið áfram og í framhaldinu sameinast vorið 1999, hefði ýmislegt verið með öðrum hætti í uppsveitum nú.  Ekki er ég í vafa um, að fljótlega hefði verið samþykkt sameining þeirra við Gnúpverjahrepp, Skeiðahrepp og Grímsnes- og Grafningshrepp. Íbúar í þessum uppsveitahreppum öllum er nú um 3500, en væru líklegast allmiklu fleiri, ef tekist hefði að ganga þessa sameiningargötu allt til enda. 
Hvert skyldi vera viðhorfið til sameiningarmála í uppsveitunum nú?



19 desember, 2019

Jaðarsett sameiningartákn (5 - lok)

Þetta er framhald pistla með sama nafni nr. 1 - 4. 
Skortur á samstöðu hér í uppsveitum varð til þess að byggingu Hvítárbrúar hjá Iðu seinkaði. Samstaða á svæðinu varð til þess að Hvítárbrú hjá Bræðratungu var byggð. Í hreppsnefnd Biskupstungnahrepps tók ég þátt í því að berjast fyrir þeirri brú. Ég hefði sannarlega viljað fá hana annarsstaðar, en við gerðum okkur grein fyrir því, að ef brestur fyndist á samstöðu, yrði ekkert af byggingu hennar, eða að henni yrði frestað um óákveðinn tíma.
Það var samstaða í uppsveitum um staðarval fyrir læknissetur í Laugarási á sínum tíma. Kannski var sú staðsetning mistök, eftir á að hyggja.

Ég minnist þess í aðdraganda kosninga um sameiningu uppsveitahreppanna á 10. áratugnum að þeir voru nokkrir sveitarstjórnarmennirnir sem voru henni andvígir, þó þeir hefðu ekki hátt um það í aðragandum, allavega ekki opinberlega. Þeir fór þá annaðhvort þá leið að lýsa þeirri skoðun sinni að réttast væri að sameina sýsluna alla (svona til að drepa málinu á dreif) eða þá að þeir segðu sem svo: "Við eigum bara að vinna saman!".  Vinna saman, já. Vettvangurinn til .þessarar samvinnu var og er sjálfsagt að einhverju leyti enn, í gegnum oddvitanefndina, sem varð til þegar hrepparnir sameinuðust um eign sína á Laugarásjörðinni. Þar hafa þeir unnið saman, sjálfsagt að mörgum sveitaþrifamálum, ekki efast ég um það.

Rétt fyrir 1990:
Aftar f.v. Axel Sæland, Þorvaldur Skúli Pálsson, Sigurbjörn Þrastarson,
Guðni Páll Sæland, Egill Árni Pálsson, Eva Sæland, Gunnur Ösp
Jónsdóttir, Inga Dóra Pétursdóttir, Bergþóra Kristín Benediktsdóttir.
Fremri f.v. Elín Ingibjörg Magnúsdóttir, Guðný Rut Pálsdóttir,
Guðný Þórfríður Magnúsdóttir.
Það sem ég sé fyrst og fremst sem annmarka á þessari samvinnu hreppanna er, að uppbygging staðbundinnar, opinberrar þjónustu á svæðinu virðist vera í skötulíki, þar sem hrepparnir fjórir þurfa að koma sér saman um hana, en það virðist reynast þrautin þyngri, þar sem allir leggja þar fram sína þéttbýlisstaði (að Laugarási undanskildum, auðvitað) sem upplagða lausn.  Ég sé þetta ágæta sveitarstjórnarfólk fyrir mér hummandi og ha-andi yfir þessu og ekki verður neitt úr neinu. Auðvitað veit ég ekki hvernig þetta gengur fyrir sig, en svona blasir þetta nú við mér. Á sama tíma sitjum við uppi með uppbyggingu þjónustu fyrir okkur, utan uppsveitanna.

Ég er enn þeirrar skoðunar að uppsveitahrepparnir eigi að sameinast og setja af stað öfluga vinnu að skipulagi svæðisins í heild. Það er, í mínum huga, ekki nokkur þörf á fjórum sveitarstjórnum og fjórum sveitarstjórum til að stýra þessum 3000 hræðum sem búa á svæðinu.
Í ljósi þess, að mér hefur ekki virst margt vera að gerast á þessu svæði, sem til er komið vegna samvinnu sveitarfélaganna, er ég smátt og smátt að komst á þá skoðun, að best færi á því, að Árnessýsla verði sameinuð í eitt sveitarfélag. Það er fyrst og fremst vegna þess að með núverandi fyrirkomulagi missum við hvort sem er allt sem heitir opinber þjónusta, beina leið niðurúr.

Að sjálfsögðu beinist gagnrýni sú sem ég hef sett fram hér, ekki að því sveitarstjórnafólki sem reynir að vinna vel, hvert fyrir sinn hrepp. Gagnrýnin snýr að þeirri stöðu sem við búum við, sem kristallast ekki síst í þeirri stöðu sem Laugarási hefur verið komið í, á svæðinu.

Ég leyfi mér að birta aftur myndina sem ég setti fram á grundvelli talna frá Hagstofunni, um þróun íbúafjölda í þorpunum í Biskupstungum, Laugardal og síðar í Bláskógabyggð, frá 1990 til dagsins í dag. Þessi þróun hefði ekki átt að verða - finnst mér.



ps. fyrir þau sem telja að með þessum skrifum mínum sé ég að skara einhvern eld að eigin köku, eða þá að um sé að ræða einhverja tegund sjálfstæðisbaráttu Laugarásbúa, segi ég þetta:

Ég er í þeirri stöðu að fyrra atriðið getur vart lengur átt við um mig. Varðandi síðara atriðið, er rétt að geta þess að hér er ekki um að ræða niðurstöður af baráttufundum í Laugarási, heldur bara það sem sprottið hefur fram úr fingurgómum þess sem þetta ritar, meðan smáfuglarnir tína í sig kornið fyrir utan gluggann.

Gleðileg jól!
þú sem last alla leið hingað. 
😀

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...