Sýnir færslur með efnisorðinu viðhald. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu viðhald. Sýna allar færslur

13 maí, 2020

Bjart framundan i Skálholti

Það er fagnaðarefni, að það blasa nú við tímamót í Skálholti, með miklu átaki til að efla staðinn á mörgum sviðum. Það er auðvitað ekki mitt að segja frá því, nákvæmlega, hvað stendur fyrir dyrum á þessum mesta kirkju-, menningar- og sögustað landsins, en hugmyndirnar sem hafa verið á borðinu, eru nú að raungerast þannig, að þegar 60 ára verða liðin frá vígslu dómkirkjunnar, sumarið 2023, verður Skálholt komið í þann búning að við getum, kinnroðalaust, fjallað um og litið til með stolti.
Það liggur sem sagt fyrir, að framkvæmdir í Skálholti hafa verið fjármagnaðar og engin ástæða til annars en trúa því, að þar verði tekið til hendinni  svo um munar, frá og með þessu sumri.

Ég hef, í mínum pistlum hér, tæpt á ýmsu því sem mér hefur þótt mega fara betur á staðnum og ég sé ekki betur en öll þau mál verði tekin fyrir og talsvert umfram það.

-------

Alloft hefur Skálholt komið við sögu í skrifum mínum hér, gegnum árin og má hverjum þeim sem lesið hefur, vera ljóst að viðhorf mín til staðarins eru af ýmsum toga af ýmsum ástæðum. Tenging mín við þennan mikla stað í sögu þjóðarinnar, þrátt fyrir að ég hafi búið í tveggja kílómetra fjarlægð frá honum lungann úr ævinni, hefur verið frekar brösótt, oft á tíðum, mögulega aðallega vegna þess að hann er þjóðareign og lýtur eða hefur lotið valdi sem situr á Reykjavíkursvæðinu, eða "fyrir sunnan", eins og sagt er.  

Við, íbúar í neðsta hluta Biskupstungna, tilheyrum Skálholtssókn. Skálholtskirkja telst því vera sóknarkirkja okkar. Ég held ég megi segja að við höfum ekki náð að líta á eða hugsa um dómkirkjuna í Skálholti sem slíka, í raun.  Ætli megi ekki segja að kjallarinn í biskupshúsinu, þar sem messur fóru fram áður en dómkirkjan reis, hafi verið meiri sóknarkirkja í hugum íbúanna.

Ég held og vona, að nú sé að verða umtalsverð breyting á málefnum sem tengjast Skálholti og sannarlega vona ég að það leiði til þess, að staðurinn öðlist þann sess í hugum fólks í Skálholtholtssókn að það telji, umfram aðra íbúa landsins, hann vera sinn stað, . 

Ég get ekki látið hjá líða, að benda ykkur, sem kunnið að hafa áhuga á því sem fram fer í Skálholti og taka þátt í að fjalla um staðinn og stuðla að uppbyggingu hans, að ganga í Skálholtsfélagið hið nýja, sem er vettvangur fyrir fólk sem áhuga hefur á Skálholti og vill efla staðinn, ekki bara sem þjóðareign, heldur ekki síður sem mikilvægan þátt í lífi okkar sem búum í nágrenninu. Ég veit að það er mikill vilji til þess hjá þeim sem nú eru við stjórnvölinn á staðnum, að tengja hann í ríkari mæli byggðinni í næsta nágrenni.

Svæðið neðst í Biskupstungum finnst mér hafa alla burði til að eflast enn frekar með því að það verði skipulagt sem ein heild, enda er Langasund ekki lengur sú landfæðilega hindrun sem hún var, til dæmis þegar Ólafur Einarsson, héraðslæknir kom með fjölskyldu sína í Laugarás árið 1932:
Fjölskyldan kom með bíl að Skálholti, en þá var ekki kominn akfær vegur í Laugarás, aðeins slóði eða kerruvegur til flutninga. Mýrin milli Skálholts og Laugaráss (Langasund) var erfið yfirferðar og Einar minnist þess að hafa verið þar eitt sinn á ferð á hesti, þegar hann stóð allt í einu í fæturna beggja vegna hestsins, sem þá hafði sokkið að kvið.
Dóttir Jörundar Brynjólfssonar fylgdi hópnum yfir mýrina í áttina að Auðsholtshamri og síðan um slóða eftir Laugarásholtinu, að læknisbústaðnum.
Úr viðtali sem ég átti við börn Ólafs Einarsson og Sigurlaugar Einarsdóttur, 
sem mun birtast á vefnum laugaras.is og í Litla Bergþór innan skamms. 


36. Langasund (48) er langt og sunnan til allbreitt mýrarsund. Í því miðju er leirkelda mikil, sem mér er ekki kunnugt um, að heiti sérstöku nafni fyrr en suður við Söðlahól (sjá nr. 38). Þar er hún orðin æði vatnsmikil og nefnist þá Pollrás (49) (nr. 39). Vatnið úr þessari löngu keldu, sem skilur lönd Skálholts að vestan og jarðanna Höfða og Laugaráss að austan, fellur frá brúnni sunnan við Söð[ul]hól eftir skurði, sem grafinn var snemma á þessari öld út í Undapoll; skilur þessi skurður [að] lönd Skálholts og Laugaráss. 
 Sigurður Skúlason
Nokkur örnefni í Skálholtslandi
Inn til fjalla. Rit Fél. Biskupstungnamanna í Reykjavík. II 1953



06 nóvember, 2019

Skálholt: Hvað með klukkuna?

Svona hefst umfjöllun í mogganum 23. júlí, um atvik það sem varð við upphaf hátíðarmessu á Skálholtshátíð 2002:
KIRKJUKLUKKA í Skálholtskirkju féll niður og brotnaði við upphaf hátíðarmessu í lok Skálholtshátíðar um miðjan síðasta sunnudag. Þrír boltar sem héldu klukkunni uppi gáfu sig og heyrðist mikill dynkur þegar klukkan, sem mun vera um 400 kg að þyngd, féll niður á gólf. Hátt á þriðja hundrað kirkjugesta var í kirkjunni og mun þeim hafa brugðið við dynkinn.
 Ég var þarna staddur, maður með hlutverk. Þegar verið var að hringja síðustu hringinguna, kvað skyndilega við mikill dynkur og maður gat alveg eins átt von á að það sem honum olli, kæmi hreinlega niður í gegnum loft kirkjunnar, en svo varð auðvitað ekki. Messan hófst og henni lauk.

Þarna hafði þessi klukka fallið eftir að boltar sem héldu henni höfðu gefið sig. Guttormur Bjarnason, meðhjálpari við messuna, að mig minnir, sagði í samtali við blaðamanninn:  "þegar hafi verið haft samband við fyrirtæki sem taka að sér að gera við slíkar klukkur og að ljóst er að gert verði við klukkuna.
Síðan eru liðin 17 ár og enn liggur klukkan þarna uppi í turni og bíður þess sem verða vill.

Nú er það svo að þessi klukka verður ekki flutt bara si svona niður úr turninum eins og hver maður getur ímyndað sér. Eina færa leiðin virðist vera, að fjarlægja hana með því að gera op á turninn og hífa hana niður með einhverju öflugu tæki. Síðan þarf að gera við hana, nú eða útvega nýja og hífa hana síðan inn í gegnum gatið áður en því verður lokað.  Ég skil vel að þetta hafi vafist fyrir fólki, enda staðnum  þröngur stakkur skorinn fjárhagslega
.
Auðvitað er hægt að ákveða bara að láta klukkuna liggja þarna áfram um ókomin ár, en í ljósi þess að þarna er um að ræða dómkirkjuna í Skálholti, finnst mér það ekki ásættanleg niðurstaða. Næst þegar ráðist verður í viðhalda á kirkjunni, sem kallar á aðkomu stórra krana, eins og t.d. þegar farið verður í að gera við þakið (svo tenórar Skálholtskórsins þurfi ekki að syngja undir regnhlíf í rigningartíð), ætti að leysa klukkumálið.  Um þetta þarf væntanlega að gera verkáætlun af einhverju tagi.

Þakið, eins veglegt og það nú er eða var, er farið að láta mjög á sjá og ég veit að fyrirhugað er, innan tiltölulega skamms tíma, að koma því í stand. Þá er upplagt að slá þar tvær flugur í einu höggi - jafnvel fleiri, enda löngu orðin þörf á að uppfæra og endurnýja þann búnað sem í klukkusalnum er.



Svo þarf að mála kirkjuna að utan og innan, síðan þarf að laga tröppurnar, og þá þarf að  ........

04 júní, 2017

Uppeldi og viðhald

Það fæðist barn í þennan heim, sem er vissulega ekki í frásögur færandi, í það minnsta ef það er ekki þitt barn eða þinna.
Foreldrarnir eru yfirmáta stoltir af litlu krúttbollunni sinni og kalla eftir því, með myndum af afkvæminu, að aðrir "læki" myndirnar á ólíkustu miðlum og skrifi jafnvel eitthvað yfirmáta fallegt um krúttsprengjuna.  Þetta er ekkert undarlegt í sjálfu sér, enda ung börn yfirleitt afskaplega falleg fyrirbæri og kalla á aðdáun og væntumþykju.
Svo líða dagarnir, mánuðirnir og árin. Hversdagurinn er algengari en hátíðirnar. Daglegt líf er kannski ekkert stórfenglegt svona út á við, en það er einmitt þar sem reynir á.  Þar þarf að veita umhyggju, næringu, fæði, klæði og skjól,,,, og uppeldi.  Þar skiptir máli hvernig á málum er haldið, því lengi býr að fyrstu gerð og allt það.
Sem betur fer, á þessu landi er það sennilega algengara að umhverfi barna sé til þess fallið að úr verði góðir einstaklingar, vel byggðir, sem njóta síðan góðs viðhalds.  Skrýtið orð "viðhald" í þessu samhengi.

Hús eru byggð, stór og lítil.
Að mörgu leyti má segja að þau þurfi það sama og börnin, Falleg hús, sem er vel við haldið, endast lengi og gegna hlutverki sínu vel, áratugum og jafnvel árhundruðum saman. Ending þeirra ákvarðast auðvitað að stórum hluta af því hvernig grunnurinn var lagður. Hverjir byggðu og hverjum var ætlað viðhaldið.  Sum hús eru byggð af einstaklingum sem bera síðan ábyrgð gangvart sjálfum sér, á því að viðhaldið sé það gott að gott verð fáist ef húsið er selt.

Önnur hús eru byggð á öðrum forsendum; t.d. til að halda nafni einhvers á lofti. Þau hús er þá alla jafna byggð fyrir almannafé til pólitískrar upphafningar einhverra einstaklinga, eða sameiginlegt átaksverkefni þjóðar til að halda á lofti trú eða menningu hennar.

Það er yfirleitt gert mikið með þessi hús og mikið í þau lagt. Færustu byggingamenn fengnir til að hanna og reisa, Mestu listamennirnir fengnir til að fegra og skreyta.  Þessar byggingar eru stolt þjóðarinnar. Þær eru eign þjóðarinnar.
Svo líða árin og áratugirnir.
Hversdagurinn tekur við.
Pólitíkusarnir byggja ný hús í nafni þjóðarinnar, en þó aðallega til að halda eigin nafni á  lofti.
Það er þarna sem byggingar eiga það til að verða munaðarlausar. Þær eru búnar að fá öll "lækin" og aðdáunina. Þar með telst markmiðinu náð.  Það telst víst ekki neinum til framdráttar að sinna viðhaldi.

Hver á að sinna viðhaldi þjóðargersema? ÉG að gera það?" segja menn. "Ég á engan pening í það. Hann fer allur í nýju, glæsilegu bygginguna sem ég er að reisa. Það verða einhverjir aðrir að sjá um þessar gömlu byggingar".

Þannig er þetta.
Samanburður við börnin.
Þegar kúfnum af myndasýningunum, með öllum "lækunum" og krútt "kommentunum" er lokið, er barnið látið í hendur annarra og þeim ætlað að sjá um uppeldið.
Foreldrarnir taka myndir fyrir samfélagsmiðla á jólum, páskum og jafnvel hvítasunnu, eða einhverjum sérstökum hátíðastundum. Eftir því sem tímar líða fækkar þessum myndum, og "lækunum" fækkar að sama skapi. Þörfin fyrir "lækin" hverfur ekki og það er búið til nýtt barn, til að endurvekja, í hugum annarra, einhverskonar aðdáun.
Öðrum er ætlað á sjá um uppeldið, öðrum er ætlað að sjá um viðhaldið. Hverjir eru þeir? Eru þeir starfi sínu vaxnir? Fylgir nægilegt fjármagn? Eru þeir kannski sjálfir að búa til sín eigin börn, eða byggja sínar byggingar?

Við lifum á tímum þar sem  við erum lítið að velta fortíðinni fyrir okkur, hvað þá framtíðinni. Við lifum í núinu, rétt eins og hundurinn sem fyrirgefur eiganda sínum allt og þakkar honum ekkert. Eins og fuglar himinsins sem gleðja með söng sínum, en geta lent í kattarkjafti á morgun.

Það er eins og við lifum í samhengislausum heimi.

Ég ætla að hætta hér, áður en ég sekk mikið dýpra. Einnig tel ég að þú sért ein(n) afar fárra sem hafa lesið alla leit hingað niður.

Við þig segi ég: "Gleðilega hátíð"


.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...