Sýnir færslur með efnisorðinu afmæli. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu afmæli. Sýna allar færslur

12 apríl, 2023

35/70 og öfugur karlahringur

Ég held að við Kristinn Kristmundsson höfum verið sem næst jafn lengi viðloðandi Menntaskólann að Laugarvatni. Við lukum þaðan báðir stúdentsprófi og störfuðum síðan báðir þar í ríflega þrjá áratugi. Ég veit ekki um um neinn annan sem hefur snert sögu þessa skóla lengur en við félagarnir. Helsti munurinn á okkur er líklega sá, að hann stýrði skólanum allan sinn starfsferil þar, en ég kom bara að stjórnun hans í eina tvo áratugi. 

Menntaskólinn að Laugarvatni á 70 ára starfsafmæli í dag, sem þýðir að hann er nokkrum mánuðum eldri en ég. Helming þessa starfstíma var ég nemandi eða starfsmaður skólans, sem augljóslega þýðir að innan veggja hans hef ég eytt hálfri ævinni.  Ja, hérna!

Við ML höfum gengið í gegnum ýmislegt saman, bæði súrt og sætt en báðir höfum við staðið af okkur þau brot sem hafa orðið á vegi okkar. Munurinn er sá, að þar sem ég er mannvera, þá á ég markaðan tíma, en starfstími eða líftími skólans á sér engan ramma og ekki efast ég um, að ef vel tekst til við að halda honum á lofti sem æskilegum stað fyrir ungt fólk á mótunarskeiði, á hann framtíð sem framtíðarkynslóðir  munu geta notið. 

Í tilefni dagsins gengum við fD öfugan karlahring, en það fyrirbæri munu víst fáir kannast við og það er ekki nema von.  Þennan hring má sjá, svona næstum því, á meðfylgjandi korti. Karlahópurinn sem gengur þennan hring á hverjum virkum morgni, kallast  "Gönguhópur Hermanns" og ég tók þátt í þessum göngum í einhverja mánuði, en hætti því af ótilgreindum eða óhunnum ástæðum. 
Þar sem við gengum þennan öfuga hring í morgun, mættum við karlahópnum tvisvar og í báðum tilvikum kom afmælishátíðin á Laugarvatni í dag til tals, aðallega í samhengi við væntanlegar veitingar, en síður ræðuhöldin.  Fréttamaðurinn deildi mér mér tilhlökkun og þökkum fyrir að hafa tekist á við þessa morgungöngu, til að geta tekið betur á veitingunum síar í dag.

Hamingjuóskir til alls þess fólks sem fyrr og nú hefur sótt sér menntun og þroska í Menntaskólans að Laugarvatni og einnig þess fólks sem þar hefur fengið að starfa.

29 ágúst, 2017

HPH: Sextíu ára - 60+ - á sjötugsaldri

Það sem hér fylgir gerir það í tilefni af því að Halldór Páll Halldórsson, skólameistari fyllir sjötta tug ævi sinnar í dag. Þar sem hér er ekki um að ræða minningarorð eftir látinn mann, er hér fram borið ýmislegt sem ekki yrði sagt ef svo væri.

Við Halldór Páll höfum starfað sama í næstum tvo tugi ári og það er sökum þess langa tíma sem ég leyfi mér að fara út á ystu nöf í því sem hér fylgir, hvort sem er í máli eða myndum.

Ef einhver hefur haldið því fram eða er þeirrar skoðunar að pilturinn nálgaðist fullkomnun eitthvað meira en við hin, þá er það auðvitað ótrúlegur misskilningur.

Ég hef ákveðið, að skrifa ekki samfelldan texta af þessu tilefni, heldur henda á loft smámyndum til að freista þess að búa til mynd af karlinum, oftar en ekki örlítið skreytta, svona til fullnægja þörf minni fyrir að bæta heldur í, en hitt.
Ég þykist þess fullviss að Halldór Páll sætti sig við þetta án þess að eftirmálar verði af hans hálfu, enda að verða síðustu forvöð, þar sem ég er í þann mund að hverfa ínn á svið þar sem ábyrgðarleysið eitt ríkir..

Samstarf okkar hefur verið eins og maður getur ímyndað sér að best verði. Við erum reyndar ótrúlega ólíkar persónur og þessvegna snertifletir til núnings af einhverju tagi, varla finnanlegir.

Þá skelli ég mér í mannlýsinguna, sem er hreint ekki í stíl við það sem gerist í Íslendingasögum: "Hann var hárprúðr maðr á yngri árum, en svá mun eigi lengr vera".

Leggjum þá af stað:
(þennan hluta mun ég síðan fjarlægja áður en varir)
Honum er ekkert vel við að viðurkenna það þegar hann hefur rangt fyrir sér. Þá finnur hann oftar en ekki einhverja leið út úr því, þannig að maður maður gæti, með góðum vilja, sannfærst um að það sem rangt hafði verið, væri í rauninni rétt. Það var einmitt þannig þegar hann fór upp í vitlausa (eða rétta) rútu á Kýpur fyrir nokkrum árum.

Honum er mikið í mun að vera þar sem hlutirnir gerast.
Honum finnst gaman á fundum.
Hann á ekki hundinn sinn.
Hann sést stundum á gangi með plastfötu, bæði um ganga skólans og utandyra.
Það stendur stundum plastfata í dyrunum á skrifstofunni hans.
Hann kann að gyrða sig í brók.
Hann afneitar ítrekað raunverulegum pólitískum skoðunum sínum.
Hann hefur tileinkað sér þýska orðaröð þegar hann vill vera formlegur.
Hann er íhaldssamur umbreytingasinni.
Það hefur orðið léttara yfir höfðinu á honum með árunum.
Hann sækir sér í pólitíska næringu hjá hársnyrtinum sínum.
Hann ýtir við fólki með ýmsum hætti.
Hann minnir fólk á.
Hann ekur á vinstri akrein þegar það er hægt.
Hann gerir  yfirleitt það sem er rétt, hvort sem það er rétt eða ekki.
Hann hefur gaman af að sýna óvenjulegar hliðar á sér.
Hann er búinn að vera lengur en hann ætlaði í upphafi.
Hann kann að tala við mæður.
Hann endar alltaf ræður með því að hvetja fólk til að njóta vel, en ég á enn eftir að skilja það..
Hann er gjarnan langorðari en ástæða væri til.
Honum leiðist ekki að tala.
Hann er ekki nýjungagjarn þegar kemur að bifreiðaeign.
Hann er, eins og stundum vill vera, eðlisþykkur.
Hann gefur sig úr fyrir að vera mikill göngumaður (frásögnum hans
af gönguafrekum hefur farið fækkandi).
Hann á það til að henda fram vísum.
Hann söng, en annað og merkilegra varð til þess að hann hætti því.
Hann gerir kröfur, en er harla sveigjanlegur þegar á hólminn er komið.
Hann getur hlegið að sjálfum sér og þá ískrar oft í honum..
Hann er alltaf að hugsa um fjárheimildir og fjárhagsáætlanir.
Hann á það til að hverfa heim í Garð til að vinna.
Hann spjarar sig á Spjör, Spjararbóndinn.
Hann tekur stundum upp á því að senda tölvupósta.
Hann treystir ólíklegasta fólki.

Sannarlega gæti ég haldið lengi áfram, því af nógu er að taka, en þessi gallagripur hefur átt afar mikinn þátt í því að starf mitt við ML hefur gengið þokkalega áfallalaust.

Heill þér, sextugum, Halldór Páll og njóttu vel í námi, lífi og starfi. Það má öllum ljóst vera að námi okkar í þessu jarðlífi lýkur aldrei.
😎





Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...