Menntaskólinn að Laugarvatni á 70 ára starfsafmæli í dag, sem þýðir að hann er nokkrum mánuðum eldri en ég. Helming þessa starfstíma var ég nemandi eða starfsmaður skólans, sem augljóslega þýðir að innan veggja hans hef ég eytt hálfri ævinni. Ja, hérna!
Við ML höfum gengið í gegnum ýmislegt saman, bæði súrt og sætt en báðir höfum við staðið af okkur þau brot sem hafa orðið á vegi okkar. Munurinn er sá, að þar sem ég er mannvera, þá á ég markaðan tíma, en starfstími eða líftími skólans á sér engan ramma og ekki efast ég um, að ef vel tekst til við að halda honum á lofti sem æskilegum stað fyrir ungt fólk á mótunarskeiði, á hann framtíð sem framtíðarkynslóðir munu geta notið.
Í tilefni dagsins gengum við fD öfugan karlahring, en það fyrirbæri munu víst fáir kannast við og það er ekki nema von. Þennan hring má sjá, svona næstum því, á meðfylgjandi korti. Karlahópurinn sem gengur þennan hring á hverjum virkum morgni, kallast "Gönguhópur Hermanns" og ég tók þátt í þessum göngum í einhverja mánuði, en hætti því af ótilgreindum eða óhunnum ástæðum.
Þar sem við gengum þennan öfuga hring í morgun, mættum við karlahópnum tvisvar og í báðum tilvikum kom afmælishátíðin á Laugarvatni í dag til tals, aðallega í samhengi við væntanlegar veitingar, en síður ræðuhöldin. Fréttamaðurinn deildi mér mér tilhlökkun og þökkum fyrir að hafa tekist á við þessa morgungöngu, til að geta tekið betur á veitingunum síar í dag.
Hamingjuóskir til alls þess fólks sem fyrr og nú hefur sótt sér menntun og þroska í Menntaskólans að Laugarvatni og einnig þess fólks sem þar hefur fengið að starfa.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli