Það var svo ekki fyrr en í lok nóvember, að skeyti barst á samfélagsmiðli frá fR. Þar var að finna hlekk á auglýsingu um ferð til Kúbu, ásamt tjákni sem vísar til einhverskonar hálfkærings, en samt einhvern veginn ekki:
Þar sem þarna var ekkert spurningamerki og þar með ekki óvitlaust að líta á skilaboðin sem fullyrðingu með því að víxla "Er" og "þetta", kviknaði einhver neisti og hugurinn hvarf til menntaskólaáranna og Che Guevara og alls þess sem því fylgdi. Þegar maður fær tækifæri til að upplifa drauma unglingsáranna svo skyndilega getur ýmislegt skeð. Þar sem ég leit þessi skilaboð varð mér á orði: "Jú, einmitt!"
Ég hóf að kynna mér þetta fyrirbæri 2GO ICELAND og þessar ferðir. Þarna á bakvið voru einhverjir tveir náungar, mögulega ævintýramenn, tilbúnir að leiða bláeyga landsbyggðarmenn á glapstigu.
Við tókum þann pól í hæðina og nú væri einmitt kominn tími til að taka einhverja áhættu í lífinu og þar með fór ég á vefsíðuna kubuferdir.com bókaði ferð fyrir okkur þrjú í ferð til Kúbu. Svo tók við bið eftir því sem gerðist næst.
Þetta myndi allt fara vel.
Ég fjölyrði ekki frekar um aðdragandann að ferðinni, en gríp næst niður þar sem við þrjú, auk mín fylgdarkonurnar frú Dröfn Þorvaldsdóttir (fD) og frú Ragnheiður Jónasdóttir (fR) sátum með gutl í glasi og skyndibita í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og vorum einhvernveginn ekki alveg viss um að þetta myndi gerast. Vorum meira að segja farin að gera áætlanir um að leigja okkur íbúð á Stokkseyri í hálfan mánuð frekar en að snúa til baka, ferðarlaus. Auðvitað voru þetta bara taugaveiklaðar pælingar í aðdraganda mikillar ferðar og að engu hafandi.
![]() |
Sjálfsafgreiðslustandarnir á Pearson flugvelli (mynd af vef) |
Á Pearson flugvelli byrjaði ævintýrið fyrir alvöru, með óvissu þeirra sem vita ekkert hvað þeir eru komnir út í.
Það var talsverð þrautaganga að komast að farangrinum, sem hófst á afar langri gönguför um rangala flugstöðvarinnar í endalausri röð af fólk. Við gengum þar til við komum í sal sem ég hef aldrei áður séð á flugvöllum, þar sem feikilegur fjöldi fólks var að bardúsa fyrir framan einhverjar vélar. Það blasti við að við myndum þurfa að eiga samskipti við þær, svo við fylgdumst með hvað fólk var að gera. Það smellti á skjáhnappa, setti vegabréf sín inn í skanna, og síðan fór einhver armur af stað, sem reyndist vera búinn myndavél. Armurinn stillti sér upp í hæð við þann sem við vélina stóð og tók mynd. Í lokin prentaði vélin síðan út blað með myndinni, sem viðkomandi átti síðan að geyma vandlega og framvísa þegar gengið væri úr flugstöðinni.
Svo kom röðin að okkur og við smelltum á skjáhnappa. Svo bað vélin um að við settum vegabréfin á tiltekinn stað til skönnunar, sem við gerðum. Eftir nokkra umhugsun tilkynnti vélin hinsvegar að vegabréfið hefði þegar verið skannað og hætti við aðgerðina og engin mynd var tekin og við fengum ekkert blað útprentað og skipti þá engu hvert þriggja vegabréfanna var skannað.
Jæja, hvað tæki nú við?
Ekki gátum við bara staðið þarna og séð til hvað gerðist næst og því var eina mögulega útgönguleiðin að koma okkur fyrir í röðinni sem lá úr skannasalnum að töskufæribandinu. Þarna á milli var í raun mjög stutt leið, en röðin hinsvegar ógnarlöng. Manni leið dálítið eins og lambi á leið til slátrunar (veit reyndar ekki hvernig því líður) þar sem röðin liðaðist milli banda, fram og til baka, einum fjórum sinnum. Þetta gekk þó furðu hratt og eftir heilsubótargöngu dagsins í þessum sirkus komum við að flokkunarkonu sem benti fólki á hvert það ætti að fara, eftir því hvort það hafði útprentaða miða eða engan miða, sem við höfðum auðvitað ekki: "Go to number 12" sagði hún við okkur miðalausa fólkið. Fyrir innan lúgu sem merkt var 12, sat ábúðarmikil, dökk kona og ég greindi frá ástæðum þess að við vorum þarna stödd. Þá tók við heilmikil yfirheyrsla, þar sem fjallað var um ástæðu komu okkar, lengd dvalar og hvort við værum með vopn, sprengjur, eiturlyf eða eitthvað annað illt, í farteskinu. Þar kom, eftir hálfglottandi svör mín við spurningum um það hvort við værum hryðjuverkamenn eða eiturlyfjasmyglarar, stimplaði landamæravörður þessi á gulan miða og benti okkur áfram í átt að töskufæribandinu.
Okkur var létt.
Ekki hef ég mörg orð um þá venjubundnu aðgerð fólks á flugvöllum að bíða eftir töskum á færibandi brottför úr töskusalnum og inn í Kanada, en það sem þá tók við var stutt ferð með flugvallarlest yfir á Alt hótel, sem var bara ágætt. Það var ekki laust við þreytu eftir reynslu dagsins, og á íslenskan tíma var klukkan langt gengin í 12 á miðnætti, en þarna var 5 tíma munur á Íslandi og Toronto.
Í býtið næsta morgun, 2. mars, pökkuðum við og brunuðum síðan með lestinni á flugvöllinn, á degi sem átti eftir að verð áhugaverður.
![]() |
Pearson flugvöllur (mynd af vef) |
Allt gekk nú harla vel í gegnum öryggisskoðunina utan þar misstum við dýrindis sólarvörn sem við höfðum gleymt að flytja á milli taska. Hvað með það, þetta átti nú ekki að verða nein sólarferð, þannig séð.
Ekki gátum við framfylgt þeim íslenska sið að skella í okkur drykk fyrir flugið, en Kanadamenn selja ekki áfenga drykki í flugstöðvum fyrr en kl. 11 á daginn. Við lifðum það af og síðan flugum við í rúma þrjá klukkutíma yfir landið hans Trömps með flugfélaginu West Jet áður en við lentum á áfangastaðnum, Varadero á norðanverðri Kúbu.
Þar með vorum við komin í nýjan menningarheim, en frá því segir næst.